Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. apríl 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Samráðsfundur Landsvirkjunar

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp
á samráðsfundi Landsvirkjunar
4. apríl 2003


Ágætu samráðsfundargestir!

Umbrota- og breytingatímar hafa verið í orkumálum á liðnum misserum og ég tel að liðið ár hafi verið viðburðaríkasta ár þjóðarinnar á sviði orkumála til þessa. Fyrir réttu ári, á síðasta samráðsfundi Landsvrkjunar, ríkti óvissa um endalok svokallaðs NORAL- verkefnis um byggingu álvers í Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjunar sem hafði verið unnið að í 3–4 ár. Ég sagði þá að þó svo byr hefði lægt í seglum NORAL-verkefnisins myndi það verkefni áfram berast að settu marki þó hægar færi en áður hafði verið stefnt að.

Eins og flestir hér vita var ég sem betur fer ekki sannspá í þeim orðum mínum. Stuttu eftir þetta hófust samningaviðræður við bandaríska fyrirtækið Alcoa um byggingu 320.000 tonna álvers, sem lauk formlega með undirskrift samninga milli viðkomandi aðila í Reyðarfirði fyrir tæpum þremur vikum við eftirminnilega athöfn. Mér er til efs að þó svo að viðræður um NORAL-verkefnið hefðu haldið áfram hefði í raun tekist á einu ári að ná því marki sem við höfum náð í dag. Það er með ólíkindum hve vel allir samningar og samskipti við hinn nýja samstarfsaðila okkar hafa gengið eftir og lofar það vissulega góðu um framhaldið. Þetta eru langmestu framkvæmdir sem ráðist hefur verið í hér á landi og verður væntanlega bið á að aðrir ámóta framkvæmdasamningar verði gerðir.

Til marks um umfang verksins hefur samningurinn um raforkusöluna til hins nýja álvers í för með sér um 55% aukningu á núverandi raforkuframleiðslu þjóðarinnar, varanleg störf í tengslum við hið nýja álver munu verða 800-900 og útflutningur þjóðarinnar mun aukast um 12%. Að þessu markmiði hefur verið unnið af festu og einurð af öllum aðilum er að því komu, og fagnaðarefni er að þetta verkefni nýtur víðtæks stuðnings þjóðar og þings þrátt fyrir að annað kynnu menn að halda miðað við þann áróður sem uppi hefur verið gegn þessum áformum.

Um miðjan mars voru samþykkt á Alþingi heimildarlög til samningsgerðar um stækkun álbræðslu Norðuráls á Grundartanga úr 180.000 tonna afkastagetu á ári upp í 300.000 tonn. Einnig voru samþykkt heimildarlög um stækkun Nesjavallavirkjunar, byggingu gufuaflsvirkjunar á Reykjanesi auk mannvirkja við Norðlingaölduveitu, en framkvæmdir við þessi mannvirki tengjast fyrirhugaðri stækkun álvers Norðuráls. Mikilvægt er að hefjast handa við þessar framkvæmdir sem fyrst til að draga úr samtímaáhrifum þeirra og framkvæmdanna fyrir austan, en stefnt er að því að raforkusala til Norðuráls hefjist í ársbyrjun 2006. Hér er ekki í lítið ráðist og fjárfesting þjóðarinnar vegna fyrirhugaðra virkjanamannvirkja lætur nærri að vera svipuð upphæð og heildareignir Landsvirkjunar eru samkvæmt ársreikningum fyrirtækisins.

Af þessu má m.a. sjá hversu gríðarleg fjárfesting mun verða í orkumannvirkjum hér á landi á næstu 5–6 árum. Hitt er einnig athyglisvert að aukning í raforkuvinnslu á árunum 1997–2002 hefur verið rúm 50% og þar af hefur orðið um 85% aukning í stóriðjunotkun, bæði við hið nýja álver á Grundartanga, stækkun Járnblendiverksmiðjunnar og álvers ALCAN í Straumsvík. Þetta hefur gerst í smáum skrefum og ef til vill í meiri sátt en verið hefur við fyrirhugaðar framkvæmdir á næstu árum, en þar verður á að líta að óhjákvæmilegt er að fá stórkaupanda orkunnar með mikla upphafsnotkun hennar þegar ráðist er í svo stóra virkjun sem Kárahnjúkavirkjun er. Því bendir allt til þess að raforkunotkun hér á landi á árinu 2008 verði orðin tæpar 15 GWh/ári eða sem nemur tæpum þriðjungi af áætlaðri raforkugetu frá vatnsafli og jarðvarma hér á landi.

Nokkuð ljóst er að eftir því sem við nýtum fleiri virkjunarkosti til orkuframleiðslu hér á landi kunna að verða meiri deilur uppi um þá kosti sem eftir verða. Í því ljósi var á árinu 1999, í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum, hafin vinna við gerð Rammaáætlunar til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Markmið áætlunarinnar var og er að leggja mat á og flokka innbyrðis virkjunarkosti til raforkuframleiðslu meðal annars með tilliti til hagkvæmni, þjóðhagslegs gildis og umhverfisáhrifa. Stór hópur sérfræðinga hefur komið þar að verki og verkefnisstjórn Rammaáætlunar áformar að skila niðurstöðum sínum til ráðherra í maí. Ljóst er að með áætluninni fáum við fyrstu viðbrögð ýmissa hagsmunaaðila á framtíðarnýtingu flestra orkukosta landsins.

Ýmsar viðamiklar grunnrannsóknir á hugsanlegum virkjunarsvæðum hafa verið unnar og verkefnið mun bæði auka þekkingu okkar og skilning á náttúrufari landsins. Þess var vænst í upphafi verksins að aukin sátt myndi nást um nýtingu orkulinda landsins en of snemmt er að spá um það. Því miður hafa alltof margir talið að hér væri um að ræða einhvern stóradómstól í virkjunarmálum, en svo er alls ekki. Niðurstaða Rammaáætlunar mun hins vegar örugglega nýtast mörgum aðilum vegna þeirra rannsókna sem lagt hefur verið í, hún mun væntanlega gagnast raforkuframleiðendum við val á virkjunarkostum, sveitarfélögum og skipulagsyfirvöldum við skipulagsvinnu og náttúruverndaryfirvöldum við gerð verndaráætlana.

Á síðustu vikum þingsins voru ekki aðeins samþykkt á Alþingi lög um álver og virkjanir heldur voru þar einnig samþykkt fyrstu raforkulög hér á landi. Frumvarp til raforkulaga hefur verið til umfjöllunar á fyrri samráðsfundum Landsvirkjunar og mun ég ekki fjalla nánar um efnisatriði hinna nýju laga enda hefur það verið rækilega kynnt helstu hagsmunaaðilum. Sátt hefur orðið um það á hvern hátt við munum stíga fyrstu skrefin okkar í átt að nýju raforkuumhverfi, en hin nýju raforkulög móta aðeins þann ramma sem nauðsynlegur er til að halda utan um framkvæmdina. Mikil vinna er framundan við nauðsynlega reglugerðarsmíði og þurfa margir aðilar að koma að verki. Aðalatriðið er þó að okkur takist á farsælan hátt að aðlaga hið nýja raforkulagaumhverfi í framtíðinni á sem bestan hátt að okkar eigin aðstæðum.

Loks voru á Alþingi samþykkt sem lög frumvarp um Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir, sem unnið hefur verið að á síðasta ári. Vegna hins aukna stjórnsýslu- og eftirlitshlutverks sem Orkustofnun hefur verið falið í lögunum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og í hinum nýju raforkulögum var talið óhjákvæmilegt að skilja rannsóknarsvið stofnunarinnar frá henni og mynda um þá starfsemi sérstaka stofnun, Íslenskar orkurannsóknir. Hins vegar var talið rétt að Vatnamælingar yrðu áfram um sinn vistaðar innan Orkustofnunar en sérstakri nefnd, sem skipuð er helstu hagsmunaaðilum á þessu sviði, hefur verið falið að kanna hvort unnt væri að efla og styrkja Vatnamælingar með því að sameina svipaða starfsemi í öðrum stofnunum eða fyrirtækjum í einni öflugri stofnun á sviði vatnafars. Þá ber að nefna að unnið er að lokadrögum frumvarps um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum auk frumvarps til nýrra vatnalaga. Þessi frumvörp þarf að leggja fram á næsta þingi ef vel á að vera meðal annars vegna þeirra breytinga á umhverfi orkufyrirtækja sem leiða af nýjum raforkulögum.

Staða okkar Íslendinga í orkumálum er einstök meðal þjóða heims og við þurfum að nýta hana okkur til framdráttar og öðrum til aðstoðar. Nýting vatnsafls landsins til raforkuframleiðslu síðustu áratugi hefur verið hröð og farsæl og enginn vafi er á því að nýting orkulinda landsins hefur verið og mun verða einn af grunnþáttunum í efnahagslegri velferð þjóðarinnar. Það átak er gert var á áttunda og níunda áratug síðustu aldar til að auka hlut jarðvarma sem orkugjafa hefur skilað þeim árangri að um 88% húsnæðis hér á landi er nú hitað upp með hitaveitum og er það að sjálfsögðu einsdæmi. Afar varfærnislegar tölur benda til þess að sparnaður við jarðhitanotkun á upphitun húsnæðis á árabilinu 1970–2000 samanborið við olíuhitun hafi numið um 330–350 milljörðum króna, eða um 11 milljörðum á ári. Fjárhagslegur ávinningur þjóðarinnar af virkjun jarðhitans á síðustu áratugum hefur því verið stórkostlegur og í raun ótrúlegur. Möguleikar á enn frekari nýtingu þessarar auðlindar eru margvíslegir í framtíðinni og þar hefur borið hæst á síðasta áratug fimmföldun á raforkuframleiðslu jarðhitavirkjana. Þá er augljóslega mjög vaxandi áhugi á að nýta sérþekkingu og reynslu Íslendinga víða erlendis á þessu sviði þó svo að verkefni hafi orðið færri en menn höfðu vænst.

Um þessar mundir er verið að hrinda úr vör markaðsátaki á jarðhitaverkefnum á vegum ENEX í Kína og er það unnið með stuðningi íslenskra stjórnvalda. Þá stefna stjórnvöld og Samorka að því að bjóðast til að kosta rekstur við framkvæmdastjórn Alþjóða jarðhitasambandsins hér á landi á árunum 2005–2010 og með því móti myndu opnast auknir möguleikar á kynningu og útbreiðslu á íslenskri jarðhitaþekkingu og menningu, og slík starfsemi mun vafalaust geta leitt til aukinna jarðhitaverkefna okkar erlendis.

Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg um sjálfbæra þróun síðastliðið haust kom ítrekað fram hjá fulltrúum þróunarríkja að aukin orkunotkun þeirra væri grundvallarþáttur við útrýmingu fátæktar og fyrir framförum og sjálfbærri þróun þessara ríkja. Var sú skoðun þeirra vel rökstudd og þekkjum við Íslendingar vel hvaða þýðingu aukin orkunotkun hefur haft fyrir þróun samfélags okkar á liðnum áratugum.

Annað áberandi umræðuefni fundarins var krafan um aukna hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun heimsins og þá einna helst í hinum þróuðu ríkjum. Því miður er fátt sem bendir til þess enn sem komið er að svo verði á næstu áratugum. Á fundinum var komið á laggirnar óformlegu samstarfi þjóða heims er búa við mikla möguleika á endurnýjanlegum orkulindum eða hafa áhuga á aukinni notkun þeirra og erum við Íslendingar þar á meðal. Einnig vakti verulega athygli hve langt við hefðum náð í notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Ísland hefur á þessu sviði algjöra sérstöðu með 72% hlut endurnýjanlegra orkulinda af heildarorkunotkun. Olía og bensín vegna samgangna og skipaflota landsmanna er um 21% af heildarorkunotkun þannig að erfitt verður að auka að ráði enn frekar hlut okkar á notkun hreinna orkugjafa fyrr en tækniþróun við framleiðslu og notkun á hreinu eldsneyti til samgangna gerir okkur kleift að draga verulega úr notkun hefðbundinna brennsluefna.

Á undanförnum árum hefur þróun tækni við að nota vetni sem orkubera aukist hratt. Þar höfum við Íslendingar komið nokkuð við sögu sem þátttakendur í evrópsku samstarfsverkefni um tilraunanotkun á almenningsfarartækjum. Fyrirtækið Íslensk NýOrka, sem stofnað var á árinu 1999, hefur ásamt fleiri aðilum undirbúið um tveggja ára skeið þetta rannsóknarverkefni hér á landi. Nýlega kom fyrsta vetnisstöðin til landsins og verður hún tekin í notkun síðar í þessum mánuði og í ágústmánuði koma til landsins þrír vetnisknúnir strætisvagnar sem verða munu í notkun hér í a.m.k. 2 ár.

Afar mikilvægt er að Íslendingar taki þátt í og séu í forystu í þeirri öru þróun í notkun hreinna orkugjafa og orkubera í stað notkunar hefðbundinna brennsluefna. Þátttaka okkar í þessu verkefni hefur nú þegar vakið gífurlega eftirtekt erlendis og er það ekki síst vegna þess hvernig okkur hefur tekist að nýta orkulindir okkar og þá möguleika er við eigum á að nýta í framtíðinni endurnýjanlegar og hreinar orkulindir við framleiðslu vetnis. Í dag notum við 3/4 af innfluttu eldsneyti til samgangna og skipaflotans, og losun gróðurhúsalofttegunda af þessum sökum er um 2/3 af heildarlosun landsins. Takist okkur að nýta hreinar orkulindir þjóðarinnar á hagkvæman hátt til að framleiða með einum eða öðrum hætti orkubera í stað olíueldsneytis yrði staða Íslands meðal þjóða heims einstök. Sú raforka er til þarf miðað við eldsneytisnotkun okkar í dag er svipuð og orkugeta Kárahnjúkavirkjunar. Hins vegar mun þessi aukna notkun gerast í smáum skrefum á tveimur áratugum eða svo að því talið er. Þessi þróun mun væntanlega ekki hefjast að neinu marki fyrr en eftir einn eða tvo áratugi og mun ekki á neinn hátt skarast við þau áform er nú eru uppi um nýtingu orkulinda okkar til iðnaðarframleiðslu á næsta áratug.

Góðir samráðsfundargestir!

Við lifum á tímum sívaxandi hraða og breytinga, þar af leiðandi eru gerðar sífellt meiri kröfur til innviða samfélagsins og styrkleika. Það á ekki síst við um orkumálin, sem eru einn af hornsteinum þess samfélags er við byggjum og þurfum í sívaxandi mæli að reiða okkur á.
Eins og hér hefur komið fram eru bjartir tímar framundan hjá okkur Íslendingum í orkumálum og við megum vera stolt af því hvernig okkur hefur tekist að nýta orkuauðlegð okkar og búa um leið í haginn fyrir komandi kynslóðir. Ég er sannfærð um að það uppbyggingarskeið sem við nú erum að hefja muni renna enn styrkari stoðum undir velferð og hagsæld þjóðarinnar um langa framtíð.




Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum