Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. mars 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Ársfundur Orkustofnunar

Orkumálastjóri, góðir ársfundargestir.

Það er mér mikil ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér í dag á ársfundi Orkustofnunar. Breytt skipulag og áherslur í orkumálum á undanförnum árum hafa haft í för með breytingar á starfsemi og verkefnum Orkustofnunar, sem og iðnaðarráðuneytisins. Á þessum breytingatímum hefur mikið mætt á stofnuninni en hún staðið sig með sóma, jafnt í að aðlaga sig þeim breytingum sem orðið hafa, og eins í þeim nýju verkefnum sem stofnuninni hafa verið falin. Það er mikilvægt að hafa öfluga fagstofnun til að annast stjórnsýsluverkefni á sviði orku- og auðlindamála og að vel takist til við framkvæmd nýrra laga á þessum sviðum.

En fleiri breytingar eru í farvatninu. Sú stefna hefur verið mörkuð að færa ýmis stjórnsýsluverkefni frá ráðuneytinu til Orkustofnunar. Þessu er m.a. ætlað að stuðla að bættri stjórnsýslu og hagræðingu. Á nýafstöðu þingi voru lögð fram tvö frumvörp þar sem gerð var tillaga um að Orkustofnun yrðu falin enn frekari stjórnsýsluverkefni á sviði leyfisveitinga og eftirlits með auðlindanýtingu. Þá er til skoðunar hvort unnt sé að efla starfsemi Orkusjóðs. Á árum áður skipaði Orkusjóður stóran sess í framkvæmdum í orkumálum þjóðarinnar, en umsvif hans hafa farið minnkandi á undanförnum árum. Orkusjóður er hins vegar mikilvægt tæki fyrir stjórnvöld til að koma í framkvæmd og styðja við ýmis verkefni í orkumálum.

 

Til að koma í veg fyrir hættu á hagsmunaárekstrum og gera mögulegt að fela stofnuninni stjórnsýsluverkefni var á sínum tíma tekin ákvörðun um að fela Íslenskum orkurannsóknum verkefni sem áður voru á rannsóknarsviði Orkustofnunar. Eftir stendur að rekstur vatnamælinga er enn hluti af verkefnum Orkustofnunar. Þetta hlýtur að teljast óheppilegt og því þótti ástæða til að stíga til fulls það skref sem var tekið árið 2003 í átt til aðskilnaðar rannsókna og stjórnsýslu Orkustofnunar. Því var lagt til að vatnamælingar Orkustofnunar færðust til Íslenskra orkurannsókna. Áður hafði verið kannað ítarlega hvort vatnafarsrannsóknum vatnamælinga Orkustofnunar væri betur fyrir komið með öðrum hætti, svo sem með samruna einingarinnar við aðrar stofnanir á sviði náttúrufarsrannsókna. Þetta leiddi ekki til niðurstöðu og með hliðsjón af mörgum atriðum var talið að tilfærsla til Íslenskra orkurannsókna væri heppilegust. Þannig næðust markmið um að til yrði öflug rannsóknarstofnun á sviði hagnýtra orkurannsókna og vatnafarsrannsókna, stofnun sem gæti einnig haslað sér völl á sviði ýmissa umhverfisrannsókna. Þrátt fyrir að ekkert benti til annars en að sátt væri um þessa breytingu náði hún ekki fram að ganga. Það er hins vegar ljóst að núverandi skipan getur ekki staðist til framtíðar og brýnt að ljúka skipulagsbreytingum á Orkustofnun.

 

Þessar breytingar eru allar liður í að skapa nútímalegt, öflugt og þjóðhagslega hagkvæmt umhverfi orkumála. En ekki eru allir á eitt sáttir um hvernig til hafi tekist með þær breytingar sem þegar eru komnar til framkvæmda. Frá setningu raforkulaga hafa einkum heyrst raddir um að breytt skipulag raforkumála hafi leitt til hækkunar á raforkuverði. Háar tölur hafa verið nefndar í því sambandi. Þessi umræða er á villigötum því staðreyndin er sú að breytt skipulag hefur frekar haft í för með sér aukinn jöfnuð á raforkuverði. Allt bendir til að á undanförnum árum hafi almennt orðið raunlækkun á orkuverði til landsmanna. Hins vegar má ekki gera lítið úr vanda þeirra sem búa við hátt orkuverð og það hlýtur að vera markmið okkar og samfélagsleg skylda að leitast við að allir eigi kost á orku á viðráðanlegu verði. Því ber okkur að skoða aðstæður þessara aðila og velta fyrir okkur hvort leiðir séu til úrbóta. Álitamál er hversu langt á að ganga í að greiða niður húshitunarkostnað þeirra sem nota óeðlilega mikla orku til húshitunar og hvort ekki sé rétt að halda í hvata til orkusparnaðar. Í því sambandi hljóta aðrar aðgerðir, s.s. lagfæringar á húsnæði, sem leiða til orkusparnaðar að teljast vænlegri til árangurs ef til lengri tíma er litið.

 

Það verður ekki hjá því komist að fara nokkrum orðum um stöðu auðlindamála og þær umræður sem á undanförnum árum hafa verið um nýtingu orkuauðlinda landsins. Það er ljóst að koma þarf þessum málum úr þeim farvegi sem þau hafa verið í. Samfélagið allt, hagkerfið og þjóðlífið hvíla á þeim grundvelli og forsendu að orkulindirnar og aðrar auðlindir lands og lagar séu nýttar af ráðdeild og virðingu. Því er það aðkallandi að reyna að stuðla að víðtækri sátt um nýtingar- og verndaráætlun fyrir náttúruauðlindir þjóðarinnar. Okkur ber að vanda rækilega allar ákvarðanir í þessum efnum og stíga varlega fram. Þetta hefur verið og verður áfram stefna íslenskra stjórnvalda. Það er sameiginlegt verkefni okkar stjórnmálamannanna að finna málamiðlun milli sjónarmiða um nýtingu og verndun. Grundvöllur slíkrar málamiðlunar hlýtur að vera þekking á orkukostum, náttúru og umhverfi. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er stór liður í öflun slíkrar þekkingar. Vinna við rammaáætlun gengur samkvæmt áætlun en gert er ráð fyrir að 2. áfanga ljúki árið 2009, og er stefnt að því að gefa út framvinduskýrslu á þessu ári. Næsta skrefið í átt til sáttar er að skapa tiltrú á að tekið sé tillit til ólíkra sjónarmiða við ákvarðanatöku og hinir ólíku hagsmunir tryggðir eftir því sem kostur verður. Þar skipta breyting á stjórnarskrá varðandi þjóðareign á náttúruauðlindum, breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og gjaldtaka vegna nýtingar orkulinda á forræði ríkisins mestu máli.

 

Í lagafrumvarpi um nýtingu orkuauðlindanna og gerð heildaráætlunar, sem samið var af fulltrúum allra þingflokka, Samorku og iðnaðarráðuneytis, var m.a. gerð tillaga um mörkun framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Þar var lagt til að iðnaðarráðherra skipi starfshóp sem hafa mun það hlutverk að móta áætlun um nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafls, áætlun sem sýnir á hvaða svæðum verður heimilt að gefa út leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum í jörðu og vatnsafli. Umhverfisráðherra var ætlað að skipa sérstakan og sambærilegan starfshóp til að móta sérstaka verndaráætlun fyrir auðlindir í jörðu og vatnsafl. Verndaráætlunin á að sýna á hvaða svæðum ekki verður heimilt að gefa út leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum í jörðu og vatnsafli. Gert var ráð fyrir því að báðir starfshóparnir skiluðu tillögum sínum til forsætisráðherra sem skipaði síðan sérstakan starfshóp til að samræma tillögur beggja hópanna í eitt lagafrumvarp um verndar- og nýtingaráætlun sem lagt yrði fram á haustþingi 2010.

 

Þar til verndar- og nýtingaráætlun hefur tekið gildi er í frumvarpinu lagt til að heimilt verði, að gættum öðrum lagaskilyrðum, að veita nýtingarleyfi þeim rannsóknarleyfishöfum sem við gildistöku laganna hafa fengið útgefið rannsóknarleyfi með fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi. Þá er lagt til að þar til verndar- og nýtingaráætlun hefur tekið gildi verði jafnframt heimilt að veita ný rannsóknarleyfi fyrir þeim kostum í umhverfisflokki a í fyrsta áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og þeim kostum í umhverfisflokki b sem ekki eru gerðar sérstakar athugasemdir við vegna umhverfisverðmæta. Í umhverfisflokkum a og b í rammaáætluninni eru þeir hugsanlegu virkjunarkostir sem minnst umhverfisáhrif eru taldir hafa. Þar til verndar- og nýtingaráætlunin öðlaðist gildi væri hins vegar ekki heimilt að veita ný leyfi til rannsóknar og nýtingar á öðrum kostum til raforkuöflunar nema að undangengnum rannsóknum og mati, og með samþykki Alþingis.

 

Því miður tókst ekki að afgreiða frumvarpið á nýloknu þingi en slík verndar- og nýtingaráætlun hefði skapað vettvang til heildstæðrar pólitískrar umræðu um nýtingu náttúruauðlinda. Slík umræða er nauðsynleg til að ná málamiðlun í þessum málum og skapa meiri vissu fyrir þá sem að þessum málum koma. Það voru því vonbrigði að þessi mál hlutu ekki afgreiðslu á nýafstöðnu þingi en vinna við þau heldur áfram, einkum í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Þannig er ekki skaði skeður við þetta.  Samstaða virtist almenn um frumvarpið, fyrir utan 3. bráðabirgðaákvæði þess sem fjallar um ákvarðanir og framkvæmdir næstu þrjú ? fjögur árin.  Þetta bráðabirgðaákvæði á að takmarka ákvörðunarsvigrúm iðnaðarráðherrans.  Þar sem frumvarpið náði ekki fram að ganga nú, sætir iðnaðarráðherra þá ekki þessum takmörkunum enn um sinn.

 

Á Sprotaþingi gerði ég hugmynd um auðlindasjóð þjóðarinnar að umtalsefni. Í væntanlegri skipan með heildaráætlun um nýtingu og vernd náttúruauðlindanna er ráð fyrir því gert að gjald verði jafnan tekið fyrir leyfi og nýtingu. Með slíku auðlindagjaldi skapast tækifæri til að byggja upp á einhverju tímabili auðlindasjóð sem þjóðin getur notað til sérstakra þjóðþrifaverkefna. Alaskabúar hafa þegar góða reynslu á þessu sviði, en þeir endurgreiða líka öllum almenningi úr slíkum auðlindasjóði þegar arðstaða hans leyfir. Ég tel að auðlindasjóður eigi að geta tekið virkan þátt í eflingu þess nýsköpunar- og sprotakerfis sem íslenska þjóðin þarf á að halda. Þá væri arðinum af auðlindum Íslendinga varið til að byggja hér undir framtíðarárangur, og auk þess geta beinar greiðslur til almennings, þegar þannig ber undir, orðið öflug samfélagsstoð.

 

Í tengslum við nýlega skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar hefur orðið nokkur umræða um stöðu Íslands og aðgerðir hér á landi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsbreytingar eru alþjóðlegt vandamál sem verður að nálgast sem slíkt. Okkur ber að axla þær byrðar sem á okkur eru lagðar til að bregðast við því vandamáli. Í samningaviðræðum um Kýótó-bókunina fékkst alþjóðleg viðurkenning á bæði aðgerðum okkar í orkumálum á undanförnum áratugum og eins möguleikum Íslands á að leggja sitt lóð á vogarskálarnar með nýtingu endurnýjanlegra orkulinda landsins til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnaðarferlum.

 

Til að bregðast við loftslagsbreytingum og þörf fyrir jarðefnaeldsneyti leggja ríki mikla áherslu á orkusparnað, bætta orkunýtni og nýtingu þeirra endurnýjanlegu orkulinda sem þeim standa til boða. Hins vegar er það svo að nýting þessara orkulinda kann að stangast á við sjónarmið um vernd umhverfis og náttúru. Má sjá þess dæmi að ríki séu farin að horfa til uppbyggingar kjarnorkuvera til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og þörf fyrir aðflutta orku. Við hljótum hins vegar að leggja áherslu á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda í þessu sambandi og leita samstarfs við önnur ríki í þessu sambandi.

 

Stærstur hluti gróðurhúsalofttegunda á Íslandi kemur frá samgöngutækjum og öðrum hreyfanlegum uppsprettum. Það er ljóst að við getum dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda á þessum sviðum með því að nýta innlendar orkulindir til að knýja farartæki eða til framleiðslu eldsneytis til nota í samgöngum. Á undanförnum árum hefur ýmislegt verið gert til að stuðla að þessu og hafa stjórnvöld varið nokkrum fjármunum til að styrkja rannsóknarverkefni á þessu sviði. Má þar nefna ECTOS-vetnisverkefnið á vegum Íslenskrar nýorku. Þá hefur verið sett á laggirnar verkefnið ?Vettvangur um vistvænt eldsneyti? en meginhlutverk þess er að afla stjórnvöldum þekkingar og aðstoða þau við stefnumótun og æskilega forystu á þessu sviði og gera tillögur þar að lútandi. Stýrihópur Vettvangsins skilaði á síðasta ári tillögum um aðgerðir stjórnvalda í þessum efnum. Lagt er til að gjöld af bílum og notkun þeirra verði nær alfarið tengd losun á gróðurhúsalofttegundum. Ég tel að hér sé stefnt í rétta átt og nú liggi fyrir að fara í nánari útfærslu á þessum hugmyndum. Ánægjulegt er að þessu verkefni svo og öðrum verkefnum á sviði orkusparnaðar er sinnt hér á Akureyri í útibúi Orkustofnunar, meða annars undir merkjum Orkuseturs. Þá liggur fyrir samþykkt ríkisstjórnarinnar um stuðning við kaup á allt að 30 vetnisbifreiðum sem tryggja eiga samfellu í vetnisverkefnum hér á landi og er gert ráð fyrir að 225 milljónum króna verði varið til þessa á árunum 2007 til 2009. Hluti þessa fjármagns mun renna til samanburðarrannsókna á vetnisbílum og annars konar vistvænum bílum.

 

Góðir ársfundargestir.

Við Íslendingar búum við þau náttúrulegu skilyrði að geta mætt orkuþörf okkar með nýtingu innlendra endurnýjanlegra orkulinda. Þetta er staða sem flest önnur ríki vildu trúlega vera í en fæst eiga í dag raunhæfan möguleika á að ná. Á undanförnum áratugum höfum við náð mjög langt á þessu sviði og er nú svo komið að þrátt fyrir að orkunotkun á íbúa sé hér sú mesta sem þekkist í veröldinni, þá er hlutfall endurnýjanlegra orkulinda af frumorkuþörf einnig það hæsta sem þekkist. Við höfum ráðist í sífellt stærri verkefni á þessum sviðum og bera Kárahnjúkavirkjun og Hellisheiðarvirkjun því vitni. Nýting innlendra orkulinda til orkuframleiðslu hefur skapað okkur bætt lífskjör og verið snar þáttur í að efla atvinnulíf á Íslandi, bæði beint og óbeint. Þá hafa íslensk orkufyrirtæki og þeir fjölmörgu aðrir sem koma að orkuframkvæmdum eflst og búa nú yfir þekkingu og reynslu sem nýst getur annars staðar. Mikilvægt er að stuðla að frekari framþróun á þessu sviði og horfa fram á veginn þegar ákvarðanir eru teknar um frekari skref í þróun orkumála á Íslandi.

 

Að lokum vil ég þakka stjórnendum Orkustofnunar fyrir farsælt samstarf og óska stofnuninni og starfsmönnum hennar alls góðs á komandi árum.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum