Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. desember 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp ráðherra á fundi Vísinda- og tækniráðs.

Forsætisráðherra, menntamálaráðherra, fjármálaráðherra, sjávarútvegsráðherra, landbúnaðarráðherra, ráðsmenn og gestir.

Mér telst til að þetta sé sjötti fundur Vísinda- og tækniráðs – og ályktunin sem liggur fyrir fundinum er vitnisburður um að ýmsu hefur verið áorkað frá því ráðið kom fyrst saman. Ályktunin ber því jafnframt vitni að framundan eru brennandi verkefni. Mig langar til þess að snerta á nokkrum þáttum.

Það verkefni sem nú brennur hvað heitast er staða þekkingariðnaðarins. Eins og fram kemur í ályktuninni hafa hátæknigreinar verið í mikilli sókn og þess er getið að frá 1990 hafa um 20% allra nýrra starfa orðið til í hátæknifyrirtækjum, sem veita nú um 6.400 manns vel launuð störf. Það er gleðiefni að vöxtur fyrirtækja sem byggja á hagnýtingu á niðurstöðum rannsókna og tækniþróunar er hraður og búast má við að hlutverk þeirra í efnahagsþróuninni fari vaxandi.

Þrátt fyrir þessi fögru fyrirheit er önnur hlið á málinu – ekki jafn jákvæð. Forráðamenn hátæknifyrirtækja hafa greint mér frá því að önnur lönd hafi farið á fjörurnar við þá og boðið þeim mun betri kjör en hér eru í boði. Skilaboðin sem ég fæ eru að vissulega hafi lækkun á tekjuskatti fyrirtækja skipt mjög miklu máli svo og aðrar skattalegar breytingar sem gerðar hafa verið á síðustu árum - en betur megi ef duga skal. Þetta viti þær þjóðir sem hafa falast eftir því að hátæknifyrirtækin flyttu starfsemi til sín.

Á grundvelli þessa tel ég eitt allra brýnasta verkefni Vísinda- og tækniráðs að taka málefni hátæknigreina fastari tökum en hingað til hefur verið gert. Ef fleiri íslensk hátæknifyrirtæki en þegar hafa flutt starfsemi sína í heild eða hluta til útlanda stefna sömu leið gæti endurnýjun atvinnulífsins verið stefnt í voða. Því þurfa starfsnefndirnar að taka stöðu og framtíðarhorfur hátæknigreina sérstaklega á dagskrá sem allra fyrst. Fyrir liggur ítarleg greining á hátækniiðnaðinum sem var samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytisins, Samtaka iðnaðarins og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Einnig liggur fyrir framtíðarsýn sprotafyrirtækja og fyrirtækja í upplýsingaiðnaði.

Í ályktuninni segir að Vísinda- og tækniráð telji mikilvægt að búa íslenskum fyrirtækjum slík skilyrði hér á landi að þau efli og auki rekstur sinn. Ráðið beinir því til viðkomandi ráðherra að vinna að eflingu hátækniiðnaðar og sprotafyrirtækja. Þetta er í lagi svo langt sem það nær - en það nær of skammt. Mjög mikið er í húfi og því ætlast ég til þess að ná megi samstöðu um mun ákveðnari og framsæknari ályktanir um hátækniiðnaðinn fyrir vorið.

Að öðru.

Í ályktuninni kemur fram að stefnt er að sameiningu Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Frumvarp til laga um Íslenskar tæknirannsóknir, þar sem starfsemi stofnananna tveggja er sameinuð, er tilbúið í ráðuneytinu. Frumvarpið hefur hins vegar ekki verið lagt fram þar sem ég tel rétt að skoða víðtækari samþættingu atvinnuþróunarstarfsemi undirstofnana ráðuneytisins og ná þannig enn meiri samlegðaráhrifum og auknu bolmagni.

Það er ljóst að atvinnulífið hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum og uppbygging þess er í raun orðin önnur en sú sem stuðningskerfi stjórnvalda hefur tekið mið af. Nýjar áherslur og breytt skipan rannsóknastofnana ríkisins er því ákaflega mikilvægt verkefni en ný heildar- og framtíðarsýn varðandi skipan atvinnuþróunarstarfsemi er ekki síður mikilvæg.

Ég tel því nauðsynlegt að fram fari heildarendurskoðun á atvinnuþróunarstarfsemi ríkisins, þar sem litið verði til stefnu og markmiða, aðferða, tækja og skipulags. Reynt verði að nálgast viðfangsefnið með almennum hætti, þannig að áherslan sé ekki á einstakar stofnanir og hugsanleg vandamál þeirra. Ég tel að meðal annars þurfi að fella betur saman atvinnuþróunar- og nýsköpunarmál í dreifbýli og þéttbýli.

Sumir hafa sagt að aðgerðir í byggðamálum séu varnaraðgerðir – og það kann að vera rétt að einhverju leyti - en áherslan er engu að síður á framsækna atvinnustefnu sem byggir á framförum í vísindum og tækniþróun. Þannig endurspeglast áherslur og ályktanir Vísinda- og tækniráðs til dæmis skýrt í stefnumótun ríkisstjórnarinnar í byggðamálum.

Á grundvelli þess sem ég hef nú rakið stefni ég að því að mótuð verði heildstæð langtímastefna í nýsköpun og atvinnuþróun fyrir málaflokka iðnaðarráðuneytisins. Stefnan taki mið af þróun atvinnulífsins og miði að eflingu starfsskilyrða þess. Stefnan þarf að fela í sér greiningu á því hvaða almenna og sérhæfða aðstoð ríkið geti veitt til að skapa góð starfsskilyrði - og horfa þarf til stefnumótunar annarra ríkja í þessu sambandi.

Staðsetning rannsóknastofnana er hluti af slíkri heildstæðri stefnumótun enda skiptir aukin samvinna og samvirkni rannsóknastofnana, háskóla og atvinnulífs lykilmáli ef takast á að hámarka árangur og nýtingu fjármagns. Ég tek þess vegna heils hugar undir þau hvatningarorð sem fram koma í ályktun Vísinda- og tækniráðs um að hagsmunaaðilar samræmi áform um uppbyggingu þekkingarþorps á Vatnsmýrarsvæðinu.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum