Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. apríl 2006 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ráðstefna um vísindagarða

Ágætu ráðstefnugestir:

I.

Á liðnum árum hefur iðnaðarráðuneytið lagt áherslu á að til verði heildstæð og öflug stefnumótun um atvinnu- og byggðamál. Þetta er gert á grundvelli þess megin markmiðs að auka samkeppnishæfni atvinnulífs, svæða og landa.

Í umfjöllun OECD um samkeppnishæfni svæða er rík áhersla lögð á að samfella sé á milli atvinnu- og byggðamála – og í því sambandi verði sérstaklega unnið að því :

- að auka samstarf atvinnulífs, háskóla og rannsóknastofnana;

- að byggja upp vísindagarða;

- að efla klasa-samstarf.

Segja má að þessi atriði séu kjarninn í sókn atvinnulífs og svæða til aukinnar samkeppnishæfni og vaxtar, í framtíð þar sem byggða- og svæðamál eru orðin samofin stefnu stjórnvalda í málum er varða atvinnuþróun, rannsóknir og nýsköpun og myndi því eina heild.

Iðnaðarráðuneytið hefur lagt áherslu á þessi atriði sem m.a. endurspeglast í svæðisbundnum vaxtarsamningum, þar sem áhersla er lögð á sérstöðu og styrkleika svæða og samkeppnishæfni atvinnulífs. Þetta er í samræmi við áherslur erlendis, í smáum og stórum hagkerfum

II

Það eru þó ekki allir sammála um þessar áherslur og sennilega hefur ekki farið fram hjá neinum að sumir þingmenn hafa verið ósparir á yfirlýsingar um frumvarp ríkisstjórnarinnar um Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Reyndar ber frumvarpið ekki það heiti – heldur: Frumvarp til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Hið rétta heiti lýsir innihaldi frumvarpsins nokkuð vel, en í hnotskurn fjallar það um framsæknar hugmyndir um starfsumhverfi framtíðarinnar – eins og er yfirskrift þessarar ráðstefnu.

Með frumvarpinu er að því stefnt að öll aðkoma iðnaðarráðuneytis að tæknirannsóknum, nýsköpun og atvinnuþróun verði endurskipulögð, samræmd og felld í eina stofnun, en tilgangur þess er að efla sóknarkraft og tryggja hámarks árangur starfseminnar.

 

Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður til við sameiningu Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Starfssvið þessara þriggja stofnana er hliðstætt en skarast að nokkru leyti enda er hlutverk þeirra allra að vinna að nýsköpun og atvinnuþróun í þágu samkeppnisstöðu landsins og bættra lífskjara. Hvatinn að sameiningunni er fyrst og fremst þörf fyrir sterkari rannsókna- og starfseiningar og vaxandi krafa um sveigjanleika og árangur.

 

Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður þekkingarsetur, sem erlendis eru almennt nefnd Centers of Expertice, - þar sem vísinda- eða tæknigarðar skipa veglegan sess í kjarna starfseminnar. Í þekkingarsetri tengjast saman tæknirannsóknir með tengsl við rannsóknir í háskólum og háskólasetrum annarsvegar og þróunarstarfsemi fyrirtækja hinsvegar. Þar verður miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem fást við hverskonar nýsköpunarvinnu. Þar verður að finna frumkvöðlasetur sem aðstoðar sprotafyrirtæki og frumkvöðla við þróun nýsköpunarhugmynda og veitir þeim aðstoð við að vaxa fyrstu rekstrarárin. Þá verður unnið að greiningum á stöðu og þróun atvinnulífs og byggðalaga, m.a. til að unnt verði að bregðast við aðsteðjandi vanda hverju sinni með öllum þeim tækjum sem þekkingarsetrið Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun búa yfir.

 

III.

Efling starfseminnar úti á landi er ein af forsendum þessara breytinga. Þekkingarsetur á landsbyggðinni verða þungamiðja atvinnusóknar sem einkum munu byggja á helstu styrkleikum atvinnulífsins á viðkomandi svæði og getu þess til að ná árangri á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Einkum er horft til uppbyggingar þekkingarsetra á Akureyri, Ísafirði og á Egilsstöðum (Miðausturlandi), enda hefur styrking landshlutakjarna á þessum stöðum verið eitt af markmiðum byggðaáætlunar stjórnvalda. Háskólasetur Vestfjarða og Þekkingarnet Austurlands mynda nú þegar vaxtargrunn í þekkingarsetrum. Háskólinn á Akureyri og sú starfsemi sem fer fram í Rannsókna- og nýsköpunarhúsinu og enn frekari vöxtur rannsókna og nýsköpunarstarfsemi í væntanlegum Vísindagarði er sú umgerð sem mun mynda kjarna starfseminnar á Norðurlandi.

 

Það er ljóst að með þessum tillögum vill iðnaðarráðuneytið blása til nýrrar sóknar í rannsóknum og atvinnuþróun um allt land. Slíkrar sóknar og endurnýjunar er þörf enda eru framfarir örar, og til að njóta áfram bættra lífskjara verða að koma til nýjar áherslur sem atvinnuþróunin getur byggt á.

IV.

Því miður eru einhverjir sem loka augunum fyrir þessari staðreynd og leggja mikið á sig til að verja núverandi ástand. En hvers vegna ætli að svo sé ?

Tvær skýringar, tvær mjög andstæðar skýringar, eru augljósar:

Annars vegar sú skoðun að beita eigi ríkisstyrkjum til að viðhalda óbreyttu atvinn- og mannlífi á landsbyggðinni, en tækniþróun og nýsköpun sé bara innantómt hjal.

Hins vegar sú skoðun að ríkið eigi að hætta allri aðkomu að þróun og framförum í landinu og láta markaðsöflunum það eftir að móta starfsumhverfi atvinnulífsins og ráða örlögum borgaranna.

 

V.

Hvað sem þessu líður þá fagna ég því innilega að hér skuli haldin ráðstefna um Vísindagarða og hið mikilvæga hlutverk þeirra í að móta frjótt umhverfi fyrir rannsóknir og nýsköpun í atvinnulífinu. Iðnaðarráðuneytið hefur stutt framkomin áform um Vísidagarða við Háskólann á Akureyri og er það einlæg von mín að þeir verði fljótlega að veruleika eins og að er stefnt.

Með þessum orðum lýsi ég rástefnu um vísindagarða, starfsumhverfi framtíðarinnar setta.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum