Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. febrúar 2004 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Stofnfundur Cruise Iceland

Cruise Iceland samtökin eru samtök ferðaþjónustuaðila sem taka á móti skemmtiferðaskipum. Samgönguráðherra ávarpaði gesti á stofnfundi samtakanna 20. febrúar síðastliðinn.

Það er mér sönn ánægja að ávarpa stofnfund Cruise Iceland hér í dag en ég lít svo á að hér sé á ferðinni enn ein vísbendingin um þann kraft og fagmennsku sem íslensk ferðaþjónusta býr yfir. - Mér finnst líka ánægjulegt að sjá að bryddað upp á þeirri nýbreytni að tala um skemmtiskip í stað skemmtiFERÐAskipa.

Það hvílir óneitanlega ævintýrablær yfir því að sigla með skemmtiskipi um heimsins höf. Fólk nýtur lífsins lystisemda um borð á milli þess sem framandi og spennandi staðir eru skoðaðir.

Þessir staðir eru auðvitað fjölmargir um allan heim og samkeppnin um skemmtiskipin því hörð. Það geta hins vegar ekki allir tekið á móti þessum skipum, að minnsta kosti ekki þeim stærstu. Til þess þarf stórar hafnir og einnig aðra innviði til að móttaka - oft á tíðum mjög kröfuharðra viðskiptavina - uppfylli öll skilyrði. – Hér á landi eru hafnir eðlilega víða og uppbygging þeirra í takt við tímann. Hafnirnar eru þó fyrst og fremst gerðar til að þjóna þörfum fiskiskipa og fraktflutninga. Því er ekki annað hægt en að dást að því hve sambúðin við skemmtiskipin hefur gengið vel í þeim höfnum sem á móti þeim taka.

Þar sem ég er bæði ráðherra ferðamála og hafnamála er stofnun Cruise Iceland mér sérstakt fagnaðarefni enda er bætt nýting dýrra hafnarmannvirkja stjórnvöldum mikið kappsmál. Árlega er varið á annan milljarð króna til uppbyggingar hafna hér á landi. Við þetta mun síðan í sumar bætast við umtalsverð fjárútlát hafnasjóða vegna stóraukinna krafna um öryggismál í höfnum. Nú er það svo að alþjóðlegar reglur leggja okkur þá skyldu á herðar að tryggja öryggi siglingaleiða á sama hátt og við þekkjum úr fluginu. Setja þarf upp vopnaleitarhlið á viðkomustöðum skipanna og aðstöðu til að gegnumlýsa farangur og frakt.

Eins og ykkur, sem eruð hér, er vel kunnugt hefur samgönguráðuneytið beitt sér fyrir því að stórauka opinbert fjármagn til markaðssóknar íslenskrar ferðaþjónustu. Ferðamálaráð hefur stýrt þeirri sókn og við getum verið stolt af þeim árangri sem náðst hefur þó að gefið hafi á bátinn um stund. Fjölmargar leiðir eru farnar til að vekja athygli á landinu og er af þessu tilefni hér í dag rétt að geta þeirrar gríðarlegu vinnu sem síðustu árin hefur verið lögð í að fá skemmtiskip hingað til lands. Þar hafa Reykjavíkur- og Akureyrarhöfn verið í fararbroddi ásamt Ferðamálaráði í New York en fleiri hafnir hafa komið að málum og er ég feikilega ánægður að sjá að Ísafjarðarhöfn er einnig aðili að þeirri vinnu sem liggur að baki stofnun Cruise Iceland.

Ég óska íslenskri ferðaþjónustu til hamingju með daginn því að hér er á ferðinni gríðarlega stórt tækifæri fyrir greinina. Vonandi sjá sem flest fyrirtæki og einstaklingar sér hag í að gerast aðilar að Cruise Iceland svo samtökin nái þeim byr sem að er stefnt.

Ég óska þeim, sem staðið hafa að undirbúningi þessara samtaka innilega til hamingju með vel unnið verk.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum