Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. maí 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ársfundur Iðntæknistofnunar 2005.

Ágætu ársfundargestir:

I.

Aðkoma ríkisins að rannsóknum og þróunarstarfi er oft til umræðu og sýnist sitt hverjum. Þá er jafnan spurt: - Hvers vegna er ríkið að reka rannsóknarstarfsemi sem e.t.v. væri jafnvel betur fyrir komið á almennum markaði ? Í þessu samhengi er gjarnan bent á að vöxtur atvinnulífsins sé fyrst og fremst háður krafti starfandi fyrirtækja - og því - að til sé frjósamur jarðvegur fyrir sprotafyrirtæki að vaxa úr. Í samræmi við þetta eigi aðkoma ríkis fyrst og fremst að vera sú: - að tryggja framboð áhættufjár til starfandi fyrirtækja - og að tryggja að til staðar sé nægilegt framboð styrkja úr samkeppnissjóðum til rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar.

Þessar áleitnu skoðanir eiga nokkurn rétt á sér. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að starfsemi sem ríkið hefur eitt sinn komið á fót haldi óbreytt velli um ókomin ár. Þetta vita starfsmenn Iðntæknistofnunar en þeir hafa haldið faglega á málum og ekki látið þessa umræðu trufla starfsemi stofnunarinnar heldur gætt þess eins að hún sé ætíð í fararbroddi í rannsóknum og þróunarstarfi fyrir íslenskt atvinnulíf.

Iðntæknistofnun hefur einnig verið meðvituð um að opinberar rannsóknir þurfa stöðugt að vera til endurskoðunar ef þær eiga að geta fullnægt framsæknustu rannsóknarþörfum hvers tíma og skilað hámarks afrakstri til íslensks samfélags. Þetta hefur kallað á mikinn sveigjanleika og vilja til að hverfa frá verkefnaframboði þegar hinn almenni markaður hefur verið tilbúinn til að taka við verkefnum stofnunarinnar.

Jafnframt þessu hefur Iðntæknistofnun tekið að sér ný verkefni sem aðrir hafa ekki getað sinnt, - t.d. vegna þess að:

1. tæknistig viðfangsefnanna var umfram getu annarra; - eða vegna þess

2. að ávinningur af rannsóknarstarfseminni var svo langt inni í framtíðinni að fjárhagslega borgaði sig ekki fyrir aðra að sinna slíkum verkefnum; - eða vegna þess

3. að ávinningurinn var fyrst og fremst tengdur samfélaginu í heild sinni en ekki hagsmunum einstakra fyrirtækja eða fjárfesta.

Það veigamikla hlutverk sem felst í því að sinna þessum þremur atriðum skýrir að mestu ástæður þess að ríkið hefur verk að vinna á sviði rannsókna og tækniþróunar – til hliðar við og - til stuðnings hinum almenna markaði.

II.

Það er á grundvelli þessa hlutverks sem iðnaðarráðuneytið mun áfram vinna að eflingu tæknirannsókna. Sameining Iðntæknistofnunar og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins er veigamikill þáttur í þeirri eflingu. Rannsóknarumhverfið er breytingum háð og eftir hart nær fjörutíu ára árangursríkan rekstur þessara stofnana er ástæða til að stokka upp og skilgreina stefnuna að nýju. Nýjar fræðagreinar hafa litið dagsins ljós og sá aðskilnaður sem áður var á milli starfsemi stofnananna hefur minnkað til muna.

 

Mörg hinna nýju fræðasviða ganga þvert á hefðbundin stofnanaskil. Sameining skyldrar starfsemi sem finna má innan vébanda stofnana ríkisins gefur starfseminni aukinn styrk og sóknarfæri sem annars myndu ekki bjóðast. Þannig á sameiningin að leiða til þess að fagleg geta aukist og að heildarávinningur af starfseminni verði meiri. Það er staðföst skoðun okkar í iðnaðarráðuneyti að sameining Iðntæknistofnunar og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins sé markviss leið til að efla hlutverk þeirra beggja og til að auka þjóðhagslegan ávinning starfseminnar.

III.

Tæknirannsóknir gegna stóru hlutverki í framtíðarsýn ráðuneytisins um atvinnumál. Atvinnuhættir hafa breyst mikið á undanförnum árum. Iðnaður hefur sótt á en aðrir hefðbundnir atvinnuvegir hafa látið undan síga. Iðnaður aflar nú um fjórðungs af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins og hefur sú hlutdeild tvöfaldast frá gildistöku EES samningsins árið 1994 - farið úr 12% í 24 % árið 2004.

 

Helming þessarar aukningar má rekja til útflutnings hátæknigreina iðnaðarins. Hátæknigreinar eins og upplýsingatækni, framleiðsla lyfja, lækningatækja og sérhæfðs vélbúnaðar standa nú undir tæpum 4% af landsframleiðslunni, en þær voru vart merkjanlegar í hagtölum fyrir áratug síðan. Þrátt fyrir að einhverjum finnist þetta góður árangur þá er hann ekki hagstæður ef borið er saman við önnur OECD lönd - þar sem hátækniiðnaðurinn leggur mun meira til landsframleiðslunnar en hér er.

 

Upplýsingar um stöðu þessara tæknigreina er að finna í nýrri skýrslu sem ber heitið: Hátækniiðnaður – þróun og staða á Íslandi, en gerð hennar var samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins og iðnaðarráðuneytis. Í skýrslunni eru dregin fram veigamikil rök fyrir því að áherslur okkar í atvinnumálum þurfi, í auknum mæli, að taka mið af þeim gríðarmiklu vaxtarmöguleikum sem hátæknigreinarnar geta fært okkur. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að sennilega er raunhæfasta leiðin til að efla fjölbreytni atvinnulífsins og bæta efnahagslega afkomu í framtíðinni sú að efla hátæknigreinarnar. Á grundvelli þessa þarf endurskipulagning á starfsemi rannsóknarstofnana iðnaðarráðuneytis að taka mið af þeim sóknarfærum sem hátæknin getur skapað fyrir íslenskt samfélag.

 

IV.

Samkeppnin um fjármagn til rannsókna og nýsköpunar fer jafnt og þétt harðnandi. Breytingarnar á rammaáætlunum Evrópusambandsins eru skýr dæmi um þetta. Nú er gerð krafa um mun stærri og flóknari alþjóðleg verkefni en var í fyrri áætlunum. Þetta hefur haft í för með sér að árangurslíkur íslenskra verkefna hefur versnað. Erfiðleikar okkar stafa fyrst og fremst af smæð rannsóknaeininga hér á landi og dreifðra rannsóknaráherslna.

Vísinda- og tækniráð hefur beitt sér fyrir breytingum á þessu. Að tilstuðlan ráðsins hafa hinir opinberu samkeppnissjóðir: Rannsóknarsjóður og Tækniþróunarsjóður lagt allt kapp á að í verkefnum sem þeir styðja sé virk samvinna á milli rannsókna háskólastofnana og opinberra rannsóknastofnana, og ekki síður að þessir tveir rannsóknarhópar sinni með afgerandi hætti þörfum atvinnulífsins fyrir rannsóknir og nýsköpun.

 

Þetta hefur í veigamiklum atriðum tekist og við úthlutun úr Tækniþróunarsjóði, sem er um það bil að ljúka, mun meira en helmingur af styrkjum sjóðsins renna til margs konar samstarfs fyrirtækja, háskóla og opinberra rannsóknastofnana. Þetta er ákaflega góðs viti og til marks um það að háskólarannsóknir séu orðnar mun virkari í nýsköpun atvinnulífsins en margir vilja vera láta.

IV.

Við skiljum öll mikilvægi þess að efla samstarf – háskóla; – rannsóknastofnana; og - fyrirtækja. Það er einmitt sú hugmyndafræði sem Háskóli Íslands hefur kynnt í sambandi við Tæknigarða í Vatnsmýrinni. Þar hefur verið unnið að því að tengja saman háskólakennslu og starfsemi opinberra rannsóknastofnana, t.d. með því að flétta saman kennslu og rannsóknir í samvinnu háskólans og rannsóknastofnana. Út á þetta sama hafa hugmyndir iðnaðarráðuneytis um framtíðarfyrirkomulag tæknirannsókna gengið.

 

Það er einlæg von mín að raunverulegt sambýli geti skapast milli Háskóla Íslands og Tækniháskólans, í einu samfelldu háskólahverfi, í Vatnsmýrinni. Þangað gætu rannsóknarstofnanir mögulega stefnt með starfsemi sína í framtíðinni þegar grundvöllur fyrir flutningi þeirra hefur skapast.

Þær hugmyndir sem nú eru uppi um staðsetningu Tækniháskólans eru ef til vill ekki þær heppilegustu að allra mati. Þrátt fyrir það megum við ekki missa sjónar á markmiðum okkar heldur verðum við að finna allar mögulegar leiðir til að efla samstarf rannsóknarstofnana og háskóla. Til mikils er að vinna.

 

V.

Ágætu ársfundargestir.

Eins og margir þekkja hafa áherslur iðnaðarráðuneytis í byggðamálum verið nátengdar stefnu stjórnvalda í vísindum og tækni. Með svokölluðum vaxtarsamningum hafa nýjar brautir verið ruddar fyrir framgang nýsköpunar í atvinnulífinu og eflingu hagvaxtar. Þar er byggt á sérkennum og styrkleikum byggðarlaganna. Meðal mikilvirkra verkfæra sem beitt hefur verið er samstarfsform í svokölluðum klösum.

Iðnaðarráðuneyti, Iðntæknistofnun með IMPRU innanborðs, Byggðastofnun og Vaxtarsamningur Eyjafjarðar – hafa starfað saman að kynningu á klösum og hefur það samstarf tekist ákaflega vel. Þökk hafi þeir sem að því verkefni stóðu fyrir frábært frumkvæði og framsýni.

Ég vil að lokum þakka starfsmönnum Iðntæknistofnunar fyrir vel unnin störf og ánægjulegt samstarf.

Takk fyrir.

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum