Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. mars 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Sambúð stóriðju og samfélags.

Góðir ráðstefnugestir

Mér er mikil ánægja af því að ávarpa þessa ráðstefnu um sambúð stóriðju og samfélags. Við Íslendingar stöndum um þessar mundir á tímamótum í þróun orkufreks iðnaðar. Góðir áfangar hafa náðst á undanförnum árum sem hófust með stækkun álversins í Straumsvík 1996 og síðan byggingu Norðuráls og stækkunar járnblendiverksmiðjunnar eftir langt hlé. Framundan eru spennandi tímar með byggingu Fjarðaáls og frekari stækkun Norðuráls, með öllum þeim væntingum sem fylgja slíkum ákvörðunum.

Flestum eru ofarlega í huga tíðindin um sölu Norðuráls til bandaríska álfyrirtækisins Century Aluminium Company, og hvaða áhrif sú breyting á eignarhaldi kann að hafa á fyrirætlanir um stækkun álversins. Ég get staðfest það hér að Ken Peterson hefur fullvissað okkur í ráðuneytinu um að engar breytingar verða á framtíðaráformum fyrirtækisins. Þvert á móti voru heimildir til stækkunar Norðuráls það atriði sem gerði útslagið um kaupin. Hann hefur jafnframt skýrt okkur frá því að fulltrúar hinna nýju eigenda muni fljótlega koma hingað til lands til að kynna áform sín og eiga viðræður við stjórnvöld og heimamenn.

Það er fyllilega tímabært að staldra við, líta yfir farinn veg, meta ávinning og hugsanleg neikvæð áhrif, sem hlotist hafa af stóriðjuframkvæmdum undanfarinna ára. Svona ráðstefnur gefa gott tækifæri til þess og ég sé það á dagskránni og vali á framsögumönnum, að hér verður mikill og góður fróðleikur fluttur af kunnáttumönnum, sem margt má af læra.

Þetta tækifæri gaf einnig mér tilefni til upprifjunar og umhugsunar í ljósi hinnar miklu umræðu sem átti sér stað í þjóðfélaginu áður en til þessara framkvæmda kom. Myndu þær verða til góðs, myndu vonir og væntingar rætast eða yrði þetta feigðarflan með efnahagslegri kollsteypu ásamt óásættanlegum umhverfisáhrifum, eins og sumir spáðu. Ég vil hér aðeins nefna þrjú atriði sem mér eru ofarlega í huga.

Í fyrsta lagi nefni ég samfélagslegu áhrifin. Öllum ber nú saman um að þjóðhagslegur ávinningur af uppbyggingarárunum 1996 til 2001 var verulegur. Þetta kom fram í auknum hagvexti, sem var á bilinu 4-5% árlega í 6 ár samfellt, auknum þjóðartekjum og tekjum einstaklinga og minnkandi atvinnuleysi, sem var í sögulegu lágmarki undir 1% árið 2000. Flest finnum við hin jákvæðu áhrif á eigin skinni og þjóðhagsstærðirnar tala sínu máli. Í byggðunum næst iðnaðarsvæðunum, svo sem hér á Akranesi, fjölgaði íbúum umtalsvert eftir áralanga stöðnun, meðallaun hækkuðu og tekjur sveitarfélagsins jukust að sama skapi. Ég læt öðrum ræðumönnum það eftir að rekja þetta í tölum. Í þessu tilfelli hafa væntingar ræst vonum framar.

Það var ánægjulegt að lesa auglýsingu Fjarðabyggðar í fjölmiðlum 15. mars s.l., einu ári eftir undirritun samninga um Fjarðaál. Samfélagsáhrifanna er strax farið að gæta. Hundruðum íbúðalóða hefur verið úthlutað, fasteignaverð hefur snarhækkað, íbúum fjölgar í fyrsta sinn um árabil, ný fyrirtæki hasla sér völl og bjartsýni og framkvæmdahugur einkennir samfélagið. Gríðarleg vinna er framundan við álversframkvæmir í Reyðarfirði á vegum framkvæmdaraðilans undir forsjá Bechtel og HRV verkfræðihópsins. sem veitir íslenskum fyrirtækjum tækifæri til að takast á við ótal spennandi verkefni sem undirverktakar, framleiðendur eða byrgjar. Nýlega kynntu fulltrúar Bechtel þessi viðskiptatækifæri á opnum fundi á Eskifirði og er hægt að nálgast upplýsingar um þau á skrifstofum Bechtel, Alcoa eða HRV í Reykjavík og á vefsíðu Samtaka iðnaðarins.

Í öðru lagi vil ég nefna umhverfisáhrifin hér í Hvalfirði. Að loknu umfangsmiklu mati á umhverfisáhrifum áður en til þeirra framkvæmda kom, sem ég hef gert hér að umtalsefni, áttu sér stað harðar umræður í þjóðfélaginu, þar sem margir einstaklingar og umhverfisverndarsamtök höfðu uppi stór orð. Nú liggur það hins vegar fyrir að hvers kyns mengun í lofti, láði og legi er minni en gert var ráð fyrir og langt undir viðmiðunarmörkum í starfsleyfi verksmiðjanna. Þetta sýna niðurstöður reglubundinnar umhverfisvöktunar svo sem í grennd við iðnaðarsvæðið á Grundartanga, svo ekki verður um villst, þar sem mælt er m. a. flúor í lofti og gróðri og brennisteinsdíoxíð í lofti. Tré sem gróðursett voru í stórum stíl í landi Klafastaða dafna með ágætum þrátt fyrir hrakspár um hið gagnstæða. Þetta eru mikil gleðitíðindi og sýnir árangur sem næst með nauðsynlegu aðhaldi og vönduðum vinnubrögðum af hálfu forsvarsmanna verksmiðjanna.

Í þriðja lagi vil ég nefna margfeldisáhrif af stóriðjunni, sem sýna sig í ýmsum myndum í þjóðfélaginu. Í fræðilegum útreikningum er oft miðað við það, að á móti hverju föstu starfi í stóriðju á borð við orkufrekan iðnað skapist 2-2,5 önnur störf við verslun, flutninga og þjónustu, sem er ýmist í beinum tengslum við iðnaðinn eða í svokölluðum afleiddum störfum. Samkvæmt upplýsingum frá Alcan á Íslandi kaupir álverið í Straumsvík ýmis konar varning og þjónustu af íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum fyrir 3,1 milljarð króna árlega. Þar af er um þriðjungur vegna viðskipta í Hafnarfirði einum. Svipaða sögu er að segja af verksmiðjunum á Grundartanga og viðskiptum þeirra á þessu svæði, nema hvað þar eru tölurnar lægri. Fróðlegt er að velta því fyrir sér í hverju þessi störf eru fólgin.

Mig langar í þessu samhengi til að geta hér nokkurra fyrirtækja í þjónustu við áliðnaðinn sem af miklu hugviti hafa haslað sér völl í samkeppni við erlenda aðila.

Stímir hf hefur sérhæft sig í smíði búnaðar fyrir skautsmiðjur, steypuskála og kerskála auk sérstakra mælitækja fyrir rafstraumsmælingar. Málmsteypa Þorgríms smíðar kerþéttingar og íhluti fyrir álsteypumót. Málmsteypan Hella hf smíðar skautlása o.fl. Fyrir um tveimur árum hóf Blendi ehf framleiðslu á kragasalla fyrir bæði álverin úr úrgangsefni sem fellur til hjá þeim en þurfti fram til þess að urða. Þessi 4 fyrirtæki eru öll í Hafnarfirði. Alur, álvinnsla hf í Helguvík hefur hafið endurvinnslu á áli úr álgjalli, sem áður var flutt utan til endurvinnslu. Hér á Akranesi starfar fyrirtækið Trico ehf, sem hefur þjónað stórum hluta stóriðjufyrirtækja á Íslandi með sérhannaðan öryggisfatnað fyrir starfsmenn síðastliðin 6 ár. Ennfremur hafa fyrirtækin Bjarmar ehf og Skipanes sérhæft sig í verkefnum á sviði vélsmíði fyir Norðurál. Að lokum vil ég nefna fyrirtækið Altech í Reykjavík, sem sérhæfir sig í búnaði fyrir skautsmiðjur, og er nú vonandi á uppleið aftur eftir endurskipulagningu. Flest þessara fyrirtækja selja framleiðslu sína einnig á erlendum markaði og er þessi starfsemi táknræn fyrir margfeldisáhrif og árangur sem sprotafyrirtæki geta náð þegar hugur og hönd fara saman um að nýta sér tækifærin sem gefast í nábýli við stóriðju.

Og tækifærin liggja víða. Erlendir athafnamenn með mikla þekkingu á sínu sviði hafa stofnað hlutafélagið Kapla til að undirbúa byggingu rafskautaverksmiðju í landi Kataness við Grundartanga. Félagið stefnir að því að framleiða rafskaut fyrir íslensku álverin, en um það bil hálft tonn af rafskautum þarf til að framleiða eitt tonn af áli, sem fram til þessa hafa verið flutt inn erlendis frá. Um þessar mundir er unnið að mati á umhverfisáhrifum, en ríkisstjórnin samþykkti að taka þátt í þeim kostnaði að hálfu gegn því að fá hann endurgreiddan verði verksmiðjan byggð, svipað og gert hefur verið í sambandi við byggingu álveranna. Ekki er þó sjálfgefið að samningar takist um sölu til álveranna, en að því er unnið. Ef vel tekst til er hér um afar stórt verkefni að ræða og enn eitt dæmi um jákvæð margfeldisáhrif sem skapast geta þegar hugvitssamir athafnamenn reyna að nýta sér tækifæri með vaxandi stóriðju í landinu

Ég sé tækifærin einnig á sviði sveitarstjórnarmála. Það er fagnaðarefni að fjögur hin minni sveitarfélög sunnan Skarðsheiðar hafa hafið viðræður um aukna samvinnu sem kann að leiða til sameiningar þeirra áður en langt um líður. Sameinuð verða þau sterkari til átaka við framtíðaruppbyggingu iðnaðarsvæðisins við Grundartanga, sem á eftir að verða eitt eftirsóttasta iðnaðarsvæði landsins í skjóli stækkandi hafnar og vaxandi starfsemi. Ég tel að vel komi til greina að heimamenn kaupi iðnaðarlóðirnar á Grundartanga af ríkissjóði. Það eru ýmiss tækifæri til enn frekari uppbygginar á svæðinu og ég tel að sveitarfélögin eigi að hafa meira forræði varðandi nýtingu þeirra tækifæra í samvinnu við Hafnarsjóð Grundartanga. Breytt eignarhald á iðnaðarlóðunum gæti stuðlað að meira frumkvæði heimamanna í þessum efnum.

Ég vil að lokum færa skipuleggjendum þessarar tímabæru ráðstefnu bestu þakkir fyrir frumkvæðið og einnig framsögumönnum fyrir þeirra framlag.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum