Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. maí 2010 DómsmálaráðuneytiðRagna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009-2010

Ávarp á félagsfundi Félags um foreldrajafnrétti 18. maí 2010

Ragna Árnadóttir
dómsmála- og mannréttindaráðherra
Ávarp á félagsfundi Félags um foreldrajafnrétti
18. maí 2010

--------

Komið þið sæl.

Ég þakka ykkur fyrir að bjóða mér á þennan félagsfund - ég er þess fullviss að hann verður bæði áhugaverður og gagnlegur.

Meðal fjölmargra verkefna dómsmála- og mannréttindaráðherra eru málefni sem Félag um foreldrajafnrétti hefur látið sig mikið varða um alllangt skeið, þ.e.a.s. málefni barna og foreldra.

Það eru þó ekki málefni foreldra og barna í heild sinni sem heyra undir verksvið dómsmála- og mannréttindaráðherra heldur mál sem lúta að réttarstöðu barna, rétti þeirra gagnvart foreldrum og rétti og skyldum foreldra gagnvart barni, þ.e.a.s. barnarétturinn, auk ættleiðingarmála og svokallaðra brottnámsmála, en með því er átt við mál þegar barn er flutt með ólögmætum hætti milli landa.

Málefni er lúta að barnavernd heyra á hinn bóginn ekki undir mitt ráðuneyti heldur Félags- og tryggingamálaráðuneytið.

Eins og ykkur er kunnugt hefur barnarétturinn verið í þróun hér á landi á síðustu árum, eins og á öðrum Norðurlöndum. Ég veit að mörgum ykkar finnst líklega að þróunin hér á landi hafi verið allt of hæg - en þróun hefur engu að síður orðið.  

Um þessar mundir er í ráðuneytinu unnið að framlagningu tveggja frumvarpa til breytinga á barnalögum. Annars vegar er um að ræða tillögur að breytingum á meðlagskerfinu í heild sinni  – hins vegar tillögur að breytingum á ákvæðum barnalaga um forsjá, búsetu og umgengni.

Þessi frumvarpsdrög voru samin af tveimur nefndum sem þáverandi dómsmálaráðherra skipaði, og hafa bæði verið kynnt á heimasíðu ráðuneytisins en ekki hefur verið ráðist í heildarendurskoðun barnalaga – en það er reyndar ekki mikið sem útaf stendur. 

Eins og ég nefndi er verið að vinna að málum þessum í ráðuneytinu og frumvörpin hafa enn ekki verið lögð fram á Alþingi.  Umfjöllun um þau er mislangt  komin í ráðuneytinu, þannig er beðið er kostnaðarumsagnar fjármálaráðuneytisins vegna forsjárfrumvarpsins en meðlagsfrumvarpið hefur ekki verið sent fjármálaráðuneytinu til umsagnar.

Frestir til að leggja fram frumvörp á vorþingi eru nú liðnir en ég á von á því að frumvörpin verði lögð fram nk. haust – en forsjárfrumvarpið hefur þegar verið kynnt í ríkisstjórn.  

Ég ætla að stikla á stóru varðandi nýmæli þessara frumvarpa, en þó aðallega forsjárfrumvarpsins, enda er það nánast tilbúið til framlagningar, en geri svo ráð fyrir að við getum átt gagnlegar umræður um málið og svarað spurningum sem þið kunnið að hafa, en með mér eru Jóhanna Gunnarsdóttir, sem hefur unnið við þessi mál í ráðuneytinu og áður hjá sýslumanninum í Kópavogi, og Ása Ólafsdóttir, aðstoðarmaður minn.

Meðal helstu nýmæla forsjárfrumvarpsins er nánari afmörkun á hlutverkum foreldra. Þannig er gert ráð fyrir að nánar verði skýrt hvert sé inntak sameiginlegrar forsjár og hvaða ákvarðanir foreldri sem barn á lögheimili hjá hefur heimild til að taka.

Nauðsynlegt þykir að afmarka þetta nánar ekki síst í ljósi þess að í frumvarpinu er lagt til að dómurum verði veitt heimild til þess að dæma sameiginlega forsjá en það er nýmæli.  

Samhliða þeirri heimild er nauðsynlegt að fela dómurum heimild til að ákveða hjá hvoru barn á að eiga lögheimili og verður unnt að reka sérstakt mál þar að lútandi fyrir dómstólum.

Ekki er á hinn bóginn lagt til í frumvarpinu að barn geti átt tvö lögheimili samtímis en það er lagt til að heimilt verði að ákveða umgengni í allt að 7 daga af hverjum 14.  Þannig munu yfirvöld, undir sérstökum kringumstæðum,  geta ákveðið fyrirkomulag sem felur í sér að barn dveljist að jöfnu hjá foreldrum. 

Í frumvarpinu eru lagðar til töluverðar breytingar á ákvæðum um sáttaumleitanir.  Lagt er til að tekin verði upp tvö ný úrræði í stað þeirrar sérfræðiráðgjafar sem er í gildandi lögum. Þannig muni sýslumenn geta boðið foreldum ráðgjöf í tengslum við forsjár-, lögheimilis- og umgengnismál með það að markmiði að leiðbeina foreldrum.  Þessa ráðgjöf á eftir að útfæra í reglum sem ráðuneytið mun setja en gert er ráð fyrir að henni verið sinnt af sérfræðingum í málefnum barna og á stærstu embættum myndu slíkir sérfræðingar verða ráðnir til starfa.

Til viðbótar þessu verður gert skylt að leita sátta með foreldrum áður en þeir geta krafist úrskurðar eða höfðað mál um forsjá, lögheimili og umgengni, þ. á m. dagsektir. Markmiðið með því er að reyna hjálpa foreldrum að ná samkomulagi um málefni barns svo ekki þurfi að koma til þess að yfirvöld ákveði hvernig málum skuli skipað. Það er álit flestra, eða allra, sem koma að þessum málum,  að samkomulag foreldra um málefni barns, sé því fyrir bestu – og það sé til mikils að vinna að ná sáttum. Með því er auðvitað átt við raunverulegum sáttum en ekki málamynda samkomulagi, sem getur viðhaldið deilum og togstreitu foreldra.

Eitt af nýmælum frumvarpsins er heimild til þess að úrskurða um umgengni til bráðabirgða en slíka heimild er ekki að finna í gildandi lögum. Þessu úrræði er m.a. unnt að beita þegar mál eru flókin og deilur miklar. Þá er hægt að ákveða umgengni meðan mál er til meðferðar í því skyni að reyna koma í veg fyrir langt tímabil án nokkurrar umgengni foreldris og barns. Þetta kann að verða mikilvægt. 

Þessi upptalning er alls ekki tæmandi og frumvarpið hefur að geyma mörg fleiri nýmæli.

Við samningu forsjárfrumvarpsins hefur nefndin leitast við sameina ýmis sjónarmið - því það eru ekki allir sammála um hvaða leiðir eigi að fara í þessum málum.  

Það eru t.d. ekki allir á þeirri skoðun að dómarar eigi að fá heimild til þess að dæma sameiginlega forsjá, þar sameiginleg forsjá krefst þess að foreldrar hafi samráð og samvinnu sín á milli.  Þeir telja að slík samvinna eigi ávallt að byggja á vilja foreldra til samvinnu og hafa því efasemdir um lögfestingu þessara heimilda.

Af hálfu nefndarinnar er ítarlega fjallað um þessi mál í athugasemdum með frumvarpinu og lögð áhersla á að við mat á því hvort dæma eigi sameiginlega forsjá þurfi að horfa til þess hvort líklegt er að foreldrar geti unnið saman að málefnum barnsins þannig að sameiginleg forsjá sér raunverulega til hagsbóta fyrir það. 

Markmið barnalaga hefur aldrei verið að tryggja jafnrétti kynjanna. En markmið er á hinn bóginn að tryggja rétt barns til beggja foreldra - þannig að barnið njóti góðs af. Þetta markmið er mun skýrara í þeim frumvarpsdrögum sem nú liggja fyrir en áður – og helgast auðvitað af þeirri þróun sem orðið hefur.

Aðalmarkmiðið hlýtur á hverjum tíma alltaf að vera að finna þær leiðir sem taldar eru gagnast sem best börnunum sem í hlut eiga  – þannig að hagsmunir þeirra séu best tryggðir.  

Það verður m.a. að koma málum þannig fyrir að foreldrar fái nauðsynlegt frelsi til þess að ákveða sjálfir málefni barna sinna, eftir því sem þeir telja réttast á hverjum tíma, en á sama tíma verður að tryggja leiðir til að leysa úr ágreiningi komi hann upp. Þetta tel ég að nefndinni hafi tekist býsna vel.  Og ég er mjög ánægð með hversu ítarlegar athugasemdirnar eru með frumvarpinu og hvernig er leitast við að varpa skýru ljósi á mál, þannig að foreldrar og aðrir geta séð hvað býr að baki reglunum.

Ráðuneytinu bárust ekki margar athugasemdir eftir að frumvarpið var kynnt á heimasíðu þess – en ítarlegasta og best unnu athugasemdirnar komu frá Félagi um foreldrajafnrétti.  

Það hefur verið farið vandlega yfir athugasemdir félagsins og annarra í ráðuneytinu en það hafa á hinn bóginn ekki verið gerðar miklar breytingar á frumvarpinu í ráðuneytinu.

Þegar allsherjarnefnd fær það til umfjöllunar verður frumvarpið formlega á hinn bóginn sent til umsagnar fjölmargra aðila og nefndin mun fjalla ítarlega um þær athugasemdir sem berast. Í kjölfarið mun svo koma í ljós hver er vilji löggjafans.  

Ég hef hér að framan rætt nokkuð um það sem ég hef kallað forsjárfrumvarpið. Frumvarpið sem fjallar um breytingar á meðlagskerfinu er enn til skoðunar í ráðuneytinu og ekki hefur verið tekin afstaða til þeirra athugasemda sem hafa borist. Þær voru ekki margar – en þarfnast engu að síður skoðunar við. Ég mun hafa frekara samráð við nefndina sem samdi það vegna þessara athugasemda.

En í meðlagsfrumvarpinu eru helstu nýmælin þau að ekki verður gert skylt að gera formlegan samning um meðlag t.d. við skilnað eða sambúðarslit – heldur geta foreldrar samið um hvernig þeir haga framfærslu barna sinna. Þeir geta t.d. ákveðið að hvort um sig framfæri barn án þess að komið til greiðslna frá einu foreldri til annars.  

Eftir sem áður verður hægt að krefjast úrskurðar um meðlag ef ágreiningur rís. Í slíkum tilvikum er gert ráð fyrir að fjárhæð meðlags sé ákveðin með hliðsjón af kostnaði við framfærslu barns og tekjum foreldra, auk þess sem taka ber tillit til umgengni. Í frumvarpinu er miðað við að lágmarksframfærslukostnaður barns sé kr. 54.000.- sem skipta eigi  milli foreldra í hlutfalli við tekjur þeirra eða aflahæfi.

Þannig falla niður reglur og sjónarmið gildandi laga um lágmarksmeðlag og aukið meðlag. 

En ég tel ekki tímabært að fara nánar út í þessa sálma að sinni. Þessi mál munu skýrast á næstunni.

Ég hef þá lokið yfirferð minni um það sem er helst á döfinni hjá mér á sviði barnaréttarins og ítreka að þetta er auðvitað ekki tæmandi yfirferð – heldur hef ég stiklað á stóru.

Vonandi get ég svo svarað þeim spurningum sem þið kunnið að hafa.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum