Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. febrúar 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Í dag stendur yfir í Háskóla Íslands hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema.

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra á
hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema Háskóla Íslands
7. febrúar 2003.
Kæru gestir,

Á tímum harðnandi samkeppni og styttri líftíma vöru og þjónustu, skiptir hönnun sífellt meira máli við framleiðslu og markaðssetningu. Á það jafnt við um frumhugmyndir, til markaðsfærslu, auglýsingar og vöru og þjónustu.

Gildi hönnunar hefur aukist á síðari árum vegna almennrar þróunar hagkerfa í átt til svokallaðra þekkingarhagkerfa, þar sem vægi einstaklingsins og þekkingar fer vaxandi. Þetta á ekki síður við um tæknilega og verkfræðilega hönnun, en hluti, eins og við sjáum hér í dag.

Góð hönnun eykur jafnframt verðmætasköpun og styrkir verulega samkeppnishæfni fyrirtækja. Stærri fyrirtæki eiga þó að öllu jöfnu auðveldara með að sinna hönnun en þau smærri. Þar sem íslensk fyrirtæki eru yfirleitt smá á erlendan mælikvarða er mikilvægt að þau hafi þekkingu sem og gott aðgengi að hönnun og ráðgjöf.

Af þessum ástæðum m.a., skipaði ég fyrir skömmu, nefnd til að meta ávinning af rekstri hönnunarmiðstöðvar fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf og koma með tillögur í því sambandi, en gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum innan skamms. Þess má geta að nefndin, ásamt Form Ísland, ráðuneytinu og Norræna húsinu, er að skipuleggja ráðstefnu um hönnun og gildi hennar fyrir atvinnulíf, þann 20. febrúar nk. í Norræna húsinu, þar sem verða bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar.

Á undanförnum árum og misserum, hafa verið stigin risavaxin skref á sviði hönnunar hér á landi, þó að mörg þeirra dæma hafi ekki farið hátt í almennri umfjöllun. Þannig hefur frammistaða á mörgum sviðum tækni-, verkfræði- og iðnhönnunar, vakið athygli s.s. í orkuiðnaði, í tækjum fyrir fiskiðnað og fleiri greinum. Á seinustu misserum er einnig afar áhugavert að sjá stórstígar framfarir á sviði hönnunar m.a. í fataiðnaði, grafík, listmunum, hönnun á skóm og á fleiri sviðum, þar sem fyrirtæki keppa á alþjóðlegum mörkuðum. Um nokkurt skeið hefur starfað hönnunardeild við Listaháskóla Íslands, þar sem sjá má mikla grósku.

Það er mér sönn ánægja að setja hér í dag hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands, en þessi keppni er gott dæmi um kraft á sviði verkfræðilegrar og tæknilegrar hönnunar, enda hefur keppnin notið sívaxandi vinsælda og eftirtektar. Með þessu gefst einnig kjörið tækifæri fyrir áhugamenn og aðra að kynnast hinu framandi og umfangsmikla starfi sem fram fer innan veggja Háskóla Íslands.

Í keppninni þurfa þátttakendur að tengja saman hinn fræðilega bakgrunn námsins og kaldan raunveruleikann þar sem samkeppni um árangur verður eflaust hörð – sem um leið er forsmekkurinn að því sem við tekur að námi loknu.

Keppnin sýnir einnig mikið frumkvæði og atorku nemenda sem kennara. Þess skal getið að keppendur koma víðs vegar að, úr öðrum deildum Háskóla Íslands svo og utan hans s.s. úr Tækniháskóla Íslands, sem er ánægjulegt.

Þátttakendur, góðir gestir,
Ég segi keppnina hér með setta.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum