Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. ágúst 2007 MatvælaráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Orkubú Vestfjarða 30 ára afmæli

Góðir gestir.

Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að vera með ykkur hér í dag til að fagna 30 ára afmæli Orkubús Vestjarða, og formlegri gangsetningu Tungudalsvirkjunar. Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar færi ég ykkur formlegar árnaðaróskir hennar bæði í tilefni merks afmælis, og ekki síður í tilefni nýrrar virkjunar.

Eins og mörg ykkar muna var eignarhald á orkufyrirtækjum ríkisins fært frá iðnaðarráðuneytinu til fjármálaráðuneytisins í upphafi þessa árs fært, og var það í takt við þá eðlilegu kröfu nútímans að sama ráðuneyti fari ekki bæði með eignarhald og eftirlit. Ég vil því fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins nota þetta tækifæri til að þakka öllum stjórnendum og starfsmönnum Orkubús Vestfjarða fyrir gott samstarf á liðnum árum og færa fram þá ósk að ráðuneytið megi áfram eiga gott samstarf við fyrirtækið. Ég hef þegar á skammri veru í ráðuneytinu átt ákaflega gott samstarf við stjórnendur fyrirtækisins, sem hafa ekki verið sínkir á góð ráð, sem við ætlum að hrinda í framkvæmd og ég vík að síðar.

Það voru framsýnir einstaklingar sem börðust fyrir því að stofnað yriði sérstakt vestfirskt orkufyrirtæki í sameign ríkis og sveitarfélaga, sem hefði það hlutverk að annast um orkumál á Vestfjörðum. Verkefnið var stórt enda höfðu Vestfirðir orðið útundan í orkumálum þjóðarinnar.

Ástandinu í raforkumálum Vestfirðinga var lýst þannig um miðja síðustu öld að í öllum kauptúnum Vestfjarða hafi raforka í senn verið ótrygg, ónóg og rándýr og við bættist lítt bærilegur rekstrarhalli dísilrafstöðva sem sveitarfélögin urðu að taka á sig. ,,Á Vestfjörðum var rafmagn dýrast á öllu landinu."

Það vissu því engir betur en heimamenn hvar skóinn kreppti og frá stofnun fyrirtækisins hefur margt áunnist í orkumálum á Vestfjörðum. Hins vegar er það því miður svo eins og Vestfirðingar þekkja best á eigin skinni að hér er ekki hægt að ganga að orkunni vísri. Þar er svo sannarlega ekki við fyrirtækið að sakast heldur náttúrufar Vestfjarða, þar sem jafnan er allra veðra von, og fyrir vikið er hvergi á landinu meira um fyrirvaralausar rekstrartruflanir.

Stofnun Orkubús Vestfjarða var því mikið heillaspor fyrir Vestfirðinga. Á þessum 30 árum hefur ýmislegt gerst og stundum komið upp ágreiningur um hvernig haldið skyldi á málum. Vestfirðingar hafa hins vegar ávallt fylkt sér að baki fyrirtækinu og staðið vörð um hagsmuni þess. En fyrirtækið hefur ekki síður verið framsýnt.

Þannig var Orkubú Vestfjarða með fyrstu orkufyrirtækjum landsins til að breyta rekstrarformi sínu. Í kjölfarið fylgdi yfirtaka ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða. Í tíð iðnaðarráðuneytisins sem fulltrúa eiganda var ávallt lögð áhersla á að tryggja aðkomu heimamanna að stjórn fyrirtækisins og þar með virkan þátt þeirra í ákvarðanatöku. Ég trúi því að engin breyting verði þar á þótt kominn sé nýr karl í brúna, enda veit ég af eigin reynslu að núverandi fjármálaráðherra ber hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti ekki síður en við Vestfirðingar. Þau störf sem fyrirtækið skapar fyrir fjórðunginn skipta miklu máli og það er afar mikilvægt að þeim sé viðhaldið og fjölgað eins og kostur er. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fjölga hér opinberum störfum á Vestfjörðum, og þar hefur Orkubúið ekki legið á liði sínu. Nú nýlegar voru auglýst þrjú ný sérfræðistörf á vegum Orkubúsins og yfir því gleðst ég sannarlega.

Eitt af háleitustu markmiðum ríkisstjórnarinnar er að Ísland verði allt eitt búsetu- og atvinnusvæði. Því markmiði verður örugglega erfitt að ná og það næst tæpast á þessu kjörtímabili. Í því felst hins vegar að allir landsmenn eigi greiðan aðgang að menntun, atvinnu og þjónustu óháð búsetu, og fái notið sambærilegara lífskjara.

Þetta þýðir að ríkisvaldið verður að taka þátt í að byggja upp bæði öflugan framhaldsskóla og rannsóknarháskóla hér á Ísafirði, það verður að tryggja að Vestfirðingar njóti jafnræðis um samgöngur, fjarskipti – en líka um orkumál.

Hlutverk ríkisvaldsins er því að tryggja öfluga innviði, og treysta grunngerðina. Á þeim grundvelli verður það svo hlutverk Vestfirðinga sjálfra að byggja upp farsæla framtíð – eins og ég er ekki í nokkrum vafa um að þeim tekst þrátt fyrir tímabundna þorsklægð.

Háskólasetrið er í góðri uppbyggingu. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að flytja 80 opinber störf til Vestjarða – og þar af liggja fyrstu 30 störfin fyrir í formi ákvörðunar sem er langt á undan áætlun. Samgönguráðherra hefur látið þau boð út ganga að framkvæmdir við Óshlíðargöng hefjist á þessu hausti og ýmsum mikilvægum vegabótum á Vestfjörðum verði flýtt miðað við það sem gert er ráð fyrir í vegaáætlun. Jafnframt er þess að vænta að ráðist verði í úrbætur í símamálum og komið á öruggu GSM sambandi í byggðum Vestfjarða. Þá verður lokið við að hringtengja ljósleiðarakerfið auk þess sem miklir möguleikar opnast með ljósleiðurum Ratsjárstöðvar og NATÓ sem í ráði er að nýta að hluta í þágu almennings.

Orkumálin eru hins vegar ekki síðri þáttur grunngerðarinnar. Þau verða líka að vera í lagi, ef Vestfirðingar eiga að njóta jafnræðis á við aðra landsmenn. Í því ljósi verður ekki við það unað til langframa að afhendingaröryggi rafmagns sé langtum lakara á Vestfjörðum en gerist annars staðar á landinu.

Hér þurfa stjórnvöld að koma til skjalanna. Verkið er bæði stórt og afar aðkallandi. Eitt helsta framtíðarverkefnið í raforkumálum Vestfjarða hlýtur því að vera að tryggja öryggi í orkuafhendingu með nýrri Vestfjarðalínulínu þannig að hægt sé að hringtengja kerfið.

Það vill svo til að hér í næsta nágrenni við okkur er síðasti hluti fastalandsins sem ekki er tengdur raforkukerfinu – Inndjúpið. Það hefur legið alltof lengi eftir. Raforkulög leggja ríkisvaldinu beinlínis á herðar þá skyldu að tengja það við kerfið, og bæta þannig öryggi við afhendingu orku sem er fráleitt nógu góð vegna ótryggra smávirkjana.

Verkefni morgundagsins er því að koma Inndjúpinu í tengsl við landskerfið. Orkubú Vestfjarða hefur fulla burði til að leysa það verkefni að hendi með sóma. Í þetta verður ráðist á kjörtímabilinu, og ég tel sjálfur að hægt verði að byrja það verk á næsta sumri.

Þessi nýja tenging mun í senn treysta orkuöryggi svæðisins, skapa atvinnu, og spara fé til langs tíma. Orkubúið selur í dag raforku á sama verði í Djúpinu og annars staðar, og tapar á þeim þætti orkusölu um 15 milljónir á ári. Þessi aðgerð mun því borga sig upp á ágætum tíma, en kostnaðurinn við hana er áætlaður að verði ríflega 150 milljónir króna. Með tengingunni opnast líka nýjir möguleikar m.a. til þess að reisa smávirkjanir sem geta selt orku inn á landsnetið. Þessi framkvæmd mun því að öllum líkindum leiða til meiri orkuframleiðslu á Vestfjörðum inn á landsnetið, og verða þannig öllu landinu til farsældar.

Ísland býr líka yfir einstökum auðlindum á sviði jarðvarma, og við höfum náð lengra en nokkurt land í að virkja hann. Í reynd er það svo, að hundrað ára saga nýtingar okkar á jarðhita hefur skapað einstaka þekkingu sem um þessar mundir er að vaxa í að verða að öflugri útflutningsgrein. Ég tel að útflutningur háþróaðrar þekkingar okkar á því sviði geti ef við spilum rétt úr okkar kortum orðið jafn öflug auðlind og útrás bankanna er orðin í dag.

Við megum hins vegar ekki gleyma okkur sjálfum, ekki gleyma þeim Íslendingum sem búa á hinum köldu svæðum. Á síðustu árum hefur vísindamönnum okkar tekist að þróa tækni og þekkingu sem hefur leitt til þess að við höfum fundið heitt vatn á fjölmörgum stöðum, sem áður voru skilgreindir sem köld svæði. Í landafræðinni sem við dr. Árný kenndum saman í tilhugalífinu við Gaggann hér á Ísafirði var einmitt kennt, að þessi partur Vestfjarða væri kalt svæði. Hér er ekki hefðbundin hitaveita, Ísfirðingar búa ekki við þau lífsgæði sem til dæmis íbúar í mínu kjördæmi, Reykjavík, búa við í formi hitaveitu.

Orkustofnun og Íslenkar orkurannsóknir telja hins vegar að miklar líkur séu á að finna heitt vatn á Ísafirði. Ég vil að gengið verði úr skugga um hvort unnt sé að finna hér heitt vatn, sem dugar – með núverandi kerfi Orkubúsins – til að koma upp jarðvarmaveitu hér á Ísafirði. Það verður án efa flókið og áhættusamt verkefni því það eru erfið jarðlög sem þarf að fara í gegnum á 6-800 metra dýpi.

Í þetta verkefni verður hins vegar ráðist sem sameiginlegt viðfangsefni iðnaðarráðuneytisins og orkubús Vestfjarða. Ef þetta gengur upp mun það reynast mjög arðbært verkefni fyrir okkur öll, jafnt hið opinbera sem íbúa sem væntanlega munu þá njóta ódýrari upphitunar, og meiri lífsgæða.

Þetta er í fullu samræmi við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að láta einskis ófreistað til að bæta grunngerð samfélaganna hér á Vestfjörðum. Sjálfur er ég líka þeirra skoðunar að við eigum að slá í á næstu árum og leita eftir heitu vatni víðar á Vestfjörðum þar sem jarðvarmaveitu er ekki að finna. En allt mun það koma í ljós síðar á þessu ári, og óþarft um að fjalla að sinni.

Tungudalsvirkjun sem vígð er hér í dag á 30 ára afmæli Orkubús Vestfjarða er gott dæmi um það hvað hugvitið og útsjónarsemin geta skilað okkur langt. Þegar foss opnaðist í Vestfjarðargöngunum var það mótlæti nýtt til þess að færa Ísfirðingum gott og heilnæmt drykkjarvatn og til rafmagnsframleiðslu. Ég segi stundum að í pólitík og skák gildi hið sama: Svartur á alltaf leik! Eins og góðum skákmanni sem snýr við taflinu með snjöllum leik tókst Vestfirðingum með aðstoð snjallra verkfræðinga að snúa vatnslekanum í göngunum sér í hag. Mótlætið herðir ef hugvitið fær að njóta sín.

Ég vil að lokum óska öllum til hamingju með áfangana.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum