Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. október 2010 MatvælaráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

HaustfundarHeilbrigðiseftirlits sveitarfélaga með Umhverfisstofnun, Matvælastofnun, umhverfisráðuneytiog sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, 13. október 2010

Ágæta samkoma.

Það er mér ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á haustfundi Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.

Ég vil þakka það framtak að efnt skuli til fundar þar sem opinberir aðilar sem sinna matvælaeftirliti hittast, bera saman bækur sínar og ræða það sem efst er á baugi. Ræða það sem vel er gert eða það sem betur má fara í starfseminni.  

Það hefur ekki farið framhjá neinum sem að matvælaeftirlitli og matvælaframleiðslu koma að 1. mars 2010 tók gildi “ný matvælalöggjöf”.

Um var að ræða breytingar á lögum um matvæli. Lagabreytingarnar fólu í sér að gerðar voru breytingar á matvælalögunum sjálfum, þar sem slíkar breytingar voru nauðsynlegar vegna EES-löggjafar. Jafnframt fólu lagabreytingarnar í sér að ráðuneytið fékk skýrar heimildir til að setja reglugerðir til að innleiða EES-gerðir.  Meginefni nýrrar matvælalöggjafar er þannig að finna í gerðum Evrópusambandins sem byggðar eru á EES samningum.

Auk efnisákvæða matvælalaganna sjálfra, sem eru tæp 30 ákvæði, er búið að gefa út um 30 reglugerðir sem innleiða yfir 50 reglugerðir, tilskipanir og ákvarðanir Evrópusambandsins á þessu sviði. Ný gjaldskrá fyrir MAST hefur verið gefin út og auk þess ný reglugerð um birtingu niðurstaðna úr eftirliti með áburði.

Þetta var gert á einu bretti og undir allar þessar reglugerðir þurfti ég að skrifa. Ég vona að viðstaddir gerir sér grein fyrir því að það var ekki beinlínis efst á mínum óskalista.  Reglugerðir koma aldrei í staðinn fyrir heilbrigða skynsemi og þekkingu.

Efnislega er hér um mikla löggjöf að ræða og ítarlega. Þessi löggjöf mun hafa víðtæk áhrif á matvælaframleiðendur og eftirlitsaðila og ég veit að þið sem hér eruð inni voruð ekki alltaf á eitt sátt um efni hennar og túlkun í öllum atriðum, en við getum verið sammála um það að á matvælalöggjöfinni voru gerðar breytingar sem voru nauðsynlegar og tímabærar.  Minnumst þess einnig að við erum liðlega 300 þúsund manna þjóð í dreifbýlu landi.

Við skulum heldur ekki gleyma því að eftir samþykkt lagabreytinganna 1. mars 2010 gilda engin ákvæði laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit um matvælaeftirlit. Þannig er nú endanlega orðinn fullur aðskilnaður milli matvælaeftirlits og mengunareftirlits í lagalegum skilningi.

 

Góðir gestir !

 

Mig langar að drepa á fimm atriði sem mér þykja mikilvæg og þurfa skoðunar við á næstum mánuðum.    

a. Leiðbeiningar um góðar starfsvenjur

Löggjöfin hvetur til þess að gerðar verði leiðbeiningar um góðar starfsvenjur með tilliti til hollustuhátta og beitingar meginreglna um greiningu hættu. Þessar leiðbeiningar um góðar starfsvenjur þarf að semja í samráði við fulltrúa hagsmunaaðila á hverju sviði matvælaframleiðslu.

Ég hvet menn eindregið til að taka hér höndum saman og vinna að gerð þessara leiðbeininga.

b. Merkingar matvæla

Eftirlit með merkingum matvæla hefur verið mér hugleikið sem ráðherra. Það er skoðun mín að neytendur eigi kröfu á skýrum og greinargóðum upplýsingum um innihald og uppruna matvæla. Reglugerð um upprunamerkingar grænmetis tók gildi síðasta sumar. Ég hef ekki heyrt annað en að hún hafi gefist vel. Ráðuneytið er nú að vinna að setningu reglugerðar um merkingar og rekjanleika erfðabreyttra matvæla sem ég vona að taki gildi innan ekki mjög langs tíma.

Neytendur eiga rétt á upplýstu vali um matvæli sem þeir neyta. En það dugar ekki að setja reglur um merkingar ef þeim er ekki framfylgt. Ég heyri gagnrýnisraddir sem telja að á markaðinum séu merkingar sem ekki standast lög.  Ég hvet MAST og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna til að taka til skoðunar hvort eftirlit með merkingum matvæla sé fullnægjandi.

c. Framsal eftirlits  

Það voru gerðar breytingar á verkaskiptingu milli MAST og  heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna við matvælaeftirlit eins og þið þekkið öll vel. Í lögunum er þó heimild til handa stofnuninni og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna til að fela hvort öðru að annast tiltekin verkefni sem eru á verksviði þessara aðila.

Ráðuneytið hefur ekki talið skynsamlegt að koma að þessu máli á þessu stigi  Ég lít svo á að þessi framsalsmál séu í ykkar höndum, eftirlitsaðilanna, og bið ykkur að setja málið í forgang.

d. Eftirlit með fæðubótarefnum

Með breytingum á matvælalögunum voru ákvæði matvælalaganna gerð skýrari hvað varðar fæðubótarefni og hvenær megi markaðsetja þau. Óheimilt er þannig að flytja til landsins eða markaðssetja matvæli, þ.m.t. fæðubótarefni, sem innihalda lyf samkvæmt skilgreiningu lyfjalaga.Þetta voru löngu tímabær ákvæði enda mikil aukning á markaðsetningu á fæðubótarefnum hérlendis hin síðari ár.

Ýmsir aðilar, þar með talið heilbrigðisráðuneytið, hafa lýst yfir áhyggjum með eftirlit fæðubótarefna og sagt að lítið eftirlit sé með innflutningi þeirra. Hér þurfa MAST og heiðbrigðiseftirlit sveitarfélaganna að taka höndum saman og skoða hvort brotalamir séu í eftirliti með fæðubótarefnum og ef svo er að bæta úr.

e. Setning sérreglna á grundvelli landslaga

Síðast en ekki síst vil ég nefna að með nýju matvælalöggjöfinni eru heimildir fyrir því að setja “sérreglur” byggðar á landslögum. Þannig gildir reglugerð ESB nr. 853 frá 2004, sem fjallar um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu, ekki um smásölu og beina afhendingu framleiðenda á litlu magni frumframleiðsluvara til neytanda.

Við þurfum á næstu vikum og mánuðum að ræða meðal annars hvernig við viljum sjá eftirlit með vinnslu matvæla úr dýraafurðum hjá smáum framleiðendum sem selja beint til neytenda.

Góðir gestir!

Ef þörf er á þátttöku ráðuneytisins vegna vinnu við ofangreint, mun ekki standa á okkur í ráðuneytinu að létta þar undir. Ég vil líka segja ykkur hér að minn vilji stendur til að efla matvælasvið ráðuneytisins og hefja það upp til þeirra vegsemdar sem það á skilið.

Á rúmum fjórum árum hefur stofnunin, sem við núna köllum Matvælastofnun eða MAST, gengið í gegnum veigamiklar breytingar.  

Það er mat ráðuneytisins að þessi breyting hafi verið mjög til bóta. Betri yfirsýn fékkst yfir þennan mikilvæga málaflokk og ákvarðanataka varð einfaldari og skilvirkari. Sérhæfing starfsfólks varð jafnframt meiri en áður. Það var líka von manna að eftirlit eins eftirlitsaðila - MAST, í stað þriggja áður, kæmi í veg fyrir mismunandi framkvæmd eftirlits gagnvart eftirlitsþolum.  Ég trúi því að eftirlitsþegar og aðrir viðskiptavinir MAST hafi fundið fyrir þessum stjórnkerfisbreytingum með jákvæðum hætti.

Ein meginástæða þess að allt matvælaeftirlit ríkisins var fært undir eina stofnun og eitt ráðuneyti var sú staðreynd að ríkisstjórnin hafði samþykkt yfirtöku á matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Þessi löggjöf gerir minni greinarmun á tegundum afurða og matvæla en eldri löggjöf þannig að hefðbundin skipting milli sjávar-, landbúnaðar- og grænmetisafurða og unninna matvæla varð óljósari. Þessi löggjöf virti þannig ekki hið eldra skipulag stjórnarráðsins.

Löggjöfin gerir einnig ríkar kröfur til samræmds eftirlits á landinu öllu. Og þá langar mig að ljúka þessu ávarpi með því að spyrja ykkur sem hér eruð spurninga, sem ég held að þurfi að svara. Nú hefur MAST verið umbylt á síðustu fjórum árum. Við höfum tekið yfir nýja matvælalöggjöf sem gerir meiri kröfur til opinberra eftirlitsaðila. Þar eru gerðar ríkar kröfur til samræmds eftirlits.  Ég spyr mig: Er þörf breytinga á fyrirkomulagi Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna?  Má sameina 10 heilbrigðissvæði sveitarfélaganna?  Má þannig samræma verklag og ákvarðanatöku með sameiningu svæða?  Mundi slíkt bæta matvælaeftirlitið eða myndi það hafa slæm áhrif ?

Að lokum þetta:

Gleymum ekki endanlegu markmiði okkar – að stuðla að framleiðslu öruggra matvæla eins og við gerum í dag, og ef eitthvað er að gera enn betur.

Gleymum því ekki að við sem störfum við opinbert matvælaeftirlit, erum einungis einn hlekkur í keðju sem samanstendur af þremur aðilum, það er matvælafyrirtækjum – eftirlitsaðilum og neytendum.

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum