Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

2. ágúst 2006 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ráðstefnan: Fifth International Charr Symposium, í Öskju 2. ágúst 2006

Ágætu ráðstefnugestir.

Ég vil hefja mál mitt á því að bjóða alla ráðstefnugesti velkomna og þá sérstaklega erlenda vísindamenn. Ég óska Háskóla Íslands, Hólaskóla, Veiðimálastofnun og Náttúrustofu Kópavogs til hamingju með ráðstefnuna og þá daga sem nú fara í hönd. Vísindin efla alla dáð og þessi ráðstefna, sem er sú fimmta sinnar tegundar, boðar ný tækifæri, nýja sýn og mikilvægan vettvang samræðu vísindamanna.

Ísland er álfu vorrar yngsta land. Ísland býr við mikla sérstöðu hvað náttúruna varðar, hreinleika hennar og fegurð. Ísland býr einnig við mikla sérstöðu í heilbrigði dýra, hvort heldur eru búfjárstofnarnir okkar eða fiskar í ám og vötnum. Þennan líffræðilega fjölbreytileika þarf að sjálfsögðu að virða og varðveita og heilbrigði búfjárstofnanna.

Ein dýrmætasta og sérstæðasta auðlind sem Íslendingar eiga og skiptir búsetu sveitanna miklu eru árnar og vötnin. Við höfum búið við mjög sterka löggjöf um lax- og silungsveiði í áratugi, sem var endurskoðuð á síðasta þingi.

Bleikjan er verðugur fulltrúi íslensks vatnalífs. Líffræði hennar er mjög merkileg og þar rís hvað hæst fjölbreytileiki stofna og afbrigða sem hafa þróast í aldanna rás í sérstæðri íslenskri náttúru. Þingvallavatn, hið tæra og hreina vatn eins og blátt auga sannleikans, er undraheimur bleikjunnar; það sama má segja um hið undurfagra Mývatn.

Bændur landsins hafa miklar nytjar af bleikju, bæði netaveiðum og sportveiði. Fjórði hver Íslendingur stundar stangaveiði í ám og vötnum. Ennfremur er vaxandi bleikjueldi þjóðinni mikilvægt. Því er það mjög mikilvægt að efla rannsóknir og auka þekkingu á bleikju og lífi í vötnum almennt. Hér hafa margvíslegar rannsóknir og þróunarvinna með bleikju skilað miklu á síðustu árum. Í því sambandi er alþjóðlegt samstarf afar mikilvægt, það endurspeglar þessi ráðstefna.

Bleikjan er um margt tákn hreinleika og fegurðar náttúrunnar og er einkennisfiskur heimskautasvæða. Aukin þekking á líffræði norðurslóða er afar mikilvæg, t.d. vegna hugsanlegra veðurfarsbreytinga, því mun þessi ráðstefna og ykkar mikilvæga starf skila horft til framtíðar.

Ég lýsi því yfir að ráðstefnan er sett.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum