Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. febrúar 2010 MatvælaráðuneytiðGylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra 2009-2013

Ávarp efnahags- og viðskiptaráðherra við setningu fundarins „Virkjum karla og konur“ á Hótel Nordica miðvikudaginn 10. febrúar 2010

 

Heiðruðu ráðstefnugestir

Árin 2007 og 2008 stóðu  Félag kvenna í atvinnurekstri, viðskiptaráðuneytið og Samtök atvinnulífsins að tveimur námsstefnum sem helgaðar voru því brýna umræðuefni hvernig virkja megi betur kraft og fjármagn  kvenna í atvinnulífinu. 

Í ár er yfirskrift fundarins „Virkjum karla og konur – fjölbreytni í forystu.“

Í þessari yfirskrift eru fólgin mikilvæg skilaboð.  Ójöfn staða kynjanna í atvinnulífi, menntakerfi og stjórnsýslu hefur án efa sett mark sitt á þróun þjóðmála hin síðari ár.  Sennilega getum við verið sammála um það að einsleitni í hugarfari og ákvörðunum í viðskiptalífinu, sem tengist á sinn hátt því hversu kynbundin hlutverk eru í fyrirtækjum og stjórnkerfi, átti sinn þátt í þeim ósköpum sem yfir okkur hafa dunið. 

Ef við gætum horfið til baka og endurtekið leikinn er nokkuð öruggt að við myndum breyta um reglur á vellinum.  Kalla fleiri til forystu með ólíkan bakgrunn, leyfa fjölbreyttari skoðunum og gagnrýnni hugsun að hafa áhrif á ákvarðanir og stefnu.

II

Undanfarin ár hefur það margoft komið til álita að setja lög um hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja í ljósi þeirra niðurstaðna sem liggja fyrir um ójafnan hlut kynjanna.  Þannig hefur nýleg athugun Hagstofunnar leitt í ljós að níu af hverjum tíu framkvæmdastjórum, stjórnarformönnum og stjórnarmönnum fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri eru karlar. Þar segir einnig að á tímabilinu 1999–2007 hafi kynjaskipting stjórnarmanna og stjórnarformanna nánast verið sú sama, fimmtungur konur og afgangurinn karlar.

M.a. til að bregðast við þessum niðurstöðum lagði ég síðastliðið haust fram á Alþingi frumvarp  um að í ákvæðum laganna um hlutafélög og laganna um einkahlutafélög um stjórnir verði tekið fram að gætt skuli að kynjahlutföllum og að í tilkynningum um stjórnir til hlutafélagaskrár skuli sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna í stjórn og meðal starfsmanna og stjórnenda þegar fleiri en 25 starfsmenn starf að jafnaði hjá félaginu. 

Í frumvarpinu er einnig lagt til ákvæði um að við ráðningu framkvæmdastjóra skuli gætt að kynjahlutföllum og að í tilkynningum til hlutafélagaskrár skuli gefa upplýsingar um hlutföll kynjanna meðal framkvæmdastjóra.

Samkvæmt gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, skulu atvinnurekendur vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna í starfsemi sinni og á vinnumarkaði almennt. Fyrirtækjum og stofnunum, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði, er auk þess skylt að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína.  Jafnréttisstofa getur framfylgt þessari skyldu fyrirtækja og stofnana með því að mæla fyrir um úrbætur og  lagt á hlutaðeigandi aðila dagsektir ef þeim tilmælum er ekki sinnt eða ef hlutaðeigandi sinna ekki upplýsingaskyldu.

Í umræðum um hið nýja frumvarp á Alþingi hafa tekist á þau sjónarmið annarsvegar að ganga þurfi lengra til að skylda fyrirtæki að jafna hlut kvenna í stjórnunarstöðum og hinsvegar að í stað þess að boða og banna ætti hið opinbera að beita jákvæðri til fyrirtækja. 

Í þessum umræðum hefur m.a. verið vísað til þess átaks sem hrint var af stokkunum með samkomulagi SA, FKA og Viðskiptaráðs með stuðningi þingmanna í öllum flokkum þar sem hvatt er til fjölgunar kvenna í forystusveit í íslensku atvinnulífi.  Markmiðið átaksins er að innan fjögurra ára, þ.e. í árslok 2013 verði hlutfall hvors kyns í stjórnunarstöðum ekki undir 40%.

Hvað sem líður átaksverkefni og lagafrumvarpi er ljóst að endanlegt ákvörðunarvald og frumkvæði í þessum efnum liggur hjá eigendum og stjórnendum fyrirtækja eða stofnana.

III

Færri konur hafa völd og áhrif í viðskiptalífinu en karlar. Á móti kemur að slagsíðan annars staðar í samfélaginu getur einnig verið á hina hliðina. Þannig höfum við á undanförnum árum séð öra þróun innan skólakerfisins í átt til þess að konur sinna meirihluta kennslu á fyrstu skólastigum og eru í miklum meirihluta meðal nemenda á framhalds- og háskólastigi.

Í grunnskólum og leikskólum eru konur því í yfirgnæfandi meirihluta kennara og meirihluti kennara í framhaldsskólum eru nú einnig konur.  Enn saxast á forskot karla við kennslu í háskólum og stefnir allt í það að konur verði orðnar þar í meirihluta innan fárra ára. Kunnara er en frá þurfi að segja að konur eru einnig í meirihluta þeirra sem útskrifast úr framhaldsskólum og nær allar deildir á háskólastigi eru setnar fleiri konum en körlum. 

Þetta ójafnvægi í menntakerfinu birtist okkur nú sem jákvæð leiðrétting frá fyrra ástandi þegar karlar voru yfirgnæfandi innan kennarastéttarinnar og í nemendahópi.  Von bráðar munum við hinsvegar þurfa að takast á við það að leita meira jafnvægis á ný þannig að ákveðnar starfsstéttir og fræðigreinar verði ekki of einsleitar.

Eins og er mun þessi þróun innan menntakerfisins hinsvegar án efa smita út frá sér inn í atvinnulífið.  Viðskiptafræðingar og lögfræðingar eru t.d. mjög áberandi í æðstu stöðum í viðskiptalífinu og raunar einnig í stjórnkerfinu og stjórnmálum.  Staðan varðandi kynjaskiptingu í stjórnum og stjórnunarstöðu í dag endurspeglar þannig að einhverju leyti kynjaskiptinguna meðal viðskipta- og laganema fortíðarinnar. Þar sem hlutföll kynjanna meðal útskrifaðra  viðskiptafræðinga og lögfræðinga eru óðum að verða jöfn mun þróunin væntanlega verða í þá átt að fleiri konur veljist til æðstu ábyrgðar í viðskiptalífinu og hjá hinu opinbera.  Hversu ör sú þróun verður er hinsvegar undir eigendum og stjórnendum komið eins og áður segir.

IV

Góðir áheyrendur,

Sú staðreynd að konur eru minna áberandi í forystusveit íslensks atvinnulífs hefur verið lengi ljós en því miður gengur hægt að breyta henni.  Með því að virkja ekki til fulls krafta beggja kynja á þessum vígstöðvum hefur samfélagið tvímælalaust orðið fyrir skaða. Það eru augljós gæði og gagn fólgið í fjölbreytni. Við sjáum þess stað í lífríkinu, í menningunni og í efnahagslífinu. Nútíma fjárfestingafræði byggir á þeirri grunnhugmynd að dreifð áhætta og ábati haldist í hendur.  Að safna öllum eggjunum í eina körfu þóttu aldrei góð hússtjórnarfræði og reglan gildir enn.

Hagur einstaks fyrirtækis eða stofnunar af því að gæta jafnræðis og auka fjölbreytni getur í sumum tilvikum verið minni en hagur heildarinnar.  Því þarf hið opinbera að ætla sér hlutverk og marka skýra stefnu. Boð og bönn sem ætlað er að veita aðhald og leiðrétta misrétti geta hinsvegar orðið að óþarfa byrði og leitt til lakari niðurstöðu. Það verður því að gæta jafnvægis í þessum efnum. Almennt er eigendum og stjórnendum ávalt lögð rík skylda á herðar.

Það er sameiginlegt verkefni okkar að virkja til fulls þá krafta sem liggja hjá einstaklingum af báðum kynjum og efla með því fjölbreytni athafna og sjónarmiða sem þjóðfélagið þarfnast nú sem aldrei fyrr.  Þau markmið sem sett hafa verið í orði þurfa að nást á borði.

Ég þakka fyrir það tækifæri að fá að ávarpa ykkur í dag og lýsi ráðstefnuna setta.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum