Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. júní 2010 DómsmálaráðuneytiðRagna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009-2010

Ávarp í Fríkirkjunni 27. júní 2010

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra
Regnbogahátíð í Fríkirkjunni í tilefni gildistöku einna hjúskaparlaga
27. júní 2010

-------------------

Í dag, á þessum alþjóðlega baráttudegi fyrir mannréttindum samkynhneigðra, taka gildi ein hjúskaparlög fyrir alla hér á landi. Nú eru allir jafnir fyrir lögunum þegar kemur að réttinum til að ganga í hjúskap, hvort sem þeir eru af gagnstæðu eða sama kyni.

Þetta er brýn réttarbót og liður í að auka jafnræði og jafnrétti hér á landi. Víst er þetta stórt skref, en í rauninni samt svo sjálfsagt og eðlilegt framhald á þeirri þróun, sem þegar hefur orðið í að bæta réttindi samkynhneigðra þegar kemur að réttinum til fjölskyldulífs. Enda tók það Alþingi ekki nema örfáa mánuði að fjalla um og samþykkja þessar lagabreytingar.

Þegar allt kemur til alls er ekki rökrétt að gera greinarmun á því hvort einstaklingar í hjúskap séu af gagnstæðu eða sama kyni. Rifjum upp sýn löggjafans á hjónabandið.

Í skilningi laganna er hjúskapur fyrst og fremst borgaraleg stofnun. Löggjöf um hjúskap skilgreinir þetta viðurkennda sambúðarform á hverjum tíma og markar hverjir megi ganga í hjúskap og hver hjónavígsluskilyrði skuli vera. Þá er það löggjafans að ákveða hvaða réttaráhrif fylgja stofnun hjúskapar.

Löggjafinn hefur styrkt þetta sambúðarform umfram önnur með vísan til  þess að hjúskapurinn er ein af sterkustu grunnstoðum fjölskyldunnar í samfélaginu.

Hjónabandið á sér djúpar rætur í löggjöf og menningu og eru grunnstoðir þess byggðar á gagnkvæmri ást, festu og varanleika.  

Því endurtek ég að það er sjálfsagt réttlætismál að tveir einstaklingar, sem játast tryggðum í gegnum hjúskap, geti gert það án tillits til þess hvort þeir séu af sama eða gagnstæðu kyni. Hvað er líka fallegra en að tveir einstaklingar játist ævitryggðum? Því ætti löggjafinn að standa í vegi fyrir því?

Til hamingju með daginn.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum