Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. mars 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Iðnþing 2003.

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra



Ávarp á Iðnþingi
í Versölum, Hallveigarstíg 1
14. mars 2003.


Fundarstjóri, ágætu iðnþingsgestir.

Yfirskrift þessa Iðnþings er "Umbreyting íslensks atvinnulífs". Tilefnið er að nú eru tíu ár frá því að Samtök iðnaðarins voru stofnuð. Ávinningur síðasta áratugar er því til skoðunar og framtíðin einnig. Fyrir mig er að auki önnur og persónulegri ástæða til að líta um öxl - og að horfa fram á veginn - því nú líður senn að lokum þessa kjörtímabils.

Í þau liðlega þrjú ár sem ég hef gegnt starfi iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur samkeppnisstaða atvinnulífsins verið viðvarandi úrlausnarefni og það skiptir mig miklu að þau mörgu mál sem grunnur hefur verið lagður að nái að skila þeim ávinningi sem að hefur verið stefnt.

Eitt af þeim viðfangsefnum, sem hafa verið til umfjöllunar í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum er sala hlutafjár ríkisins í bönkunum. Fyrir réttri viku síðan lauk eignarhaldi ríkisins á bönkum á Íslandi. Þessi síðasti áfangi í sölu gömlu ríkisbankanna hefur tekið nokkurn tíma, en hann hófst með hlutafélagavæðingu og endurskipulagningu fjárfestingalánakerfisins árið 1997. Í kjölfar þess voru bankarnir skráðir í kauphöll og seldir að hluta til almennings. Viðbrögð almennings voru strax mjög góð og um þriðjungur þjóðarinnar eignaðist hlut í Búnaðarbankanum í útboðinu 1998. Ekki voru viðtökurnar lakari núna á lokasprettinum þegar 9,11% eign ríkisins í bankanum seldust á innan við 15 mínútum.

Umhverfi fjármagnsmarkaðarins hefur einkennst af hröðum breytingum og harðnandi samkeppni. Sala ríkisins mun eflaust skerpa þessa samkeppni með bættri þjónustu fyrir okkur öll og lækkandi vöxtum. Íslensk fjármálafyrirtæki hafa reyndar verið einstaklega dugleg við að endurskilgreina starfsemi sína og sækja á erlenda markaði. Með jöfnu millibili heyrist af nýrri sókn þeirra í útlöndum og fjárfestingum í erlendum fjármálastofnunum.

Þessi sókn bankanna á erlenda markaði er ákaflega mikilvæg fyrir útrás íslensks atvinnulífs Til að stuðla enn frekar að þróun atvinnulífsins hefur, auk sölu bankanna, farið fram víðtæk endurskoðun á lagaumhverfi fjármagnsmarkaðarins. Umfangsmikilli endurskoðun á bankalöggjöfinni er lokið og með lögum um fjármálafyrirtæki er tekið á heilsteyptan hátt á starfsemi allra tegunda fjármálafyrirtækja.

Sala Landsbanka, Búnaðarbanka og Fjárfestingabanka atvinnulífisins - í nokkrum áföngum - síðustu árin hefur skapað ríkissjóði yfir 50 milljarða króna. Andvirðið hefur verið notað til greiðslu erlendra skulda og til ýmissa verkefna innanlands, s.s. samgöngubóta og atvinnuþróunar. Þetta hefur m.a. gert kleift að ráðast í veigamikil verkefni til eflingar búsetu á landsbyggðinni. Byggðaáætlun 2002-2005 var samþykkt á Alþingi fyrir um ári síðan og er nú framkvæmd hennar að komast á fullt skrið.

Áherslur byggðaáætlunar beinast fyrst og fremst að því að skapa forsendur fyrir nýtt og framsækið atvinnulíf á landsbyggðinni. Það er ekki auðvelt verkefni, en ég fullyrði að árangur hefur náðst.
Markmiðið er að stuðla að aukinni fjölbreytni í atvinnulífi m.a. með því að efla menntun og nýsköpun. Ljóst er að hinar hefðbundnu atvinnugreinar, landbúnaður og sjávarútvegur, munu ekki vera þess megnugar að standa undir þeirri atvinnusköpun og þeim lífskjörum sem við væntum. Byggðastefnan verður því að taka mið af nýjum straumum og stefnum í vísindum og tækni, alþjóðavæðingunni og margbreytilegum þörfum íbúanna.

Við höfum lagt á það áherslu að unnt verði að stunda markvisst atvinnuþróunarstarf um allt land. Til þess að það verði árangursríkt þarf að tengja saman sem flesta þætti samfélagsins, svo sem atvinnulíf, menntun, samfélagslega þjónustu, upplýsinga- og samskiptatækni, orkumál og samgöngur. Á grundvelli þessa hefur verið leitað eftir samstarfi við aðra ráðherra í ríkisstjórninni og hefur þegar verið lokið við gerð samkomulags við menntamálaráðherra um uppbyggingu menntunar er tengist eflingu atvinnulífsins - og nýtingu upplýsingatækni til að auka námsframboð á landsbyggðinni.

Lögð hefur verið áhersla á að bæta stoðkerfi atvinnulífsins, sem hefur verið nokkuð fastbundið atvinnugreinunum, þ.e. landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði og ferðaþjónustu. Stoðkerfið hefur á sama hátt verið rígbundið verkaskiptingu ráðuneytanna sem hefur hamlað viðleitni okkar til að styðja við nýsköpun. Atvinnugreinar eins og líftækni, upplýsingatækni, fiskeldi og ferðaþjónusta falla ekki vel að þessari skiptingu milli ráðuneyta.

Stofnsetning nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri í desember sl. hefur það markmið að bæta úr þessu. Iðntæknistofnun með IMPRU í fararbroddi verður bakhjarl starfseminnar. Nýsköpunarmiðstöðin á Akureyri mun sinna öllum sem þangað leita óháð atvinnugreinum. Á vegum hennar verða rekin stuðningsverkefni fyrir frumkvöðla og fyrirtæki í rekstri og veitt þjónusta fyrir atvinnuþróunarfélögin.

Á morgun verður undirritaður samningur við Alcoa um byggingu álvers í Reyðarfirði. Þar með er nær þrjátíu ára barátta Austfirðinga fyrir stóriðju í fjórðungnum loksins komin í höfn. Hér er á ferðinni langstærsta einstaka verkefnið sem lýtur að því að efla byggð. Álverið mun skapa um 450 ný störf og þar af um 30-40 störf fyrir háskólamenntað fólk. Til viðbótar koma um 300 störf á Austurlandi er tengjast hverskonar þjónustu og viðskiptum. Áhrifanna mun gæta víðar því á landsvísu mun störfum fjölga um 1100 alls. Útflutningur Íslendinga mun aukast um 10 – 14% eftir að framkvæmdum lýkur.

Þá liggur fyrir að verksmiðja Norðuráls í Hvalfirði verði stækkuð og mun geta framleitt allt að 300 þúsund tonn af áli á ári. Gert er ráð fyrir 300-450 nýjum framtíðarstörfum í álveri Norðuráls eftir fulla stækkun en heildarfjöldi starfsmanna í álverinu mun þá vera 500-650. Þetta mun hafa gríðarleg áhrif og styrkja búsetu á Vesturlandi enn frekar, en langflestir starfsmenn fyrirtækisins nú eru búsettir norðan Hvalfjarðar.


Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi í síðasta mánuði að heimsækja álver Alcoa í Quebec í Kanada, en það álver má kalla næstu kynslóð á undan því sem verður byggt við Reyðarfjörð. Það voru einkum tvö atriði sem vöktu sérstaka athygli mína í þessari heimsókn. Hið fyrra var að fá tækifæri til að hitta starfsmenn verksmiðjunnar og hlusta á kynningu þeirra á betrumbótum sem þeir sjálfir höfðu átt frumkvæði að. Um var að ræða endurbætur á framleiðsluferlum, bætt vinnuöryggi og aukna umhverfisvernd.

Hið síðara varðar fund með sveitarstjórnarmönnum. Fram kom að mjög deildar meiningar voru á sínum tíma meðal íbúanna um ágæti þess að reisa verksmiðjuna í byggðarlaginu, sem var rótgróið landbúnaðarhérað. Nú, tíu árum síðar er unnt að meta reynsluna af rekstrinum og sambýlinu við verksmiðjuna. Skemmst er frá því að segja að nú hafa raddir andmælendanna þagnað. Verksmiðjan og starfsmenn hennar hafa reynst sveitarfélaginu einkar vel og verið lyftistöng fyrir allt samfélagið með virkri og víðtækri þátttöku sinni.

Skólakerfið hefur tekið stakkaskiptum einkum verkmenntunin, og almenn efnahagsþróun í héraðinu hefur notið góðs af auknum umsvifum og fjölbreyttara atvinnulífi.

Efnahagsþróunin og uppbygging atvinnulífsins snýst um margt fleira en stóriðjuframkvæmdir. Nýsköpun atvinnulífsins með tilkomu nýrra þekkingarfyrirtækja og nýrrar framleiðsluvöru starfandi fyrirtækja eru ekki síður mikils virði.
Það verður þó ekki horft framhjá því að nýsköpunin hefur átt erfitt uppdráttar síðustu þrjú árin vegna skorts á áhættufjármagni í kjölfar samdráttarins sem hófst snemma árs árið 2000. Einkafjárfestar hafa nær alveg haldið að sér höndum og geta Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins til virkrar þátttöku í nýjum félögum er lítil um þessar mundir. Framboð á fjármagni til fjárfestingar í sprotafyrirtæki og til nýsköpunar er því langt undir þörfum fyrir endurnýjun í atvinnulífinu. Það er von mín að þær efnahagsbætur sem fyrirsjáanlegar eru í tengslum við stóriðjuna eigi eftir að auka bjartsýni og framfarasókn nýsköpunar.

Aðkoma ríkisins að stuðningi við vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun hefur verið mótuð á nýjan leik með tilkomu Vísinda- og tækniráðs. Má búast við nýrri og ákveðnari stefnumótun af hálfu ríkisins við eflingu nýsköpunar og sprotafyrirtækja. Mikilvægur þáttur í þeirri sókn er tilkoma nýs sjóðs, Tækniþróunarsjóðs, sem sérstaklega er ætlað að styðja við frumstig nýsköpunar. Það er mér mikið kappsmál að þessi nýi sjóður geti látið til sín taka strax á næsta ári. Hef ég lagt áherslu á að fjárveitingar til Tækniþróunarsjóðs verði ekki lægri en nemur fjárveitingum í Rannsóknarsjóð, sem er ætlað að veita styrki til vísindarannsókna.


Ágætu iðnþingsgestir.
Þegar mér verður hugsað fram á veginn, og þegar ég velti fyrir mér hvernig atvinnuþróunin gæti orðið næstu tíu árin, sýnist mér að atvinnulífið standi á þrem megin stoðum. Sjávarútvegur og fiskvinnsla mun áfram gegna veigamiklu hlutverki. Þá verður álframleiðslan trúlega orðin um eða yfir ein milljón tonn á ári og verður næst mikilvægasta útflutningsvara okkar. Þriðja meginstoðin verður væntanlega framleiðsla og útflutningur þekkingarafurða og þekkingarþjónustu. Ég er þeirrar skoðunar að þekkingariðnaðurinn fari vaxandi og eftir tíu ár verði krafturinn þar mestur.

Með þessum stuttu vangaveltum um framtíðina þakka ég fyrir áheyrnina, óska Samtökum iðnaðarins til hamingju með afmælið og óska þeim alls hins besta á komandi árum.

Þá vil ég þakka fyrir einstaklega ánægjulegt samstarf á kjörtímab

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum