Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. október 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

100 ára afmælishátíð Verzlunarskóla Íslands.

Forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson, góðir gestir. Til hamingju með daginn! Fyrr á þessu ári fögnuðu Íslendingar því að nú eru 150 ár liðin frá því að við fengum verslunarfrelsi, með lögum sem danska ríkisþingið samþykkti árið 1854 og tóku gildi ári síðar eða þann 1. apríl 1855. 50 árum eftir samþykkt laganna þ.e.a.s. árið 1904 héldu íslenskir verslunarmenn veglegt samsæti þar sem þeirra tímamóta var minnst og við það tækifæri flutti Brynjólfur H. Bjarnason kaupmaður ræðu og fjallaði um mikilvægi þess að stofnaður yrði verslunarskóli á Íslandi. Áður höfðu verið gerðar tilraunir til að koma slíkum skóla á fót en í þetta sinn sameinuðu Verslunarmannafélag Reykjavíkur og Kaupmannafélag Reykjavíkur krafta sína og árangurinn lét ekki á sér standa því Verzlunarskóli Íslands tók til starfa rúmu ári síðar eða haustið 1905. Af þessu má sjá að Verzlunarskóli Íslands hefur ávallt, eins og nafnið gefur til kynna, verið samofinn íslensku viðskiptalífi. Verzlunarskóli Íslands hefur allt frá stofnun skólans haft afar jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Íslenskir nemendur öðluðust fyrir tilstuðlan skólans ekki aðeins betri þekkingu á sviði verslunar- og skrifstofustarfa - sem kom sér vel fyrir verslun sem hafði um aldir verið borin uppi af erlendum kaupmönnum – hitt er ekki síðra að stúlkur jafnt sem piltar höfðu jafnan aðgang að skólanum. Allt frá upphafi hefur því verið hefð fyrir því að stúlkur stundi þar nám og gefi piltunum ekkert eftir. Má þar sem dæmi nefna að fyrsti dúx skólans var stúlka að nafni Lovísa Ágústa Fjelsted en hún varð síðar kennari við skólann og kenndi þar bæði ensku og vélritun. Ég ætla ekki að rekja sögu Verzlunarskóla Íslands neitt frekar hér enda hefur sú saga verið skrásett og gefin út eins og við heyrðum af hér áðan. Hins vegar er ekki hægt að láta hjá líða að minnast aftur á hin nánu tengsl sem ávallt hafa verið milli Verzlunarskólans og íslensks viðskiptalífs. Viðskiptaráð Íslands eins og samtök félaga, fyrirtækja og einstaklinga í íslensku atvinnulífi heita í dag, hefur verið bakhjarl og rekstraraðili skólans allt frá árinu 1922 og sinnt með þeim hætti því metnaðarfulla hlutverki sínu að vinna að hvers konar framförum sem bætt geta starfsskilyrði atvinnulífsins og aukið velmegun hér á landi. Margt hefur breyst á eitthundrað árum. Íslenskt samfélag hefur tekið stakkaskiptum og þróast úr því að vera algerlega háð gæftum og afkomu í sjávarútvegi og landbúnaði yfir í fjölbreytt atvinnulíf þar sem ekki síst hátækni og menntun þjóðarinnar hafa fleytt okkur í þá stöðu að vera einhver auðugasta velferðarþjóð veraldar. Verzlunarskóli Íslands hefur átt sinn þátt í umbreytingunni og á starfstíma sínum ávallt verið öflugur og framsækinn og í fararbroddi þeirra skóla sem bjóða upp á fjölbreytt nám sem svarar kröfum síns tíma. Þá er gaman að geta þess að ein af dætrum mínum stundaði nám við skólann og önnur hóf nám nú í haust. Ég þekki því þennan skóla all vel í gegnum persónulega reynslu, sem er með afbrigðum góð. Ég er ekki í vafa um að íslenskt þjóðfélag mun um langa framtíð njóta krafta og hæfileika þess velmenntaða æskufólks sem skólinn útskrifar á ári hverju. Ég þakka áheyrnina og vona að þið eigið áfram ánægjulegan dag.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum