Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. desember 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Herra forseti!

Ég legg hér með fram til umræðu skýrslu verkefnisstjórnar um 1. áfanga rammaáætlunar.

Með vaxandi orkuþörf samhliða ótta um loftslagsbreytingar vegna losunar gróður-húsa-lofttegunda verður endurnýjanleg orka verðmætari. Æskilegt verður að nýta slíkar orkulindir svo fremi það sé gert á sjálfbæran og vistvænan hátt. Jafnframt vex þörf manna fyrir útivist og tilvist ósnortinnar náttúru sem mótvægis við þéttbýlt manngert umhverfi.

Með virkjun jarðhita til húshitunar og vatnsafls og jarðgufu til raforkuframleiðslu hafa Íslendingar náð að draga verulega úr notkun eldsneytis og geta nú státað af einu hæsta hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í orkubúskap iðnvæddra þjóða. Samt er verulegur hluti vatnsafls og jarðhita enn óvirkjaður. Fáar þjóðir eiga jafnmikið óvirkjað af þessum orkulindum. Við höfum hins vegar svigrúm til að velja þá kosti sem best henta frá sjónarhóli hagkvæmni og umhverfisverndar.

Árið 2002 nam raforkuvinnsla úr vatnsafli um 7.000 GWh en tæknilega hagkvæm orkugeta í vatnsafli er talin um 37.000 GWh raforku á ári. Meiri óvissa er um tæknilega hagkvæma orkugetu jarðhita til raforkuframleiðslu en hún er talin að lágmarki um 30.000 GWh á ári.

Árið 2002 nam raforkuvinnsla úr jarðhita 1.400 GWh.

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar „Á leið til sjálfbærrar þróunar" skipaði umhverfisráðherra árið 1993 starfshóp um umhverfismál, iðnþróun og orkumál. Honum var falið að skilgreina sjálfbæra þróun í þessum málaflokki og setja honum markmið til skemmri og lengri tíma. Jafnframt var honum falið að gera framkvæmdaáætlun í umhverfis- og þróunarmálum til aldamóta. Starfshópurinn skilaði áliti sínu í mars 1995. Þar var lagt til að gerð verði rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsaflsins í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum. Þessi starfshópur var einn af sjö en hinir tóku á samsvarandi hátt fyrir aðra málaflokka. Í árslok 1995 setti umhverfisráðherra á fót starfshóp sem fékk það verkefni að setja saman drög að framkvæmdaáætlun sem yrði samþykkt af ríkisstjórn og byggð á skýrslum hópanna sjö. Niðurstaða faghópsins var lögð fyrir Umhverfisþing 1996 þar sem hún var rædd og farið yfir athugasemdir í fjórum starfshópum. Að teknu tilliti til athugasemda var samin framkvæmdaáætlun sem samþykkt var í ríkisstjórn í febrúar 1997 og nefnd „Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Framkvæmdaáætlun til aldamóta". Þar var gert ráð fyrir að iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, láti gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum. Í henni verði sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra vatnasvæða og niðurstöður færðar að skipulagi. Í því sambandi verði sérstaklega könnuð áhrif smárra virkjana.

Samkvæmt fyrrgreindri samþykkt ríkisstjórnarinnar hófst iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra handa við undirbúning áætlunarinnar. Málið snerti þó fleiri ráðherra, svo sem forsætisráðherra (vegna byggðamála og málefna þjóðlendna), samgönguráðherra (vegna samgangna og ferðamennsku), landbúnaðarráðherra (vegna landnota) og menntamálaráðherra (vegna menningararfleifðar). Stefna og verklag voru mörkuð með greinargerð iðnaðarráðherra Maður – nýting – náttúra dags. 8. mars 1999 og málið kynnt í ríkisstjórn.

Í greinargerð iðnaðarráðherra segir: „Markmið rammaáætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Með þessu móti sé lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfar þjóðfélagsins hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi."

Skipulag undirbúningsvinnu að rammaáætlun var í senn hugsað þannig að innan þess rúmaðist fagleg vinna sem best yrði unnin í faghópum en auk þess almennur samráðs--vettvangur almennings og allra þeirra sem eðlilegt væri að kæmu að málinu. Enn fremur var nauðsyn-legt að öflug heildarstjórn mótaði áætlunina og skipulag hennar og beindi hinni faglegu vinnu í réttan farveg en stæði jafnframt fyrir samráði og kynningu með skipulegum hætti. Samkvæmt þessu var skipulagið þríþætt; verkefnisstjórn, faghópar og samráðs-vettvangur.

Í verkefnisstjórn 1. áfanga sátu 16 manns. Á vegum hennar störfuðu fjórir faghópar og í hverjum þeirra voru 8-14 manns. Í allri vinnu var viðhaft opið samráðsferli. Landvernd annaðist samráðs-vettvang verkefnisstjórnar, faghópa, stofnana, fyrirtækja, samtaka og almennings með heimasíðu um verkefnið, kynningu á opnum fundum, útgáfustarfsemi og upplýsingamiðlun til fjölmiðla.

Þegar verkefnisstjórnin hóf störf vorið 1999 setti hún sér það markmið að ljúka 1. áfanga áætlunarinnar í ársbyrjun 2003 með mati og samanburði á 20–25 virkjunarkostum vatnsafls og jarðvarma. Þar yrði fjallað um helstu kosti á virkjun vatnsafls í jökulám á hálendinu og jarðvarma á háhitasvæðum nærri byggð. Eitt fyrsta verkefni stjórnarinnar var að hrinda af stað gagnaöflun fyrir matsferlið, bæði um virkjunarhugmyndirnar sjálfar og náttúrufar viðkomandi svæða. Í tengslum við það verkefni tók Náttúrufræðistofnun að sér að vinna tilraunaverkefni sem miðaði að því að þróa aðferðir til að skrá og meta náttúruverndargildi fyrirhugaðra virkjunar-svæða.

Áður en vinna við mat á mismunandi virkjunarkostum hófst snerist starf verkefnisstjórnar og faghópa um þróun aðferða sem beita mætti í matinu og um val á viðföngum og viðmiðum. Áhersla var lögð á skýrt og gagnsætt verklag og vinnureglur. Opin umfjöllun um aðferðafræðina var víðtæk með opnum málþingum og sérstökum fundum með orkufyrirtækjum og stofnunum sem málið varðar sérstaklega. Lýsingu á aðferðafræði faghópa er að finna í skýrslu verkefnis-stjórnar og viðaukum við hana.

Gögn um virkjunarkosti voru lögð fyrir fjóra faghópa verkefnisstjórnar. Þeir mátu gögnin hver frá sínum sjónarhóli og skiluðu niðurstöðum til verkefnisstjórnar. Einn faghópur fjallaði um náttúrufar og minjar, annar um útivist og hlunnindi, sá þriðji um þjóðhagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun og sá fjórði um hagkvæmni og arðsemi virkjunarkosta. Aðferðafræðin við mat á virkjunarkostum er nýmæli hérlendis. Við mat á náttúrufari er byggt á alþjóðlegum aðferðum og viðmiðum en aðferðafræðin þróuð og staðfærð í faghópum ramma-áætlunar. Verkefnisstjórnin samþætti niðurstöðurnar og flokkaði innbyrðis. Leggja ber sérstaka áherslu á að mat og flokkun eru gerð með samanburði einstakra virkjunarkosta, en ekki er lagður sérstakur mælikvarði á hvern virkjunarkost.

Vinnu við 1. áfanga áætlunarinnar er nú lokið og hefur niðurstöðum verið skilað í skýrslu verkefnis-stjórnar og viðaukum. Aðferðafræði og vinnulag við skýrsluna eru tvímælalaust fallin til að stuðla að upplýstri umræðu og sátt um val virkjunarkosta og þar með um mikilvægar forsendur í viðkvæmri þjóðmála-umræðu, eins og til var stofnað þegar ríkisstjórnin ákvað að hefja vinnu við rammaáætlunina. Niðurstöður skýrslunnar leggja einnig til forsendur, sem ekki hafa áður verið aðgengilegar, til að kanna heildstætt marga kosti samtímis við undirbúning nýrrar virkjunar.

Á grundvelli mats faghópa hefur verkefnisstjórnin í 1. áfanga flokkað 35 virkjunar-hugmyndir til raforkuframleiðslu í fimm flokka (a til e) eftir umhverfisáhrifum, aðra fimm eftir heildar-hagnaði og fimm eftir arðsemi. Um þessa flokkun eru gerðir fyrirvarar vegna tak-mark-aðra gagna, einkum um umhverfisáhrif, en einnig um heildarhagnað og arðsemi, þar sem frumáætlanir um tilhögun eru skammt á veg komnar.

Ætla má að virkjanir sem falla undir flokka a og b í umhverfisáhrifum verði síður umdeildar. Þar má nefna jarðvarmavirkjanir, svo sem í Bjarnarflagi, á Hellisheiði og á Reykjanesi. Af vatnsaflsvirkjunum má nefna Núpsvirkjun, Urriðafossvirkjun og Hólmsárvirkjun. Hins vegar má gera ráð fyrir meiri ágreiningi um virkjanir í flokkum umhverfisáhrifa d og e. Nefna má jarðvarmavirkjanir á Torfajökulssvæðinu og vatnsaflsvirkjanir í Jökulsá á Fjöllum og Markarfljóti.

Telja verður eðlilegt, á grundvelli niðurstöðu skýrslunnar, að undirbúningur nýrra virkjana beinist á næstunni að virkjunarkostum sem falla undir flokka umhverfisáhrfia a-c. Ekki er þó hægt að útiloka nýtingu virkjunarkosta sem falla í flokka umhverfisáhrifa d og e þegar til lengri tíma er litið. Ákvörðun um nýtingu þeirra kosta verður ekki tekin án frekari gagnaöflunar og rannsókna.

Herra forseti!

Niðurstöður rammaáætlunar koma að margvíslegu gagni.

Þær nýtast til dæmis

stjórnvöldum sem grunnur að stefnumörkun í orku- og náttúruverndarmálum.
iðnaðarráðherra við að marka stefnu um frumrannsóknir ríkisins í orkumálum og við útgáfu rannsóknar- og nýtingarleyfa nýrra virkjana.
umhverfisráðherra við gerð náttúruverndaráætlunar sem hann skal lögum samkvæmt leggja fyrir Alþingi á fimm ára fresti, í fyrsta sinn í vetur.
stjórnvöldum við mat á umhverfisáhrifum skipulagsáætlana.
stjórnvöldum og sveitarfélögum við skipulagsvinnu af ýmsu tagi.
orkufyrirtækjum og Orkustofnun til að velja vænlega virkjunarkosti.
stjórnvöldum, orkufyrirtækjum og öðrum til rannsókna á umhverfi og náttúru landsins í framtíðinni með aðferðum sem Náttúrufræðistofnun Íslands þróaði í vinnu vegna rammaáætlunar.

Áætlað er að heildarkostnaður við 1. áfanga rammaáætlunar verði 555 milljónir króna, þar af hefur um 280 milljónum króna verið varið til rannsókna á náttúrufari og háhitasvæðum. Orkusjóður greiðir stærstan hluta heildarkostnaðar en kostnaður er að öðru leyti borinn uppi af fjár-veitingum til Orkustofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Auk þess hafa orkufyrirtækin, Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja, lagt verkefninu til gögn, vinnu og fjármuni.

Herra forseti!

Með þessum niðurstöðum hefur verkefnisstjórn náð því markmiði sem henni var falið að leggja grundvöll að 1. áfanga í forgangsröðun virkjunarkosta. Hafa verður þó í huga að þekking á virkjunarkostum sem teknir voru til skoðunar er í mörgum tilvikum ekki fullnægj-andi. Það er því mikilvægt að afla frekari þekkingar um þessa virkjunarkosti og endurmeta þá. Þá eru fjölmargar virkjunar-hugmyndir sem enn hafa ekki verið kannaðar en nauðsynlegt er að taka inn í myndina til að fá heildstætt yfirlit yfir möguleika til orkuöflunar með vatnsafli og jarðvarma.

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður áfram unnið að frekari rannsóknum á virkjunarkostum sem komu til álita nú en of lítið er um vitað og á mörgum öðrum ókönnuðum kostum sem nauðsynlegt er að fjalla um í 2. áfanga rammaáætlunar.

Aðferðafræði og verklag hafa verið mótuð í 1. áfanga rammaáætlunar. Því er gert ráð fyrir að vinna við 2. áfanga verði einfaldari í framkvæmd og henni verði stýrt af nýrri fámennari verkefnisstjórn.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum