Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. maí 2006 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Málþing um breytta atvinnustefnu á Vestfjörðum

Ágætu Vestfirðingar og aðrir málþingsgestir.

Ég vil byrja á að óska Vestfirðingum til hamingju með glæsilega sýningu, sem nú stendur yfir í Perlunni hér í Reykjavík.

Ég lýsi ánægju með það að vera boðið að vera með ykkur hér í dag á málþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga um breytta atvinnustefnu á Vestfjörðum. Atvinnumál eru mér jafnan ofarlega í huga og er það nokkuð sem ég tel mig hafa fengið í arf frá föður mínum, sem var bóndi á Lómatjörn allan sinn starfsaldur, en fékkst einnig við sveitarstjórnarmál, var oddviti í meira en 20 ár. Á þeim tíma var byggð höfn á Grenivík og fiskvinnsla í framhaldi af því. Ég minnist þess að það kom alltaf glampi í augun á honum þegar umræðan færðist inn á svið uppbyggingar og framfara.

Góðir málþingsgestir,

Hér á landi hafa orðið miklar framfarir á s.l. 10 árum og er Ísland nú á meðal þróuðustu landa heims þar sem velmegun ríkir. Sameinuðu þjóðirnar settu okkur í 2. sæti á eftir Noregi, þegar kemur að því að meta lífsgæði þegnanna.

Ég verð mikið vör við undrun og ákveðna aðdáun hjá kollegum mínum erlendis, þegar talið berst að þeim framförum sem hér hafa orðið.

Þar kemur margt til. Til þess að nefna nokkur atriði vil ég byrja á því að segja að nýting okkar á auðlindum bæði til lands og sjávar hafa skipt þar miklu máli. Enda hefur það verið stefna allra ríkisstjórna, sem ríkt hafa síðustu áratugi, að nýta orkuauðlindir þjóðarinnar til atvinnuuppbyggingar. Nú orðið gera hinsvegar allir sér grein fyrir þeim takmörkunum sem slík nýting sætir af náttúrufarslegum ástæðum.

Hvað auðlindir sjávar varðar þá hefur Íslendingum tekist að byggja hér upp arðbæran sjávarútveg, sem notar þá fullkomnustu tækni sem völ er á. Á því sviði erum við í fararbroddi þegar horft er til þjóða heims.

Þann dag sem ég steig fæti inn í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti sem ráðherra málaflokkanna komu byggðamál til ráðuneytisins, en höfðu áður heyrt undir forsætisráðuneyti. Í þeirri byggðaætlun sem ég lagði fyrir Alþingi og gilti fyrir árin 2002 – 2005 var slegið á nýja strengi. Það var lögð áhersla á nýsköpun og aukna þekkingu á landsbygginni og einnig var í fyrsta skipti lögð áhersla á ákveðin kjarnasvæði sem sérstaklega skyldu efld.

Í framhaldi af því var hafin vinna við vaxtasamninga og eru tveir komnir til framkvæmda þ.e.a.s. á Eyjafjarðarsvæðinu og á Vestfjörðum. Þessum samningum fylgir fjármagn af hálfu stjórnvalda og hafa þau ákveðna forystu á undirbúningstímanum en síðan taka heimamenn við, enda byggir starfið á samstarfi sveitarfélaga, einkaaðila og ríkisins. Fjöldi annarra vaxtasamninga eru í undirbúningi. Atvinnuþróunarfélögin eru í lykilhlutverki í þessu samstarfi og er þetta liður stjórnvalda í svæðisbundinni atvinnuþróun.

Landið okkar er fagurt og frítt. Það er strjálbýlt og við höfum búið við fólksflutninga frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðis. Í þeim efnum er nokkuð að rofa til, þó einstaka staðir eigi enn í erfiðleikum og þá eru það atvinnumálin sem valda vandanum.

 

Uppskeran í atvinnutækifærum á landsbyggðinni hefur verið í hinum gömlu og grónu greinum, landbúnaði og sjávarútvegi. Þær greinar munu ekki viðhalda byggð á kmandi árum þó svo að vissulega séu tækifæri í nýsköpun einnig þar, einkum í sjávarútvegi. Því þarf að horfa til nýrra átta.

 

 

 

 

 

Ég leyfi mér að fullyrða að frumvarpið um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, oftast kallað Nýsköpunarmiðstöð Íslands er eitt veigamesta framfaraspor sem lengi hefur verið stigið í þágu atvinnuþróunar hér á landi - þar er brotist undan stöðnuðu 40 ára gömlu fyrirkomulagi og áherslur og forgangsröðun skilgreind upp á nýtt – í þeim tilgangi að ná. MEIRI ÁRANGRI.

 

 

II.

Áður en frumvarpið var lagt fram voru þær hugmyndir sem lágu til grundavallar kynntar fyrir fulltrúum flestra hagsmunaaðila. Um 40 kynningarfundir voru haldnir og var útfærsla hugmyndanna í stöðugri endurskoðun allan tímann, þar sem leitast var við að taka tillit til þeirra skoðana sem fram komu.

Málið var því undirbúið betur og víðar leitað samráðs en oftast er gert. Undantekningarlítið var einhugur um grunnhugmyndina, þ.e. að þörf væri á heildstæðari stefnumótun um nýsköpun og atvinnuþróun. Í þessu frumvarpi er einungis fjallað um verkefni sem heyra undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, en allir vita að atvinnuþróunin er ekki sérverkefni iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta heldur fléttast málaflokkar margra ráðuneyta þar saman. Það er seinni tíma mál að fella allt þetta í einn farveg.

 

Það hefur að mínu mati staðið atvinnuþróuninni fyrir þrifum að ekki hefur verið nægileg samstaða á milli hagsmunaaðila um það hvernig að málum skuli staðið. Sameiginleg stefnumótun myndi bæta þar úr. Mikilvægt skref í þessa átt var þó stigið með tilkomu vaxtarsamninga eins og ég hef áður nefnt þar sem ábyrgð á stefnumótun og framkvæmd var flutt til heimamanna.

III.

Annar veigamikill þáttur í þessari nýskipan er starfsemi þekkingarsetra. Hér er byggt á hugmynd sem mótuð hefur verið af menntamálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti síðustu árin en fyrirmyndin er þó upprunin hjá OECD og best útfærð hjá Finnum og nefnist á ensku: Centres of Expertise". Vísinda- og tækniráð hefur einnig haldið þessu starfsformi á lofti og mælt með því.

 

Orðið þekkingarsetur vísar til nábýlis og samstarfs háskólakennslu og rannsókna; rannsóknastofnana; þjónustu við nýsköpunarstarfsemi og frumkvöðla; atvinnuþróunarstarfsemi; starfsemi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja og ekki síst þekkingarfyrirtækja. Slíkt nábýli og samstarf kallar fram samlegðaráhrif með betri nýtingu á mannauði og stuðlar að meiri árangri en unnt væri að ná ef starfsemin væri aðskilin.

Einkum er horft til uppbyggingar þekkingarsetra á Ísafirði, Akureyri og á Egilsstöðum (Miðausturlandi), enda hefur styrking landshlutakjarna á þessum stöðum verið eitt af markmiðum byggðaáætlunar stjórnvalda. Háskólasetur Vestfjarða og Þekkingarnet Austurlands mynda nú þegar kjarna vaxtar í þekkingarsetrum á þessum stöðum. Háskólinn á Akureyri og sú starfsemi sem fer fram í Rannsókna- og nýsköpunarhúsinu og enn frekari vöxtur rannsókna og nýsköpunarstarfsemi í væntanlegum Tæknigarði er sú umgerð sem mun mynda kjarna starfseminnar á Norðurlandi.

 

Það er skoðun mín að efling þess þekkingarseturs sem nú þegar er vísir að á Ísafirði sé eitt vegamesta hagsmunamál Vestfirðinga til að ná auknum sóknarþunga í atvinnuþróunarstarfsemi sinni.

IV.

Það hefur yfirleitt ekki verið ágreiningur um það að samræma þurfi betur atvinnuþróunarstarfið – tengja skilda starfsemi saman og efla getuna til að takast á við stærri og veigameiri verkefni.

Það hefur heldur ekki verið ágreiningur um það að taka þurfi upp breytta atvinnustefnu þar sem tekið er mið af líklegri framtíðarþróun. Í þessu samhengi hefur verið fundið að því - að þótt atvinnulífið á höfuðborgarsvæðinu sé á fullri ferð inn í framtíðina þá sitji landsbyggðin eftir og tækniþróunin og nýsköpunin nái ekki þangað.

 

Spurningin sem vaknar við þetta er því:

Hvernig á að bregðast við þessu - og hvernig er hægt að hvetja atvinnulífið á landsbyggðinni til að sinna í ríkari mæli rannsóknum og þróunarstarfi ?

Það eru fleiri en ein leið til þess - en iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hafa sín tæki til að beita á sem markvissastan hátt í þágu þessa.

Þessi tæki eru:

· hagnýtar rannsóknir í þágu atvinnulífsins,

· stuðningsþjónusta við frumkvöðla og fyrirtæki,

· rekstur frumkvöðlaseturs fyrir nýjar viðskiptahugmyndir,

· þjónusta við atvinnuþróunarfélög

· rannsóknir á þróun atvinnulífs og byggða -- og

· sjóðir í þágu nýsköpunar og atvinnuþróunar - á mismunandi stigum.

 

Ég á erfitt með að trúa öðru en að flestir sjái þýðingu þess að samræma þessi tæki og stilla þeim saman í atvinnusókninni eins og gert er í frumvarpinu um Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

 

 

V.

Það er fagnaðarefni að atvinnuþróunin er til umfjöllunar á þessu málþingi og að í brennidepli er nauðsyn þess að taka upp breytta atvinnustefnu. Vestfirðingar hafa tekið afgerandi forustu um mótun eigin atvinnustefnu og haft ábyrgð á framkvæmd hennar í samstarfi við iðnaðarráðuneytið og fleiri.

Þær áherslur sem iðnaðarráðuneytið hefur mótað til að efla atvinnuþróunarstarfið á landsbyggðinni eru skýrar og eru til þess fallnar að styrkja starfsemi atvinnuþróunarfélaganna og bæta heildarárangur þess sameiginlega hagsmunamáls okkar allra sem er - að styrkja atvinnulífið og jafna lífskjör á Íslandi.

Takk fyrir.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum