Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. október 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Kaupstefnan Rekstur 2004

Ágæta samkoma

Það hefur verið vinsælt á þessu ári - eitthundrað ára afmæli heimastjórnar – að bera saman aðstæður í dag og aðstæður eins og þær voru árið 1904. Í stuttu opnunarávarpi - eins og þessu - gefst reyndar ekki tilefni til ítarlegrar umfjöllunar um þær aðstæður og umgjörð sem rekstri á Íslandi eru búnar í dag samanborið við umgjörðina þá, en engu að síður finnst mér ástæða til að stikla á stóru í því sambandi.

Uppúr aldamótunum 1900 má segja að Íslendingar hafi staðið með annan fótinn í miðöldum en hinn í nútímanum. Þrátt fyrir að um 70% starfandi manna tengdust landbúnaði og rúm 20% útflutningstekna kæmi frá honum, var þegar kominn vísir að borgarastétt, iðnaði og verslun. Bætt menntun bænda og aukin framleiðni samfara aukinni vélanotkun leiddi til fólksfækkunar í sveitum og eflingar þéttbýlis. Verslun og viðskipti blómguðust og nýjar atvinnugreinar urðu til. Þessi þróun hefur staðið fram á þennan dag.

 

 

Tveir innlendir bankar höfðu tekið til starfa - Landsbankinn og Íslandsbanki-gamli. Í upphafi heimastjórnar var fyrsti togarinn keyptur til landsins og má þá segja að í raun hafi þá fyrst hafist raunveruleg eignamyndun byggð á ágóða af rekstri. Á stuttum tíma útrýmdu togarar seglskútum, enda voru þeir fljótir að borga sig upp. Líkja má komu togaranna til Íslands við iðnbyltinguna miklu í Bretlandi um öld áður.

 

Um svipað leyti voru íslenskir verslunarmenn að láta til sín taka. Þeir þrýstu á bættar samgöngur og fjarskipti. Sæsíminn skipti sköpum fyrir innlenda heildsala sem gátu eftir komu hans átt bein samskipti við byrgja sína erlendis. Íslendingar, sem öldum saman höfðu notast við tvo jafnfljóta, eða í besta falli við baggahesta, tileinkuðu sér á örskömmum tíma nýjustu tækni í samgöngum þess tíma. Hlaupið var yfir járnbrautartímabilið og beint inn í bílaöldina. Íslenskt skipafélag var stofnað og tryggðar voru reglubundnar og öruggar siglingar til landsins. Og Íslendingar lærðu að beisla raforkuna.

 

Eftir á að hyggja hafa þetta verið spennandi og viðburðaríkir tímar. En hið sama má segja um þá tíma sem við lifum á.

Varla líður sá dagur að ekki berist fréttir af landvinningum íslenskra fyrirtækja og athafnamanna erlendis. Stjórnvöld sem áður voru virkir þátttakendur í hvers konar atvinnurekstri hafa breytt um hlutverk og eru nú frekar í hlutverki þess sem tryggja á að hjól atvinnulífsins snúist landslýð til hagsbóta.

 

Og hvernig hefur svo til tekist. Þjóðartekjur á mann hér á landi eru með því mesta sem þekkist – atvinnuleysi er með því lægsta sem þekkist – langlífi er óvíða meira – fáir veita meiru fé til menntunar og heilbrigðismála en við Íslendingar. En eru þá engin verkefni eftir fyrir áhugasama stjórnmálamenn ?

Því er fljótsvarað. Lengi getur gott batnað. Alveg eins og temja verður gæðingsefni til að það vinni til verðlauna á mótum, verður að setja atvinnulífinu leikreglur – temja það – svo allir geti keppt á sama grundvelli. Annað verkefni sem stjórnvöld eyða mikilli orku í - og er af sama meiði - er að tryggja að íslenskt atvinnulíf búi ekki við lakari kost en samkeppnisaðilar erlendis.

 

Unnið hefur verið markvisst að því að lækka skatta og álögur á atvinnulífið og búa íslensk fyrirtæki við næst-lægstu tekjuskatta í Evrópu. Þótt hljótt fari, er töluverðum tíma og fjármunum varið á ári hverju í gerð fríverslunarsamninga, gagnkvæmra samninga um vernd fjárfestinga og tvísköttunarsamninga. Allir slíkir samningar styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja erlendis.

Þá er töluverðu opinberu fé varið til kynningarmála – svo sem vörusýninga- á erlendri grundu. Nú er nýlokið ferð viðskiptasendinefndar til Rúmeníu og Búlgaríu. Í ferðinni voru um 15 fyrirtæki - og um 30 karlar og konur úr íslensku atvinnulífi. Óhætt er að segja að ferðin hafi tekist mjög vel. Fundir með heimamönnum um atvinnulíf og viðskiptaumhverfi á Íslandi og í móttökulöndunum voru fjölsóttir og áhugi á samstarfi við íslensku fyrirtækin mikil. Þannig var a.m.k. eitt fyrirtæki með fleiri viðmælendur en það réð við að sinna.

 

Hlutverk ráðherra í slíkum ferðum er að gefa ferðinni opinbera og trúverðuga áferð. Nærvera ráðherra opnar fyrirtækjunum ýmsar dyr sem annars væru þeim lokaðar. Þannig voru t.d. skipulagðir þrír fundir ráðherra á fyrsta degi í Rúmeníu. Það var fundur með fyrirtækinu Enex með orkumálaráðherra Rúmeníu til að ræða möguleika á samstarfi landanna á sviði hagnýtingar jarðhita. Síðan var fundur með fyrirtækinu Límtré sem byggt hefur límtrésverksmiðju í Rúmeníu og landbúnaðarráðherranum um starfsemi fyrirtækisins í Rúmeníu og að lokum var fundur með fyrirtækinu Hugvit með borgarstjóra í Bukarest um Gopro kerfið og innleiðingu rafrænna lausna í opinberum rekstri þar í borg.

 

Hér innanlands hefur kannski borið meira á stjórnvöldum í hlutverki tamningamannsins – þess sem hugar að leikreglum og hegðun á markaði. Og þar hefur vel verið að verki staðið. Má fullyrða að þróun síðustu ára á þessu sviði sé sambærileg þeirri þróun sem var í atvinnumálum við upphaf heimastjórnartímabilsins. Síðustu 15 ára hefur Ísland færst úr miðstýrðu hagkerfi – þar sem opinberir aðilar úthlutuðu leyfum um alla skapaða hluti, allt frá innflutningsleyfum fyrir sælgæti til leyfa til þess að taka fjármuni að láni erlendis – og yfir í þróað markaðshagkerfi. Ríkið er ekki lengur ráðandi í daglegum rekstri banka og lánastofnana – ríkið er á leið út af fjarskiptamarkaði – ríkið á ekkert skipafélag og enga ferðaskrifstofu. Skýrari mörk eru orðin á milli ríkisvalds og atvinnulífs. Þetta er góð þróun.

 

En þessi góða þróun kallar á breytt vinnubrögð og annars konar aga. Fyrir nokkrum árum voru sameinaðar tvær eftirlitsstofnanir sem reknar voru á vegum hins opinbera – þ.e. bankaeftirlit Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlitið – í eina stofnun, Fjármálaeftirlitið. Held ég að engum blandist hugur um að sú aðgerð - ein og sér - hefur skilað miklum árangri – ekki aðeins á eftirlitshliðinni- heldur ekki síður við að tryggja það að hér geti þrifist öflugar, velreknar og framsæknar fjármálastofnanir. En án öflugra fjármálastofnana verður trauðla um framþróun að ræða á öðrum sviðum atvinnulífsins.

 

Önnur eftirlitsstofnun á vegum hins opinbera stendur nú á tímamótum. Á ég þar við Samkeppnisstofnun. Eins og ykkur er kunnugt hefur nefnd sem skipuð var fyrr á þessu ári skilað niðurstöðum og tillögum um breytingar á skipulagi samkeppniseftirlits hér á landi. Er nú verið að fara yfir málið og semja frumvarp til laga sem byggir á tillögum nefndarinnar. Er megintilgangur með nýjum lögum sá að efla möguleika samkeppnisyfirvalda til að grípa inn í ef leikreglur á markaði eru ekki virtar.

 

Vissulega hefði verið freistandi að dvelja lengur við þau verkefni sem uppi á borðum stjórnvalda eru og snúa að atvinnulífinu. Tel ég þó að þessi stutta umfjöllun gefi innsýn inn í þau fjölmörgu verkefni á þessu sviði sem unnið er að.

Að lokum vil ég þakka fyrir að fá að opna þessa kaupstefnu. Vona ég að hún muni leiða til aukinna viðskipta og velmegunar – fyrirtækjunum, viðskiptamönnum þeirra og öllum almenningi til góða.

Ég lýsi hér með kaupstefnuna Rekstur 2004 formlega opna.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum