Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. apríl 2010 MatvælaráðuneytiðGylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra 2009-2013

Framtíðarskipan íslenska fjármálakerfisins

Fundarstjóri, ágætu fundargestir

Ég vil þakka fyrir þetta tækifæri til að ræða um nokkra þætti í framtíðarskipan íslenska fjármálakerfisins við þá stétt sem mun líklega þurfa að inna meiri vinnu af hendi en nokkur önnur við að greiða úr flækjunum sem hið nýhrunda fjármálakerfi skilur eftir. Tímans vegna verður ekki hægt að ræða alla fleti málsins en vonandi tekst að varpa nokkru ljósi á málið.

Það þarf ekki mörg orð um það að nútíma hagkerfi þurfa öll á fjármálakerfi að halda. Án sæmilega skilvirks fjármálamarkaðar er nær ógerningur að mæta þörfum atvinnulífsins fyrir fjármagn og gera einstaklingum eða fjölskyldum kleift að sækja sér fé þegar þess er þörf, t.d. vegna húsnæðiskaupa, eða leggja fé til hliðar, t.d. vegna elliáranna.

Fjármálageiri er því nauðsynlegur. Hins vegar má færa rök að því að ekki sé endilega til bóta að sá geiri sé allt of stór. Það kostar augljóslega mikið að reka stórt fjármálakerfi. Erfiðara er að meta ávinninginn. Hagnaður fjármálafyrirtækja er vafasamur mælikvarði, m.a. vegna þess að hann getur hæglega orðið til fyrst og fremst vegna verðhækkunar ýmissra peningalegra eigna, svo sem sem hlutabréfa og skuldabréfa, en ekki vegna framleiðslu á raunverulegum verðmætum. Vegna þess að fjármálageirinn er í eðli sínu stoðgrein þá liggur beint við að meta ávinning af rekstri hans fyrst og fremst út frá því hvernig hann styður við aðra geira samfélagsins.

Hvaða skilyrði þarf þá fjármálageiri helst að uppfylla? Hann þarf umfram allt að vera skilvirkur, þ.e. miðla með litlum tilkostnaði fé til þeirra sem þurfa frá þeim sem eiga og veita aðra fjármálaþjónustu, greiðslumiðlun, gjaldeyrisviðskipti, verðbréfaútgáfu og miðlun, svo að nokkur dæmi séu nefnd nánast af handahófi, með ódýrum og öruggum hætti.

Til að þetta gangi eftir þarf margt að vera vel gert. Það þarf nokkur fjármálafyrirtæki, nógu mörg til að tryggja heilbrigða samkeppni. Fjármálafyrirtækin sjálf þurfa að vera heilbrigð, sem felur í sér að efnahagsreikningar þeirra, stjórnunarhættir, eignarhald, starfsmenn og viðskiptavinir þurfa að vera í lagi. Umgjörðin um starfsemi fyrirtækjanna þarf jafnframt að vera traust, bæði löggjöf og eftirlit. Þá þarf undirstaða sérhvers fjármálakerfis, gjaldmiðillinn og peningakerfið, að vera ábyggjandi en það felur m.a. í sér nokkuð stöðugt verðlag og gengi.

Loks þarf þetta allt saman, fjármálafyrirtækin og umgjörð þeirra, að njóta trausts, bæði innan lands og utan.
Við Íslendingar höfum sannarlega verk að vinna til að íslenska fjármálakerfið uppfylli öll þessi skilyrði. Við erum ekki ein um það. Í nánast öllum vestrænum ríkjum blasir nú við að hugsa þarf margt í fjármálakerfum landanna upp á nýtt. Vandinn er hins vegar líklega hvergi stærri og augljósari en hér. Óvíða er mönnum líka ljósara hve miklu skiptir að ná utan um verkefnið en hér.

Það er oft haft á orði að hershöfðingjar fáist helst við það á friðartímum að búa sig undir að heyja aftur síðasta stríð. Hvort sem það er rétt eða ekki þá blasir við að það fyrsta sem menn hafa í huga þegar teiknað er upp nýtt íslenskt fjármálakerfi er að tryggja að tekið sé á öllum helstu veikleikunum sem urðu því gamla að falli. Það er þó ekki nóg. Næsta fjármálakreppa – og við höfum alveg örugglega ekki upplifað þá síðustu – verður án efa ekki alveg eins og sú síðasta. Uppsprettan getur verið önnur og nýir veikleikar komið í ljós.
Í grundvallaratriðum verður því að huga að tvennu. Annars vegar að hafa fjármálakerfið og umgjörð þess þannig að það dragi mjög úr líkum á fjármálaáföllum. Hins vegar þarf að hafa til staðar úrræði sem tryggja að hægt sé að bregðast við þeim áföllum sem þó verða með því að bjarga því sem bjargað verður, loka þeim fyrirtækjum sem ekki er við bjargandi og halda nauðsynlegri starfsemi áfram. Allt þarf þetta að gera með sem minnstum tilkostnaði. Sá kostnaður sem þó fellur til á fyrst og fremst að lenda á eigendum fjármálafyrirtækja og til vara lánveitendum þeirra. Þeirra er ávinningurinn þegar vel gengur og þeirra á því líka að verða tjónið þegar illa fer.

Ekki verður öllu náð fram með breytingum á lögum en þær skipta þó miklu. Í grundvallaratriðum var áhættu skipt rangt í íslenska fjármálakerfinu sem hrundi. Eigendur og helstu stjórnendur fjármálafyrirtækja gátu teflt mjög djarft og notið þess ríkulega þegar vel gekk. Hagnaðarvonin var mest hjá þeim. Tapsáhættan var hins vegar ekki nema að litlu leyti hjá þeim. Hún hvíldi að mestu á þeim sem lánuðu bönkunum og að einhverju leyti ríkinu og þar með almenningi. Þá er einnig deginum ljósara nú að eigendur minni hluta, hvort heldur var í fjármálafyrirtækjum eða öðrum fyrirtækjum sem sóttu eigið fé til margra, áttu mjög undir högg að sækja við að verja hagsmuni sína fyrir þeim sem höfðu töglin og haldirnar við stjórn fyrirtækjanna.

Bankarnir sóttu sér gríðarlegt fé á erlenda lánsfjármarkaði. Aðgangur þeirra að þeim mörkuðum var m.a. greiður vegna þeirrar trúar manna að sérhver hinna þriggja stóru íslensku banka væri það mikilvægur að óhugsandi væri að íslenska ríkið léti hann fara í þrot. Þetta var ekki séríslensk staða. Ýmsir erlendir bankar, svo sem Lehman, nutu góðra lánskjara á sömu forsendum.

Sú staðreynd að íslensku bankarnir urðu gjaldþrota – og raunar Lehman einnig og margir fleiri – dregur eitthvað úr líkunum á því að svipuð staða komi upp aftur, að fé sé lánað út á trú og von um ríkisaðstoð í harðæri. Það er til bóta. Þó er full ástæða til að ganga lengra.
Það þarf að vera skýrt fyrirfram hvers er að vænta lendi fjármálafyrirtæki í hremmingum. Liggja þarf fyrir hvaða starfsemi tryggt verður að haldi áfram, með aðstoð hins opinbera ef þörf krefur, og hver ekki. Þurfi að skipta fyrirtækjum upp eiga leikreglur vegna þess að liggja fyrir. Röð kröfuhafa þarf að vera skýr í öllum tilfellum. Það þurfa að vera til staðar neyðarúrræði en það á helst ekki að vera þörf á neyðarlögum.
Skýrar reglur um þessi mál draga jafnframt fram hvernig áhættu er skipt. Liggi áhættan af rekstri banka fyrst og fremst hjá eigendum þeirra og, ef mjög illa fer, lánardrottnum þeirra, en ekki hjá hinu opinbera, þá er líklegra að þeir sem fjármagna banka geri það á réttum forsendum. Þetta er grundvallaratriði til að markaðurinn sjálfur veiti fjármálastofnunum eðlilegt aðhald.

Þótt aðhald markaðarins sé mjög til bóta þá er það engan veginn nóg. Vitaskuld sýnist sitt hverjum um það hve mikil afskipti hið opinbera á almennt að hafa af efnahagslífinu. Það ætti þó nú að vera hafið yfir allan vafa að ríkið þarf að setja skýrar og stífar reglur um fjármálamarkaði og fylgja þeim vel eftir.

Um hvað eiga þessar stífu og skýru reglur að fjalla? Sumt af því liggur nokkurn veginn fyrir núna. Nokkur frumvörp sem hafa verið unnin í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu undanfarið eitt og hálft ár eiga að endurspegla það. Þar er sérstaklega tekið á þáttum eins og viðskiptum við tengda aðila, lánum gegn veði í hlutabréfum, m.a. blátt bann við lánum fjármálafyrirtækja gegn veði í eigin bréfum, spornað er við óeðlilegum hvatakerfum og ógagnsæju eignarhaldi og minnihlutavernd er aukin til muna. Um þetta er sérstaklega fjallað í frumvörpum til laga um fjármálafyrirtæki, hlutafélög og einkahlutafélög, verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Einnig eru til meðferðar á Alþingi frumvörp um vátryggingastarfsemi og innstæðutryggingar og gerð hefur verið tillaga um veigamikla breytingu á samkeppnislögum.

Talsverðar breytingar hafa þegar verið gerðar á eftirlitsstofnunum fjármálamarkaðarins, þ.e. Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum, en ljóst er að frekari breytinga er þörf. Væntanlega verður bæði lögum um Seðlabankann og fjármálaeftirlit breytt á næsta vetri. Það sama má segja um lög um verðbréfaviðskipti.
Þá er nú verið að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis með það sérstaklega í huga að draga fram hvaða frekari aðgerða eðlilegt er að ráðuneytið og undirstofnanir þess grípi til í ljósi þess sem þar kemur fram. Þótt ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um að leggja fram lagafrumvörp vegna þessa verður að telja afar líklegt að það verði niðurstaðan.

Þá er rétt að hafa í huga að á vettvangi Evrópusambandsins er mönnum ljóst að gera þarf breytingar á hinu evrópska regluverki fjármálamarkaðarins í ljósi þess sem gengið hefur á undanfarin misseri og sér raunar ekki fyrir endann á. Sú vinna mun óhjákvæmilega kalla á breytingar hér í fyllingu tímans, vegna aðildar okkar að evrópska efnahagssvæðinu.

Til viðbótar þessu er svo rétt að benda á að hremmingar undanfarinna missera, bæði hérlendis og erlendis, kalla á rannsóknir á því hver hlutur þeirra sem sömdu, endurskoðuðu og skrifuðu undir reikninga jafnt fjármálafyrirtækja sem annarra fyrirtækja er í þessari sögu. Þar þarf bæði að draga fram hvort farið var að reglum og hvort reglurnar sjálfar voru eðlilegar. Þessi vinna er ekki langt komin en hún er óhjákvæmileg. Staðlar vegna reikningshalds og endurskoðunar eru að mestu alþjóðlegir. Því munu Íslendingar hér fyrst og fremst skoða það sem snýr að Íslandi sérstaklega, þ.e. hvort hér var farið að reglum. Við slíka rannsókn verður m.a. að draga skýrt fram hvort of langt var gengið í að túlka og sveigja reglur, jafnvel þannig að útkoman var þvert á tilgang þeirra.

Hliðstæðra spurninga þarf að spyrja á fleiri sviðum. Regluverk mun seint ná tilætluðum árangri ef þeir sem eiga að hlíta því sýna markmiðum þess enga virðingu. Þetta á við um fjármálaeftirlit. Það er eitt af því sem ég tel skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sýna vel fram á. Það sama má segja um ýmist annað eftirlit af hálfu hins opinbera með efnahagslífinu, svo sem samkeppniseftirlit.

Til að bæta hér úr er ekki nóg að styrkja lagagreinar og efla eftirlitsstofnanirnar sjálfar. Hér þarf hugarfarsbreytingu. Forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja og ráðgjafar þeirra – sem í mörgum tilfellum eru vitaskuld lögmenn – mega ekki líta svo á að horfa megi framhjá markmiðum laga, reglna og eftirlits, ef hægt er að þeirra mati að túlka bókstafinn á einhvern þann hátt sem þeim þykir betur henta hverju sinni. Það má ekki vera stefna fyrirtækja að dansa á mörkum hins löglega og ólöglega eða líta á sektir fyrir brot á lögum sem hvern annan rekstrarkostnað. Forsvarsmenn atvinnulífsins þurfa að bera virðingu fyrir eftirlitsstofnunum og starfi þeirra. Gott eftirlit er eðlilegur hluti af heilbrigðu efnahagslífi.

Hér að framan hefur verið lýst margvíslegum breytingum. Sumar hafa þegar orðið en aðrar eru fyrirhugaðar. Þegar allt þetta er lagt saman er óhætt að fullyrða að sú umgjörð sem lög búa íslensku efnahagslífi og sérstaklega fjármálakerfinu verði gjörbreytt þegar upp verður staðið.

Fjármálakerfið sjálft mun líklega líta nokkurn veginn út sem hér segir á næstu árum. Hér verða þrír alhliða bankar, allir byggðir á grunni innlendrar starfsemi hinna stóru föllnu banka. Tveir þeirra eru nú að mestu í óbeinni eigu þrotabúa forvera sinna en fyrir liggur að svo verður ekki til frambúðar. Þeir munu fyrr eða síðar komast í eigu annarra einkaaðila, annað hvort innlendra eða erlendra. Þriðji bankinn, Nýi Landsbankinn, er nú að mestu í eigu ríkisins og verður það væntanlega enn um sinn. Þessu til viðbótar verður sparisjóðakerfi, sem skiptir sérstaklega miklu utan höfuðborgarsvæðisins. Ríkið mun í fyrstu eiga talsverðan hlut í sparisjóðakerfinu en mjög æskilegt er að sjóðirnir eignist sem fyrst fleiri bakhjarla og þá helst frá þeim svæðum sem hver og einn sjóður þjónar. Loks eru nokkur smærri fjármálafyrirtæki í eigu einkaaðila, flest sérhæfð, og sjóðir í opinberri eigu, þar af Íbúðalánasjóður langstærstur. Raunar eru fyrirhugaðar breytingar á íbúðalánakerfinu en hér er ekki tími til að gera grein fyrir þeim. Til fjármálakerfisins teljast vitaskuld einnig lífeyrissjóðirnir.

Óhjákvæmilega verða svo loks rekin hér nokkur þrotabú fjármálafyrirtækja. Það mun taka allmörg ár að vinda ofan af þeim rekstri, selja eignir og skila til kröfuhafa.

Þetta kerfi allt saman, fyrir utan þrotabúin, mun fyrst og fremst þjóna innlendum aðilum, þ.m.t. inn- og útflutningsverslun. Afar ólíklegt verður að teljast að það fari aftur í útrás í einhverjum mæli á næstu árum. Umsvifin verða miklu minni en í fjármálakerfinu sem hrundi, hvort heldur horft er til eigna, skulda, veltu eða fjölda starfsmanna. Samdrátturinn verður mestur vegna þess að erlend starfsemi hinna föllnu banka hefur þegar minnkað mikið og mun loks hverfa nær alveg. Samdráttur innlendrar fjármálastarfsemi verður mun minni en þó óhjákvæmilega einnig nokkur. Kostnaður við innlent fjármálakerfi hefur þegar minnkað verulega en er enn of mikill.

Þótt þessi mynd liggi nú fyrir af fjármálakerfi landsmanna næstu árin er ýmsum spurningum ósvarað. Sú stærsta er á hvaða mynt byggt verður. Upptaka evru myndi hafa mjög róttækar breytingar í för með sér, m.a. fyrir vaxtastig, stöðugleika verðlags og gengis og samkeppni á fjármálamarkaði. Þá myndi slík breyting gjörbreyta hlutverki Seðlabankans íslenska og draga hratt úr notkun verðtryggingar. Það verður þó tímans vegna að bíða betri tíma að draga upp þá mynd alla saman.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum