Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. nóvember 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Vélstjóraþing.

Formaður og stjórn Vélstjórafélags Íslands, ágætu þingfulltrúar og gestir,

Ég vil í upphafi þakka fyrir að vera boðin til að ávarpa þing ykkar hér í dag. Það ber að fagna þeirri umræðu sem Vélstjórafélagið efnir til á þinginu. Evrópumálin þarf að ræða á sem víðustum grunni og útfrá ólíkum sjónarmiðum. Opin umræða um stöðu okkar í Evrópu er nauðsynleg til að skapa sem víðtækasta sátt í samfélaginu um hvert skal stefna. Ég er afar ánægð yfir, með hvaða hætti Framsóknarflokkurinn hefur tekist á við þetta mikilvæga viðfangsefni. Á undanförnum misserum höfum við Framsóknarmenn staðið fyrir opinni og fordómalausri umræðu um tengsl Íslands við Evrópu. Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að viðhalda samningnum um hið evrópska efnahagssvæði og treysta hann eins og kostur er. Við útilokum hins vegar ekki aðild að Evrópusambandinu. Það er mikilvægt að viðhalda umræðunni um evrópumálin og í raun að viðhalda stöðugu mati á stöðu Íslands. Við verðum að fylgjast grannt með því sem gerist meðal nágranna okkar t.a.m. í Noregi, en verði af aðild þeirra þá getur reynst erfitt fyrir okkur að standa utan ESB. Svo eru líka ýmsir sem halda því fram að mikilvægt sé fyrir Ísland að vera á undan Noregi, ef það eigi fyrir okkur að liggja að gerast aðilar. Þá eru menn með gamla orðatiltækið í huga að frændur séu frændum verstir.

Almenningur, félagasamtök og hagsmunaaðilar hafa sýnt Evrópumálunum mikinn áhuga. Umræðan er að verða öfgalausari og er það mikilvægt. Við getum ekki lagst í skotgrafirnar í þessu máli. Það ætti öllum að vera ljóst að báðum leiðum fylgja kostir og gallar fyrir Íslendinga. Mér finnst það umhugsunarefni að meira að segja Bændasamtökin hafa nálgast viðfangsefnið með hófstilltari og öfgalausari hætti en t.a.m. Landssamband íslenskra útvegsmanna sem ekki vill einu sinni ræða málið!

Í viðtali við Morgunblaðið nýlega lýsti sjávarútvegsráðherra Noregs því yfir að fiskveiðistjórnunarkerfi sem við búum við á Íslandi hentaði ekki byggðastefnu Noregs. Þegar þessi yfirlýsing er vegin og metin verður að hafa í huga að efnahagsleg þýðing sjávarútvegs þar í landi vegur mun minna en hér á landi. Ekki eru mörg ár síðan norska ríkið beinlínis styrkti sjávarútveginn með verulegum árlegum fjárframlögum. Þó svo að Norðmenn hafi að mestu horfið frá þeirri stefnu þá leggja þeir enn sérstakar takmarkanir á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, umfram aðrar atvinnugreinar, í því skyni að verja búsetu. Slíkar aðgerðir hljóta að koma niður á arðsemi sjávarútvegsins og m.a. af þeim sökum skila sjávarútvegsfyrirtæki í Noregi minni arði en sambærileg fyrirtæki hér á landi.

Um þessar mundir er norskur sjávarútvegur í miklum vanda og flestum ljóst að hann verður að bregðast við til að standast alþjóðlega samkeppni. Vaxandi framleiðsla í Asíu, inn á markaði í Evrópu, veldur erfiðleikum, sem minnir okkur jafnframt á að við verðum að gera okkar besta til að standast samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum.

Við Íslendingar gerum kröfu til þess að sjávarútvegurinn greiði góð laun og að fyrirtækin skili hagnaði. Þetta er eðlileg krafa - bæði fyrir þjóðfélagið í heild - og ekki síst fyrir landsbyggðina þar sem meginhluti starfseminnar í sjávarútveg fer fram utan höfðuborgarsvæðisins. Þessi krafa er ekki einungis mikilvæg vegna fyrirtækjanna sjálfra heldur þjóðfélagsins alls. Hér á landi er öflugur og vel rekinn sjávarútvegur undirstaða velmegunar. Til að sjávarútvegurinn geti til framtíðar staðið undir lífskjörum hér á landi þarf a.m.k. tveimur skilyrðum að vera fullnægt. Hið fyrra lýtur að skynsamlegri nýtingu lifandi auðlinda hafsins en hið síðara að veiðar og vinnsla búi við þau skilyrði að sjávarútvegurinn í heild geti skili arði. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt þá getur sjávarútvegur hvorki staðið undir því að greiða góð laun né haldið upp þeim góðu lífskjörum sem við viljum búa við hér á landi. Við slíkar aðstæður er ekki heldur hægt að gera kröfu til þess að sjávarútvegurinn greiði sérstakt gjald til þjóðfélagsins af nýtingu auðlindarinnar.

Við upphaf næsta fiskveiðiárs koma lög um álagningu veiðigjalds til framkvæmda. Ekki liggur fyrir nú hverjar verða heildartekjur ríkissjóðs af gjaldinu en gera má ráð fyrir að þær verði í bilinu 1.500 til rúmlega 2.000 milj. kr. Það er mitt mat að bærileg sátt ríki nú í þjóðfélaginu um þessa ráðstöfun þó svo að þeir séu vissulega til sem telja að sjávarútvegurinn eigi að greiða hærri fjárhæð í ríkissjóð. Það er mín skoðun að verulegum hluta af þeim fjármunum sem innheimtast af veiðigjaldi eigi að verja til að styðja við nýsköpun í atvinnulífi sjávarbyggða. Með því móti einu getum við brugðist við þeirri miklu fækkun starfa sem orðið hefur í sjávarútvegi á undanförnum árum en hana má fyrst og fremst rekja til tækniþróunar í fiskvinnslu. Sem betur fer er okkur nú í fyrsta skipti að takast - með raunhæfum hætti - að skjóta nýjum stoðum undir atvinnulífið á landsbyggðinni. Hér á ég að sjálfsögðu við þá miklu uppbyggingu sem hafin er á Austurlandi og mun gerbreyta búsetuskilyrðum þess fólks sem þar býr. Þó svo að flestir sem láta sig varða atvinnumál á landsbyggðinni gleðjist yfir þróun mála á Austurlandi þá hafa sumir þeirra sömu áhyggjur af þeim sogkrafti sem þessar framkvæmdir munu hafa fyrir aðra landshluta. Þetta eru eðlilegar áhyggjur. Því er mikilvægt að vinna að einurð að því reyna eftir því sem hægt er að skapa skilyrði fyrir nýjar atvinnugreinar í öðrum landshlutum. Til þess að það sé hægt þarf að virkja frumkvæði og atgervi heimamanna og skapa þeim sviprúm til að þróa ný atvinnutækifæri.

Ágætu þingfulltrúar.

Þegar skoðuð er aldargömul saga íslenskrar verkmenntunar og um leið saga þeirra frumherja er sóttu slíka menntun, vekur það undrun hversu langt íslenska þjóðin hefur náð að þróa hér upp eitt tæknivæddasta ríki á norðuhveli jarðar á fáum áratugum. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að um aldamótin 1900 var Ísland eitt vanþróaðasta ríki Evrópu meðan aðrar þjóðir álfunnar höfðu byggt upp þróað borgarsamfélag og iðnað um aldar skeið.

Upphaf vélstjóramenntunar á rætur sínar að rekja til upphafsára tuttugustu aldar. Þó svo að menntun þeirra og starfssvið hafi á fyrstu áratugum síðustu aldar beinst nær eingöngu að frumstæðum skipastól landsmanna kom fljótlega í ljós að þörfin fyrir menntun þeirra og reynslu margfaldaðist með auknum umsvifum og velmegun í þjóðfélaginu. Um miðja öldina jókst útgerð togara, frystihúsum fjölgaði og fyrstu hitaveitur og stærri vatnsorkuver tóku til starfa. Þessi þjóðfélagsbreyting kallaði á aukin umsvif sérhæfðra starfskrafta og er óhætt að segja að við rekstur þessarar starfsemi hafi mest reynt á getu og hæfni vélstjóra. Frá þessum upphafsárum í nútíma atvinnulífi þjóðarinnar hefur vissulega orðið gjörbreyting á starfssviði stéttarinnar eins og svo margra annarra. Sífellt fullkomnari vél- og rafbúnaður hefur kallað á aukna menntun í faginu eins og eðlilegt má telja og einnig hafa eldri og reyndari menn þurft að endurmennta sig eins og eðlilegt er í síbreytilegu starfsumhverfi. Á sérhæfðum vinnustöðum eins og virkjunum stóðu vélstjórar vaktir dag og nótt og þurftu að bregðast við rekstri eftir breytilegum aðstæðum hverju sinni. Oft reyndi þar á þekkingu, áræði og skjót viðbrögð þeirra við að stýra raforkuframleiðslunni til að illa færi ekki fyrir frumstæðu raforkukerfi okkar. Með byltingu í samskipta- og tölvutækni hefur starf vélstjórans smám saman orðið það að hafa umsjón og eftirlit með vélum og búnaði og annast nauðsynlegt viðhald hans. Vitaskuld hefur þessi þróun orðið til þess að fækka störfum vélstjóra við ákveðin störf þar sem tæknin hefur tekið völdin, en okkur hefur góðu heilli tekist að skapa önnur ný á öðrum sviðum með stöðugri uppbyggingu samfélags okkar og auknum hagvexti um áratuga skeið.

Jafnframt hafa skref verið stigin á síðustu árum við að efla nýsköpun í atvinnulífinu, sem virðist ætla að bera góðan árangur. Það er oft haft á orði að mannauðurinn sé mikilvægasta auðlind þjóðarinnar. En gleymum ekki því að mannauðurinn verður aðeins auðsuppspretta að hæfileikar mannsins verði ræktaðir og virkjaðir við verðug verkefni. Eitt þeirra framtíðarverkefna sem stjórnvöld hafa unnið að í samstarfi við innlend orkufyrirtæki, erlend stórfyrirtæki og ríki Evrópusambandsins er að þróa notkun vetnis hér á landi með tilraunaverkefni um notkun vetnisstrætisvagna. Þetta verkefni hefur leitt af sér mörg smærri rannsóknarverkefni á þessu svið hér á landi.

Á næstu árum er fyrirhugað að hefja annað tilraunaverkfni er lýtur að notkun vetnis sem orkugjafa í bátum og minni skipum. Undirtektir erlendra samstarfsaðila hafa verið jákvæðar og aðrar þjóðir hafa óskað eftir samstarfi við okkur þetta verkefni.

Á þessar spennandi framtíðarhugmyndir vil ég leyfa mér að benda hér, í upphafi Vélstjóraþings sem dæmi um það að við þurfum ávallt að vera við því búin að takast á við nýja framtíð og á þessu sviði hafa vélstjórar nýju hlutverki að gegna.

Ágætu fundargestir. Í upphafi kom ég að mikilvægi þess að viðhalda opinni umræðu um stöðu okkar í Evrópu. Þau nánu tengsl við Evrópu sem EES-samningurinn hefur skapað, hafa átt ríkan þátt í því langa hagvaxtar- og velmegunarskeiði sem við Íslendingar höfum búið við undanfarin ár. Leikreglur okkar samfélags eru skýrari nú en áður á flestum sviðum. Nægir þar að nefna samkeppnismál, neytendavernd, umhverfismál, fjármálamarkað og vinnuvernd. Allir þessir málaflokkar hafa tekið miklum breytingum á undanförnum árum, en orsök þeirra er að finna í tilskipunum Evrópusambandsins. En það eru ekki allar EES-reglur sniðnar að íslenskum aðstæðum. Ein ástæða þess að lítið tillit er tekið til íslenskra aðstæðna við samningu EES-reglna er sú, að Ísland er hjáróma rödd í löggjafarferli ESB eins og það hefur þróast frá undirskrift EES-samningsins.

Ísland hefur haft forystu um að tryggja bættan aðgang til handa EFTA-ríkjunum að ákvörðunartökuferli ESB. Því miður hafa undirtektirnar verið dræmar og ekki er líklegt að breyting verði á í fyrirsjáanlegri framtíð. Þetta aðkomuleysi okkar að löggjafarstarfi ESB snertir ekki bara aðkomu löggjafarvaldsins og ráðuneyta, heldur einnig sveitarfélaga.

Þrátt fyrir að alþjóðlegt samstarf hraði oft breytingum innanlands, líkt og ég hef að framan lýst, má ekki skilja orð mín eins og að ríkisstjórnin hafi setið með hendur í skauti. Ríkisstjórnin hefur bæði í orði og verki skapað atvinnulífinu heilbrigðara rekstarumhverfi og skotið styrkari stoðum undir það. Má í því sambandi nefna uppbyggingu á sviði stóriðju, einkavæðingu, t.a.m. bankanna, skattalækkanir og lagasetningu sem eykur aðhald og gagnsæi, s.s. upplýsingalögin. Þá hefur Grettistaki verið lyft í byggðamálum og vísa ég í því samhengi til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um aukin útgjöld til vega-, jarðganga- og menningarmála á landsbyggðinni og framsækinnar byggðaáætlunar.

Sem ráðherra byggðamála sem vill veg landsbyggðarinnar sem mestan, ber mér skylda til þess að skoða hvað nágrannaþjóðir okkar eru að gera í þeim málum. Ef ESB stendur okkur framar í byggðamálum þá girðum við í brók og gerum betur. Við þurfum ekki að ganga í ESB til þess. Við þurfum líka að skoða hvað okkar nágrannar eru að gera í menntamálum, heilbrigðismálum, samgöngumálum, ferðamálum o. s. frv.

Sá sem lifir í þeirri trú að hann geti ekkert af öðrum lært fer villur vega.

Fordómalaus og hreinskilin umræða og stöðugur samanburður við nágranna okkar í ESB er því markmið í sjálfu sér.

Hinu er ekki að leyna að umræðan hefur annan tilgang. Hún undirbýr okkur undir ákvörðun um hugsanlega aðild að ESB, sem kann að koma upp í framtíðinni. Við lifum í alþjóðlegu umhverfi, fjarlægðir verða stöðugt minni og þjóðarafkoma okkar Íslendinga verður æ samofnari alþjóðavæðingunni og atvikum sem við ráðum ekki við

Í alþjóðavæðingunni er enginn er eyland – ekki einu sinni Grímsey, hvað þá Ísland sem heild.

Ég óska þingfulltrúum alls hins besta í störfum sínum á þessu Vélstjóraþingi.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum