Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. maí 2007 MatvælaráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Ársfundur Byggðastofnunar

Fundarstjóri, ágætu fundargestir,

Þetta er fyrsti ársfundur Byggðastofnunar sem ég sæki, og reyndar fyrsti fundur um málefni ráðuneytisins sem ég ávarpa sem iðnaðarráðherra. Mér þykir vænt um það vegna þess að ég tel byggðamálin vera málefni, sem varða alla landsmenn.

Þróun byggðar í landinu má segja að sé sífellt Sísifosarverkefni. Líkt Sísifosi hinum gríska þokum við hinum þunga steini upp fjallshlíðina, og þótt hann komist ekki alla leið, og velti stundum niður á við á ný, þá höldum við ótrauð áfram.

Á heimasíðu Byggðastofnunar er hægt að finna eftirfarandi orð – sem minnir pínulítið á kennslubók í marxisma frá því í gamla daga – "Byggð ræðst af framleiðslu og samfélagsháttum." Þar hafa menn það, góðir fundarmenn! Stutt og laggott! Í opnu og alþjóðlegu markaðskerfi er þess þá varla að vænta að stjórnarvöldin ráði miklu um hvernig kaupin gerast á eyrinni – eða hvað? Er ekki miklu líklegra að markaðurinn ráði því hvernig framleiðslu- og samfélagshættirnir þróist – og þarmeð byggðin?

En "pólitík er að vilja" sagði Olof Palme, sá eldheiti leiðtogi jafnaðarmanna. Og við erum hér af því við trúum því að með þróttmikilli stefnumótun og með því að hagnýta reynslu, þekkingu og bestu aðferðir sé hægt að hafa áhrif á framleiðsluþættina til hagsbóta fyrir byggðirnar í landinu. En, við vitum líka, að togið frá sterkum þjónustu- og afþreyingarsvæðum á Suðvesturhorninu er svo firna sterkt – einsog það hefur verið alla síðustu öld. Það þarf því sterka stefnumótun, sterka samstöðu og mikla útsjónarsemi til að losna úr þeim álögum, og skapa á landsbyggðinni sterka þjónustu- og atvinnukjarna sem toga á móti, sem laða til sín fólk einsog járn að segli.

Það, góðir fundarmenn, er verkefni okkar, stjórnvalda og Byggðastofnunar.

Annað ráðuneyti Geirs H. Haarde, ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins er á sínum fyrstu metrum. Langhlauparinn veit að það skiptir öllu, ef hann ætlar að komast í mark á góðum tíma, að fara sér hægt og sprengja sig ekki á fyrsta kílómetranum.

Það er margt í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar sem getur skipt sköpum í byggðaþróun. Við vitum að öll tilranastarfsemi og nýsköpun sem bryddað hefur verið á í byggðum landsins hefur liðið fyrir sveiflur og óstöðugleika. Þess vegna skipta grunnmarkmiðin í stefnuyfirlýsingunni svo miklu máli fyrir farsæla byggðastefnu: Stöðugleiki í efnahagslífinu með lágri verðbólgu, lágu vaxtastigi, jöfnum og öflugum hagvexti og áframhaldandi traustri stöðu ríkissjóðs. Það eru kjöraðstæður og frumskilyrði fyrir vaxtarbrodda í atvinnulífi.

Ríkisstjórnin hefur brotið í blað með því að lýsa yfir að hún hyggist setja á stofn samráðsvettvang milli ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga um aðgerðir og langtímamarkmið á sviði efnahags-, félags- og atvinnumála. Ef þau áform heppnast vel gæti það haft verulega þýðingu í byggðaþróun.

Ákvæði stefnuyfirlýsingarinnar um samstarf skóla og atvinnulífs um þekkingar- og nýsköpun, aðgerðir til að efla hátækni- og sprotafyrirtæki ásamt öflugum stuðningi við menningu og listir eru líka viðspyrna sem áhugafólk um byggðaþróun ætti sérstaklega að leiða hugann að.

Ég vænti sérstaklega mikils af þeim hluta yfirlýsingar nýju ríkisstjórnarinnar þar sem lýst er því markmiði að landið verði eitt búsetu- og atvinnusvæði. Það er stór yfirlýsing og vitaskuld næst hún ekki á einu kjörtímabili. Hún felur í sér að í rammfjárlögum fyrir næstu fjögur ár – sem er nýbreytni hjá ríkisstjórninni – þá verður lögð höfuðáhersla á að treysta innviði samfélagsins með fjárfestingu í sérstöku átaki í samgöngumálum, fjarskiptum og menntun.

Úrbætur í samgöngumálum eru lykilatriði til að stuðla að jafnvægi í byggð og lækka flutningskostnað. Sterk fjarskiptakerfi og jafnræði allra landsmanna um gagnasamskipti í farvegum Netsins eru grundvöllur þess að hægt sé að auka aðgengi að menntun og þjónustu, óháð landfræðilegri staðsetningu, og fela auk þess í sér tækifæri til nýsköpunar.

Ég nefni sérstaklega að fyrir dyrum stendur að skilgreina sérstaklega þau störf á vegum ríkisins sem hægt er að vinna án tillits til staðsetningar, og auglýsa þau sem slík, þegar þau losna. Í það verkefni verður ráðist af einbeitni á þessu ári. Ég ætla ekki að skapa of miklar væntingar í kringum þetta, en segi þó, að þetta mál þekki ég vel. Ég flutti um það þingsályktunartillögu, sem Alþingi samþykkti á lokaspretti þingsins í vetur, og ég tel, að í þessu felist sérstök tækifæri fyrir byggðir landsins til að ná til sín störfum, sem henta ekki síst konum, og myndu auka menntastig í héraði, og þarmeð launastig.

Þetta mun hins vegar ekki gagnast okkur sem tæki til að stuðla að fjölgun starfa á landsbyggðinni nema jafnræði gildi varðandi gagnaflutninga og fjarskipti.

Framfarir komandi ára verða knúnar áfram af menntun, vísindum og rannsóknum, einsog segir orðrétt í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Byggðir landsins verða að tryggja sér aflvélar sem settar eru saman úr þessum þáttum. Efling skóla, ekki síst háskólasetra einsog á Vestfjörðum og víðar, er lykilatriði til að smíða slíkar aflvélar. Áhersla ríkisstjórnarinnar, og ekki síst þess ráðherra sem hér stendur, á hátækniiðnað og útrás þekkingar- og þjónustuiðnaðar, er síður en svo einskorðuð við höfurborgarsvæðið.

Atvinnulífið á landsbyggðinni verður að fá tækifæri til að fylgja þeirri þróun – frumatvinnuvegirnir verða að fá tækifæri til að þróast í hátækniiðnað. Vísir að þessu er orðinn til með beitingu líftækni í bæði landbúnaði og sjávarútvegi, og má rifja upp að auðlindalíftækni hefur einmitt notið stuðnings byggðaáætlunar.

Það er mikilvægt að þessi þróun haldi áfram, og í því efni reiði ég mig á frumkvæði Byggðastofnunar og nýrrar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem tekur til starfa í ágúst. Nýr forstjóri hennar verður einmitt ráðinn innan skamms. Það er eitt af verkefnum mínum að sjá til þess að tannhjól þessara tveggja aflvéla geti gripið saman í átaki stjórnvalda til að auka fjölbreytni atvinnulífs, auka verðmætasköpun og treysta grunn landsbyggðarinnar.

Nýsköpunarmiðstöðin mun starfa í nánu samstarfi við háskóla landsins, og ég hef þegar undirstrikað opinberlega að þar undir eru allir háskólar landsins – og háskólasetur.

Starf og eðli iðnaðaráðuneytisins mun breytast á þessu ári að því marki að ferðamálin færast nú undir ráðuneytið. Sú breyting er ekki síst rökrétt í ljósi þess að ráðuneytið fer með byggðamálin, og marksækin ferðaþjónusta er einn af ótvíræðum vaxtarbroddum landsbyggðarinnar. Þetta gerir ráðherra byggðamála miklu hægar um vik að flétta saman stefnu í ferðamálum við þarfir atvinnulífs á landsbyggðinni, og skoða leiðir sem ekki aðeins auka ferðaþjónustu í byggðum landsins, heldur líka til að auka verðmætin sem hún skilur eftir í héraði. Byggðastofnun gjörþekkir ferðamál á landsbyggðinni og hefur lengi veitt henni margþættan stuðning. Þessvegna er ekki út í hött að leyfa sér að vona að það geti reynst lyftistöng fyrir landsbyggðina að ferðamál og byggðamál falli senn undir verksvið sama ráðuneytis.

Hvað Byggðastofnun sjálfa snertir þurfum við að fást við þá grundvallarspurningu hvort ríkið eigi að reka (niðurgreidda) lánastarfsemi í samkeppni við almenna viðskiptabankastarfsemi. Í víðara samhengi er spurt, hvort ríkið eigi að styrkja atvinnulíf á landsbyggðinni með sértækri fjármálafyrirgreiðslu? Ekkert einhlítt svar liggur fyrir við þeirri spurningu en þær hremmingar sem atvinnulíf á Vestfjörðum hefur gengið í gegnum eru lýsandi dæmi um þau pólitísku álitaefni sem um er að ræða. Í sumar verður lagður grunnur að stefnumótunarvinnu fyrir Byggðastofnun sem hefst fyrir alvöru í haust, þar sem tilgangurinn verður ekki síst að svara spurningum einsog þessum sem varða framtíðarhlutverk stofnunarinnar.

Það er þó ljóst m.a. í ljósi stöðunnar til dæmis á Flateyri og Vestfjörðum að ríkið verður að búa yfir tækjum til að grípa inn þar sem bráður vandi steðjar að byggðarlögum sem búa við mjög einhæft atvinnulíf. Það er líka freistandi að hugsa sér að Byggðastofnun komi í mun ríkari mæli að málum sem varða menntun, uppbyggingu menningarlífs, starfshæfnis- og þjálfunarmálum, og sú framtíðarmúsík verður skoðuð rækilega í komandi stefnumótun. Sömuleiðis er ljóst að miðlun þekkingar um rannsóknir og aðferðir í byggðaþróun sem reynst hafa vel annars staðar í Evrópu verður einnig frjór vettvangur til framtíðar. Ég hlakka til að eiga samstarf við alla þá sem að byggðamálum koma um framtíðarstefnu Byggðastofnunar og um skipulag starfs að byggðaþróun.

Ágæti ársfundur,

Framundan eru spennandi verkefni fyrir nýjan iðnaðarráðherra. Ég mun ekki draga af mér fremur en Sísifos forðum. Og ólíkt honum hef ég sjálfur af fúsum vilja gengið undir okið og mun reyna krafta mína á stærstu björgum með glöðu geði. Byggðastofnun mun gegna mikilvægu hlutverki í starfsemi ráðuneytisins einsog verið hefur, en verkefni hennar munu sjálfsagt taka breytingum í samræmi við þróun atvinnlífsins og þörfina fyrir nýja og ferska nálgun ríkisins að stuðningi við þróun atvinnu- og mannlífs.

Verkefnin sem bíða nýrrar stjórnar eru ærin. Það þarf gott fólk og öflugt til að stýra mikilvægum verkum. Í samræmi við það hef ég ákveðið að stjórn Byggðastofnunar fram að næsta ársfundi verði skipuð eftirtöldum einstaklingum:

Örlygi Hnefli Jónssyni,

Önnu Kristínu Gunnarsdóttur,

Einari Oddi Kristjánssyni,

Guðjóni Guðmundssyni,

Drífu Hjartardóttur,

Herdísi Sæmundardóttur,

Bjarna Jónssyni

 

Ég vil að lokum þakka fráfarandi stjórn fyrir þeirra störf, sérstaklega fráfarandi stjórnarformanni, Herdísi Sæmundardóttur, um leið og ég óska nýrri stjórn velfarnaðar í störfum.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum