Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. nóvember 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Fundur kaupfélagsstjóra.

Kæru kaupfélagsstjórar. Það er mjög ánægjulegt að fá að vera með ykkur þessa stund og heyra í ykkur hljóðið um stöðu atvinnulífsins út um hinar dreifðu byggðir landsins. Það er mikið umleikis í mínu ráðuneyti, eins og þið vitið. Í stóriðjumálunum hefur náðst mikill árangur og sjónir erlendra fjárfesta beinast nú æ oftar að Íslandi. Miklar breytingar eru á skipulagi raforkumarkaðarins um þessar mundir. Það er góður gangur í byggðamálum og ég skynja að það er ríkjandi meiri bjartsýni vítt og breitt um landið en oftast áður. Þá hafa allir tekið eftir miklum uppgangi á fjármálamarkaði. Ég vil nú ekki þreyta ykkur með langri ræðu, og það væri að æra óstöðugan að fara að rifja hér upp öll verkefni ráðuneytisins. Því ætla ég hér að beina sjónum mínum að tveimur málum sem oft eru í brennidepli, annars vegar staða atvinnulífsins og samkeppnismál og hins vegar byggðamál.

II.

Ég verð mjög vör við að erlendir gestir undrast þá miklu uppbyggingu sem orðið hefur hér á landi á undanförnum árum. Þjóðfélagið hefur tekið miklum framförum, jafnvel stakkaskiptum, á stuttum tíma. Hagur almennings, hins opinbera og fyrirtækja hefur vænkast en samhliða hafa kröfur aukist. Almenningur krefst enn betri lífskjara og betri þjónustu hins opinbera og fyrirtækja en finnur hins vegar fyrir auknum kröfum og samkeppni á vinnumarkaði. Fyrirtæki keppa að sem bestri nýtingu framleiðsluþátta og þar með aukinni framleiðni en þrýstingur frá hluthöfum, hinu opinbera og almenningi fer vaxandi. Hið opinbera finnur einnig fyrir auknum kröfum um meiri gæði og betri velferðarþjónustu.

Rót þessara breytinga á viðskiptalífinu má m.a. rekja til afnáms hafta á fjármálamarkaði, EES-samningsins, einkavæðingar banka, skilvirkara regluverks og mótunar verðbréfamarkaðar.

Ég tel að þær þjóðfélagsumbætur sem orðið hafa séu mikilvægar. Frumkvæði, kraftur og útrás hafa einkennt þessa þróun. Þjóðfélagið nýtur góðs af. Hagvöxtur er mikill og kaupmáttur eykst. Meðal annarra fylgifiska þessara breytinga má nefna aukna hörku í viðskiptum og á vinnumarkaði, fyrirtæki hafa stækkað, Íslendingar hafa eignast auðmenn á heimsvísu og samþjöppun hefur aukist á vissum sviðum. Þá hafa einstaka menn í atvinnulífinu sagt mér að gamlar dyggðir eins og heiðarleiki og traust séu á undanhaldi í hinum harða heimi nútímaviðskipta.

Við þessar aðstæður og í kjölfar mikillar pólitískrar umræðu um stöðu viðskiptalífsins skipaði ég nefnd um íslenskt viðskiptaumhverfi. Ég vildi að nefndin skoðaði regluumhverfi atvinnulífsins í heildstæðu samhengi eftir einkavæðingu bankanna og þær umfangsmiklu breytingar á regluverki sem átt hafa sér stað á undanförnum árum vegna EES-samningsins.

Nefndin skilaði sinni skýrslu í september og hlaut hún ágætis viðbrögð. Tillögur nefndarinnar miða að því að efla samkeppniseftirlit, gera það skilvirkara og veita meira fjármagni til þess. Það á að efla kjarnastarfsemina í eftirlitsstarfseminni og skilja þá starfsemi sem snýr ekki sérstaklega að samkeppnismálum frá eftirlitinu. Jafnframt á að veita samkeppniseftirliti auknar heimildir sem eru í fullu samræmi við Evrópuþróun. Takist vel til með þessar breytingar er ekki nokkur vafi á að þær verða atvinnulífinu til heilla. Tillögur nefndarinnar um stjórnhætti fyrirtækja miðuðu einkum að því að bæta minnihlutavernd og upplýsingagjöf og auka hluthafalýðræði.

Nú á næstu dögum mun ég leggja fram á Alþingi frumvörp sem taka mið af niðurstöðu nefndarinnar. Þar ber sérstaklega að nefna eflingu samkeppniseftirlits. Ég vonast til að það geti náðst mikil og góð sátt um það mál.

III.

Byggðaáætlun er mér mjög hjartfólgin. Nú er gildistími byggðaáætlunar fyrir árin 2002 til 2005 hálfnaður, en áætlunin var samþykkt á Alþingi í maí 2002. Í örstuttri samantekt má segja að megininntak hennar sé að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla - atvinnulíf, - menntun og - samfélagslega grunngerð. Til að ná þessum markmiðum hefur fjölda verkefna verið hrundið í framkvæmd og verður ekki annað sagt en að þar hafi flest gengið vel og samkvæmt áætlunum.

Við framkvæmd byggðaáætlunarinnar fyrst og fremst verið lögð áhesla á: þróun byggðar á grundvelli þekkingar og nýsköpunar. Þetta er ný nálgun, sem er í samræmi við þær öru breytingar sem íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum á síðusta áratug og sem mun gæta í enn ríkari mæli á komandi árum. Orsakir breytinganna má fyrst og fremst rekja til hraðra framfara í upplýsinga- og samskiptatækni - sem Netið er gleggsta dæmið um - og einnig til þeirrar miklu alþjóðavæðingar sem sett hefur mark sitt á íslenskt atvinnulíf og drifið áfram sókn þess í útlöndum. Þrátt fyrir að margir hafi fundið fyrir vaxtarverkjum þessara breytinga verður ekki undan þeim vikist. Í þessu sambandi er sóknin besta vörnin, eins og svo oft áður, og því er framundan er að afla þekkingar og reynslu sem nýtist til nýrrar sóknar með afurðir sem byggja á íslenskum sérkennum. Þannig getum við skapað okkur viðskiptalegt samkeppnisforskot í alþjóðlegu samhengi.

Það gefur auga leið að aðlögun atvinnulífsins að þessum breytingum er jafn mikilvæg öllum landsmönnum. Hún hefur þó reynst auðveldari í hringiðu athafnalífsins á höfuðborgarsvæðinu en víðast annarsstaðar og á meðan svo er heldur rekstur sértækra byggðaaðgerða gildi sínu og réttmæti. Markmið þeirra mun áfram verða að leita jöfnunar í lífskjörum með uppbyggilegum aðgerðum eins og lagður er grunnur að í framkvæmd núverandi byggðaáætlunar.

Svo umfangsmikið verkefni er þó enganvegin á færi eins ráðuneytis enda snerta málefni landsbyggðarinnar málefni allra ráðuneyta og stofnana þeirra. Veigamestu verkefnin hafa því verið unnin í nánu samráði við önnur ráðuneyti eins og menntamálaráðuneyti - um nýjungar í menntamálum á öllum skólastigum og með samgönguráðuneyti - um verkefni á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Þetta samstarf ráðuneytanna hefur verið mjög farsælt en hvert ráðuneyti sér um framkvæmd þeirra samstarfsverkefna sem tilheyra málaflokki þess.

Góðir kaupfélagsstjórar. Eins og þið heyrið er í mörg horn að líta á stóru heimili. Ég veit að það á einnig við um ykkur. Ég vona að þið munið eiga hér góðan fund í dag. Ég þakka fyrir.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum