Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

1. mars 2010 MatvælaráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Ávarp Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við setningu Búnaðarþings 28. febrúar 2010

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Bændasamtaka Íslands, Haraldur Benediktsson, Búnaðarþingsfulltrúar og aðrir viðstaddir.

Nú er Búnaðarþing að hefja störf að nýju, þessi virta samkoma, sem fyrir löngu hefur fest sig í sessi – og haft áhrif á fjölmörgum sviðum íslensks samfélags.

 

Á vettvangi Búnaðarþings eru hagsmunamál bænda tekin til umræðu og afgreiðslu. 

Við setningu Búnaðarþings gefst ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og greina frá því sem verið er að vinna í þágu atvinnuvegarins.

Fram undan eru stór verkefni og sjaldan eða aldrei hefur verið meiri nauðsyn á yfirvegaðri umræðu og samstöðu þjóðarinnar þannig  að sigrast megi á þeim miklu erfiðleikum sem við blasa.  Hvorki má nokkur undan líta né láta sérhyggju ráða för.  Samstaða þjóðarinnar og trú hennar á landið og möguleika þess er það sem öllu skiptir.

Viðhorf þjóðarinnar til íslenskra sveita er órjúfanlega tengt íslenskum landbúnaði og ég fullyrði að sjaldan eða aldrei hafi jákvæðari straumar legið frá hinum almenna borgara út í sveitirnar en einmitt nú.  Þetta jákvæða viðhorf er afar mikilvægt. 

Gildi landbúnaðar og sjávarútvegs fyrir íslenska þjóð er meira nú en oft áður. Menn gera sér nú enfremur betur grein fyrir þýðingu þess að grunnstoðir og ímynd þessara greina verði tryggðar í stjórnsýslu landsins. Borist hefur fjöldi ályktana og greinargerða víðs vegar af landinu þar sem þetta sjónarmið er áréttað sterklega, þjóðin vill öflugt ráðuneyti landbúnaðar og sjávarútvegs. Ég hef lýst mig sammála þessum sjónarmiðum og legg á það áherslu að ekki sé hrapað að neinum breytingum í þeim efnum.

Margir hafa bent á sérstöðu okkar hvað varðar hollar og hreinar afurðir, nýja markaði, sívaxandi fæðuþörf heimsins og ný tækifæri sem hafa skapast hér á landi vegna breytts veðurfars.  Þessi umræða hefur magnast síðustu misseri, ekki aðeins hér á Íslandi, heldur um allan heim sem kristallast í þeim markmiðum að þjóðir lifi við fæðuöryggi.

Að sama skapi og það er mikilvægt að treysta grunnstoðir samfélags okkar er ekki síður mikilvægt að efla svo sem unnt er alla nýsköpun og framfarir í landinu. Við verðum að halda ótrauð áfram vinnu við að móta og fullgera og meðan ég er í stöðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun ég leggja mitt af mörkum.

Hér vil ég sérstaklega nefna framlag  Matíss og hið mikla starf stofnunarinnar í þróun matvæla og matvælavinnslu. Stofnunin hefur jafnframt borið gæfu til  að efla  starf sitt í hinum dreifðu byggðum og sýnir það mikil hyggindi stjórnenda hennar.

Fjárhagsstaða ríkisins mætti vera betri og það vitum við öll. Beita þarf niðurskurðarhnífnum óspart og það kemur og mun koma niður á starfsemi Bændasamtakanna eins og annarra. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka forsvarsmönnum bænda skilning og samstarf vegna þessa erfiða verkefnis. Enn er ólokið frágangi málefna er varða búnaðarmálasamning og Lífeyrissjóð bænda. Meginástæðan er sú, að enn er verið að vinna að heildaráætlunum fyrir fjárhag íslenska ríkisins og óvissan er mikil. Unnið er hörðum höndum að lausn þessara mála hjá ráðuneytum landbúnaðar og fjármála í samvinnu við Bændasamtök Íslands.

Allmargir íslenskir bændur eiga í verulegum fjárhagsvanda vegna fjármálakreppunnar. Á því stóra sviði eru bændur leiksoppar örlaganna fremur en áhrifavaldar.  Slæm fjárhagsstaða margra í landbúnaði og skortur á rekstrarfé hjá hinum verst stöddu er háalvarlegt mál því þar er í húfi fæðuöryggi þjóðarinnar, dýravernd og hætta á óhóflegri samþjöppun og þar með veikingu fjölskyldueiningarinnar sem er okkur svo mikilvæg. Það er því mikil samfélagsleg áhætta sem fylgir í þessu máli og því verður að tryggja rekstrargrundvöllinn, þannig að framleiðsla haldist. Í síðustu viku átti ég fund með stóru bönkunum þremur ásamt fulltrúum úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis, viðskiptanefnd og forsvarsmönnum Bændasamtakanna. Ekki gat ég merkt annað en þessir aðilar séu allir af vilja gerðir til að reyna sameiginlega að ná fram lausn sem dugir. Þessu starfi mun verða haldið áfram núna á næstu dögum og mun ráðuneytið fylgjast með framvindu þess.

Verkfæri ráðuneytisins eru hins vegar af skornum skammti. Lánasjóður landbúnaðarins varð snemma einkavæðingareldinum að bráð og Jarðasjóður er ekki eins öflugur og þyrfti. Spurning vaknar hvort ekki sé rétt að huga að nýju fyrirkomulagi í fjármögnun landbúnaðarins sem taki mið af því besta sem áður var. Er hægt að endurvekja sjóði til að styrkja nýliðun og til þess að standa vörð um landbúnaðarframleiðslu á jörðunum? Þessu er hér varpað fram til umhugsunar.

Síðastliðið haust var í Búðardal blásið á kreppu og aðra óáran og stofnað Félag ungra bænda. Ég var á stofnfundinum og hreyfst af baráttuandanum sem ríkti á þeirri samkomu. Nú er verið að stofna félagsdeildir ungra bænda víða um land. Til hamingju, ungir bændur, og farnist nýjum samtökum ykkar vel í framtíðinni!  Ég heiti mínum stuðningi þar sem ég get.

Við megum ekki gleyma því að margt hefur snúist á sveif með okkur á síðustu misserum, bæði hvað varðar útflutning og annað. Við megum því sem þjóð undir engum kringumstæðum festast í einhverju svartagallsrausi. Það hefur hvorki verið né er eðli Íslendinga að leggja upp árar þótt  á móti blási. Hvað eftir annað hefur það einnig sýnt sig að þegar mest reynir á er þjóðin hvað frjóust í hugsun í leit að úrræðum og svo sannarlega gefur íslenskur landbúnaðar mikla möguleika.  Samhliða því að vinna áfram að þróun hins hefðbundna búskapar í mjólkur- og sauðfjárframleiðslu, eru íslenskir bændur og þeir aðrir sem í sveitum landsins búa að kanna nýjar hugmyndir – vinna þeim brautargengi með það að markmiði að skapa sér tekjur og bæta hag sinn og þjóðarinnar allrar.  Framsýni og dugur ásamt aðgæslu skiptir nú öllu máli.

Ágæta samkoma.

Eins og kunnugt er ákvað Alþingi að skerða samningsbundnar greiðslur samkvæmt búvörusamningum á árinu 2009. Það var gert í andstöðu við bændur sem töldu raunar að um samningsbrot væri um að ræða af hálfu ríkisvaldsins. Það var því fagnaðarefni þegar samningar milli ríkisins og bænda tókust í apríl á sl. ári um breytingar á gildandi búvörusamningum og þar með að eyða óvissu og þeim ágreiningi sem var orðinn milli samningsaðila. Ég held að það sé full ástæða til að þakka Steingrími J. Sigfússyni fv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir aðkomu hans að þessu máli, því án hans atbeina er ekki víst hvernig farið hefði.

Síðastliðið sumar gengum við fjármálaráðherra síðan frá sambærilegum samningi við garðyrkjubændur. Samhliða þeim samningi var undirrituð „viljayfirlýsing“ um þann ásetning aðila að bæta hagkvæmni íslenskrar ylræktar og auka möguleika greinarinnar á komandi árum. Í framhaldi af viljayfirlýsingunni skipaði ég starfshóp um málið sem nú er að störfum og vænti ég tillagna frá hópnum á næstu vikum. Um leið og samningurinn við garðyrkjubændur var kynntur, undirritaði ég reglugerð um nýjar upprunamerkingar matvæla. Í þessu sambandi held ég að það sé afar mikilvægt að forsætisráðuneytið ljúki endurskoðun á fánalögum sem fyrst með það að markmiði að nota megi íslenska fánann á  framleiðsluvörur okkar.

Mikil vinna hefur verið unnin í ráðuneytinu við að undirbúa nýja matvælalöggjöf. Þeirri vinnu lauk með samþykkt laga nú rétt fyrir jólin, sem fela í sér að ný matvælalöggjöf tekur gildi hérlendis að hluta 1. mars næstkomandi.

Undanfarnar tvær ríkisstjórnir, ef bráðabirgðastjórnin er undanskilin, tókust á við þetta mál, en höfðu hreinlega gefist upp í því að halda til haga hagsmunum Íslands eins og vera bar. Um tiltekin atriði í þessari matvælalöggjöf var tekist á af mikilli hörku á þeim tíma. Það var því talsvert afrek ríkisstjórnarinnar að ná matvælafrumvarpinu fram með þeim breytingum sem gerðar voru og það mótatkvæðalaust á Alþingi. Mikilvægast var að það tókst að halda innflutningsbanni á ófrosnu hráu kjöti. Rétt er að nota tækifærið hér og þakka Atla Gíslasyni formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar fyrir hans þátt í þessu máli sem var mikill. Jafnframt vil ég þakka einarða baráttu og stuðning samtaka bænda og afurðastöðva, kvenfélaga og sveitarfélaga um land allt í þessu máli.

Alþingi samþykkti á síðastliðnu vori að senda inn aðildarumsókn að ESB. Afar skiptar skoðanir eru meðal þjóðarinnar varðandi umsóknina og hugsanlega aðild en andstaða við hana er nú mjög mikil. Sú sérkennilega staða er að annar stjórnarflokkurinn er mjög áfram um aðild en hinn opinberlega andvígur henni.  Öllum er ljós mín afstaða í þessu máli og fer hún saman við skoðanir og áherslur Bændasamtaka Íslands sem og samtaka í sjávarútvegi og matvælavinnslu. Bændasamtökin hafa sett varnarlínur sem ekki verði farið yfir í viðræðunum. Það sama hefur  sjávarútvegurinn gert.  Í nýbirtu áliti framkvæmdastjórnar ESB um aðildarumsókn Íslands er tilgreint að Ísland þurfi að breyta í veigamiklum atriðum löggjöf sinni í landbúnaði ef hún á að falla að löggjöf ESB.

Það sama er uppi á teningnum í sjávarútveginum, en þar höldum við fast við þá kröfu að auðlindin í sjónum umhverfis landið verði alltaf í eigu þjóðarinnar og að fiskveiðar og fiskveiðistjórnun í lögsögu Íslands lúti ætíð íslenskum lögum og forræði, jafnframt því sem við höfum áfram fullt forræði yfir samningum um hlut okkar í deilistofnum.

Gerð er ítarleg grein fyrir þessum sömu grundvallarhagsmunum og skilyrðum í þingsályktunartillögunni sem Alþingi samþykkti.  Í greinargerð með tillögunni segir orðrétt:  

„Meirihlutinn leggur áherslu á að ríkisstjórnin fylgi þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni  sem um er að ræða. Að mati meirihlutans verður ekki vikið frá þeim hagsmunum án undanfarandi umræðu á Alþingi.“

Eftir að ég tók við starfi ráðherra hef ég lagt áherslu á að greina stöðu nokkurra búgreina.  Ég hef farið þá leið að kalla saman vinnuhópa til aðstoðar og árangur af starfi þeirra er nú að koma í ljós. Ég tiltek hér að söfnun þessara upplýsinga hefur heildartilgang sem er sá að undirbúa vinnu við heildarendurskoðun landbúnaðarstefnunnar líkt og tiltekið er í nýgerðum búvörusamningum. Vonast ég eftir góðri samvinnu og samstarfi við Bændasamtökin og aðra hagsmunaaðila þegar það starf hefst formlega.

Lokið er starfi nefndar er ég skipaði í byrjun október á síðasta ári sem hafði það verkefni að kanna og leggja fram tillögur um hvernig megi efla svínarækt á Íslandi með sérstöku tilliti til íslenskra aðstæðna hvað varðar fæðuöryggi, fóðuröflun og umhverfissjónarmið.  Nefndin hefur skilað mér skýrslu sinni og er þar að finna gagnmerkar tillögur sem unnar verða áfram. Umfjöllun nefndarinnar er allrar athygli verð og vona ég að Búnaðarþingi auðnist að fjalla um skýrslu hennar.

Þá hef ég nýlega með sama hætti skipað nefnd sem ætlað er að fjalla um umgjörð alifugla- og eggjaframleiðslu með sérstöku tilliti til íslenskra aðstæðna hvað varðar sömu þætti, fæðuöryggi þjóðarinnar, fóðuröflun og umhverfissjónarmið.  Vænti ég að nefndin ljúki störfum fyrir vorið.

Í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er skýrt kveðið á um mikilvægi þess að standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar.

Jarða- og ábúðarmál eru nátengd yfirlýstum markmiðum um sjálfbærni og fæðuöryggi. Meginstefnan hlýtur að felast í að halda utan um og vernda núverandi og framtíðar landnæði sem til matvælaframleiðslu er fallið og skapa jafnframt sem best skilyrði í hinum dreifðu byggðum til fjölþættra nota sem á þessu byggjast. Í því felst jafnframt að hafa í huga verndun einstakra náttúrufyrirbæra og vistkerfa.

Mikill meirihluti lögbýla í eigu ríkisins er á forræði ráðuneytis míns og ég er þeirrar skoðunar að farsælast sé að svo verði áfram.  Eins og gefur að skilja hafa þjóðfélagsbreytingarnar haft áhrif á þá stefnu ráðuneytisins sem tengjast ríkisjörðunum og ég tók meðal annars ákvörðun um að setja ríkisjarðir ekki í sölu á frjálsan markað, nema í undantekningartilvikum.  Þetta er í samræmi við stefnu sem Steingrímur J. Sigfússon markaði í ráðherratíð sinni. Þetta merkir að ég hyggst fremur auglýsa ríkisjarðir sem losna til leigu en að selja þær. 

Við sem þekkjum málefni sveitanna vitum af þeirri öru þróun í byggð og búháttum sem hefur orðið á síðustu árum. Henni hafa stundum verið gerð skil með þeim orðum að búunum fækki um leið og þau stækki. Við það að jörðum í búrekstri fækkar breytist landnýting. Margir bændur hasla sér völl í nýjum búgreinum, en einnig verða sífellt fleiri jarðir að frístundajörðum. Þessi þróun á sér bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar sem gera má skil í löngu máli. Ég tel mikilvægt að stjórnvöld nýti þær heimildir sem þau hafa á hendi til þess að hafa áhrif á þróunina á hverjum tíma. Við breytta nýtingu lands á ætíð að freista þess að koma í veg fyrir að landbúnaðarland eða land sem getur hentað sem landbúnaðarland í framtíðinni verði tekið undir önnur not. 

Ræktunarland er nefnilega af skornum skammti hér á landi ef við berum okkur saman við nágrannalönd okkar. Oft er sagt að Ísland sé stórt land fyrir litla þjóð. Það kann að vera rétt ef aðeins er höfð í huga stærð landsins. Hins vegar fer því fjarri að landið okkar sé stórt ef við skoðum hversu stór hluti þess er ræktunarland og berum það saman við ræktunarlönd annarra þjóða. Mikilvægt er fyrir framtíð þjóðarinnar að sú auðlind sem felst í ræktunarlandi verði varðveitt og nýtt á sjálfbæran hátt.

Nefnd um landnýtingu hefur skilað skýrslu, sem mun nýtast við stefnumótun í þeim efnum á næstu árum. Það er raunar stórmerkilegt að meðal þess sem lesa má úr skýrslu nefndarinnar er að jarðalög og ábúðarlög frá árinu 2004 hafa næsta litla eða enga þýðingu við að stýra eignarráðum á bújörðum og nýtingu á landi þeirra. Mikið íhugunarefni hlýtur að vera hvort það sé viðunandi til framtíðar. Ég vona að búnaðarþing taki skýrsluna til ítarlegrar skoðunar.

Þá tel ég einnig ljóst að skýrslan muni nýtast vel og flýta starfi vinnuhóps um endurskoðun jarða- og ábúðarlaga sem nú er starfandi. Það hafa orðið mannabreytingar í vinnuhópnum af óviðráðanlegum orsökum og hef ég nú falið Ernu Bjarnadóttur starfsmanni Bændasamtakanna að taka við formennsku í honum og ljúka því starfi með tillögu að frumvarpi til nýrra jarða- og ábúðarlaga.  

Starfandi er nefnd um framtíð kornræktar á Íslandi.  Ör þróun hefur átt sér stað á þeim vettvangi og bendir fátt til annars en stórauka megi kornrækt, bæði til manneldis og til dýrafóðurs. Þarf vart að fjölyrða um gildi þessarar nýju búgreinar en rétt að benda á gjaldeyrissparnað og fóðuröryggi. Nú stendur íslenskt korn undir um helmingi kjarnfóðurnotkunar mjólkurframleiðslunnar og menn tala um að það megi margfalda hlutdeild byggs og þar með íslensks korns í fóðri svína. Áríðandi er nú að við setjum okkur bein tímasett markmið um aukið hlutfall íslensks korns í fóðurnotkun búpenings okkar í matvælaframleiðslunni. Þessari nefnd er falið það verkefni og jafnframt gera tillögur um hvað þurfi að gera svo þau markmið náist. Ekki má heldur gleyma framleiðslu á korni beint til manneldis og vil ég hér mæla sérstaklega með „brauði ársins“ sem framleitt er úr íslensku korni frá Þorvaldseyri. Það er bæði gott og ljúffengt og án nokkurs vafa gríðarlega heilsusamlegt.

Fiskeldið hefur verið í talsverðri sókn að undanförnu.  Bleikjan er okkar verðmætasti eldisfiskur og á síðasta ári var útflutningur eldisbleikju um 3.000 tonn og söluverðmætið um 2.000 milljónir en það er um 70% af heildarútflutningsverðmætum eldisfisks. Gert er ráð fyrir að framleiðsla á bleikju aukist á næstu árum og framleiðslan verði orðin um 5.000 tonn árið 2015. Bleikjueldið er gott dæmi um vel heppnað þróunarstarf, þar sem kynbætur og rannsóknir hafa skipt sköpun varðandi framgang greinarinnar. Bleikjukynbótastarfið við Hólaskóla er forsenda þess að framþróun bleikjueldisins sé tryggð.

Hlunnindi í ám og vötnum hafa ávallt verið íslenskum bændum mikilvæg. Þau hafa mikla þýðingu núna þegar nýta þarf alla möguleika sem gefast með sjálfbærum hætti. Veiðimálastofnun hefur í áranna rás unnið að þessu verkefni með góðum árangri.

Mikill og vaxandi áhugi er á kræklingarækt og hefur fyrirtækið Norðurskel í Hrísey ræktað krækling bæði fyrir innanlandsmarkað og til útflutnings. Í undirbúningi í ráðuneytinu er ný löggjöf um skelrækt og vona ég að hægt verði að mæla fyrir henni á þessu þingi.

Ekki má gleyma því að nýting strandhlunninda og strandsvæða hefur löngum reynst mörgum bóndanum góð búbót. Dúnn, grásleppa o.fl. hafa lengi verið fastir liðir í tekjum strandbænda og ekki veit ég betur en ýmsir þeirra hafi tekið þátt í hinum margrómuðu strandveiðum á síðastliðnu ári og hyggist gera það áfram. Strandveiðarnar munu því reynast ómetanlegur stuðningur við tiltekna bændur sem búa við sjóinn í kringum landið.

Hestamennska og hrossarækt hefur verið í stöðugri sókn á undanförnum árum og áratugum. Fagmennsku í ræktun og allri meðhöndlun íslenska hestsins hefur fleygt fram þannig að nú má fullyrða að við séum nokkuð framarlega í röð iðkenda hestamennsku í heiminum og er þá sama um hvaða hrossakyn ræðir. Þessi þróun er jákvæð á allan hátt. Atvinnulíf tengt íslenska hestinum hefur einnig fest frekar í sessi bæði hér heima og erlendis. Vafalaust er íslenski hesturinn besti sendiherra okkar á erlendum vettvangi, með fullri virðingu fyrir öðrum diplómötum.

Starfandi er nefnd á vegum ráðuneytisins sem vinnur að aðgerðum til að bæta nýtingu lífræns úrgangs. Þá eru Matvælastofnun og Umhverfisstofnun að vinna að ákveðnum verkefnum sem nefndin mun taka til skoðunar og væntanlega ljúka nú fyrri hluta ársins. Í tengslum við þetta verkefni hefur og tekist gott samstarf við Samband íslenskra loðdýraframleiðenda, sem hvort tveggja mun hafa í för með sér aukna nýtingu á lífrænum úrgangi frá bæði sláturhúsum og fiskvinnslum og bæta fóðurgæði loðdýrafóðurs.

Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með hækkun á uppboðsmörkuðum á loðdýraskinnum undanfarið. Loðdýrabændur hafa átt sína góðu og slæmu daga frá upphafi greinarinnar en nú er framtíðin björt í þeirri grein. Það er ánægjulegt að núna eru það fiskeldi og loðdýrarækt sem rísa hratt upp. Þetta segir okkur bara eitt og það er að ómælt þolgæði þarf þegar nýbúgreinar eru annars vegar.

Núverandi fyrirkomulag gerir ekki ráð fyrir miklum afskiptum ráðuneytisins að markaðsmálum í landbúnaði. Ég vil þó nefna að þrátt fyrir að samdráttar hafi orðið vart á innanlandsmarkaði fyrir kindakjöt, stendur útflutningur með nokkrum blóma. Ekki má heldur gleyma hlutverki Matvælastofnunar (MAST) þegar markaðsfærsla landbúnaðarafurða er annars vegar. Kaupendur bæði innanlands og erlendis krefjast þess að eftirlit með vörunum sé með fullnægjandi hætti. Ekki verður annað séð en að MAST njóti fulls trausts í því sambandi og eftirlitskerfi þess standist kröfur. Starfsemi MAST mun eftir sem áður þurfa að fara í gegnum endurskoðun í kjölfar nýrrar matvælalöggjafar og breyttra aðstæðna. Taka þarf tillit til margs m.a. viðunandi verkaskiptingu stofnunarinnar og heilbrigðiseftirlitanna víða um land.

Ég hef sett á fót nefnd ásamt Bændasamtökunum, efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og fulltrúum afurðastöðva, sem á að finna leiðir til að framleiðendur geti staðið saman að útflutningi sláturafurða þegar markaðsaðstæður krefjast þess.

Skógrækt bænda er auðvitað alvörubúgrein og eru nú um 800 jarðir skráðar með skógrækt.  Skógurinn, þótt ungur sé, er strax farinn að skila margvíslegum afurðum og mun innan tíðar verða snar þáttur í landbúnaðarframleiðslu þessarar þjóðar.  Starfandi er nefnd sem hefur það hlutverk að fjalla um framtíðarskipan landshlutabundnu skógræktarverkefnanna og búast má við tillögum hennar innan fárra vikna

Þegar hluti rannsókna í landbúnaði var færður undir menntamálaráðuneytið var þannig frá málum gengið að töluvert fjármagn var skilið eftir í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Er ráðuneytinu ætlað að beita þessu fjármagni til þess að tryggja áfram hagnýtar rannsóknir við Landbúnaðarháskóla Íslands. Nú er komin eins árs reynsla á þetta fyrirkomulag og mun ráðuneytið í framhaldinu fara yfir einstök atriði samningsins með Landbúnaðarháskólanum í náinni samvinnu við atvinnugreinarnar.

Í fjárlögum 2010 tókst að ná fram nokkru fjárframlagi til eflingar lífrænni ræktun. Mun ég á næstunni ákveða í samráði við framleiðendur í þessari grein, hvernig best verði að nýtingu þess fjármagns staðið. Í mínum huga er alveg ljóst að við Íslendingar eigum mikla möguleika á þessu sviði og eigum að efla hlut  lífrænnar framleiðslu þjóðarinnar.

Á sama hátt fékkst fjárframlag til að efla starfsemi „Beint frá býli“ og til þess að finna út hvort hægt sé að búa nýtingu sláturafurða heima á býli betri farveg en nú er. Bæði þessi verkefni eru mikilvæg fyrir íslenskan landbúnað. Heimareykt hangikjöt og heimagerður ís svo dæmi séu tekin njóta vaxandi vinsælda og auðga matarmenninguna. 

Ekki verður svo skilið við sveitir landsins og möguleika þeirra að ekki sé minnst á ferðaþjónustu í dreifbýli og þann mikla og stóra þátt sem bændur eigi í þeirri sigurgöngu.

Ferðaþjónusta bænda og þjónusta við ferðafólk tengist órjúfanlega sívaxandi þörf bænda til að selja handverk sitt og ekki síður fjölbreyttar afurðir búanna milliliðalaust.

Ánægjulegt er að fylgjast með hversu íslenska ullin er nú eftirsótt til hvers konar vinnslu og handverks.  Þótt vel hafi verið staðið að þessum málum er ljóst að fé vantar til framkvæmda og kynningar. Þá hefur borið á því að fólk sem hugar að sölu búvara óttist reglugerðarflækjur og fjölda vottorða sem þurfi að afla sér áður en til framkvæmda kemur. Vel má vera að einfalda megi þennan farveg, en ég bendi þó á að þeir sem hafa farið út í rekstur af þessu tagi hafa tjáð mér að þegar upp sé staðið sé þetta tiltölulega einfalt. 

Góðir áheyrendur.

Ég get ekki neitað að mér þykir beinlínis sorglegt að fylgjast með framgöngu okkar fyrrum ágæta  fyrirtækis „Símans“ sem auðvitað átti aldrei að selja úr þjóðareign. Nú ríður húsum sjónvarpsauglýsing, einhvers konar húmorslaus 2007-útgáfa í anda útrásarvíkinga þar sem gert er lítið úr hefðbundnum íslenskum þjóðlegum afurðum. Nokkrir karlmenn, í lopapeysum þó, eru látnir fúlsa við íslenskum þorramat eins og um hvert annað ómeti sé að ræða. Ekki átta ég mig á hvað fyrir þessu fyrirtæki vakir eða í hvaða heimi það lifir, en ég er nokkuð viss um að svona framkoma bætir ekki ímynd „Símans“ í huga fólks. Finnst mér lítið leggjast fyrir fyrirtæki sem áður var í þjóðareign og með stolti borin mikil virðing fyrir.

Ég nefndi í upphafi mikla þýðingu Búnaðarþings. Fjölmörg mál verða þar tekin til meðferðar og afgreiðslu og þar á meðal eitthvað af þeim málum sem ég hef drepið hér á. Í landbúnaði ríkir engin stöðnun og er því sífellt horft til framtíðar. Framtíð íslenskra sveita er sterk, ímyndin góð og möguleikarnir margir.

Landið er gjöfult og margir líta til þess vonaraugum – sjá þar möguleika sem aðrar þjóðir eiga ekki. Vera má að borið verði á okkur glópagull og lofað grænum skógum.  Hyggjum hér vel að. Okkur ber að standa vörð um Ísland – gæði þess, náttúru, menningu og samfélag, landið sem okkur var trúað fyrir.  Hér fara bændur í fylkingarbrjósti.

Í Íslandsklukkunni lætur Nóbelsskáldið Arnas Arnæus segja eftirfarandi sem okkur er hollt að muna: „Þú getur sagt þeim frá mér að Ísland hafi ekki verið selt; ekki í þetta sinn. Þeir skilja það seinna.“

Ég þakka góða áheyrn og óska Búnaðarþingi farsældar í störfum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum