Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. október 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ráðstefna í tilefni af aldarafmæli rafvæðingar á Íslandi.

Forseti Íslands)

Virðulegu samkomugestir!

Á þessu ári höfum við haldið hátíðlegt aldarafmæli heimastjórnar hér á landi. Það gerðist ýmislegt annað markvert á árinu 1904 og þar ber hæst atburður sem ef til vill hefur valdið einna mestu um hagsæld og velferð þjóðarinnar á liðinni öld. Þar á ég við að fyrsta rafstöðin hér á landi tók til starfa í Hafnarfirði í desembermánuði þetta sama ár. Þó svo að okkur finnist lítið framfaraspor hafa verið stigið með þessari örlitlu heimarafstöð Jóhannesar Reykdals reyndist það öðru nær í fyllingu tímans. Starfsemi rafstöðvarinnar varð upphafið að hugarfarsbreytingu og skilningi almennings á mikilvægi raforkunotkunar til allra framfara þjóðarinnar.

Fyrstu áratugir síðustu aldar voru merkilegur tími í sögu þjóðarinnar. Þá vaknaði hún til vitundar um möguleika sína og tækifæri og nýir straumar fóru um samfélagið. Liðin öld færði okkur Íslendinga til nútímans, hinar ótrúlegu framfarir og umskipti sem urðu á högum þjóðarinnar voru vafalaust meiri en höfðu orðið á öllu fyrra lífsskeiði hennar. Í upphafi aldarinnar var vatnsaflið og jarðvarminn svo til alveg ónýtt auðlind, en framsýnir menn horfðu til þessarar náttúruauðlindar sem undirstöðu hagsældar og bættra kjara þjóðarinnar. Strax á fyrsta áratug aldarinnar hófust í smáum stíl rannsóknir á hugsanlegum virkjunarkostum landsins og á öðrum áratug voru unnar raunhæfar áætlanir um nýtingu á vatnsorkulindum landsins, sem þóttu mjög stórhuga miðað við ríkjandi aðstæður í þjóðfélaginu. Ekkert varð þó af þeim miklu áformum, meðal annars vegna styrjalda og heimskreppu, en þó bar þjóðin gæfu til að reisa virkjanir í Elliðaám, Sogi og Laxá á millistríðsárunum sem breyttu verulega högum hennar á erfiðum tímum seinni heimsstyrjaldar.

Við styrjaldarlok hafði þjóðin færst inn í nútímann og alþjóðasamfélagið og kynnst háttum erlendra þjóða. Ein af forgangsóskum þjóðarinnar var að rafvæðast. Hún hafði komist að raun um að raforkan var afl og uppspretta atvinnuvega annarra þjóða — og því skyldi svo ekki vera hér á landi einnig?

Með raforkulögum frá 1947 og stofnun raforkumálaskrifstofunnar verður mikil breyting á skipulagi raforkumála hér á landi. Þáverandi stjórnvöld tóku ákvörðun um að rafvæðing þjóðarinnar væri forgangsverkefni. Rafvæðingin var raunar eitt helsta markmið allra ríkisstjórna þjóðarinnar fram á 7. áratug síðustu aldar, enda var flestum landsmönnum þá orðið ljóst að viðhald og uppbygging byggðar um landið allt væri ekki möguleg án raforku miðað við nútíma kröfur samfélagsins. Um allt land var mönnum raforkumálaskrifstofunnar og síðar RARIK fagnað er dreifilínur til flestra byggða voru reistar sem síðar tengdust samtengdu raforkukerfi landsins. Á 7. áratugnum var lokið við að rafvæða flest og má heita að tengingu flestra landsmanna við samveitukerfi væri lokið við lok þess áratugar.

Stuttu síðar var nýtt framfaraspor stigið með ákvörðun um byggingu byggðalínu milli einstakra orkuveitusvæða alls landsins á árunum 1974-1984. Bygging byggðalínu var ekki óumdeild á sínum tíma en ótvírætt má telja að hún hafi stuðlað að hagkvæmni í rekstri raforkukerfisins, jafnað raforkuverð og aðgengi landsmanna að flutningskerfinu.

Sjöundi áratugurinn var áratugur mikilla breytinga í íslensku raforkusamfélagi. Fyrst ber að telja að árið 1965 var stofnað sameignarfyrirtækið Landsvirkjun í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar um raforkuframleiðslu fyrir stóriðju. Með byggingu Búrfellsvirkjunar, sem reist var til þess að afla orku fyrir álver í Straumsvík, var brotið blað í tækniþróun hér á landi, sem of lítill gaumur hefur verið gefinn að. Bygging hennar var á sínum tíma ámóta átak og núverandi framkvæmdir við Kárahnúka ef miðað er við fjárfestingu sem hlutfall af þjóðartekjum. Bygging virkjunarinnar og annarra er á eftir fylgdu var grunnur að þekkingu í hönnun og byggingu virkjana er við búum að í dag og munum lengi gera. Reynslan af rekstri vatnsaflsvirkjana okkar hefur kennt okkur lausnir á fjölmörgum tæknilegu vandamálum sem fylgja beislun jökulfljóta og hefur síðan nýst við hönnun annarra virkjana síðar. Á síðustu 25 árum hefur nánast öll tækniþekking við byggingu nýrra vatnsaflsvirkjana hér á landi verið innlend og aðeins í undantekningartilfellum hefur þurft að kalla til erlenda sérfræðiþekkingu. Hið sama á raunar við um hinar nýju og glæsilegu jarðgufuvirkjanir er nú á síðasta áratug hafa risið, þær hafa verið alfarið íslensk hönnun. Þetta segir okkur mikla sögu um reynslu og menntunarstöðu þjóðarinnar á þessu sviði í dag.

Sú mikla og farsæla uppbygging í raforkukerfi landsins er varð á síðari hluta síðustu aldar er ekki síst því að þakka að íslensk stjórnvöld báru gæfu til að veita verulegu fjármagn til rannsókna á orkulindum landsins, sem óhikað má fullyrða að sé grunnur að viðamikilli þekkingu Íslendinga á náttúrufari og orkulindum sínum. Uppbygging vatnsafls- og jarðvarmavirkjana á síðustu áratugum byggist á þessum rannsóknum og ekki síður tugi hitaveitna sem gjörbreytt hafa lífskjörum okkar. Munum við lengi enn búa að þessum rannsóknum.

Og það hefur ekki síst komið í ljós er vinna hófst við gerð svokallaðrar Rammaáætlunar um virkjanir er hófst árið 1999 að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Hún er yfirlitsáætlun um nýtingu og hagkvæmni hugsanlegra virkjunarkosta, mat á helstu umhverfisáhrifum þeirra og samfélagslegum áhrifum. Fyrsta áfanga áætlunarinnar lauk um s.l. áramót og vinna næsta áfanga er nýlega hafin. Að mati margra aðila er vel til þekkja er hér um að ræða einstakt verkefni á alþjóðavísu og hefur það vakið nokkra athygli erlendis. Viðtökur við fyrsta áfanga áætlunarinnar hafa verið mjög jákvæðar og enginn vafi er á því að samanburður virkjunarkosta er niðurstöður Rammaáætlunar gefur okkur gleggri sýn á líklegum virkjunarkostum í næstu framtíð. sem kemur að miklu gagni þegar ráðist verður í frekari rannsóknir eða nýtingu virkjunarkosta framtíðarinnar.

Við höfum á liðnum áratug upplifað mestu uppbyggingu orkumannvirkja hér á landi og þjóðin mun vart síðar upplifa jafn miklar breytingar. Raforkuframleiðsla hefur aukist um tæp 80% á árunum 1994-2003 og er sú aukning að mestu vegna aukinnar stóriðjuuppbyggingar, bæði í Straumsvík og í Hvalfirði. Við horfum fram til þess tíma að enn verði mikil aukning raforkunotkunar með nýju álveri Fjarðaáls á Reyðarfirði, sem auka mun raforkunotkun hér á landi enn frekar eða um 55%. Sú uppbygging er nú á sér stað á Austurlandi er augljóst dæmi um þau jákvæðu áhrif er hagnýting orkulinda landsins hefur bæði til aukningar á útflutningsverðmætum og hagvexti þjóðarinnar auk hinna miklu jákvæðu áhrifa er rekstur álversins mun hafa á alla byggðaþróun á svæðinu.

Ágætu gestir.

Sagt hefur verið að nauðsynlegt sé að þekkja sína sögu og skynja rétt samtíð sína ef ætlunin er að móta stefnu til framtíðar. Við bárum gæfu til að skynja hljóm aldamótaskáldanna til að láta ævintýrin við nýtingu orkuauðlinda okkar gerast í fyllingu tímans á síðustu öld. Orkusaga Íslendinga er nánast ein samfelld sigurganga, um það getum við verið sammála. Afar vel hefur tekist til um alla uppbyggingu virkjana landsins og þar ber ekki síst að nefna hversu vel hefur tekist að gera umhverfi þeirra aðlaðandi og smekklegt þannig að almenningur, eigendur og notendur þjónustu raforkufyrirtækjanna geta verið stoltir af.

Á senn nýbyrjaðri raforkuöld er ég sannfærð um að okkur auðnist um ókomna framtíð að móta áfram framsækna og glæsta íslenska hreina orkustefnu. Mikil þekking okkar og rannsóknir á jarðhita og vatnsafli hafa gert stöðu okkar sérstaka, sem byggist að verulegu leyti á þeim einstöku aðstæðum sem höfuðskepnur náttúrunnar hafa skapað hér á landi og okkur hefur tekist að nýta.

Megi svo verða enn um langa hríð.

Ég þakka áheyrnina.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum