Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. nóvember 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Íslensku vefverðlaunin 2005.

Ágætu samkomugestir.

Á undanförnum árum hafa átt sér stað stórkostlegar framfarir í upplýsinga- og fjarskiptatækni. Óhætt er þó að fullyrða að fæst okkar gætu hugsað sér að vera án þeirra þæginda og tækifæra sem Netið býður upp á, þegar við erum einu sinni komin á bragðið.

Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum beitt sér fyrir því að sem flestir landsmenn geti hagnýtt sér þá möguleika sem upplýsingatæknin gefur kost á. Í því skyni var stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið fyrst mótuð og kynnt árið 1996. Yfirmarkmið stefnunnar var það að Íslendingar yrðu í fararbroddi þjóða heims í nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar. Hefur sú stefnumörkun varðað veginn til aukinnar nýtingar tækninnar, almenningi og atvinnulífi til heilla.

Segja má að okkur hafi gengið nokkuð vel að framfylgja þessu háleita og metnaðarfulla markmiði. Er nú svo komið að notkun upplýsingatækni er hér einhver sú mesta í heiminum. Samkvæmt nýlegri skýrslu World Economic Forum er Ísland í öðru sæti á lista yfir þjóðir heims ef litið er til þess hversu tilbúnar þær eru til að taka þátt í og haganýta sér upplýsinga- og samskiptatækni.

Ný stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum upplýsingasamfélagsins endurspeglar þennan árangur að nokkru leyti. Sem fyrr er stefnt að því að Ísland verði í fararbroddi þjóða í nýtingu upplýsingatækni en skerpt er á áherslum. Í stað þess að kílóbæti og kerfi, vélbúnaður og hugbúnaður séu miðpunktur umræðunnar, er horft til þess hvernig íbúar þessa lands geti haft ávinning af tækninni til að bæta líf sitt og auka hagsæld samfélagsins.

Ekki er þó staðar numið í uppbyggingu fjarskiptakerfa landsins enda skapaðist einstakt tækifæri við sölu Símans til að verja auknum fjármunum í þann málaflokk. Í fjarskiptaáætlun sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið vor var mörkuð stefna stjórnvalda í háhraða- og farsímavæðingu landsins auk fjölmargra annarra þátta sem skipta okkur máli og horfa til framtíðar. Með því að stofna fjarskiptasjóð og láta renna til hans hálfan þriðja milljarð króna af söluandvirði Símans er staðfestur sá vilji ríkisstjórnarinnar að skapa hér hin bestu skilyrði til að nýta þá auðlind, sem í upplýsingatækninni felst.

Að lokum vil ég fá að minnast á fyrirhugaðan viðburð sem tengist vef- og upplýsingamálum mjög. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, í samráði við verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið og aðra aðila, hefur ákveðið, í því skyni að vekja áhuga almennings, fyrirtækja og opinberra stofnana á þessum málum, að hér á landi verði haldinn svokallaður „rafrænn dagur" (e-dagur), líkt og margar aðrar þjóðir gera. Þetta yrði gert til að hvetja ríki og sveitarfélög til dáða í að efla rafræna stjórnsýslu, og enn fremur til að hvetja almenning til að nýta sér í auknum mæli þær sjálfsafgreiðslulausnir sem þegar eru í boði, ásamt því að efla tiltrú á öryggi slíkrar þjónustu. Stefnt er að því að rafrænn dagur verði haldinn í upphafi næsta árs.

Góðir gestir.

Ég vil að lokum nota tækifærið og þakka fyrir þetta góða framtak sem veiting Íslensku vefverðlaunanna er. Ég er ekki í vafa um að viðurkenning af því tagi sem Íslensku vefverðlaunin eru hafa verið verðlaunahöfum mikil hvatning til frekari dáða og svo mun eflaust verða með þá sem hljóta hnossið í þetta sinn.

Takk fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum