Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. júní 2011 MatvælaráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Sjómannadagurinn 5. júní 2011

 

Föðurland vort hálft er hafið
helgað þúsund feðra dáð.
Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,
þar mun verða stríðið háð.

Með þessum hendingum úr sálmi Jóns Magnússonar vil ég fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands færa íslenskri sjómannsstétt og fjölskyldum þeirra hamingjuóskir. Og svo sannarlega er þetta um leið hátíðisdagur allra sem sjávarútveginum tengjast og þjóðarinnar.

Áframhaldandi sjálfbær þróun í nýtingu sjávar er okkur mikilvæg. Ekki bara hvað okkar fræknu sjómenn draga þar að hlunn heldur og ekki síður hvernig okkur tekst til við að skapa sífellt meiri verðmæti og betri nýtingu á því sem að landi kemur.

Og sjávarútvegurinn er meira en bara mikilvæg undirstaða undir efnahag okkar hann er líka mikilvæg undirstaða samfélagsgerðarinnar, byggðanna í landinu, velgengni þeirra og öryggi fólksins sem þær byggja. Í umræðu um sjávarútveginn er tíðrætt um sjálfbærni atvinnuvegarins og rekstrarlega undirstöðu og það er vel. En við þurfum einnig á komandi tímum að huga að samfélagslegri sjálfbærni og því hvert hlutverk sjávarútvegsins er í þeirri mynd. Í okkar sjávarútvegssamfélagi er samofinn sá samhljómur sem þarf að vera um samfélagsbygginguna og sú sátt sem hér þarf að vera um íslenska fiskveiðistjórnun.

Ríkisstjórnin hefur nú lagt fram fyrir Alþingi viðamiklar lagabreytingar á því fyrirkomulagi sem er í sjávarútveginum. Undanfarna áratugi hefur á hverju ári verið vakandi sú umræða að íslensku sjávarplássin hafi farið halloka fyrir ósveigjanlegum markaðslögmálum í meðferð aflaheimilda og tilflutningi yfirráða yfir miðum landsins. Hér eiga samfélögin sjálf, íbúar þeirra, mikinn rétt til náttúruauðlindarinnar sem er fólgin í fengsælum fiskimiðum fyrir strönd byggðarlagsins og þann rétt ber okkur að virða.

Sátt um það kerfi sem ríkja þarf í sjávarútvegi næst þá fyrst þegar við hugum fyrir alvöru að þessum þáttum málsins. Um einstaka útfærslu þess hvernig þessum markmiðum verður náð getur hver séð með sínu auga og víst er að fá umræðuefni eru þjóðinni jafn hugleikin. Stór hluti þeirrar umræðu snýr vitaskuld að því meginmarkmiði að tryggja þjóðareign fullvalda þjóðar til að fara með þau verðmæti eins og henni rétt þykir og samrýmst getur þeim viðhorfum að við einnig metum rétt hinna óbornu til arfleifðarinnar. Þó svo að við notum hér í pólitískri umræðu orðið eignarréttur þjóðar þá er hann ætíð takmarkaður af þeirri staðreynd að náttúruna höfum við að láni og okkur ber að skila henni heilli til komandi kynslóða.

Fullveldi þjóðar og fullveldi Íslendinga yfir miðunum, yfir fiskiauðlindinni er forsenda fyrir öflugri byggð. Við látum ekki fiskimiðin af hendi, hvort sem það er til ríkjasambands eða til fyrirtækja.

Verum þess minnug að þrátt fyrir að umræðan um stjórn fiskveiða virki hörð er hitt jafn víst að um meginmarkmið þeirra mála ber minna í minna milli en í fyrstu getur sýnst. Með þeirri vissu óska ég þess að sjómannsárið 2011 verði okkur gjöfult og íslenskum sjómönnum til hamingju með daginn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum