Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. maí 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ráðstefna um rafræna auðkenningu.

Góðir gestir,

Alþjóðlegt viðskiptaumhverfi hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum. Þessar breytingar eru af ýmsum toga, m.a. vegna alþjóðavæðingar og tilkomu Internetsins og rafrænna viðskipta.

Ekki eru mörg ár síðan menn töldu að „gamla hagkerfið" væri að líða undir lok. Um síðustu aldamót var „nýja hagkerfið" svonefnda á fleygiferð og mikill vöxtur hjá hugbúnaðar- og hátæknifyrirtækjum. Bjartsýnin var mikil og reyndar svo mikil að ekki virtist skipta svo miklu máli hvort fyrirtækin væru að hagnast eða ekki, markaðsvirði þeirra hækkaði samt sem áður. Það sem svo varð þekkjum við öll og óþarfi að rifja upp frekar.

Þrátt fyrir þessi tímabundnu skakkaföll má segja að kapphlaupið sem varð á sínum tíma hafi samt sem áður verið mjög til góðs. Sú staðreynd að menn veðjuðu á Netið sem lykilinn að framtíðarvelgengni fyrirtækja hefur skipt sköpum í þróun viðskipta á síðustu árum. Ekki einungis er Netið sem miðill orðinn mjög ódýr heldur er útbreiðsla hans á heimsvísu orðin mjög mikil. Á sama hátt og tækniþróunin er þannig að umbreyta heiminum hafa rafræn viðskipti smám saman verið að gjörbylta hefðbundnum viðskiptaháttum. Raunar segja margir að viðskipti milli einstaklinga og fyrirtækja á Netinu muni fljótt verða það mikil að hugtakið „rafræn viðskipti" muni hverfa. Sökum umfangsins verði þannig í náinni framtíð ekki lengur gerður greinarmunur á því sem talin hafa verið „hefðbundin viðskipti" annars vegar og „rafræn viðskipti" hins vegar.

 

 

Íslendingar hafa líkt og aðrir tekið Netinu opnum örmum. Er nú svo komið að notkun Netsins er hér einhver sú mesta í heiminum. Samkvæmt nýrri skýrslu World Economic Forum er Ísland í öðru sæti á lista yfir þjóðir heims ef litið er til þess hversu tilbúnar þær eru til að taka þátt í og haganýta sér upplýsinga- og samskiptatækni. Tilgangur þessa mats er sá að skilja betur áhrif upplýsinga- og samskiptatækni á samkeppnishæfni þjóða, en aukin samkeppnishæfni þjóðarinnar hefur einmitt verið eitt af höfuðmarkmiðum mínum frá því að ég tók við embætti viðskiptaráðherra. Enda þótt við Íslendingar höfum ætíð verið mjög ofarlega á blaði frá því fyrrgreindar mælingar hófust er þetta besti árangurinn sem við höfum náð til þessa.

 

Með auknu umfangi Netsins skapast einnig hættur. Á síðustu árum hafa öryggismál orðið meira áhyggjuefni manna en sem kunnugt er hafa endurtekið komið upp árásir á ýmis vefsetur fólks og fyrirtækja. Þá er Netið einnig orðið vettvangur fyrir ruslpóst, tölvuveirur og annan óhroða. Því er ljóst að ef framþróun á að verða þarf að finna leiðir til að bæta öryggi Netsins þannig að almenningur geti treyst á það í viðskiptum og daglegu lífi.

 

Gegn slíkum ógnum er ef til vill aðeins eitt svar þegar kemur að verslun og viðskiptum enda má segja að það atriði breytist seint þrátt fyrir allar tækniframfarir. Hér er ég að tala um að farsæl viðskipti manna á milli munu ávallt byggjast á trausti. Grundvöllur þess er vissan fyrir því að sá sem þú skiptir við sé örugglega sá sem hann segist vera. Slíkt getur verið vandkvæðum bundið þegar um rafræn viðskipti er að ræða og því hafa verið þróaðar ýmsar aðferðir til að menn geti á óvéfengjanlegan hátt gert grein fyrir því hver viðkomandi sé, án þess að þurfa raunverulega að hitta þann sem ætlunin er að skipta við. Hefðbundin aðgangsstjórnun með notkun notendanafna og lykilorða þykir því ekki lengur fullnægjandi til að tryggja öryggi. Kröfur dagsins í dag eru aðrar og meiri og snúast um rafræna auðkenningu þannig að hægt sé að sannreyna að tiltekinn aðili sé örugglega sá sem hann segist vera.

 

Stefna íslenskra stjórnvalda í þessum málum kemur fram í ritinu „Auðlindir í allra þágu" – stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004-2007. Þar kemur m.a. fram að stefna beri að því að notkun rafrænna skilríkja verði almenn og útbreidd þannig að unnt verði að bera með öruggum hætti kennsl á samskiptaaðila. Rafrænum undirskriftum og dulritun verði komið við eftir því sem við á. Þá beri ennfremur að stefna að opnum en stöðluðum markaði með rafræn skilríki og vottunarþjónustu, og dreifilyklakerfi verði einfalt og hagkvæmt í rekstri.

Eins og nærri má geta eru þessi markmið ekki einföld í framkvæmd né heldur ódýr. Stjórnvöld og atvinnulíf hafa undanfarin ár lagt mikla fjármuni í að byggja upp öflugt rafrænt samfélag. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur m.a. komið að þessum málum á vettvangi Tilraunasamfélags um rafræn viðskipti, Staðlaráðs og ICEPRO.

 

Góðir gestir,

Íslendingar eru framarlega á meðal þjóða heims á mörgum sviðum. Ég ber þá von í brjósti að á sviðum rafrænnar stjórnsýslu og rafrænna viðskipta munum við á næstu árum og áratugum standa í fararbroddi. Í því skyni, og til að vekja áhuga almennings, fyrirtækja og opinberra stofnana á þessum málum, mun ég vinna að framgangi þess að hér á landi verði árlega haldinn svokallaður „rafrænn dagur" (e-dagur), líkt og margar aðrar þjóðir gera. Þetta yrði gert til að hvetja ríki og sveitarfélög til dáða í að efla rafræna stjórnsýslu, og enn fremur til að hvetja almenning til að nýta sér í auknum mæli þær sjálfsafgreiðslulausnir sem þegar eru í boði, ásamt því að efla tiltrú hans á öryggi slíkrar þjónustu.

Við höfum alla burði til að vera í fremstu röð þjóða heims á þessu sviði. Við höfum ágæta innviði, mikinn metnað og nýjungargirni auk framúrskarandi fólks sem býr yfir mikilli þekkingu og hæfileikum. Alla þessa orku þarf að virkja og með því að almenningur, atvinnulíf og opinberir aðilar leggist öll á sömu sveif er ég þess fullviss að tækifæri tækninnar verði nýtt til að bæta íslenskt samfélag.

Ágætu ráðstefnugestir - með þessum ávarpsorðum lýsi ég ráðstefnu þessa um rafræna auðkenningu setta.

 

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum