Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. janúar 2006 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Lækkun matarverðs og landbúnaðarstefnan


Verslunarfrelsi og vernd – hver er hagur neytenda?

Góðir gestir.

Ég vil byrja á því að þakka Samtökum verslunar og þjónustu og Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga fyrir að boða til þessa fundar. Umræðuefnið, áhrif landbúnaðarstefnunnar og aðgerðir til lækkunar matarverðs, hefur verið nokkuð til umræðu á liðnum vikum, eða allt síðan að Samkeppniseftirlitið kynnti í desembermánuði skýrslu samkeppnisyfirvalda á Norðurlöndunum sem tilgreindi m.a. að verð á matvöru hér á landi væri að meðaltali um 42% hærra en það er í löndum ESB.

Forsaga þessarar skýrslu er sú að norræn samkeppnisyfirvöld ákváðu haustið 2004 að skoða nánar aðstæður á matvörumörkuðum landanna. Skipaður var vinnuhópur með þátttakendum frá öllum Norðurlöndunum sem átti að skilgreina og rannsaka samkeppnishömlur á norrænum matvörumörkuðum og koma með tillögur um það hvernig mætti efla virka samkeppni á umræddum mörkuðum. Í tengslum við skýrsluna kynnti Samkeppniseftirlitið líka áherslur sínar varðandi samkeppni á matvörumarkaði. Að mati þess er mikilvægt að horfa til tveggja meginþátta. Annars vegar er brýnt að huga að hugsanlegum samkeppnishindrunum sem tengjast aukinni samþjöppun og fákeppni á matvörumarkaði. Hins vegar er nauðsynlegt, að mati eftirlitsins, að huga að skyldum stjórnvalda til að búa í haginn fyrir samkeppni, neytendum til hagsbóta. Samkeppniseftirlitið hefur skilgreint áherslur sínar nánar í sex liðum.

Af hálfu Samkeppniseftirlitsins hefur komið fram að það hyggist beita almennum eftirlitsheimildum sínum til að ryðja úr vegi hugsanlegum ólögmætum samkeppnishindrunum. Einnig að það þurfi að kanna hvort forsendur séu til sérstakra aðgerða til að tryggja betri aðgang fyrirtækja að matvörumarkaði með vörur sínar, þannig að auðveldara verði fyrir birgja að fá hillupláss í verslunum. Samkeppniseftirlitið leggur einnig áherslu á að bregðast þurfi við hvers konar samruna á matvörumörkuðum með ítrustu rannsóknum á samkeppnislegum áhrifum. Loks mun Samkeppniseftirlitið beina því til skipulags- og byggingaryfirvalda að aðgangur fyrirtækja að verslunarhúsnæði og byggingarlóðum verði sem greiðastur í þágu virkrar samkeppni. Dæmi hafa verið um það á síðustu árum að í skipulagi nýrra hverfa sé bara gert ráð fyrir einni matvælaverslun, en slíkt fyrirkomulag hamlar samkeppni.

Eftirlitið mun eiga fundi með hagsmunaaðilum og stjórnvöldum til að kynna þeim skýrsluna og til að móta nánar forgangsröðun í áherslum sínum. Ég fagna þessari vinnu Samkeppniseftirlitsins í tengslum við skýrslunna og mótun áherslna þess.

Ég veit að ekki mun standa á stjórnvöldum að fara með málefnalegum hætti yfir það hvernig lækka megi matvælaverð hér á landi. Forsætisráðherra tiltók til að mynda í áramótaávarpi sínu í sjónvarpi að fátt skipti hag fjölskyldunnar meira máli en verðlag á brýnustu nauðsynjum og því verði ekki við það unað til framtíðar að matvælaverð á Íslandi væri langt umfram það sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Hefur hann því ákveðið að setja á fót nefnd með fulltrúum stjórnvalda, aðilum vinnumarkaðarins og samtökum bænda til að skoða og skilgreina ástæður þessa verðmunar, og koma með tillögur um úrbætur.

Ég tel mikilvægt að þessi mál séu skoðuð gaumgæfilega því sem fyrr segir ber margs að gæta í því samhengi. Athyglisvert er, til dæmis, að verð á matvörum og óáfengum drykkjarvörum hefur hækkað minna á Norðurlöndunum en í Evrópulöndunum 15 á árunum 1999-2004, samkvæmt norrænu skýrslunni. Þar sker Ísland sig þó úr og hafa verðhækkanir hér á landi verið umfram meðaltalshækkanir á bæði hinum Norðurlöndunum og í Evrópulöndunum á þessu tímabili. Þetta tel ég að þurfi að skoða og leita skýringa á.

Margt getur orsakað hærra matvöruverð hér á landi en í nágrannalöndunum. Hvað samþjöppun á matvörumarkaði varðar kallast á sjónarmið hagkvæmra innkaupa og stærðarhagkvæmni, og fjölbreytni og samkeppni. Íslenski markaðurinn er tiltölulega lítill og flutningskostnaður hærri hér en annars staðar. Samþjöppun í smásöluverslun er hvergi meiri í Evrópu en á Norðurlöndunum og þróunin hér á landi er enn í átt til aukinnar hlutdeildar lágvöruverðsverslana. Þá bera tvö innkaupa- og vöruhús ægishjálm yfir aðra slíka aðila hér á landi. Þrátt fyrir að einhverjir kynnu að ætla að slíkt gæti skilað sér í minni flutningskostnaði og lægra verði er verðmunur á milli landa enn þetta mikill. Þetta verður að skoða nánar. Og verðmunurinn einskorðast ekki bara við landbúnaðarvörur.

Virðisaukaskattur á matvæli spilar hér að einhverju leyti inn í enda er hann 14% hér á landi, sem er í meðallagi ef miðað er við hin Norðurlöndin, en til að mynda er enginn slíkur skattur á matvæli í Bretlandi og hann er aðeins 1,3% í Írlandi. Þrátt fyrir það er matvælaverð á Írlandi reyndar meðal þess hæsta sem þekkist í löndum Evrópusambandins. Má í þessu samhengi geta þess að í nýlegri skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar er bent á að kjarajöfnunaráhrif lækkunar matarskatts séu afar lítil umfram það sem almenn lækkun virðisaukaskattsins myndi skila. Vörugjöld á matvæli eru svo annar þáttur sem að mínu mati mætti huga að því að draga úr enda virkar oft tilviljanakennt hvaða vörur bera vörugjöld og hverjar ekki. Leiðarljósið hér á landi ætti að mínu mati að vera það að einfalda og samræma gjaldtöku og álögur á matvælum ásamt því að huga að því hvaða aðgerðir skila sér best til neytenda.

Þá má einnig nefna það að á Íslandi ríkir velsæld og erum við t.d. í öðru sæti á eftir Noregi á lista Sameinuðu þjóðanna þar sem ríkjum heims er raðað eftir lífskjörum og ríkidæmi. Velsæld og verðlag haldast oft að og má þannig sjá í norrænu skýrslunni að verð á matvöru í Noregi er að meðaltali um 38% hærra en það er í löndum ESB. Ef litið er til þess hversu hátt hlutfall af útgjöldum heimilanna fara í matarkaup má sjá að hér á landi fóru árið 2004 16,3% af ráðstöfunartekjum í matar- og drykkjarkaup. Á Spáni, en þar var matvælaverð lægst í Evrópusambandsríkjunum, var hlutfall þetta mun hærra en hér á landi. Beinn samanburður segir því ekki alla söguna.

Nauðsynlegt er að skapa atvinnulífinu áfram góð skilyrði til framsækni og eflingar, jafnframt því sem neytendavernd er tryggð. Þessu hafa stjórnvöld verið að vinna að og er nú svo komið að við erum í fimmta sæti yfir þau lönd þar sem mest frelsi ríkir í viðskiptum. Höfum við hækkað um þrjú sæti frá fyrra ári. Þróunin verður jafnframt að vera á þann veg að atvinnulífið verði skilvirkt og njóti trausts. Í því skyni verður að leita leiða til að halda úti eðlilegum, almennum og sanngjörnum leikreglum sem leiða til virkrar samkeppni, án þess að opinbert eftirlit hefti eðlilegan framgang fyrirtækja. Í því skyni voru s.l. vor samþykkt ný samkeppnislög ásamt lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda. Með lögunum hefur eftirlit með samkeppnishömlum á markaði verið eflt og störf samkeppnisyfirvalda gerð skilvirkari en áður. Ný stofnun, Samkeppniseftirlit, fer nú með eftirlitið en stofnunin sinnir einungis eftirliti með samkeppnishömlum þar sem eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum fellur nú undir Neytendastofu. Fjárframlög til samkeppniseftirlits hafa jafnframt verið stóraukin. Með stofnun Neytendastofu og embættis talsmanns neytenda hefur verið stigið stórt skref í þágu neytenda. Talsmanni neytenda er ætlað að standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda og stuðla að aukinni neytendavernd. Neytendastofa mun vinna að stefnumótun á sviði neytendamála auk þess sem stofnunin skal beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á sviðinu. Þá mun Neytendastofa annast söfnun, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði neytendamála. Bind ég vonir við að þessar nýju stofnanir veiti okkur öflugt liðsinni og komi með þarfar ábendingar um það sem betur má fara í þjóðfélaginu, neytendum til hagsbóta.

Íslensk stjórnvöld hafa um áratuga skeið – án tillits til þess hvaða stjórnmálaflokkar hafa setið við völd hverju sinni – talið nauðsynlegt að styðja við innlendan landbúnað með einhverjum hætti vegna byggðastefnu, fæðuöryggis og annarra þátta. Kristallast þetta m.a. í því að stuðningur hins opinbera við landbúnað er óvíða meiri en hann er hér á landi. Á síðustu 15 árum hefur hins vegar verulega verið dregið úr stuðningi við innlenda búvöruframleiðslu. Þótt ýmsum hafi þótt hægt ganga við þær breytingar verður að hafa í huga að landbúnaður er víða um land enn mikilvæg atvinnugrein og byggja úrvinnslugreinar og þjónustuaðilar þar afkomu sína á aðstæðum í þeirri grein. Eðlilegt er því að þeim er starfa í landbúnaði og tengdum greinum sé gefinn hæfilegur aðlögunartími. Til þess að setja þetta í tölulegt samhengi má nefna að útgjöld ríkisins til landbúnaðar sem hlutfall af heildarútgjöldum þess hafa farið úr 8,6% árið 1990 í 3,8% árið 2003. Samkvæmt Hagstofu Íslands fóru útgjöld hins opinbera til landbúnaðarmála, ef miðað er við verðlag ársins 2003, úr tæpum 17,5 milljörðum króna árið 1990 í ríflega 11,3 milljarða króna árið 2003. Bændur hafa að auki hagrætt umtalsvert hjá sér og má sjá það á mikilli fækkun búa samhliða stækkun þeirra. Landbúnaðurinn hefur því verið að ganga í gegnum miklar breytingar og er að aðlagast nýjum og breyttum tímum.

Í þessu samhengi má ennig geta þess að nú er nýlokið ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Hong Kong. Þótt niðurstöður þess fundar megi eflaust túlka á ýmsa vegu, er engu að síður ljóst, að Íslendingar koma til með að þurfa að breyta stuðningi sínum við innlendan landbúnað. Hið sama á við um þær Evrópuþjóðir sem við helst berum okkur saman við. Líklegt er að draga þurfi verulega úr – eða jafnvel afnema – allan framleiðslutengdan stuðning. Áhrifin verða væntanlega þau að innlend búvöruframleiðsla muni þurfa að laga sig enn frekar að aðstæðum á markaði. Stuðningur stjórnvalda mun því þurfa að byggjast á öðrum forsendum en hingað til. Þær forsendur sem ég staldra við í þessu samhengi eru byggðasjónarmið, landnýting, umhverfissjónarmið og þættir er varða hollustu, hreinleika og rekjanleika afurða.

Þótt ég nefni þessi atriði hér vil ég að það komi skýrt fram að hér er aðeins verið að tæpa á atriðum sem óhjákvæmilega koma til skoðunar í þessu samhengi. Orð mín ber ekki að skilja svo að ríkisstjórnin hafi nú þegar mótað tillögur um – eða tekið ákvörðun um – hvernig stuðningi við landbúnað verður háttað í breyttu umhverfi.

Góðir gestir.

Á heildina litið má segja að Ísland og Íslendingar séu stöðugt að auka þátttöku sína í alþjóðavæðingu heimsins, á grunni bættra starfsskilyrða og aukinnar samkeppnishæfni. Þetta hefur skilað sér í meiri verðmætasköpun, atvinnu og bættum lífskjörum. Áfram þarf að halda á þessari braut og búa þarf allar atvinnugreinar undir breytt viðskiptaumhverfi. Ég tel að við séum að stíga rétt skref í þessum efnum hvað varðar þróun matvælaverðs, annars vegar með nefnd þeirri sem á að skoða ástæður hins mikla verðmunar og hins vegar með yfirlýsingu Samkeppniseftirlitsins þess efnis að það hyggist í starfi sínu á næstu misserum leggja ríka áherslu á að fylgjast með samkeppnisháttum á matvörumarkaðnum.

Takk fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum