Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. maí 2003 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Menningarvefur ferðaþjónustunnar

Ávarp samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar, við undirritun samkomulags við Snorrastofu um menningarvef ferðaþjónustunnar.


Góðir gestir!

Það er mér mikil ánægja að þið hafið séð ykkur fært að þiggja boð okkar Hallgerðar í þennan kvöldverð hér á Hótel Reykholti.

Ástæðan fyrir þessu boði er sú að okkur þótti við hæfi að innsigla með einvherjum hætti ánægjulegt samstarf samgönguráðuneytis og ykkar allra á undanförnum árum en staðurinn er okkur hjónum, eins og flestum Íslendingum, ákaflega kær og höfum við oft átt hér góðar stundir í gegnum árin.

Eins og ykkur er kunnugt þá fer samgönguráðuneytið með málefni ferðaþjónustu hér á landi og hefur áhersla á menningartengda ferðaþjónustu um allt land verið mikið metnaðarmál í ráðuneytinu undanfarin ár. Dagný Emilsdóttir, framkvæmdastjóri Heimskringlu sat í nefnd sem ég skipaði til að fjalla um þennan málaflokk undir forystu núverandi menntamálaráðherra og skilaði hún af sér viðamiklum tillögum þar sem mikið var horft til miðaldamenningar okkar Íslendinga en einnig fram á veginn og til þess hvernig nýta mætti nýjustu tækni til að miðla upplýsingum til ferðamanna.

Ein af tillögum nefndarinnar var að komið yrði á laggirnar sérstökum menningarvef ferðaþjónustunnar. Í kjölfarirð kom Snorrastofa með áhugaverða tillögu um það hvernig staðið skyldi að slíkum vef þar sem þarfir ferðaþjónustunnar um aðgengi að menningarupplýsingum verði uppfylltar í samstarfi við fræðimenn á sviði menningarmála.

Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu hefur fylgt málinu vel eftir hjá ráðuneytinu og við úthlutun styrkja vegna byggðaáætlunar opnaðist glufa sem samgönuráðuneytið nýtti sér og hefur nú verið gengið til samstarfs um að hefja gerð menningarvefsins. – Þetta er brautryðjendaverkefni og munu margir fylgjast með því hvernig til tekst enda eru bæði þeir sem starfa að menningarmálum og ferðaþjónustu þekktir fyrir að hafa ákveðnar skoðanir á hlutunum.

Það er lílega ekki þörf á að segja það hér en Reykholt er auðvitað einn af helstu sögustöðum íslensku þjóðarinnar og vinsæll ferðamannastaður. Kirkja hefur verið í Reykholti frá því í öndverðri kristni og hafa kirkjubyggingarnar verið mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Við hönnun og smíði nýju kirkjunnar í Reykholti var sérstaklega hugað að þörfum ferðafólks og gert ráð fyrir m.a. sýningaraðstöðu og tónleikasal. Samstarf kirkjunnar hér, Heimskringlu og Snorrastofu hefur skapað staðnum þann virðulega sess í huga fólks sem honum sæmir.

Þetta stóreykur aðdráttarafl staðarins enda þyrstir innlenda sem erlenda ferðamenn í menningu og fræðslu jafnframt því sem þeir njóta náttúru landsins.

Samgönguráðuneytið hefur stutt sóknarnefnd Reykholtskirkju nokkuð dyggilega á undanförnum árum og nú hefur verið ákveðið að samgönguráðuneytið greiði til viðbótar eina milljón króna til fegrunar á umhverfi gömlu og nýju kirkjunnar í Reykholti.

Það er von mín sem ráðherra ferðamála að hér séu á ferðinni tvo verkefni sem allir geta tekið undir að séu menningartengdri ferðaþjónustu á Íslandi til vegsauka um alla framtíð.

Megi gæfa fygja Reykholti um ókomna tíð og Guð blessa alla þá sem hér búa og starfa.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum