Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. mars 2008 MatvælaráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Ársfundur Orkustofnunar 2008

Fundarstjóri, orkumálastjóri og góðir ársfundargestir!

Mér er ofarlega í huga dvöl mín í Washington í síðustu viku. Það var eins og tímatalinu hefði verið snúið þrjátíu ár aftur í tímann. Skyndilega eru bókstaflega allir farnir að tala á nýjan leik um endurnýjanlega orkugjafa. Jafnvel Bush Bandaríkjaforseti sagði í innblásinni ræðu sem við orkumálastjóri heyrðum og sáum hann flytja á WIREC ráðstefnunni þar í bæ: Við verðum að losa okkur við olíuna! Hingað til hefur því verið haldið fram að otarar olíuiðnaðurins hvísluðu í bæði eyru Bandaríkjaforseta en nú leggur hann ofuráherslu á orkusjálfstæði og baráttu gegn hlýnun loftslagsins af völdum gróðurhúsalofttegunda.

Fyrir þrjátíu árum var öldungadeildarþingmaðurinn og Íslandsvinurinn Tom Harkin frá Iowa ungur þingmaður í fulltrúadeildinni. Hann lýsti því fyrir mér fjálglega hve upprifnir þeir voru í þinginu yfir öllum þeim möguleikum sem virtust á því að losna við olíuna á þeim tíma. Bandaríkjaþing ákvað að veita stórum fjárhæðum til rannsókna og þróunar á endurnýjanlegum orkugjöfum og hafist var handa í háskólum, rannsóknarstofnunum og á vegum fyrirtækja við að leggja drög að stórnýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum. Það var verið að tala um alla sömu möguleikana þá og nú: sólarorku, vindorku, lífeldsneyti, sjávarfallaorku, jarðhita o.s.frv.

En hvað gerðist? Eftir olíukreppuna 1973 lækkaði olían fljótlega aftur í verði og upp úr 1980 var botninn dottinn úr sókn í átt til endurnýjanlegra orkugjafa. Fjárstraumar til rannsókna og þróunar þornuðu upp og áhugi stjórnmálamanna beindist að öðrum hlutum.

Bandarískir stjórnmnálamenn iðrast nú sárum þessarar skammsýni. Afleiðing hennar er sú að heimurinn stendur frammi fyrir risaverkefnum í orku- og loftslagsmálum án þess að vera tilbúinn með tækni, rannsóknir og þróunarverkefni til þess að geta tekist á við þau.

Raforkan er lykillinn að framþróun og velsæld í heiminum. Indland og Kína þurfa t.d. 100 GW af nýjum raforkuverum á ári næstu áratugina á braut sinni til velsældar. Það þýðir ein Kárhnjúkavirkjun á um það bil þriggja daga fresti. Hættan er sú að mest af heimsþörfinni verði mætt með gamalli tækni og svo gæti farið að 85% raforkunnar verði framleitt með jarðefnaeldsneyti að óbreyttu.

Þegar olífatið slær upp í 107 dollara, loftslagsvandinn fer vaxandi og Afríku blæðir vegna orkuskorts þá er m. a. litið til okkar Íslendinga sem höfum ekki fylgt heiminum heldur rutt nýjar brautir í raforkuvinnslu með jarðvarma og vatnsorku frá því að olíukreppan hófst á áttunda áratug síðustu aldar. Ég hef bjargfasta trú á því að okkar bíði stórt hlutverk í virkjun jarðorku og vatnsorku víða um heim á næstu áratugu

Bandaríkjastjórn hefur nú áhuga á því að efna til sérstaks samstarfs við okkur Íslendinga og nokkrar aðrar þjóðir um rannsóknar og þróunarverkefni sem miða að því að búa í haginn fyrir stórnýtingu á jarðvarma. Vandinn er nefnilega sá að í fyrirsjáanlegri framtíð munu endurnýjanlegir orkugjafar af öllu tagi aðeins svara litlum hluta af orkuþörfinni. Kapphlaupið um að koma einhverjum hinna mögulegu grænu orkugjafa í stórnýtingu er hafið.

Þá er einnig áhugi á því að efna til samstarfs milli eyríkja á flekaskilum sem nú eru að setja sér háleit markmið um orkusjálfstæði og 70-90 % græna orku í orkukerfum sínum. Þarna gætu Ísland, Nýja Sjáland og Hawai gegnt forystuhlutverki. Við fundum í Washington í síðustu viku fyrir einlægum vilja Bandaríkjastjórnar til þess að vinna hratt að þessum verkefnum með Íslendingum. Hér er um það að ræða að fá fyrirtæki, stofnanir og stjórnmálamenn til þess að koma hlutum í verk - en ekki aðeins á pappír.

Orkumálastjóra hefur verið falið að þróa þessi mál áfram ásamt bandaríska orkumálaráðuneytinu og undirbúa ráðstefnu sem haldin verður í Keflavík í júní, þar sem hugsanlega verður gengið frá samningum með þátttöku meðal annarra Ástrala og Nýsjálendinga.

Þetta leiðir hugann að framtíðarhlutverki Orkustofnunar sem ég tel að verði æ mikilvægara. Hún þarf að taka fullan þátt í ýmsum nýsköpunar- og þróunarverkefnum á sviði orkumála m.a. í samvinnu við stofnanir og fyrirtæki í öðrum ríkjum. Það er ljóst að eigi að takast að leysa úr orkuþörf heimsins með ábyrgum hætti kallar það á stóraukið samstarf þjóða, stofnana og fyrirtækja. Ég sé fyrir mér að Orkustofnun gegni lykilhlutverki í að skipuleggja og samræma slíkt alþjóðasamstarf af okkar hálfu.

Orkustofnun þarf ef til vill að geta tekið þátt í samstarfi við erlenda aðila með beinni hætti en tíðkast hefur. Því þarf að huga að fjármögnun stofnunarinnar í ljósi breytinga á umhverfinu. Væri t.d. hægt að gera það með því að beina fjármögnun meira í gegn um Orkusjóð? Gæfist þá betra færi á að taka þátt í erlendum rannsóknarverkefnum jafnvel með mótframlagi annarra ríkja og fyrirtækja?

Við höfum að undanförnu unnið að tillögum um eflingu á starfsemi

Orkusjóðs. Á árum áður skipaði hann stóran sess í framkvæmdum í orkumálum þjóðarinnar, en umsvif hans hafa farið minnkandi á undanförnum árum. Orkusjóður er hins vegar mikilvægt tæki fyrir stjórnvöld til að koma í framkvæmd og styðja við ýmis verkefni í orkumálum.

Þið hafið nú fengið það veigamikla hlutverk að undirbúa olíuleit á Drekasvæðinu svonenda. Fyrstu leitarleyfin verði boðin út innan árs. Þetta er gríðamikið verkefni sem mun reyna mjög á getu starfsfólks. Og fari svo að Íslendingar verði olíuþjóð eftir tíu til tólf ár er það mín spá að þá verði heimurinn að miklu leyti hættur að brenna olíu en farinn að nýta þetta verðmæta hráefni í hverskyns stoðefni, flíkur og fasta hluti. Hlæið ekki að því: Var ekki Virgin Atlantic flugfélagið nýlega að senda Boeing 747 risavél milli London og Amsterdam sem knúin var að hluta með kókoshnetum og brasilískum babassu hnetum? Það er orka í miklu fleiri hlutum en olíu.

En í sambandi við olíuna þá má til gamans geta þess að orkumálastjóri Færeyja (sem flytur erindi hér í dag) er nú kominn með skrifstofu í Orkustofnun og ég fagna því. Guðni orkumálastjóri ætti e.t.v að huga að útibúi í Færeyjum ekki síst nú þegar við þurfum að læra fjölmargt af Færeyingum á sviði olíumála.

Að allt öðru: Við þurfum senn að setja okkur heildstæða orkustefnu. Grundvöllur hennar er rammaáætlun þar sem við ákvörðun hvað við ætlum að nýta og hvað við ætlum að vernda. Þá loks getum við sett upp áætlun um nýtingu og til hvers við viljum nýta takmarkaðar orkuauðlindir. Hluti þeirra stefnu verður jafnframt að þróa nýja og græna orkugjafa í samgöngum. Eignarhald orkuauðlindanna sbr nýlegt frumvarp skiptir líka miklu þegar slík stefna er mótuð. Það er ekki alltaf nóg að líta einungis á hagræna mælikvarða, aðrir mælikvarðar skipta líka máli; svo sem samfélagsviðhorf, byggðasjónarmið og orkuöryggi

Í lokin þetta: Orkustofnun hefur á undanförnum árum gengið í gegnum miklar breytingar. Stofnunin hefur verið skilgreind sem stjórnsýslu- og fagstofnun á sviði auðlinda- og orkumála og þær einingar sem annast rannsóknir á orkulindum landsins aðskildar frá henni. Með þessum breytingum var komið í veg fyrir mögulega hagsmunaárekstra og sköpuð skilyrði fyrir nútímalegri stjórnsýslu á sviði auðlinda- og orkumála.

Við stefnum ótrauð á það í iðnaðarráðuneytinu að færa verkefni til undirstofnana. Ykkur hafa verið falin aukin stjórnsýsluverkefni tengd raforkumálum, niðurgreiðslum á húshitun og olíuleit. Við höfum í undirbúningi að færa allar leyfisveitingar frá ráðuneytinu til ykkar hjá Orkustofnun. Með þeim hætti er meðal annars skapað rúm fyrir málskot til æðra stjórnvalds.

Samhliða þessu er unnið að því að færa framkvæmd laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar alfarið til ykkar hjá Orkustofnun. Þessu er m.a. ætlað að stuðla að bættri stjórnsýslu og hagræðingu.

Ég vil svo að síðustu nefna að ég teldi ávinning af meiri samvinnu við aðrar undirstofnanir ráðuneytisins og þar á ég aðallega við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, en einnig Ferðamálastofu og Byggðastofnun. Ég tel snertifletina geta verið fleiri og frjórri en margir gera sér grein fyrir við fyrstu sýn.

Ég hlakka til samstarfs við ykkur hjá Orkustofnun á komandi árum og óska ykkur alls hins besta með ársfundinn!



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum