Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. nóvember 2009 MatvælaráðuneytiðGylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra 2009-2013

Ávarp efnahags- og viðskiptaráðherra á fundi eignastýringar Íslandsbanka um umhverfi fjárfesta 5. nóvember 2009

Fundarstjóri, ágætu ráðstefnugestir

Til að fá skýra sýn á framtíðarumhverfi íslenskra fjárfesta er nauðsynlegt að byrja á að horfa í baksýnisspegilinn – þótt útsýnið sé ekki fagurt. Miðbik þessa fyrsta áratugar 21. aldar, einkenndist af mjög mikilli fjárfestingu, bæði hér á landi sem í öðrum iðnríkjum, allt þar til efnahagsáföllin dundu yfir. Hagvöxtur var víðast hvar mikill og raunvextir lágir á heimsvísu. Mikið framboð af ódýru fjármagni hrinti af stað eignaverðsbólu sem teygði anga sína um allan heiminn, ekki síst til Íslands. Fjármagnið streymdi inn á hlutabréfamarkað og húsnæðismarkað, eignaverð snarhækkaði á fáum árum og myndaði þannig veð fyrir frekari lánum.  Við þessar aðstæður máttu menn hafa sig alla við til að vera ekki útmálaðir fjármálasnillingar og æ erfiðara var fyrir fjárfesta að greina hafrana frá sauðunum.

Þegar lánsfé tók skyndilega að þverra haustið 2007 urðu afleiðingarnar magnþrungnar. Vaxandi áhættufælni skók fyrst hlutabréfamarkaði og síðan húsnæðismarkað, bankar urðu að stíga harkalega á bremsurnar,  skuldsett fyrirtæki áttu skyndilega í engin hús að venda.  Eins og öllum er kunnugt sprakk eignabólan bæði vestan hafs og  austan og tók með sér fjölmörg fjármálafyrirtæki í fallinu en miklu tapi var velt yfir á almenning.  Íslenskir bankar voru ekki einir á báti en nöfn þeirra verða hinsvegar greypt í sögubækurnar, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hvergi var þenslan hlutfallslega meiri og hvellurinn að sama skapi stærri.

Þetta liggur nú allt fyrir og því miður einnig það að við súpum nú öll seyðið af þessu í einhverjum mæli og munum gera um hríð. Skulda- og greiðslubyrðin hefur þyngst, lífskjör dragast saman tímabundið og atvinnuleysi hefur vaxið langt umfram það sem við teljum ásættanlegt.  Miklar pappírseignir og óraunhæf ávöxtun hafa horfið eins og dögg fyrir sólu. Það er ekki hátt risið á mörgum fjárfestum um þessar mundir. 

Þó má, ef nánar er að gáð, einnig sjá bjartar hliðar á þessu ástandi.  Því verður ekki á móti mælt að íslenskt efnahagslíf – og þá sérstaklega sá hluti sem ég kýs að kalla raunhagkerfið, þau fyrirtæki sem byggja tekjur sínar á fjölbreyttri framleiðslu og þjónustu -  hefur þrátt fyrir allt sýnt ótrúlegan sveigjanleika og getu til að skapa tekjur og störf.  Eins og oft áður þarf gjarnan útlenda gesti til að benda okkur á það augljósa. Meira en níu af hverjum tíu eru enn við störf og samdráttur í framleiðslu er minni en búist var við og litlu meiri eða jafnvel minni en meðal margra nágrannaþjóða.  Þetta sjónarmið hef ég heyrt oft að undanförnu frá erlendum viðmælendum sem líta flestir íslenska hagkerfið jákvæðum augum þrátt fyrir þau áföll sem dunið hafa yfir. Þeir sjá Ísland jákvæðari augum en margir heimamenn. Enda sjá þeir hér hagkerfi með afar háar tekjur á mann, hvort heldur er í sögulegum eða alþjóðlegum samanburði, mikinn mannauð og ríkulegar náttúruauðlindir. Glöggt er gests augað.

Ein helsta skýringin á viðbragðsflýti íslenska hagkerfisins er að vexti og samkeppnishæfni útflutningsgreinanna voru á undanförnum árum settar skorður vegna ruðningsáhrifa fjármálakerfisins og sterks raungengis.  Þessi fyrirtæki búa hinsvegar að miklum styrk og faglegri þekkingu sem nú er hægt að leysa úr læðingi. Það er full ástæða til að fagna því hvernig útflutningsfyrirtæki í mörgum öðrum greinum hafa náð að halda sjó og nýta þau tækifæri sem fólgin eru í hagstæðara gengi þrátt fyrir að samdráttur hafi orðið á erlendum mörkuðum.

Hið sama má segja um fjöldamörg framleiðslu-, þjónustu- og verslunarfyrirtæki sem hafa sýnt mikla þrautseigju og endurskipulagt rekstur við erfiðar aðstæður. Mörg þeirra vinna nú nýja markaði innanlands á kostnað erlendra keppinauta.

Þannig hefur þessum fyrirtækjum tekist að halda miklum meiri hluta vinnuafls á landinu í vinnu og komið í veg fyrir hrun í tekjum eða lífskjörum. Þessi mikilvægi varnarsigur hefur náðst þrátt fyrir að Íslendingar gangi nú í gegnum eitt versta banka- og gjaldmiðilshrun sem dunið hefur yfir vestræna þjóð. Varnarsigurinn er jafnframt fyrsta skrefið í nýrri sókn.

Eignaverðsbóla þessa áratugar er hvorki sú fyrsta í sögunni né verður hún sú síðasta. Slíkar bólur eiga það sammerkt að eftir á að hyggja er vandinn augljós en það er aldrei erfiðara að sjá bólu en í henni miðri. Þegar rykið sest þurfum við að bera gæfu til að draga lærdóm af reynslu sem var dýru verði keypt. Stjórnendur fyrirtækja verða að hugsa margt upp á nýtt og stjórnvöldum ber að gera allt sem mögulegt er til þess að bæta úr þeim annmörkum sem nú virðast augljósir á umgjörð fjármála- og efnahagslífsins.

Af hálfu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins hefur þannig verið lagt í mikla vinnu við að endurskoða allt regluverk fjármálakerfisins. Þar þarf að búa svo um hnútana að bankakerfið geti stutt við vöxt og viðgang atvinnulífsins og staðið jafnframt traustari fótum en áður. Það verður ekki tjaldað til einnar nætur. Nú á haustmánuðum höfum við til að mynda stigið mikilvæg skref í þessa átt. Embættismenn víða að úr stjórnkerfinu og starfsmenn bankanna hafa þannig unnið mikið þrekvirki við að reisa við að nýju þrjá viðskiptabanka og ljúka samningum við kröfuhafa í þrotabú föllnu bankanna. Lokaskrefin verða tekin á næstu vikum. Það er óhætt að fullyrða að það eru engin fordæmi fyrir því í sögunni að tekist hafi að reisa nýtt fjármálakerfi úr rústum á jafnskömmum tíma.

Þá hafa stjórnvöld og bankamenn unnið hörðum höndum að því að finna lausnir á  skuldavanda heimila og fyrirtækja. Farsæl lausn á endurskipulagningu skulda verður án efa eitt vandasamasta verkefni næstu mánaða og ára. Til þess að svo megi verða þurfa stjórnvöld, bankamenn og fyrirtæki að leggjast á eitt til að finna réttlátar og hagfelldar lausnir með hagsmuni atvinnulífsins og almennings að leiðarljósi.

Af hálfu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins hafa verið undirbúnar veigamiklar breytingar á regluverki íslenska fjármálakerfisins þannig að unnt verði að efla eftirlitsstofnanir, auka ábyrgð stjórnenda fjármálastofnana og draga úr áhættu. 

Meðal þess sem tekið verður á í þeim lagafrumvörpum sem ég hyggst leggja fyrir Alþingi á næstu vikum eru skýrari ákvæði um hegðunar- og hæfisreglur fyrir stjórnir og æðstu stjórnendur fjármálafyrirtækja,  hertar verða reglur um lánveitingar með veði í hlutabréfum, krosseignarhald, lán til tengdra aðila og áhættuskuldbindingar auk þess sem meiri áhersla verður lögð á áhættustýringu og ábyrgð stjórnar og stjórnenda í því samhengi.   Heimildir eftirlitsaðila til inngrips verða rýmkaðar, ábyrgð endurskoðunardeilda aukin og eftirlit aukið með eigendum virkra eignarhluta.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur einnig lagt í heildarendurskoðun á lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði sem tekur mið af þeirri umræðu sem fram hefur farið í kjölfar áfallsins. Þá hefur verið unnið að endurskoðun laga um hlutafélög og einkahlutafélög, einkum til að auka gegnsæi varðandi eignarhald,  ábyrgð stjórnarmanna og réttindi hluthafa, sérstaklega þeirra sem eru í minni hluta.  Öll munu þessi frumvörp hafa áhrif á umgjörð fjármálakerfisins og hag fjárfesta.

 Á uppgangstímum bjuggu íslensk stjórnvöld í haginn fyrir fjárfesta: fjármagnstekjuskattar voru lágir,  skattaumhverfi fyrirtækja varð sífellt hagstæðara; fremur aðhaldslítil peningastefna ásamt taumlausum vexti bankakerfisins tryggði að fjármagn var ódýrt og eignir uxu stöðugt í verði. Margir fjárfestar nýttu það tækifæri sem umhverfið bauð af skynsemi og varkárni en því verður ekki á móti mælt að mikið af fjármagni leitaði því miður tækifæra þar sem gróðinn virtist skjótfenginn en reyndist að sama skapi hverfull.  Þá verður ekki undan því vikist að viðurkenna að stjórnvöld stóðu ekki vaktina af nægilegri festu og tryggðu að almenningur yrði ekki fyrir skaða af framferði einkaaðila.

Ég hygg að við séum nú flest öll reynslunni ríkari og flestum er í huga að nýta þau tækifæri sem búa í efnahagsumhverfinu af skynsemi og ráðdeild.

Mikilvægast er sennilega að hafa í huga að tækifæri sem eru of góð til að vera sönn eru sennilega hvorki góð né sönn: Í efnahagslífinu leynast á hverjum tíma mörg fjárfestingatækifæri sem falla í skuggann þar sem þau eru ekki líkleg til að gefa af sér skyndilegan eða mikinn gróða. Slíkar fjárfestingar þar sem skynsamlegur vöxtur helst í hendur við hæfilega áhættu eru hinsvegar oft líklegri til þess að standast tímans tönn og veita góða ávöxtun yfir langan tíma. 

Í öðru lagi mega fjárfestar ekki halda sig með allt sitt fjármagn í öruggu skjóli bankainnstæðna og ríkisbréfa, þótt það hafi verið eðlileg viðbrögð meðan ringulreiðin var mest.  Sennilega hafa tækifærin til að fjárfesta með viðunandi áhættu og góðri ávöxtun sjaldan verið betri.  Þannig hefur sjaldan verið mikilvægara að fjárfestar hlúi að sprotafyrirtækjum eða fjárfestingartækifærum í framleiðslu og þjónustu sem áttu erfitt með að ná augum fjárfesta á uppgangstímum.  Líkurnar á að þessi fyrirtæki og fjárfestingartækifæri nái að blómstra eru nú mun betri en áður, ekki síst vegna þess að ruðningsáhrifa hins fjármagnsfreka gamla bankakerfis og ofurlaunakerfis þess gætir ekki lengur.  

Með því að draga úr þensluvekjandi áhrifum af ójafnvægi í fjármálakerfinu og styðja fjárfestingu í sprotafyrirtækjum með hagstæðri skattlagningu leggja stjórnvöld sitt af mörkum til þess að efla vöxt í þessum geira.

Í þriðja lagi eru fjárfestingatækifæri víða þar sem hagstætt verð, vænt ávöxtun og viðunandi áhætta helst í hendur. Gengi íslensku krónunnar hefur sjaldan verið hagstæðara, jafnt fyrir útflutningsfyrirtæki sem eru nú skyndilega með betri samkeppnisstöðu en nokkru sinni áður og fyrir þá fjárfesta – innlenda sem erlenda – sem eiga erlendar eignir og geta nú ótrauðir flutt það fé til Íslands á bestu fáanlegu kjörum, sem líklega bjóðast aldrei aftur. Það gildir það sama um fjárfesta og ferðamenn – þeir fá líklega aldrei betra tækifæri til að sækja Ísland heim en nú.

Þannig var það skref sem við tókum 1. nóvember við afnám fyrsta hluta fjármagnshaftanna afar mikilvægt – öllum fjárfestum býðst nú að flytja fé til landsins í þeirri vissu að það fé sem berst inn til nýrra fjárfestinga eða er skipt í krónur á innlendum reikningum sé hér óbundið.

Meginmarkmið okkar hlýtur að vera að endurreisa hagkerfið og skjóta styrkari stoðum undir hagvöxt til lengri tíma litið. Þannig getur nýtt mynstur í efnahagslífinu orðið til með minni áherslu á fyrirtækjasamsteypur með flóknu eignarhaldi en meiri áherslu á fleiri, smærri og fjölbreyttari fyrirtæki með einfaldara og gagnsærra eignarhaldi. 

Jafnvel í eðlilegu árferði tekur atvinnulíf sífelldum breytingum. Fyrirtæki koma og fara, nýjar viðskiptahugmyndir koma fram, nýjar vörur og framleiðsluaðferðir ryðja burt því sem áður var alls ráðandi. Þegar hagsveiflan er djúp og snörp verða þessar breytingar róttækari og örari. Hagfræðingar tala stundum um skapandi eyðileggingu eða creative destruction í þessu samhengi. Hugmyndin er alla jafna tengd nafni hagfræðingsins Joseph Schumpeter sem skrifaði um nauðsyn þess að ryðja burt viðskiptavenjum og fyrirtækjum sem ekki stæðust tímans tönn, til að rýma fyrir nýjum. Það er engin tilviljun að hugmyndin kom fram á einhverjum mesta umrótstíma mannkynssögunnar, í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar og að nýlokinni heimskreppu.

Í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu munum við meðal annars beita okkur fyrir því að lagarammi um fjármálakerfið, hlutafélög, eignarhaldsfélög og fjárfestingarsjóði stuðli að heilbrigðri endurnýjun hagkerfisins. Ætlunin er ekki að endurreisa hagkerfið sem hrundi í lítt breyttri mynd.

Fjármagnseigendur þurfa að sínu leyti að axla meiri ábyrgð – veita þeim sem stjórna fjárfestingu virkt aðhald og krefjast þess að áhætta sé gerð sýnileg og mælanleg.  Þetta sjónarmið er einnig haft að leiðarljósi við þær lagabreytingar sem ég mun beita mér fyrir á næstunni.

Einnig ættum við öll að vera sammála um það að búa verði svo um hnútana að einkaaðilar geti í fjárfestingum sínum og rekstri ekki firrt sjálfa sig áhættu og varpað henni yfir á almenning.  Áhætta, ábyrgð og væntur ávinningur verða að haldast í hendur. Versta hugsanlega skipting áhættu er þegar einstakir fjárfestar njóta þess ríkulega ef vel gengur en ef illa gengur sitja skattgreiðendur eða grandalausir meðfjárfestar uppi með reikninginn. Endurbætur á regluverkinu og ný umgjörð fjármálamarkaðar munu að sjálfsögðu einnig markast af þessu.  

Allar þær breytingar sem gerðar verða til að treysta stoðir efnahagslífsins og regluverk fjármálamarkaðar eru til þess fallnar að bæta hag fjárfesta, jafnt innlendra sem erlendra.

Við þurfum öll að vera undir það búin að leiðin framundan verði grýtt. Vísast mun mörgum finnast þeir taka eitt skref aftur á bak fyrir hver tvö fram á við. Íslendingar eru ekki einir á báti – hið alþjóðlega fjármálakerfi hefur steytt á skeri og ríkisstjórnir um allan heim glíma nú við djúpstæðan og langvarandi efnahagsvanda. Væntanlega verða flestir útflutningsmarkaðir erfiðir og fjármagn dýrt enn um sinn.  Það eru engar einfaldar og skjótvirkar lausnir í boði. Engu að síður bendir ekkert til annars en að við Íslendingar munum vinna okkur út úr þessum vanda og standa styrkari fótum eftir en áður. Fyrr en varir munum við sjá sköpunina sem eyðileggingin gerði mögulega.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum