Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

2. maí 2006 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

20 ára afmæli Verkmenntaskóla Austurlands

Ágætu gestir

Tilefni þessarar samkomu er 20 ára afmæli Verkmenntaskóla Austurlands. Þó nú sé haldið upp á þessi tímamót í starfsemi skólans á hann sér í raun mun eldri sögu. Segja má að rætur iðnnáms hér í Neskaupstað liggi allt aftur til ársins 1943 en þá hóf Iðnskóli Austurlands kennslu í iðnfræðum og var skólinn framan af rekinn af Iðnaðarmannafélagi Neskaupstaðar.

Allt er breytingum undirorpið og er skólinn gott dæmi um þá þróun sem orðið hefur á íslensku skólakerfi undanfarna áratugi. Má þar nefna afnám landsprófs og gagnfræðaprófs ásamt breytingum á grunn- og framhaldsskólum, m.a. með tilkomu verkmenntaskóla og fjölbrautaskóla.

Sérstaða Verkmenntaskóla Austurlands felst einkum í því að hann er eini skólinn á Austurlandi sem býður upp á verklegt nám. Er í skólanum boðið upp á almennt iðnnám svo og námsbrautir til stúdentsprófs.

Verkmenntaskólinn hefur ávallt verið í góðum tengslum við atvinnulífið og m.a. boðið upp á námskeið sem sérstakalega eru tengd því.

Er þetta samstarf af hinu góða því það fer vart á milli mála að einn mikilvægasti þáttur þess að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs er aukin menntun. Fyrir atvinnulífið skiptir máli að menntunin hefur verið sveigjanleg og fylgt framförum. Stuðningur atvinnulífsins við framþróun verkmenntunar er því mjög mikilvæg, en milli skóla og atvinnulífs má segja að liggi þráður gagnkvæmra hagsmuna - þar sem annar getur ekki án hins verið.

 

Nú þegar framkvæmdir í þjóðfélaginu eru meiri en nokkru sinni, vex þörfin fyrir iðnaðarmenn að sama skapi. Í allri þessari uppbyggingu gegnir verkmenntun miklu hlutverki við að mennta fólk til góðra starfa. Því þarf að mínu mati að leggja enn frekari áherslu á hvers konar verkmenntun í landinu, því án þeirrar þekkingar og færni sem af þeirri menntun hlýst, munum við ekki ná þeim árangri sem þjóð sem vonir okkar standa til að verði.

Það skiptir einnig miklu máli að þeir sem vilja búa áfram á Austurlandi, geti öðlast þar góða menntun og fengið vinnu við hæfi og er þýðing Verkmenntaskólans í því samhengi augljós, auk þeirrar uppbyggingar sem nú á sér stað í Fjarðarbyggð á sviði stóriðjuframkvæmda.

Framfarir í atvinnulífinu eru hraðari en áður og líftími þekkingar og vöru er stöðugt að styttast. Þetta setur aukinn þrýsting á iðn- og verkmenntunina og gerir kröfu um stöðuga endurnýjun. Skólakerfið hefur lagt sig fram um að bregðast við þessu og er Verkmenntaskóli Austurlands engin undantekning þar á, enda um að ræða öfluga menntastofnun með skýra stefnu og metnaðarfull markmið. Skólinn hefur þannig sinnt því hlutverki að stuðla að símenntun almennings á svæðinu og gegnir því mikilvægu og fjölþættu hlutverki við eflingu byggðar.

 

Ég vil að lokum flytja kveðjur frá þingmönnum kjördæmisins, um leið og ég óska skólanum, starfsfólki hans og nemendum til hamingju með daginn og velfarnaðar í framtíðinni. Er það einlæg von mín að Verkmenntaskóli Austurlands skólinn muni halda áfram að vaxa og dafna og vil ég raunar fullyrða að hann geti horft með eftirvæntingu til ókominna ára.

Ég þakka áheyrnina.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum