Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. mars 2012 MatvælaráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2000-2001, iðnaðarráðherra 2009-2012

Ársfundur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands

Forseti Íslands, starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, góðir gestir - til hamingju með daginn!

Það var árið 2007 sem að Nýsköpunarmiðstöð Íslands var sett á laggirnar og sannarlega fylgdu henni bæði vonir og væntingar. Þetta var vel að merkja sama árið og hljómsveitin Hundur í óskilum fagnaði fimm ára afmæli sínu með útgáfu plötunnar Hundur í óskilum snýr aftur – en það er önnur saga.

Fimm ár eru svo sem ekki langur tími í sögu þjóðar – en ég er þess fullviss að í Íslandssögubókum framtíðarinnar mun undangengnum fimm árum verða gert hátt undir höfði.

Ísland á hápunkti ríkidæmis síns – fallið – og síðan endurreisnin.

Og þessi atburðarás hefur auðvitað markað starf og áherslur Þorsteins Inga og samstarfsfólks hans í Nýsköpunarmiðstöðinni – sem hefur sýnt getu og kjark - og fundið leiðir til að nýskapa sig til að mæta þörfum íslensks atvinnulífs á óvissutímum.

Þegar það verða skyndilegar breytingar - þá verða skilin jafnan skörp og augljós á milli þess sem var og er. Fyrir hrun græddu mörg fyrirtæki á tá og fingri – en þegar betur er að gáð þá lá stærstur hluti gróðans í mörgum tilvikum í alls kyns fjármagnsæfingum - en eiginleg starfsemi fyrirtækisins skilaði oft litlu. Í dag verðum við að byggja á raunverulegri verðmætasköpun. Fyrirtækin þurfa að skapa verðmæti með vörum og/eða þjónustu. Á þeirri vegferð er nýsköpun algert grundvallaratriði - og í þeim leik er hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands mikilvægara en nokkru sinni.

Nýsköpunarmiðstöðin brást við breyttum aðstæðum með kröftugum hætti. Námskeiðshald var stóraukið og frumkvöðlasetrum fjölgað. Þar fá frumkvöðlar vinnuaðstöðu og faglega ráðgjöf til að byggja upp fyrirtæki sín – sem mörg hver eru að ná mjög athyglisverðum árangri. Sjálf heimsótti ég ásamt kollega mínum Guðbjarti velferðarráðherra KÍM-MedicalPark í síðustu viku til að ganga frá samningi til þriggja ára um fjármögnun frumkvöðlasetursins. Og það get ég staðfest að á þeim bænum er verið að vinna að mörgum framúrskarandi verkefnum sem staðfesta sterka stöðu okkar á sviði heilbrigðistækni.

Nýsköpun snýst um framtíðina - hvernig við best mætum þeim áskorunum sem framtíðin leggur fyrir okkur. Og þá reynir á hvoru tveggja; hæfileikann til að koma auga á tækifærin – og þekkinguna og getuna til að nýta þau.

Tökum sem dæmi uppbyggingu græna hagkerfisins. Í því liggja fleiri tækifæri en sem nemur samanlögðum fjölda eyjanna í Breiðafirði og hólanna í Vatnsdal. Rannsókna- og þróunarstarf, tæknilausnir, ný þjónusta, nýjar vörur. Hér hefur Nýsköpunarmiðstöðin miklu hlutverki að gegna bæði hvað varðar rannsóknir sem og þróunarverkefni sem unnin eru með fyrirtækjum og frumkvöðlum.

Og verkefnalistinn sem við ætlum Nýsköpunarmiðstöðinni er metnaðarfullur og langur – hann er í reynd ótæmandi!

Nýsköpunarmiðstöð skal vera leiðandi við að innleiða nýjar aðferðir og þróunarverkefni á sviði nýsköpunar í atvinnulífi. Það er eilífðarverkefnið sem aldrei stoppar.

Nýsköpunarmiðstöð á að vinna markvisst að eflingu atvinnulífs gegnum þá ráðgjöf, rannsóknir og stuðning sem stofnunin hefur upp á að bjóða – hvar sem er á landinu.  Verkfærin eru til staðar – aðalatriði er að nýta þau sem best.

Nýsköpunarmiðstöðin á að beita sér fyrir auknu samstarfi - háskóla, rannsókna og atvinnulífs. Mikið er rætt um öflugt samspil þessara þriggja þátta - en betur má ef duga skal. Allir þessir þættir eru hver öðrum háðir. Hagnýting þekkingar, sameiginleg verkefni og svo framvegis.

Þá skal Nýsköpunarmiðstöð Íslands vera mikilvægur stuðningsaðili þeirra klasa sem hafa myndast í atvinnulífi og rannsóknum undanfarin misseri. Sérfræðiþekking er mikil hjá stofnuninni og það er okkur mikið kappsmál að þessi þekking nýtist atvinnulífinu til aukinnar verðmætasköpunar.

Kæru fundargestir.

Ég minntist stuttlega á það í upphafi máls míns að þeir félagar – og fundarstjórar – í Hundur í óskilum væru sléttum fimm árum eldri en óskabarnið sem allt snýst um hér í dag.

Hundur í óskilum er úrvals dæmi um menningarlega nýsköpun. Þeir eru góð áminning til okkar um að nýsköpun á alls staðar við – og að oft er besta byggingarefnið að finna í samspili innlendra og erlendra strauma.

Fyrir hálfri öld komu Rúllandi steinar frá Englandi og nýsköpuðu tónlistarsmekk heillar kynslóðar. Hundur í óskilum fer sér aftur á móti hægar yfir, og skemmtir sér – og okkur – með því að velta við stöku steinum. Og það er alveg stórmerkilegt hvað steinn á hvolfi er allt öðru vísi en sá hinn sami steinn sem hafði blasað við manni í árafjöld í sínum föstu skorðum.

Ég skynjaði til dæmis Gunnarshólma á alveg nýjan hátt eftir að óskilahundurinn hafði snúið honum á haus og aftur til baka. Vissulega var þetta sami Gunnarshólminn og Gunnar leit augum forðum. Og Jónas kvað um löngu síðar og ég lærði utanbókar í barnaskóla. En þeim tókst á sinn einstaka hátt að bregða á hann óvæntri birtu og í einhverjum skilningi að nýskapa hann.

Þessa dagana er Hundur í óskilum að segja sögu íslensku þjóðarinnar í Borgarleikhúsinu. Ég á nú enn eftir að fara að sjá sýninguna en ég geng út frá því sem gefnu að þeir ætli fimm ára sögu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands gott rúm í þeirri frásögn.

Það má öllum vera ljóst að verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar eru bæði fjölbreytt og síbreytileg. Og rétt eins og Hundi í óskilum þá dugar Nýsköpunarmiðstöðinni ekki föst og niðurnegld hljóðfæraskipan – heldur verða starfsmennirnir að vera undir það búnir að grípa til fjölbreytilegra hljóðfæra og slá á ólíka strengi.

Ég óska starfsfólki Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands til hamingju með daginn – og treysti á kraft þess og styrk í þeim mikilvægu verkefnum sem við blasa.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum