Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. júní 2007 MatvælaráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Rannsóknarþing 2007

Þingforseti, virðulega samkoma!

Eins og mörg ykkar geta nærri um er sérlega ánægjulegt fyrir mig að fá tækifæri til þess að setja Rannsóknaþing. Ég stýrði sjálfur á sínum tíma stóru verkefni sem unnið var á vegum forvera Rannís, og sú var tíð, að mér datt ekki annað í hug en að ég yrði önnum kafinn vísindamaður og að mínir sigrar og ósigrar yrðu á þeim vettvangi alla starfsævina. Það fór á annan veg. Þótt ég sjái ekki eftir neinu, og vísindin virðist hafa komist bærilega af án mín, þá verð ég að viðurkenna að sú spurning hefur hvarflað að mér á angurværum stundum hvort ég ætti erindi inn í vísindaheiminn að nýju. Það má kanski segja að nú sé það orðið með tengslum mínum við vísindasamfélagið í gegnum ríkisstjórnina. Hvað sem því líður er að minnsta kosti gott að vera í snertingu við vísindamenn, og það segi ég ekki bara vegna þess að ég er kvæntur vísindakonu!

Rannsóknaþing er vettvangur stefnumótandi umræðu um málefni vísinda og tækni og á rætur sínar að rekja til ársfunda Rannsóknaráðs ríkisins og Rannsóknaráðs Íslands. Eins og venjulega er það RANNÍS sem hefur annast umsjón með þinghaldinu og dagskráin sem við njótum hér í dag hefur verið ákveðin í samráði milli nefnda Vísinda- og tækniráðs og skrifstofu RANNÍS.

Í ár eru 20 ár liðin frá því Hvatningarverðlaunin voru fyrst veitt, og voru þá kennd við Rannsóknarráð ríkisins. Fljótlega var tekin upp sú venja að dómnefnd úr hópi fyrri verðlaunahafa fengi það verkefni að meta þá sem tilnefningar hlutu og taka ákvörðun um nýja verðlaunahafa. Þannig hefur orðið til 20 manna "akademia" verðlaunahafa af flestum sviðum vísinda. Þar sem nú er að hefjast vinna við greiningu á framtíðarsýn Vísinda- og tækniráðs og mörkun á áherslu í vísinda- og tæknirannsóknum til næstu ára hafa nokkrir úr akademíu verðlaunahafa verið beðnir að lýsa viðhorfum sínum til framtíðarinnar hér á eftir. Verkefni þeirra er að velta því upp hvernig þeir telja að þróunin gæti orðið og hver framtíðarsýnin til ársins 2020 eigi að vera á þeim sviðum sem nefndir vísinda- og tækniráðs hafa tilgreint og skipað starfshópa um.

Það verður aldrei of mikil áhersla lögð á mikilvægi grunnrannsókna og þar eiga áreiðanlega eftir að verða stórstígar framfarir. Það er þó ekki síður ástæða til þess að gefa gaum þeim miklu tíðindum sem gjarnan verða á skilunum milli fræða- og vísindasviða. Í umróti straumskila í hafinu verður gróska og umbreyting í lífríkinu. Þannig spretta einnig óvæntar og hrífandi hugmyndir á skilum milli greina, sem leiða til stórra stökka í nýjar áttir, opna upp á gátt algjörlega ný svið sem skapa uppfinningamönnum, hópum vísindamanna eða einstaklingum rými þar sem þeir geta verið kóngar um stund. Einstakar hugmyndir sem sprottnar eru upp af óvæntum og áður óhugsanlegum tengingum milli vísindagreina, samskiptum milli ólíkra menningarheima og undrum tölvuheima og örtækni geta haft áhrif og hafa valdið umskiptum í öllum heiminum á örfáum árum. Við sem hér erum þekkjum öll ýmis dæmi af þessu tagi frá síðustu áratugum.

Og þó er þetta engin nýjung undir sólinni. Charles Darwin, Håkan Lans og Steve Jobs eiga það allir sameiginlegt að hafa ekki lokið æðri prófgráðum, en það sem sameinar þá enn frekar er einstakur hæfileiki til þess að uppgötva og greina nýja tengingar milli fræðasviða með ástríðufulltri athugun, óseðjandi forvitni og útsjónarsamri hagnýtingu á þekkingu annarra.

Bandaríska fyrirtækið Corning skóp glerhulstrið sem umlukti ljósgjafa Tómasar Edisons fyrir 150 árum. Alla tíð síðan hefur það lagt heiminn að fótum sér með nýsköpun sem snert hefur daglegt líf okkar allra. Nægir þar að nefna eldföst glermót, litaskjái og ljósleiðaratrefjar og er þá fátt eitt talið. Rannsóknarstjóri glerdeildar Corning heitir Lina Echeverra og er frá því landi sem mér er hugstæðast utan Íslands, Kólombíu. Orð hennar eiga sannarlega erindi til vísindaheimsins: "Ég vil að vísindamenn mínir hafi til að bera sköpunarkraft VanGoghs en lifi lífi sínu eins og Michelangelo. Ég segi við þá að gera það sem hjartað býður þeim. Rannsakið það sem vekur áhuga ykkar og fyllir ykkur af nýrri orku. Þar hafið þið ástríðuna úr. Og sköpunarkrafturinn sprettur upp úr ástríðu."

Ég skal ekki um það segja hvort ríkisstjórnin reynist eins ástríðufull og starfsmennirnir á rannsóknastofu Linu Echeverra. Stjórnin er allavega metnaðarfull og hefur sett sér það markmið að allt menntakerfi þjóðarinnar, frá leikskóla til háskóla, verði í fremstu röð í heiminum. Því er slegið föstu í stjórnarsáttmálanum að framfarir og hagvöxtur komandi ára verði knúin áfram af menntun, vísindum og rannsóknum. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir áframhaldandi fjárfestingu í rannsóknum og menntakerfi, enda ekki vanþörf á því að íslenskt atvinnulíf mun einkennast í sívaxandi mæli af þekkingarsköpun og útrás. Þá er einnig lögð áhersla á að samstarf atvinnulífsins og íslensku háskólanna sé lykill að bættum árangri og nýsköpun í atvinnurekstri.

Ríkisstjórnin vill skapa kjörskilyrði fyrir áframhaldandi vöxt, útflutning og útrás íslenskra fyrirtækja, meðal annars með aðgerðum til að efla hátækniiðnað og starfsumhverfi sprotafyrirtækja, svo sem með eflingu Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs. Sjálfur bind ég miklar vonir við Nýsköpunarmiðstöðina sem tekur til starfa 1. ágúst næstkomandi og þá stefnumótun sem framundan er um starfsemi hennar og hlutverk Byggðastofnunar í atvinnuþróun.

Ég vil sérstaklega leggja áherslu hér á mikilvægi orku- og umhverfisrannsókna þar sem við viljum vera í farabroddi, auk þess sem ég tel það skyldu okkar að varðveita fjöregg Íslendinga með þróttmiklum rannsóknum á sögu, máli og menningu.

Engum blöðum er um það að fletta að ráðherrar og raunar alþingismenn allir hafa góðan vilja til þess að efla vísinda- og rannsóknastarf í landinu enn frekar og vonandi reynist styrk stoð í því.

Á þessu Rannsóknaþingi verða Hvatningaverðlaunin sem ég minntist á í upphafi afhent í 21. sinn. Til þess að viðhalda spennunni mun Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs, ekki tilkynna hver 21. verðlaunahafinn er fyrr en í lok þingsins. Það eitt er víst að verðlaunin munu falla í skaut ungum vísindamanni eins og hefðin býður, konu eða karli, en sex konur eru í hópi verðlaunahafanna 20, sem þegar hafa orðið þessa heiðurs aðnjótandi. Verðlaunin eru greidd af Rannsókasjóði og eru ein stærstu peningaverðlaun sem veitt eru hér á landi, þótt þau verði væntanlega fyrr eða síðar slegin út af fjáðum fyrirtækjum sem þurfandi eru fyrir hagnýtar rannsóknir og skilja þýðingu grunnrannsókna.

Það er mjög við hæfi að yfirskrift Rannsóknaþings 2007, Hvatningaverðlaun í 20 ár – Framtíðarsýn til 2020, vísi til tímamótanna og veki um leið athygli á því starfi sem Vísinda og tækniráð hefur hafið við mótun á nýrri framtíðarsýn.

Ég segi Rannsóknaþing 2007 sett.

Þökk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta