Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. október 2009 MatvælaráðuneytiðGylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra 2009-2013

Opnunarávarp Gylfa Magnússonar ráðherra á ráðstefnu um stjórnarhætti í fjármálaþjónustu

Ráðstefnustjóri og ágætu fundargestir,

Í kjölfar hruns bankanna í október 2008 hefur stjórnsýslan unnið mikið verk við endurskoðun á regluverki og umgjörð fjármálalífsins. Athygli efnahags- og viðskiptaráðuneytisins hefur ekki síst beinst að þeim reglum sem gilda um stjórnarhætti fjármálafyrirtækja og þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra sem stjórna þessum fyrirtækjum.

Í kjölfar bankahrunsins var finnski sérfræðingurinn Kaarlo Jännäri fenginn til að yfirfara regluverk á íslenskum fjármálamarkaði og skilaði hann skýrslu sinni fyrr á þessu ári. 

Meginniðurstaða Jännäri var að íslenskt regluverk væri sambærilegt því sem gerist í öðrum EES ríkjum. Það kom ekki að koma á óvart því að hið íslenska regluverk er að uppistöðu til upprunnið í Evrópu. Jännäri benti þó á nauðsyn þess að skerpa á reglum á ýmsum sviðum. Skipaði ég því nefnd til að yfirfara regluverkið frekar og smíða frumvarp um breytingar á lögum þar sem ábendingar Jännäri eru meðal annars hafðar til hliðsjónar.

Nefndin um endurskoðun á lögum um fjármálafyrirtæki hefur einkum einbeitt sér að því að endurskoða ákvæði um hegðunar- og hæfisreglur. Einnig má nefna reglur um lánveitingar með veði í eigin hlutabréfum, krosseignarhald, áhættustýringu, lán til tengdra aðila, stórar áhættuskuldbindingar auk þess sem nefndin leggur til aukið eftirlit með eigendum virkra eignarhluta og skerpir á reglum um hæfi stjórnenda og framkvæmdastjóra. Einnig eru lagðar til breytingar á heimild eftirlitsaðila til inngrips, ábyrgð innri endurskoðunardeilda og áhættustýringar og bankaleynd. Ég stefni að því að leggja fram frumvarp þessa efnis á þingi á næstu vikum. 

Ráðuneytið hefur jafnframt lagt í heildarendurskoðun á lögum um vátryggingastarfsemi. Meðal þess sem það mun leiða til eru breytingar á hæfisskilyrðum og heimild til stjórnarsetu og verða tillögur þær lagðar fram á þingi á þessu hausti. 

Hið sama gildir um nýtt frumvarp til laga sem lagt verður fram á næstu vikum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Þar eru lagðar til breytingar á gildandi lögum, meðal annars hvað varðar fjárfestingarstefnu, hæfisskilyrði sjóðsstjóra, hæfi rekstrarfélaga og eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins. 

Þá hefur einnig verið unnið að endurskoðun laga um hlutafélög og laga um einkahlutafélög með tilliti til þess að auka ábyrgð stjórnarmanna, auka gegnsæi varðandi eignarhald og auka réttindi hluthafa. Stefni ég að því að leggja frumvarp þessa efnis fram á þingi nú í haust. 

Þótt þær aðstæður sem sköpuðust á Íslandi haustið 2008 séu um margt sérstæðar er engu að síður ástæða til að fylgjast náið með þeirri umræðu sem fer fram í nágrannaríkjum okkar og á vettvangi alþjóðastofnana og samtaka. 

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) kemst þannig að þeirri niðurstöðu í nýlegri skýrslu sinni um lærdóm sem draga má af efnhagskreppunni að stjórnarháttum alþjóðlegra fjármálafyrirtækja hafi verið verulega ábótavant. 

Þannig brugðust áhættustýringardeildir augljóslega hlutverki sínu í mörgum tilvikum. Vandinn var ekki aðeins fólgin í mistökum starfsmanna þessara sviða eða í þeim aðferðum sem þeir lögðu til grundvallar greiningar og ákvarðana. Stjórnir og framkvæmdastjórar viðkomandi fyrirtækja báru sig ekki eftir upplýsingum um áhættu og brugðust ekki við þeim upplýsingum sem fyrir lágu. 

Í mörgum tilvikum voru mjög skýrar og ítarlegar skráðar reglur um áhættu í fjárfestingum og lánveitingum til staðar, samþykktar af stjórn eða eftirlitsaðilum, en enginn virðist hafa fylgst með því hvort mælanlegum markmiðum væri náð. 

Ábyrgð æðstu stjórnenda gagnvart stjórnum fjármálafyrirtækja og ábyrgð stjórna fjármálafyrirtækja gagnvart hluthöfum var því ekki næg og eftirliti með því að viðkomandi aðilar væru að rækja hlutverk sitt sem skyldi var einnig ábótavant. 

OECD er einnig í hópi þeirra aðila sem benda á að of mikil brögð hafi verið að því að afkastahvetjandi launakerfi ýttu undir áhættusækni auk þess sem of lítið eftirlit hafi verið með því að fyrirtæki opinberuðu upplýsingar um áhættu og eða skýrðu fyrir almennum hluthöfum og fjárfestum hvaða kerfi væru til staðar til að takmarka og mæla áhættu.  

Þær breytingar sem fólgnar eru í fyrrnefndum frumvörpum til nýrra laga um fjármálastarfsemi, vátryggingarstarfsemi og hlutafélög munu vonandi svara að nokkru leyti þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á regluverk íslenska fjármálageirans og ábyrgð eða öllu heldur ábyrgðarleysi stjórnenda. 

Við leitumst einnig eftir því að fara að tilmælum ráðgjafa sem kallaðir hafa verið til innanlands og draga lærdóm af þeirri greiningu sem unnin hefur verið á orsökum fjármálakreppunnar á erlendum vettvangi.

Eins og kunnugt er verður enn að bíða niðurstöðu rannsókna á aðdraganda og ástæðum hrunsins. Töfin breytir því þó ekki að niðurstaða mun fást. Auk þess mun ákæruvaldið og dómskerfið mun eiga sinn þátt í að draga fram þá annmarka sem voru á regluverkinu og í eftirliti.

Þannig verður ekki staðar numið hér, heldur munum við halda áfram að endurskoða og leitast við að endurbæta þær stofnanir og reglur sem eru til staðar í ljósi þeirra staðreynda og greininga sem enn eiga eftir að koma í ljós. Eins og ég benti áður á erum við Íslendingar hinsvegar síður en svo einir á báti. Má búast við því að sambærileg vinna verði unnin í stjórnkerfi flestra grannríkja okkar. 

Meginverkefni okkar hlýtur að vera að búa svo í haginn að áhætta sem er til staðar í viðskiptum með fé og fjármálagerninga verði gerð sýnilegri, mælanlegri og rekjanlegri og að ábyrgð hvers aðila sem á að stjórna eða hafa eftirlit með þessari áhættu sé vel skilgreind.  

Sú  umgjörð sem einstaklingum og fyrirtækjum er búin með regluverki og eftirlitsstofnunum verður þannig að hafa tilætluð áhrif á hegðun og útkomu. Aðeins þannig munum við koma í veg fyrir að sagan geti endurtekið sig. 

Hlutverk eftirlitsstofnana, löggjafa, og handhafa framkvæmda- og dómsvalds er hinsvegar aðeins hluti af heildarmyndinni. Mikilvægur þáttur í uppbyggingu heilbrigðs markaðar og fjármálakerfis hlýtur að vera ábyrg stjórnun fyrirtækja og þau gildi og markmið sem lögð eru til grundvallar í stjórnarháttum þeirra.

Við munum því aðeins ná betri árangri og afstýra viðlíka áföllum í framtíðinni ef hið opinbera, stjórnendur fyrirtækja og eigendur setja sér það markmið að læra af mistökunum og lagfæra það sem miður fór með bættu regluverki, aukinni ábyrgð og heilbrigðari stjórnarháttum.

Sem skólamanni er mér vitaskuld hugleikið hlutverk þeirra menntastofnana sem búa fólk undir störf í atvinnulífinu, þar á meðal fjármálakerfinu. Háskólarnir hafa með áherslum sínum í kennslu og rannsóknum mikil áhrif á þróun íslensks atvinnulífs. Þetta á ekki einungis við þær deildir þeirra sem útskrifa viðskiptafræðinga en þar er þó líklega ábyrgðin mest. Eftir hamfarir eins og þær sem við höfum nú upplifað hljóta þeir sem þar starfa að taka ýmislegt í námsefninu til endurskoðunar.

Listinn yfir það sem virðist þurfa að skoða er langur. M.a. þarf að horfa með gagnrýnum hætti á umfjöllun um stjórnarhætti og viðskiptasiðferði og fjölmarga þætti fjármála, svo sem áhættumat og áhættustjórnun. Þá þarf að fara yfir regluverk reikningshalds og endurskoðunar og menntun þeirra sem framkvæmd þess sinna.

Við Íslendingar erum ekki einir um að þurfa að huga að þeim málum sem hér hafa verið reifuð en líklega er engum ljósari þörfin en okkur. Ég vil því fagna framtaki skipuleggjanda ráðstefnunnar hér í dag og vonast eftir fróðlegri og líflegri umræðu um þessi mikilvægu málefni.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum