Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. janúar 2010 DómsmálaráðuneytiðRagna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009-2010

Predikun í Grensáskirkju á nýársdag 2010

Predikun í Grensáskirkju á nýársdag 2010
Ragna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra 

---------------

Gleðilegt ár.

Ég þakka þann heiður að vera boðin hingað á nýársdag, á þeim tímamótum þegar liðna árið kveður og nýtt heilsar. Nýtt ár gefur fyrirheit – fyrirheit um hið ókomna, það sem við eigum í vændum. – Hvað eigum við í vændum? Það vitum við ekki.

Óvissa getur vakið tilhlökkun en hún getur líka vakið kvíða og óróleika. Einkum nú vegna þeirra breytinga sem orðið hafa í íslensku samfélagi frá haustdögum 2008. Þeim breytingum er ekki lokið en í stað þess að þær verði til hins verra, eins og varð við bankahrunið, vinnum við að því að þær verði til hins betra. Við vinnum að því sem samfélag að koma okkur á réttan kjöl. En hlutirnir verða ekki samir – að minnsta kosti ekki í bráð. Yrði það eftirsóknarvert að hverfa aftur til góðærisins? Ef ekki, til hvaða tíma getum við sætt okkur við að hverfa? Til ársins 2001? Eða jafnvel 1995? Ef fregnir berast af því að lífskjör verði svipuð og árið 2001, þá lítur maður til baka og reynir að muna, hvernig var þetta nú aftur þá? Að hverfa aftur um nokkur ár, það er þó þolanlegt, eða hvað? 

Það sem ekki er hægt að hugsa sér er að við hverfum til þess tíma þegar fólkið í landinu bjó almennt við kröpp kjör. Hollt er að heyra frásögn þeirra sem eldri eru af því sem tíðkaðist hér áður fyrr – jafnvel svo seint sem á fjórða áratug síðustu aldar en ég ætla að rekja hér minningabrot frá tengdaföður mínum, Birni Jónssyni fyrrverandi skólastjóra, en hann fæddist árið 1932.

Hann segir svo frá: ,,Þegar ég fæddist bjuggu foreldrar mínir í lélegum torfbæ norður í landi, á Ytra-Skörðugili í Skagafirði, fluttu þangað frá Glaumbæ vorið 1927. [...] [K]otið var vanrækt og niðurnítt. Eini nýtilegi húsakosturinn var 100 kinda fjárhús og heyhlaða, hvort tveggja nýleg torfhús, byggð með viðum úr gömlu kirkjunni í Glaumbæ. Annað þurfti að byggja upp frá grunni.

Það var óskemmtilegt að flytja inn í þennan gamla og hrörlega torfbæ en ekki var um annað að ræða. Fyrst þurfti að bæta jörðina svo hægt væri að stækka búið, síðan að byggja yfir sig að nútímasið.“ Tilvitnun lýkur. Ný hús á þeim tíma voru byggð úr timbri eða steinsteypu – stundum torfi að einhverju leyti – og segir Björn þau alltaf hafa verið köld því að fólk hafi ekki kunnað að einangra þau og efnahagur hafi ekki leyft mikla upphitun.

Ég vitna aftur til orða Björns sem lýsir aðstæðum almennt á þessum tíma: „[Þ]etta er fjórði áratugur 20. aldar. Mikill hluti þjóðarinnar býr enn í torfbæjum og allir eru fátækir. Kreppan mikla er í algleymingi um víða veröld. En menn eru vongóðir þrátt fyrir allt og trúa því að betri dagar séu í vændum.

Þjóðfélagið er fátækt, fólk hefur til hnífs og skeiðar en fjarska lítið fram yfir það. Fátækt liðinna alda hefur innrætt þjóðinni seiglu og hörku. Hver og einn veit að hann verður að bjarga sér sjálfur, aðrir gera það tæpast fyrir hann svo viðunandi sé. Öryggisnet nútímans er óþekkt enn.

Harðindi og áföll fyrri tíma eru mörgum í fersku minni. Áföllin í gamla daga voru oft sviplík: Fyrsta árið féll búfénaður úr hor, næsta ár dó fólk úr hungri. Spurningin var hvort það mannfall stæði lengur eða skemur. Þessi kröppu kjör höfðu alið upp í mönnum hörku og talsvert vægðarleysi við sjálfa sig, við málleysingja og þá sem minna máttu sín. Nú er heldur farið að rofa til og þá finnst mönnum þeir hafi efni á að fara betur með skepnur og koma mildilegar fram við börn og gamalmenni. Þeir eygja betri daga,“ segir Björn í frásögn sinni.

Tilvitnunin í orð tengdaföður míns heldur áfram:

„Og veðráttan fer batnandi! Það hlýnar heldur með hverju ári sem líður, eftir mikinn kulda í aldarbyrjun. Og það eru mörg nýmæli í gangi.

Nú er verið að leggja veg frá Sauðárkróki fram í héraðið og hann lengist um fáeina kílómetra á hverju sumri. Verkinu miðar hægt því að allt er unnið með handverkfærum og ofaníburður er fluttur í veginn á hestvögnum.

Nú þarf ekki lengur að flytja allar vörur á klakk, í kaupstað eða úr. Hjólið hefur verið tekið í notkun í Skagafirði! Menn fara ríðandi í kaupstaðinn eins og áður en nú teyma þeir ekki klyfjahesta í lest heldur vagnhest með kerru í eftirdragi. Sjálfsþurftarbúskapurinn er í fullu gildi. Sjálfstæði heimilisins byggist á að framleiða sjálft sem mest af nauðþurftum sínum. Að öðrum kosti gengur dæmið ekki upp.“

Lýk ég nú tilvitnun í frásögn tengdaföður míns, Björns Jónssonar. Mér finnst ótrúlegt til þess að hugsa að hér er ekki farið lengra aftur í tímann en rúma sjö áratugi, og ótrúlegt til þess að hugsa hverju við höfum áorkað síðan hér á landi.

Ég vil til gamans bæta því við að afi minn sagði mér frá því að þegar hann var ungur maður á vertíð í Eyjum veitti hann sér munað einu sinni í viku – hann keypti sér maltflösku á 11 aura. Hann hlakkaði alltaf til.  Þetta var skömmu áður en tengdapabbi fæddist í torfkofanum. Mér þótti sem ung stúlka þessi frásögn afa míns ákaflega fjarstæðukennd – og þó hafði ég aldrei upplifað neitt góðæri.  Ekki veit ég hvað nútímabörn segðu. Ætli þau segðu nokkuð.

Vindum okkur því næst til ársins 2007, sem er orðið tákngervingur ágirndar og eyðslu. Veislan er í hámarki og margir standa í þeirri trú að þeir séu ríkir – af veraldlegum auði vel að merkja. Aðrir hafa það eins og venjulega. Sumum líður vel, öðrum illa eins og gengur. Lífið virtist vera svo auðvelt – alltaf jákvæðar fréttir af efnahagnum og genginu. Allt breyttist þetta í einni svipan á árinu 2008  og það til hins verra. Þó hefur því verið fleygt að okkur líði þrátt fyrir allt betur nú en þá – ekki er ég dómbær á það en hef heyrt vitnað til frásagna um að nú eyði fólk meiri tíma með fjölskyldum sínum og við menningariðkun ýmiskonar. Börnin séu rólegri í skólanum og þeim virðist líða betur. Kjörin eru þó ekki þau sömu nú og fyrir tveimur árum og þau hafa rýrnað. Við þurfum þó ekki að sætta okkur við svipuð kjör og forfeður okkar og formæður, sem þurftu að búa í torfbæjum.

Hugum þá að árinu 2010, sem er rétt að hefjast. Hvað sem góðærinu mikla líður og eftirleik þess er ljóst að við þurfum að takast á við framhaldið – við þurfum að huga að framtíðinni. Við höldum áfram okkar daglega lífi, hvort sem við súpum seyðið af bankahruninu eða sleppum fyrir horn. Öll verðum við þó að hafa hugfast að við, sem búum á þessu landi, búum hér saman og því eru örlög okkar samtvinnuð. Því eru aðstæður annarra okkur ekki óviðkomandi. Við búum hér  saman í samfélagi við aðra og njótum stuðnings hvort af öðru. Við erum öll Guðs börn.

Samhjálp og náungakærleikur koma í stað ágirndar og sérgæsku. Sanna sögur af samhjálp nú fyrir jólin að hér eru margar hjálpfúsar hendur, sem eru örugglega meira en tilbúnar að halda áfram að láta gott af sér leiða og munu sjálfsagt gera það. Einmitt vegna þess að örlög okkar eru samtvinnuð og við komum hvert öðru við.

Við skulum líka hafa hugfast að það er í raun og veru fátt, sem hendir okkur, nýtt undir sólinni. Kynslóðirnar taka við ein af annarri og eiga sér kjölfestu í Guði, sem hefur verið okkur athvarf frá kyni til kyns svo ég vitni til Davíðssálma, ritningarlesturs dagsins. Þar segir:

„Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert það þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir ,,Hverfið aftur þér mannanna börn“.“

Maður getur ekki annað en fundið til smæðar sinnar. Það er reyndar mjög hollt öðru hverju.

Kynslóðirnar koma og fara og því er mikilvægt að þær læri hver af annarri. Unga fólkið, sem þekkti hvorki óðaverðbólgu né gengishrun, unga fólkið sem fékk mikla peninga að láni, örvæntir og hefur kannski orðið fyrir áfalli í fyrsta sinn. Og fyrstu áföllin, þau eru allra verst. Því þá hefur maður enga reynslu til að byggja á sem segir að það sé hægt að komast yfir þau.

Þarna hafa eldri kynslóðirnar afar mikilvægu hlutverki að gegna og segja frá því hvernig þær komust yfir erfiðleikana. Því eins og frásögn tengdaföður míns sýnir er frá mörgu að segja. Unga fólkið verður að fá leiðsögn um að það er hægt að komast yfir áföll, þótt útkoman á endanum sé kannski ekki alveg sú sem vonast var eftir.

Það verður að gefa unga fólkinu von og trú. Við gefum vonina með því að vera jákvæð og líta björtum augum fram á veginn. Virðing fyrir hvert öðru er líka mikilvæg og við kennum ekki virðingu nema sýna hana sjálf – auk þess verðum við líka að haga okkur þannig að við verðskuldum virðinguna, það er augljóst.

Við verðum að gefa unga fólkinu, og hvert öðru í leiðinni, veganesti til að takast á við áföllin og þrek til að byggja upp að nýju. Það gerum við með því að stappa í þau stálinu.

Nú má ekki skilja orð mín þannig að alltaf verði að gera gott úr öllu og breiða yfir vankantana. Reyndar þótti það kostur hér í eina tíð – að bera ekki tilfinningar sínar á torg. En það heyrir sögunni til. Við verðum líka að leyfa okkur að vera mannleg. Tilfinningar á borð við beiskju, fyrirlitningu og hatur eru mannlegar en kúnstin er sú að takast á við þær og leyfa þeim ekki að taka völdin. Veita verður orkunni á jákvæðari brautir.

Ef við erum þjökuð  af slíkum tilfinningum of lengi í eftirleik hrunsins getur það tafið fyrir endurreisninni. Því er uppgjörið svo nauðsynlegt. Það getur ekki farið fram fyrr en ljóst er hvað gerðist í aðdraganda hrunsins og hverjar orsakirnar voru. Uppgjörið fer þannig að hluta til fram opinberlega en það þarf líka að fara fram hið innra með hverjum og einum. Tengsl og þræðir liggja víða í íslensku samfélagi og gerir það okkur ef til vill erfiðara fyrir en ef um stórþjóð væri að ræða. Við getum þó notað nálægðina við hvert annað til að vinna að samheldni – það er mikill kostur. Við skulum horfa fram á við, hugsa um hag þjóðarinnar, um hag barna okkar og afkomenda í framtíðinni og leggja okkar ítrasta af mörkum til að byggja hér upp heilsteypt og gott samfélag, þar sem starfskraftar dugmikilla og heiðarlegra einstaklinga finna sér farveg.  Við getum það saman.

Við þá vinnu höfum við afar gott nesti – við höfum mjög gott meðal við slæmum tilfinningum, og það er trúin. Gott er að staldra við og hugleiða hinn kristna boðskap – minnast kærleikans og umburðarlyndisins og alls þess góða sem trúin gefur okkur.

Byrjum árið á því strax, nú á þessum dásamlega nýársdegi, og minnumst þess að þann dag fyrir löngu síðan var ungur sveinn látinn heita Jesús. Látum þá minningu gefa okkur trúna, vonina og kærleikann og megi Guð gefa að þessar góðu tilfinningar fylgi okkur út í daginn og efli okkur til góðra verka í framtíðinni sem bíða okkar.

Ég óska ykkur farsældar og guðs blessunar.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum