Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. janúar 2005 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Stofnsetning Landbúnaðarháskóla Íslands

 

Ágætu gestir og samstarfsfólk.

Ég býð ykkur öll velkomin til þessa fagnaðar, sem haldinn er í tilefni þess að nýr og glæsilegur fánaberi menntunar og rannsókna í landbúnaði hefur nú tekið til starfa, Landbúnaðarháskóli Íslands.  Vil ég fagna þessum merku tímamótum með ykkur hér í dag og óska íslenskum landbúnaði til hamingju með þessa nýju stofnun.

Landbúnaðarháskólinn er tilkominn með sameiningu þriggja stofnana landbúnaðarins: Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Garðyrkjuskólans á Reykjum og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Allar þessar stofnanir eiga sér langa og merka sögu og hafa gegnt lykilhlutverki í þróun þess gróskumikla landbúnaðar sem við búum við í dag.  Það starf sem þær hafa unnið í þágu landbúnaðarins er bæði mikið og merkilegt og fyrir það ber að þakka starfsfólki þeirra og forystumönnum fyrr og nú. 

Með sameiningu þessara stofnana verður til öflugur rannsóknaháskóli í þágu mikilvægs undirstöðuatvinnuvegar, landbúnaðarins.  Sóknarfæri hans á nýrri öld liggja í auknum rannsóknum, þekkingu og miðlun hennar til þeirra sem landbúnað stunda, en með þeim hætti má renna styrkum stoðum undir samkeppnishæfni atvinnuvegarins og afkomumöguleika bænda. Á síðustu árum og áratugum hefur menntakerfið í landinu tekið miklum breytingum. Þetta gerir nýjar kröfur til menntakerfis landbúnaðarins á framhalds- og háskólastigi auk þess sem endurmenntun og leiðbeiningar verða sífellt mikilvægari þáttur fræðslukerfisins.

Framtíðin kallar eftir meiri sameiningu krafta, betri samhæfingu hagsmuna, og auknu samstarfi þeirra stofnana sem landbúnaðurinn hefur yfir að ráða.  Vil ég leggja þunga áherslu á samstarf Landbúnaðarháskóla Íslands við aðrar fræðslu- og rannsóknastofnanir, innan landbúnaðarins sem utan.  Systurstofnun Landbúnaðarháskólans að Hólum í Hjaltadal hefur verið að vinna öflugt starf á sviði hestamennsku, ferðaþjónustu og fiskeldis og er það von mín að þessir skólar í sameiningu muni leggja traustan grunn að hinu fjölþætta hlutverki landbúnaðarins þegar horft er til framtíðar.  Einnig hef ég lagt áherslu á samstarf stofnana landbúnaðarins við hið almenna menntakerfi, ekki síst sterk tengsl við Háskóla Íslands, en bæði hann og menntamálaráðherra eiga fulltrúa í nýju háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands.      

Stórfelldar breytingar á viðskiptaumhverfi landbúnaðarins, breytingar á fjármagnsmarkaði, og aukin milliríkjaverslun með búvörur kalla á nýja þekkingu og áherslur í atvinnugreininni. Matvælaframleiðsla er sífellt að verða flóknari og tæknivæddari og kröfur til gæða og heilbrigði búvara aukast stöðugt. Þessar breytingar boða ný vinnubrögð hjá framleiðendum, úrvinnsluiðnaðinum, eftirlitsaðilum og stjórnsýslunni.

Bændur og landbúnaðurinn sem heild eru mikilvægustu vörsluaðilar landgæða. Bættur efnahagur og breytt lífsmynstur þjóðarinnar kallar á aukna notkun landsins til útiveru og búsetu fjarri þéttbýlinu.  Með þessu koma til nýjar kröfur til landbúnaðarins um þjónustu og nýtingu auðlindarinnar og færir  honum jafnframt meiri ábyrgð á vörslu hennar og þróun. Þetta útheimtir breytta áherslu í rannsóknum, menntun,  framleiðslu og þjónustu.

Ný tækni hefur á síðustu árum breytt öllu vinnuumhverfi  í landbúnaði og sú þróun mun halda áfram. Þetta  skapar nýja möguleika í öllum greinum landbúnaðar en eykur jafnframt kröfuna um þekkingu og færni þeirra sem við landbúnað starfa. Þá hefur alþjóðavæðing á öllum sviðum - einkum þó í viðskiptum, tækni og rannsóknum -óhjákvæmilega áhrif á landbúnaðinn og gerir þá kröfu að hann vinni í auknum mæli með erlendum samstarfsaðilum. Alþjóðleg samkeppni er um vinnuafl einkum þó í viðskiptum, vísindum og ýmsum sérfræðistörfum. Því verður landbúnaðurinn að bjóða samkeppnishæft vinnuumhverfi vilji hann laða til sín starfsmenn í fremstu röð.

Í nýjum jarðalögum sem samþykkt voru í maí á s.l. ári er hugtakið landbúnaður skilgreint sem “hvers konar varsla,  verndun,  nýting og ræktun búfjár, ferskvatnsdýra, lands og auðlinda  þess til atvinnu- og verðmætasköpunar,  matvælaframleiðslu og þjónustu sem tengist slíkri starfsemi. Þessi nýja og víðtæka skilgreining á landbúnaði er í samræmi við þá þróun sem orðið hefur á undanförnum árum og mun halda áfram á næstu árum og áratugum .Það er  hlutverk hins nýja Landbúnaðarháskóla Íslands að aðstoða þá sem við landbúnað starfa að fóta sig í þessu nýja umhverfi og nýta þau sóknarfæri sem það gefur svo afkoma þeirra sem atvinnugreinina stunda batni, möguleikum í nýtingu landgæða og náttúruauðlinda fjölgi og almennur hagvöxtur aukist. Hvernig þar tekst til varðar ekki landbúnaðinn einan heldur þjóðfélagið allt.

Stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands markar því merk tímamót í sögu landbúnaðarins og einnig í þróun háskólaumhverfisins á Íslandi. Ég vil á komandi árum sjá Landbúnaðarháskóla Íslands sem leiðandi afl  á sviði náttúruvísinda og fræðslu og eftirsóttan samstarfsaðila í íslensku háskólasamfélagi og á alþjóðavettvangi.

Starf þeirra þriggja stofnana sem nú hafa myndað Landbúnaðarháskóla Íslands er mikils metið, en nú hefur liði verið fylkt til nýrrar sóknar.  Við ykkur sem fyrrverandi starfsfólk þessara stofnana vil ég segja:  þið lögðuð grunninn, á ykkar góða starfi byggir framtíðin. Gildi vísinda- og menntastofnana er ekki fólgið í ytri umgjörð, húsakosti og búnaði,  heldur í þeim mannauði sem þær hafa yfir að ráða.  Ég hef því lagt á það áherslu við stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands að varðveita þennan mannauð. Ég vona að þetta hafi tekist og vil segja við ykkur sem starfsfólk hinnar nýju stofnunar: þið eruð Landbúnaðarháskóli Íslands.  Ég óska ykkur til hamingju með það mikilvæga og spennandi verkefni sem ykkur hefur verið falið.

Vil ég nota tækifærið og þakka forstöðumönnum hinna þriggja stofneininga Landbúnaðarháskóla Íslands, Magnúsi B. Jónssyni, rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Sveini Aðalsteinssyni, skólameistara Garðyrkjuskólans á Reykjum, og Þorsteini Tómassyni, forstjóra Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, fyrir vel unnin störf í þágu landbúnaðarins.     Úr ykkar höndum tekur Ágúst Sigurðsson rektor Landbúnaðarháskóla Íslands við góðu búi.

Góðir gestir, ég óska ykkur að lokum öllum til hamingju með Landbúnaðarháskóla Íslands og þau mikilvægu og spennandi verkefni sem ykkur hafa verið falin með tilkomu hans.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum