Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. mars 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Aðalfundur Samtaka Verslunar og Þjónustu

Forsætisráðherra, fundarstjóri og aðalfundargestir,

Það er mér heiður að ávarpa ykkur sem ráðherra og ánægja sem fyrrverandi starfsmaður samtaka ykkar.

Í upphafi þessa mánaðar urðu miklar lækkanir á virðisaukaskatti, vörugjöldum og tollum á ýmsum mikilvægum matvörum. Auk þess urðu sambærilegar lækkanir á húshitun, gistiþjónustu, veitingaþjónustu, bókum, ritföngum og tímaritum og geisladiskum með tónlist. Miðað var að því að algengar verðlækkanir til neytenda yrðu um 7 % á matvöru, en þegar allt kæmi til alls yrði hér um lækkanir að ræða á matvöruliðum sem gætu numið um 9-11 % eða svo, og um 2 og hálfu stigi í vísitölu neysluverðs.

Mikil vinna hefur verið lögð í þessar breytingar af hálfu verslunarfyrirtækjanna, enda ljóst að mikil fyrirhöfn fylgir breytingum af þessu tagi. Sjálfsagt hafa einhvers staðar orðið tafir og mistök eins og gengur, en það er full ástæða til þess af hálfu stjórnarvaldanna að þakka verslunarfyrirtækjunum og Samtökum verslunar og þjónustu fyrir virkt samstarf og jákvæða afstöðu og áhuga á því að láta þessar breytingar takast sem allra best fyrir allan almenning.

Á þetta vil ég leggja áherslu hér og nú, um leið og við viðurkennum öll að nú er aðeins allra fyrsta reynsla fengin um þetta mikilvæga og óvenjulega verkefni. Þetta er mikilvæg og góð reynsla sem fengist hefur.

Verslun og þjónusta skipa sífellt stærri sess í atvinnulífi landsmanna og hagkerfi Íslands. Hlutdeild þjónustunnar í landsframleiðslu að verslun meðtalinni er 67% og hefur hlutdeild hennar aukist um 14 prósentustig frá 1973. Með slíka hlutdeild er þjónustan grundvöllurinn að velferð framtíðarinnar og skilningur meðal almennings fer vaxandi á því að verslun og þjónusta skila vaxandi virðisauka til allrar þjóðarinnar. Stór hluti þeirrar útrásar íslenskra fyrirtækja sem hvað mest hefur borið á undanfarin misseri er í þjónustuviðskiptum. Útflutningur þjónustu í utanríkisviðskiptum okkar verður sífellt mikilvægari.

Aðrar atvinnugreinar, sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður hafa í stjórnsýslunni sérstök ráðuneyti sér til halds og trausts, en þjónustustarfsemi hefur ekki sambærilega stjórnarstofnun út af fyrir sig. Við endurskoðun stjórnarráðsins er þetta meðal umfjöllunarefna, en víða hafa komið fram hugmyndir um sameiningu atvinnuvegaráðuneytanna.

Í umræðum um atvinnulífið hefur oft komið fram að fákeppni ríki á hinum og þessum mörkuðum og þetta skapi óheppilegar aðstæður og hættu á samráði. Þetta er í hnotskurn vandi okkar fámenna þjóðfélags og má segja að á flestum sviðum atvinnulífs sé þessi staða uppi eða einhver áberandi einkenni fyrir hendi. Endurskoðun samkeppnislaga hefur farið fram að frumkvæði viðskiptaráðuneytisins og frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum var nýlega afgreitt á Alþingi. Samtök atvinnulífsins hafa gagnrýnt ýmislegt í frumvarpinu og hefur verið reynt að koma til móts við sjónarmið þeirra í meðförum Alþingis.

Rannsóknasetur verslunarinnar sem starfar í tengslum við Háskólann á Bifröst hefur nú starfað nokkurn tíma og er með margvíslegum verkefnum að skapa sér sess í íslensku þjóðfélagi. Þetta rannsóknasetur varð til af þeirri þörf verslunarinnar að fá betri upplýsingar um greinina en fyrir lá í opinberum gögnum en þau miðast að verulegu leyti við skattheimtu. Jafnframt tekur setrið að sér verkefni af ýmsum toga sem snerta verslun og neytendur. Þannig tók Rannsóknarsetrið þátt í að meta gildi þess að hefja birtingu á sk. neysluviðmiði fyrir Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, og nú er unnið að verkefni sem ætlað er varpa ljósi á stöðu starfsmannamála í greininni og hvort auka megi atvinnuþátttöku eldri borgara og öryrkja í verslunum. Þetta verkefni er unnið fyrir þau samtök sem hér funda í dag, Samtök atvinnulífsins, VR og Félagsmálaráðuneytið. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið styrkti stofnun Rannsóknarseturs verslunarinnar og rekstur þess fyrstu árin. Ég tel að þetta hafi verið gott skref og notadrjúgt fyrir verslun í landinu sem m.a. geti stuðlað að upplýstri umræðu um málefni greinarinnar.

Ég óska Samtökum verslunar og þjónustu heilla og vænti þess að mikilvægt samstarf samtakanna við Iðnaðar-og viðskiptaráðuneyti megi áfram verða öllum heilladrjúgt.

Þakka áheyrnina.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum