Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. mars 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Afhending Vaxtarsprotans 2007

Ágætu samkomugestir:

Það tendur yfir mikil tækni- og nýsköpunarveisla hér í Kópavogi þessa dagana. Stórsýningin Tækni og vit er þungamiðja atburðanna . Umfjöllunarefnið er fjölmargt er snertir þekkingu, tækniþróun og nýsköpun, sem eru undirstöður farsællar þróunar atvinnulífsins og þar með efnahagslegra framfara. Þar er staða nýsköpunar dregin fram, en mikilvægt er að nýsköpun á Íslandi verði ætíð í fremstu röð, en til þess þurfum við leggja okkur fram við að bæta þau ytri skilyrði sem stjórnvöld móta og jafnframt að efla vitund atvinnulífsins um gildi rannsókna og þróunar.

Veiting viðurkenninga á grundvelli mats jafningja til þess sem skarar framúr er til þess fallin að hvetja aðra til dáða. Viðurkenningin beinir sjónum að þeim sem hana hlýtur, dregur fram leiðir að árangri sem tókust vel og verður þannig hvatning og fyrirmynd fyrir aðra til að sækjast eftir álíka árangri.

Vaxtarsprotinn er viðurkenning sprotafyrirtækja til þess fremsta úr þeirra hópi. Það eru Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Rannís sem standa að þessari viðurkenningu og fulltrúar þeirra skipa dómnefnd, sem sér um skipulag, kynningu og val á þeim fyrirtækjum sem hljóta viðurkenningar og nafnbótina ?Vaxtarsproti ársins." Hver sem er getur sennt dómnefnd tilnefningu en dómnefndin metur fyrirtækin á grundvelli þriggja viðmiða:

Í fyrsta lagi að um sé að ræða sprotafyrirtæki, þ.e. að það verji meira en 10% af veltu til rannsókna og þróunar að meðaltali tvö síðastliðin ár og að heildarveltan á fyrra árinu sé á bilinu 10 milljónir kr. til einn milljarður.

Í öðru lagi er vöxtur fyrirtækisins metinn sem aukning á veltu þess síðustu tvö árin.

Í þriðja lagi þurfa frumkvöðullinn eða frumkvöðlarnir að vera að störfum í fyrirtækinu og fyrirtækið má ekki vera að meirihluta í eigu - stórfyrirtækis, - fyrirtækis á aðallista kauphallar eða vera sjálft á aðallist kauphallar.

Það fyrirtæki, sem tilnefnt er og sýnir mestan hlutfallslegan vöxt samkvæmt framangreindum viðmiðum, hlýtur nafnbótina ?Vaxtarsproti ársins" Fyrirtækið fær til varðveislu farandgrip með áletrun þar sem ?Vaxtarsproti" viðkomandi árs er skráður. Auk þess fær fyrirtækið sérstakan verðlaunaskjöld til eignar.

Þá verða einnig veittar sérstakar viðurkenningar þeim tveimur sprotafyrirtækjum sem hafa sýnt mestan hlutfallslegan vöxt, annars vegar í flokki fyrirtækja sem velta 10 til 100 milljónum kr. og hins vegar 100 til 1000 milljónum króna.

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Viðurkenningin "Vaxtarsproti ársins" er nú veitt í fyrsta skipti og er það mér sértök ánægja að tilkynna ykkur ? ágætu samkomugestir ? að nafnbótin "Vaxtarsproti ársins 2007" fellur í skaut fyrirtækisins Marorku ? og vil ég biðja fulltrúa þess Dr. Jón Ágúst Þorsteinsson að koma hingað og taka við verðlaunagripnum.

- - - Fyrirtækið Marorka er sprottið úr umhverfi háskóla. Upphaf þess má rekja til ársins 1997 þegar Jón Ágúst hóf að þróa aðferðir og tölvukerfi til að lágmarka olíunotkun skipa. Þetta tengdist doktorsverkefni hans í verkfræði við háskólann í Álaborg. Fyrirtækið Marorka var í framhaldi þess stofnað í júní 2002 með þremur starfsmönnum sem síðan hefur fjölgað í 24. Þetta þróunarferði Marorku hefur því tekið um tíu ár, sem sennilega er dæmigert fyrir mörg íslensk sprotafyrirtæki.

Lausnir Marorku byggja á stærðfræði og aðferðafræði hennar til þess að ná fram bestu orkunýtingu fjölmargra vélbúnaðarhluta. Afurðir Marorku hafa vakið verðskuldaða athygli, bæði hér á landi og í útlöndum, enda fer orkukostnaður stöðugt vaxandi og hámörkun orkunotkunar í skipum er trúlega ein besta og farsælasta leiðin til að spara útgjöld og lágmarka útblástur mengandi gastegunda.

Afurðir Marorku eru nú þegar í mögum íslenskum skipum. Meðal þeirra eru skip sem fyrirtækin Þormóður rammi, Grandi, Gjögur og Bergur-Huginn gera út, auk Hafrannsóknastofnunar. Þá er nýlokin gerð samnings við Landhelgisgæsluna um að nýjustu vöru Marorku verður komið fyrir í varðskipi Landhelgisgæslunnar sem til stendur að smíða.

Afurðir Marorku eru alþjóðlegar og ekki bundin veið tiltekna gerð skipa. Stóri markaðurinn er því í útlöndum og hefur Marorka náð þar góðri fótfestu. Meðal öflugra viðskiptavina Marorku í útlöndum má nefna fyrirtæki á borð við Maersk, Lauritsen, Wilhelmsen og fleiri útgerðir á Norðurlöndum, sömuleiðis eru kaupendur í Kanada og í Bandaríkjunum.

"Stefnan hefur alltaf verið út á við" segir Jón Ágúst í nýlegu blaðaviðtali - og bætir við: "Við erum með í höndunum það sem kallað er í iðnaðinum "born global" ? fyrirtækið hefur aldrei verið hugsað eingöngu á heimamarkaði, eða nærmarkaði, heldur er það frá byrjun hugsað sem alþjóðlegt fyrirtæki."

Jón Ágúst - ég tel að engum dyljist að þú og fyrirtæki þitt eruð verðugir handhafar Vaxtarsprotans fyrir árið 2007.

Til hamingju !!

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum