Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. október 2006 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Fyrsti þingfundur 3. október 2006

Hæstvirtur forseti alþingis, góðir landsmenn

Núverandi ríkisstjórn er, - eins og fyrri ríkisstjórnir í þessu stjórnarsamstarfi -, ríkisstjórn nýsköpunar, frjálslyndis og alhliða framfara. Ríkisstjórnin stefnir að bættum lífskjörum alls almennings og vaxandi velmegun í sterku og kröftugu efnahagskerfi, menningarlífi og þjóðlífi í öllum byggðum landsins.

Samstarfsflokkarnir í ríkisstjórninni hafa staðið fyrir róttækum umbótum og nýsköpun í samfélaginu, og þetta starf hefur skilað miklu til allrar þjóðinnar. Árangurinn má til dæmis sjá af mikilli fjölgun starfa í útrás, hátækni og nýsköpun.

Alþingi kemur nú saman til funda þegar ljóst er að nýlegar aðgerðir stjórnvalda eru byrjaðar að skila árangri. Þessar aðgerðir stefna að því að hægja á og auka stöðugleika og efnahagslegt jafnvægi á næstu mánuðum.

Ríkisstjórnin stendur á styrkum og stöðugum grunni þeirra miklu framfara og umbóta sem hún hefur staðið fyrir og mótað hafa algerlega nýtt umhverfi í efnahags- og viðskiptamálum og í lífskjörum, atvinnu- og menningarlífi í landinu.

Alhliða árangur Íslendinga á síðustu árum hefur vakið verðskuldaða athygli erlendis.

Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, á verulegan hlut að þessu öllu. Árum saman hefur hann barist fyrir mikilvægum framfaramálum sem skilað hafa öllum almenningi miklum árangri. Nú er stund til þess að þakka Halldóri allt hans mikla og glæsilega starf fyrir íslensku þjóðina.

Það er ævinlega svo að róttækar breytingar kalla fram ný, - jafnvel áður óþekkt -, viðfangefni sem þarf að leysa. Árangur á einu sviði getur raskað aðstæðum í öðrum málaflokki og þá þarf að bregðast við því.

Auðvitað á þetta við um þær miklu samfélagsbreytingar sem orðið hafa á landi hér á síðari árum. Þjóðin hefur jafnvel séð dæmi þess að reynt sé að nota mikilvæg umbótamál sem hömlulausa sérhyggju.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins á síðastliðnu sumri bera vitni um sanngirni og umbótastefnu ríkisstjórnarinnar. Samkomulag sem gert var við samtök aldraðra og lífeyrisþega ber að sama brunni.

Nú er unnið að marktækum áfanga varðandi verðlag á matvörum, öllum almenningi til hagsbóta. Að því máli eiga bændur landsins og afurðastöðvarnar mikilvægan þátt, öðrum til fyrirmyndar. Aðgerðirnar miða að sameiginlegum hag allrar þjóðarinnar.

Nú verða einnig kaflaskil í varnar- og öryggismálum þjóðarinnar með nýju samkomulagi við Bandaríkjamenn.

Við göngum nú til móts við nýja tíma á þessu mikilsverða sviði. Ákvarðanir um varnarmál og alþjóðleg verkefni ber jafnan að móta eftir vandaðasta undirbúning og trúnaðarsamráð í réttbærum stofnunum.

Á því alþingi sem nú hefur hafið störf verður sem fyrr unnið að margháttuðum umbótum í formi löggjafar og annarra þingmála.

Framsóknarmenn munu innan ríkisstjórnarinnar áfram leggja áherslu á vandaða umbótavinnu öllum landsmönnum til heilla, - til dæmis í heilbrigðis- og tryggingamálum, utanríkis- og alþjóðamálum, umhverfis- og skipulagsmálum, í félagsmálum og í landbúnaðarmálum.

Sama er að segja um viðskiptamál og iðnaðar- og orkumál. Nýsköpun á þessum sviðum er forsenda framfara í verðmætasköpun, í ráðstöfun verðmætanna og í mótun lífskjaranna.

Nú er framundan mótun stefnu og ákvarðanaferlis fyrir framtíðina á sviði orkunýtingar og náttúruverndar í landinu. Þetta verkefni snertir alla en er leitt af iðnaðarráðherra að því er lýtur að atvinnuþróuninni.

Íslendingar vilja stefna að þjóðarsátt um þessi mikilvægu mál, eftir því sem slíkt verður unnt. Einkum þarf að halda áfram því starfi sem þegar er hafið að undirbúningi fyrir samfellda heildaráætlun til framtíðar um nýtingu og vernd auðlindanna. Meginstefnan verður áfram sú að ráðdeild og aðgát, varúð og virðing ráði ferðinni.

Stjórnsýslu á sviði orkumála var breytt fyrir nokkrum árum þegar fyrstu skref í mótun raforkumarkaðar voru stigin, og síðan var sú stefna mótuð að öll fyrirtæki fylgi almennum reglum í íslensku viðskiptaumhverfi.

Ríkisstjórnin hefur farið í fylkingarbrjósti í frjálslyndri umbótastefnu. Í mörgum málum hefur þurft að taka rösklega og fast á, enda þekkir þjóðin þær deilur sem oft kvikna á stjórnmálavettvangi.

Þannig hefur þjóðin að undanförnu orðið vitni að ótrúlegum rangfærslum og misskilningi um undirbúning Kárahnjúkavirkjunar. Í þessu máli hefur ljóslega komið fram hvar átakalínurnar liggja, annars vegar frjálslynd framfarasókn með ráðdeild og virðingu fyrir landsins gæðum en hins vegar ótrúlegar úrtölur og afturhald.

Árangur ríkisstjórnarinnar er ótvíræður og því hverfa stjórnarandstæðingar í örvæntingu að því óráði að sá fræjum ótta og kvíða, efasemda og samsæriskenninga. En þessi viðleitni hittir aðeins þá sjálfa fyrir.

Samstarfið í ríkisstjórninni og milli stjórnarflokkanna er gott, málefnalegt og farsælt. Það skilar þjóðinni miklu. Þetta samstarf miðar áfram að frjálslyndri umbótastefnu sem snertir öll svið þjóðlífsins. Manngildi og sanngirni, nýsköpun og framþróun þekkingarþjóðfélagsins með vísindum og menningu eru þar í fyrirrúmi.

Gerbreyttu samfélagi og efnahagslífi fylgja ný verkefni sem kalla að á hverjum tíma. Þau ber að leysa af ráðvendni og réttlætiskennd. Okkur ber að miðla lífsgæðum og velferð af sanngirni til allra landsmanna.

Hæstvirtur forseti, góðir landsmenn.

Upphaf þingstarfa er alltaf ný byrjun, og nú hafa breytingar orðið í ríkisstjórninni. Við munum móta starfið áfram á grunni sömu meginsjónarmiða sem fyrr.

Framsóknarflokkurinn er umbótaafl á miðju íslenskra stjórnmála og ber fram hófsamlega félagshyggju, þjóðhyggju og samvinnu.

Erindi Framsóknarmanna við íslensku þjóðina hefur alltaf verið mikilvægt. En erindi Framsóknarmanna við þjóðina er brýnna nú en nokkru sinni fyrr, á öld opnunar og hraðfleygra breytinga, á öld alþjóðavæðingar og vaxandi samskipta og viðskipta hvers konar. Nú skiptir mjög miklu máli að ábyrgt afl á miðju stjórnmálanna hafi mikil og alhliða áhrif áfram, meðal annars til að efla þjóðarvitund og þjóðarmetnað Íslendinga.

Framundan er að staðfesta árangur umbótastefnunnar til frambúðar. Staðfesta þarf langvarandi stöðugleika og varanlegt öryggi í efnahagslífi og þjóðlífi og tryggja framfarasókn og umbótastefnu.

Framsóknarflokkurinn er það þjóðmálaafl sem getur tryggt þetta. Það er sögulegt verkefni Framsóknarmanna að standa vörð um fenginn árangur og að stefna áfram að markmiðum um gróandi þjóðlíf á Íslandi.

Þakka áheyrnina



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum