Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. mars 2010 MatvælaráðuneytiðGylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra 2009-2013

Ávarp Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu 11. mars 2010

 

Fundarstjóri, ágætu aðalfundargestir

Ég vil byrja á að þakka fyrir tækifæri til að ávarpa aðalfund Samtaka verslunar og þjónustu öðru sinni.

Síðustu mánuði hef ég oft bent á þá staðreynd að burðastoðir íslenska hagkerfisins eru þrátt fyrir hrun fjármálakerfisins að mestu óskaddaðar. Þrátt fyrir talsverðan samdrátt kaupmáttar og þjóðartekna búum við nú í grófum dráttum við sömu kjör og við þekktum áður en þenslutímabil síðasta áratugar gekk í garð. Velferðarkerfið er enn öflugt og  lífskjör hér þrátt fyrir allt með því besta sem gerist á vesturlöndum.  Íslenska hagkerfið hrundi ekki þótt vissulega hafi fjármálakerfið íslenska gert það.

Aðstæður eru auðvitað breyttar. Víða eru miklir erfiðleikar - en margt horfir til betri vegar – framleiðslu og þjónustugreinar standa betur í samkeppni um menntað vinnuafl en þegar fjármálakerfið var á sínu mikla þensluskeiði.  Lægra gengi krónunnar gagnvart öðrum myntum hefur bætt samkeppnisstöðu útflutningsgreina og innlendrar framleiðslu, verslunar og þjónustu.  Við höfum nú einstakt tækifæri til að auka fjölbreytni í efnahagslífinu og draga úr ójafnvægi sem óneitanlega fylgdi útrás og eignaverðsbólu sem reyndist án innstæðu.

Margir hafa orðið fyrir búsifjum undanfarin misseri.  Furðu lítið fer fyrir því í umræðunni hvernig þeim stóra og veigamikla geira verslunar og þjónustu, sem veitir fjórðungi allra landsmanna atvinnu, reiðir af.   Þessi starfsemi sem borin er upp af litlum og meðalstórum fyrirtækjum um allt land hefur svo sannarlega þurft að bregðast við mun verri rekstrarskilyrðum. Samt ber mun minna á umræðu um hana en frumframleiðsluna sem aftur er orðin í brennidepli þjóðmálanna. 

Það er því viðeigandi að Samtök verslunar- og þjónustu hafa valið þessa viku verslunarinnar til þess að vekja athygli á því starfi sem unnið er í verslunar- og þjónustufyrirtækjum um allt land.  Þessi starfsemi á mikinn þátt í því að halda uppi atvinnu og lífsgæðum hér á landi.

Við núverandi aðstæður er ekki óeðlilegt að almenn umræða um efnahagsmál hverfist um aðgerðir til að skapa aukin verðmæti og útflutningstekjur.  Við höfum sem þjóð enduruppgötvað mikilvægi jöfnuðar í viðskiptum við útlönd. Þótt fyrr hefði verið, myndu víst sumir segja.  Leiðirnar til að auka afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd eru auðvitað fyrst og fremst tvær:  Að auka verðmæti útflutnings og draga úr verðmæti innflutnings, með því að kaupa minna af erlendri vöru og þjónustu og meira af innlendri vöru og þjónustu.

Rætur þjóðmenningarinnar liggja í búskap og sjómennsku.  Forfeður okkar skildu ekki eftir margar hetjusögur um vöruflutninga. Mikilvægi þeirra var þó öllum ljóst, eins og m.a. má sjá á því að í Gamla sáttmála var mikið lagt upp úr að tryggja skipaferðir til landsins. Bækur þjóðskáldanna geyma ekki fræknar lýsingar af afrekum veitingamanna eða verslunarfólks.  Á samdráttartímum er freistandi að líta á verslun og þjónustu sem helbert prjál og óþarfa eyðslu  – skiptir nokkru máli þótt lyfjabúð loki, vörubílstjóri þurfi að leggja trukknum eða auglýsingastofum fækki um eina? En hvernig væri samfélagið ef við byggjum ekki við blómlega verslun og virka samkeppni?

Endanlega verður aðeins hluti verðmætasköpunar til í frumframleiðslunni.  Stór hluti þjóðarteknanna er skapaður af starfsfólki sem vinnur við selja vöru og veita þjónustu.  Engin vara kemst á leiðarenda til kaupenda án þess að hún fari um borð í flutningabíl, skip eða flugvél.  Það er til lítils að framleiða en hafa engin tök á að koma afurðinni í hendur kaupenda.  Verkið er aðeins hálfnað áður en varan hefur verið rækilega kynnt og seld.  Þegar viðskiptin hafa átt sér stað þarf að skila peningunum til heim, færa bókhald, greiða skattinn. Hver hlekkur í þessari keðju er mikilvægur og  á sinn hlut í að auka verðmæti framleiðslunnar og þar með hag eigandans, starfsfólksins og skattborgarans.

Nú er mikil umræða um vaxtarbrodda og ný viðhorf í atvinnusköpun:  Við þurfum að efla framleiðslu á öllum sviðum,  skapa nýjan og fjölbreyttan varning til útflutnings og verða betri í því að taka á móti fleiri og betur borgandi ferðamönnum.  En til þess að verða snillingar í að skapa og markaðssetja nýjar vörur til útflutnings eða skipuleggja innrás þúsunda ferðamanna sem snúa ánægðir heim er eins gott að við höldum rétt á spöðunum  – kunnum að nýta fjárfestingu  í sölu- og markaðsstarfi á sem bestan hátt, bjóðum upp á veitingahús og hótel sem standast ýtrustu kröfur, þekkjum bestu leiðir til að lækka flutnings- og sölukostnað og bjóðum upp á góða ráðgjöf við frumkvöðla og stofnendur sprotafyrirtækja.

Yfirskrift viku verslunar- og þjónustu er ‚spilum saman.‘ Það endurspeglar hógværa og sjálfsögð kröfu starfsfólks og eigenda verslunar og þjónustufyrirtækja um að almenningur hugi að hlutverki þessara fjölmörgu fyrirtækja við að veita atvinnu og skapa verðmæti. Hér hefur ríkt blómleg samkeppni á ýmsum sviðum verslunar og þjónustu. Að styðja grósku og enn líflegri samkeppni í þessum geira hlýtur að vera keppikefli fyrir almenning og hið opinbera. Það er ekki síst mikilvægt að nýir aðilar með ferskar hugmyndir geti haslað sér völl í verslun og þjónustu og hvatt þá sem fyrir eru til dáða. Þannig bætum við kaupmátt og lífskjör í landinu. 

Í lok síðasta árs lagði ég fram á Alþingi frumvarp til að innleiða tilskipun ESB um þjónustuviðskipti en markmið hennar er að greiða fyrir frjálsum viðskiptum og tryggja jafnræði þeirra sem veita þjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þessi tilskipun og lagasetning á sér langa forsögu. Markmiðið er að koma á raunverulegum innri markaði á sviði þjónustuviðskipta með því að fjarlægja lagalegar og stjórnsýslulegar hindranir svo að þjónustuveitendur og viðtakendur þjónustu eigi auðveldara með að veita og nýta sér þjónustu yfir landamæri. Með afnámi hindrana verður auðveldara fyrir þjónustuveitendur að veita þjónustu í öðru ríki EES án þess að veitandinn eigi þar heimili -  en það eykur samkeppni og leiðir því til hagræðis fyrir viðtakendur í formi lægra verðs og meiri gæða.  

Þessa tilskipun hefur áður borið á góma hér á aðalfundi SVÞ, en ný hyllir loks undir að lagasetning um þetta efni verði að veruleika.  Ég nefndi hér áður aukna áherslu á útflutning og verðmætasköpun. Því er ánægjulegt að þetta mikilvæga mál sé bráðum í höfn, þar sem ljóst er að innleiðing tilskipunarinnar felur í sér margvísleg ný tækifæri fyrir viðskiptalífið og neytendur með útvíkkun og dýpkun innri markaðar Evrópu.

Það er mikil áhersla lögð á fortíðina þessa dagana og augun virðast hvíla fyrst og fremst í baksýnispeglinum. Það er nauðsynlegt að huga að því sem áður fór úrskeiðis og læra af því en það verður einnig að horfa fram á veginn. Ég er þess fullviss að verslunar- og þjónustufyrirtæki á Íslandi séu vel í stakk búin til að mæta þeim áskorunum sem þar bíða og muni nýta þau tækifæri sem bjóðast við hinar breyttu aðstæður í hagkerfinu. Takist það verður þessa tímabils Íslandssögunnar ekki bara minnst fyrir hrun og erfiðleika heldur einnig og jafnvel ekki síður fyrir heilbrigðar breytingar og endurnýjun sem tryggðu Íslendingum áfram ein allra bestu lífskjör í heimi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum