Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. mars 2012 MatvælaráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2000-2001, iðnaðarráðherra 2009-2012

Iðnþing 2012

Ágætu fundarmenn

Við höfum verk að vinna – það er hverju orði sannara.

En verkefnið sem blasir við okkur í dag er mun árennilegra en verkefnið sem blasti við okkur fyrir ári síðan – að ég tali nú ekki um vandann sem við stóðum frammi fyrir - fyrir tveimur árum síðan, hvað þá  þremur.

Hér varð efnahagshrun og það stóð tæpt að Ísland færi hreinlega í þrot.

Frá hruni erum við á réttri leið og það hefur náðst mikill árangur. Nýjustu tölur um hagvöxt, þróun atvinnuleysis og afkomu ríkissjóðs benda allar til þess. Þetta er vegna þess að ríkisstjórnin hefur staðið í lappirnar – og sýnt festu og einurð. Orðtakið segir að sígandi lukka sé best – og ég held að það fari einmitt best á því að við tökum þetta eins og fjallgöngu – eitt skref í einu. Tími heljarstökkvanna er liðinn.

Í máli mínu hér í dag langar mig að ræða tvennt. Staðreyndir og pólitík. Pólitíkin snýst um þau markmið sem  við einsetjum okkur að ná og þær leiðir sem við viljum fara að settu marki. Staðreyndirnar eru síðan nokkurs konar uppgjör á því hvernig okkur vegnar á þessari vegferð.

Þó að ég tali hér sem starfandi iðnaðarráðherra verð ég að fá að koma að öðru áhugamáli mínu og sameign okkar allra, ríkissjóði blessuðum. Mér finnst það vera skylda mín hvert sem ég kem að færa fréttir af stöðu ríkisfjármála, svo mikilvæg tel ég þau vera. Við hrunið varð ríkissjóður, rétt eins og heimili og fyrirtæki landsins, fyrir miklum skakkaföllum. Tekjur ríkisins drógust umtalsvert saman þar sem að margir skattstofnar veiktust mjög, og sumir nánast hurfu. Við það áfall varð einfaldlega að gera hvoru tveggja; fara í skattkerfisbreytingar og ráðast í mikinn niðurskurð. Skattkerfisbreytingarnar eru nú að mestu yfirstaðnar og ég vænti þess að komið sé að tímabili stöðugleika í þeim málum.  Niðurskurðurinn hefur vissulega tekið á - en hann hefur skilað miklum árangri. En enn um hríð verðum við að standa fast á bremsunni.

Þegar borin eru saman ríkisútgjöld áranna 2007 og 2011 kemur í ljós að niðurskurður á einstaka málaflokka hefur verið 15% að meðaltali, minna á suma og meira á aðra. Þetta hefur verið krefjandi – og á stundum sársaukafull ganga. En þetta er skýr og klár árangur sem gefur okkur forsendur til að byggja á til framtíðar. Styrk stjórn ríkisfjármála er einmitt forsenda stöðugleika í efnahagsmálum.

Gert er ráð fyrir að vaxtakostnaður ríkissjóðs verði um 78 milljarðar króna í ár og hann hefur því hækkað um 143% frá árinu 2007 - þrátt fyrir hagstæð kjör á lánsfjármarkaði um þessar mundir. Samt höfum við náð þeim árangri að fjárlög gera ráð fyrir frumjöfnuði ríkissjóðs í ár, í fyrsta sinn frá hruni. Og langtímaáætlun gerir ráð fyrir heildarjöfnuður náist árið 2014. 

Ábyrgð og festa eru leiðarljós okkar við rekstur ríkissjóðs og frá því verður ekki hnikað!

Og það reynir ekki síður á ábyrgð og festu á lokametrum rammaáætlunar. Vinna við 2. áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða hefur staðið yfir síðastliðin 5 ár. Lúkning þess verks verður mikið framfaraspor fyrir orkuiðnað í landinu því að þá gefst í fyrsta sinn tækifæri til þess að horfa til lengri tíma í orkuöflun. Fyrir minn flokk er þetta veigamikið mál og við höfum lagt mikla áherslu á fagleg vinnubrögð. Endalega ákvörðun í þessu máli er þó alltaf í höndum Alþingis - og því pólitísk. 

Óþreyja margra, sem birst hefur okkur í fjölmiðlum að undanförnu er fyllilega skiljanleg, og ég skal trúa ykkur fyrir því að hennar gætir víðar en ykkur grunar.   Og vonandi er biðin senn á enda.

Um þessar mundir fer fram viðamikil stefnumótunarvinna sem á að skila sér í Atvinnustefnu fyrir Ísland. Atvinnustefna verður ekki mótuð nema með mikilli samvinnu og hreinskiptu samtali milli stjórnvalda og  fyrirtækja. Hlutverk stjórnvalda er ekki að skapa störf heldur miklu heldur að leysa úr læðingi sköpunarkraft atvinnulífsins. Það gerum við best með því að að tryggja samkeppnishæft rekstrarumhverfi og treysta innviði samfélagsins.

Eitt af þeim forgangsmálum sem stjórnvöld verða að beita sér fyrir - er að til staðar sé mannauður sem býr yfir þeirri kunnáttu og hæfileikum sem fyrirtækin þurfa á að halda til að geta vaxið og dafnað. Við þurfum til dæmis að efla og auka ásókn nemenda í ýmsar tækni- og raungreinar í framhaldsskólum og háskólunum. Það skýtur óneitanlega skökku við að á sama tíma og skortur er á háskólamenntuðu fólki í tækni- og raungreinum hefur um fjórðungur atvinnulausra lokið stúdentsprófi eða er háskólamenntaður.

Ágætu fundarmenn

Það er flestu mikilvægara - að okkur takist að auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs og reisa undir það fleiri og sterkari stoðir. Hagkerfið þarf að þroskast og þróast í átt að því að vera þekkingardrifið í stað þess að vera auðlindadrifið. Hér á Íslandi eigum við að rannsaka, skapa, og fullvinna.

Ég er með þessum orðum ekki að gera lítið úr hinum hefðbundnu grunnatvinnuvegum þjóðarinnar sem hafa að miklu leyti byggst á auðlindanýtingu. Öðru nær. Framtíðarmöguleikar íslensks sjávarútvegs felast til að mynda ekki í meiri veiðum. Möguleikarnir liggja í því hvernig við getum aukið verðmæti þess afla sem kemur á land. Það er haft eftir forsvarsmanni íslenska sjávarklasans – að hann telur það raunhæft að auka megi verðmæti hvers þorsks um 80%. Það myndi hafa í för með sér 60 milljarða króna tekjuaukningu fyrir þorskinn einan. Og það án þess að auka veiðarnar! Forsendan fyrir því að við getum náð þessum árangri er samspil margra þátta, svo sem frekari fullvinnslu aflans og ekki síst nýsköpun í líftækni og hátækniframleiðslu. Fyrirtækið Kerecis er gott dæmi í þessu samhengi en það umbreytir fiskroði í hátækni-lækningavörur – úrgangi í verðmæti.

Og þá erum við komin að einu af meginhlutverkum rikisins í því að byggja upp sterka atvinnuvegi til framtíðar – og það eru grunnrannsóknir og nýsköpun. Það er ótvírætt hlutverk ríkisins að byggja upp og standa vörð um grunnrannsóknir og öflugt vísindastarf. Og í því sambandi er rétt að halda því til haga að þrátt fyrir þann harkalega niðurskurð sem ríkisstjórnin réðst í – og ég gerði grein fyrir hér áðan - þá stóðum við allan tímann vörð um Tækniþróunarsjóð.

Það er nefnilega á grunni rannsókna og nýsköpunar sem við ætlum að sækja fram. Og dæmin sanna að mörg af sterkustu fyrirtækjum landsins hafa sprottið upp úr jarðvegi rannsókna.

Og sannarlega eru tækifærin mörg - ég nefni svið eins og líftækni, heilbrigðistækni, málefni hafsins, endurnýjanlega orku, loftslagsvænni tækni og sjálfbærar samgöngur. Hér höfum við alla möguleika á að skipa okkur í forystusveit.

Ég minntist á það áðan hve mikilvægt það er að milli ríkisvaldsins og atvinnulífsins sé gott samtal. Ég fagna frumkvæði Samtaka iðnaðarins og fleiri aðila í atvinnulífinu varðandi framtíð nýsköpunarsjóðs. Þau hafa kallað eftir viðræðum við stjórnvöld þar sem m.a. verða ræddar hugmyndir hvernig efla megi Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Menn hafa stungið upp á því að rétt væri að breyta eignarhaldi á sjóðnum í þá veru að ríkið myndi selja eða að minnsta kosti minnka hlut sinn í sjóðnum – og fyrirtæki og e.t.v. lífeyrissjóðirnir kæmu þar sterkir inn.  Iðnaðarráðherra tekur þessu erindi fagnandi og ég veit til þess að fjármálaráðherra sem fer með eignarhaldið er einnig tilbúinn til að skoða þetta með opnum huga. 

Markmiðið væri að sjálfsögðu að fjárfestingargeta sjóðsins myndi aukast til muna. Nú, þegar ríkissjóður er í harðri varnarbaráttu er ef til vill eðlilegt að atvinnulífið taki forystu á því sviði sem Nýsköpunarsjóðurinn hefur starfað á – að hjálpa fiðruðum nýsköpunarfyrrtækjum að taka flugið. Og fyrir vikið gæfist svigrúm fyrir ríkisvaldið að beina auknu fé að rannsóknarstarfi.

En víkjum þá að gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar – eða gjaldmiðlavandanum eins og það er kallað í fundarboði.

Fyrr í vikunni hertum við á gjaldeyrishöftum, rétt eins og sumir höfðu spáð fyrir um. Mér finnst að greiningardeild Arion banka hafi hitt naglann á höfuðið í markaðspunktum sínum fyrr í vikunni þegar þeir segja „að íslenska þjóðin standi ekki frammi fyrir neinum góðum kostum þegar kemur að útfærslu gjaldeyrislaganna. Valið standi alltaf á milli fárra slæmra kosta.“

Gjaldeyrishöftin eru skýr birtingarmynd þess - að íslenska krónan getur ekki talist góður kostur fyrir okkur til framtíðar. Þessi afstaða mín og míns flokks þarf ekki að koma neinum á óvart.   Er ég nú að tala niður krónuna með því að benda á vandamálið?  Er vandi krónunnar kanski bara ímyndarvandi sem leysa mætti með góðu kynningarátaki?  Því miður er það ekki svo. 

Ríkisstjórn Íslands sótti um aðild að Evrópusambandinu sumarið 2009 og með því var að mínu mati kúrsinn tekinn í átt að upptöku Evru - og á þeirri vegferð erum við nú. Allar götur síðan hafa ýmir aðilar reynt að afvegaleiða umræðuna með ályktunum, skoðanakönnunum og fegurðarsamkeppnum þar sem hinar ýmsu myntir heimsins eru mátaðar við íslenskt efnahagslíf. Fyrst var horft til Noregs eða jafnvel Færeyja. Síðan hafa menn rætt einhliða upptöku Evru eða Kanadadollars og gott ef Ástralíudollar er ekki nýjasta tilboðið. Sænska krónan og ný íslensk króna hafa einnig verið nefndar til leiks. Umræða um gjaldmiðilsmál er að sjálfsögðu holl og nauðsynleg – en að sama skapi verður hún að vera ábyrg og laus við gylliboð.  Svo ég vitni aftur í markaðspunkta Arion banka frá í gær þá kom fram að vægi Kanadadollars í viðskiptavog Íslands er um 1,6%. Evran er hins vegar lang stærsta einstaka myntin í utanríkisviðskiptum Íslands, eða 54% í útflutningi og 30% í innflutningi. Og þá eru ekki teknir með gjaldmiðlar sem eru laus- eða beintengdir við Evruna, eins og til dæmis danska krónan.  

Þess vegna er það mín skoðun að lang farsælast sé að stefna að inngöngu í Evrópusambandið og því samhliða að taka upp Evru sem gjaldmiðil. Það er jafnframt von mín og trú að í aðildarviðræðum verði kannað til hlítar hvort mögulegt sé að hraða nauðsynlegu ferli varðandi upptöku Evru. Ef við fáum gott veður varðandi þá málaleitan frá Evrópusambandinu og evrópska seðlabankanum - þá erum við um leið komin með þá nauðsynlegu kjölfestu og stöðugleika í gjaldmiðil okkar sem svo sárlega vantar í dag. Ég er þess fullviss að ef við ákveðum að taka skrefið til fulls þá getum við náð þessum áfanga fyrr en seinna.  

Eins og kunnugt er varðar eitt atriði Maastricht skilyrðana skuldastöðu hins opinbera.  Vegna þess árangurs sem náðst hefur í fjármálum hins opinbera og trúverðugrar áætlunar á því sviði, bendir allt til þess að verg skuldastaða hins opinbera að frádregnum skuldum vegna gjaldeyrisvaraforðans gæti verið komin undir 60% af landsframleiðslu árið 2016. 

Staða ríkisfjármála ætti því ekki að standa í vegi fyrir upptöku evru á næsta kjörtímabili.  Allt er þetta þó háð því að sú aðhaldssama ríkisfjármálastefna til 2015 sem kynnt var í október s.l. gangi eftir.  Við verðum að tryggja að svo verði.

Á undanförnum misserum hafa æ fleiri fyrirtæki kosið að gera upp rekstur sinn í erlendum gjaldmiðli og ég efa ekki að það eru fjölmargir fulltrúar frá þessum fyrirtækjum hér á þessum fundi í dag. Ástæðan fyrir því að fyrirtækin kjósa þessa leið er einföld. Sá kostnaður sem fylgir sveiflum í gengi krónunnar er alltof dýru verði keyptur þegar megnið af tekjunum er í erlendri mynt. Þau fyrirtæki sem búa við þann munað að fá megnið af tekjum sínum í erlendri mynt geta líka leyft sér þann munað að gera upp í mynt sem heldur verðgildi sínu. Í þessum fyrirtækjahópi eru mörg af okkar stærstu og farsælustu fyrirtækjum sem hafa verið burðarásar í þeirri endurreisn sem íslenskt efnahagslíf er að ganga í gegnum.  Vegna þessa vofir yfir okkur sú að hætta að hér myndist tvöfalt hagkerfi.  Hagkerfi forréttindhóps sem aflar erlendra tekna - og svo okkur hinna. Samkeppnistaðan er að sama skapi veruega skekkt. Fyrirtæki sem greitt geta út laun í erlendum gjaldeyri  eru með miklu sterkari stöðu á vinnumarkaði í keppninni um hæfasta starfsfólkið.  Það er eitthvað sem stríðir algerlega gegn gildum okkar um jöfn tækifæri og réttlæti. 

Þetta er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við. Og skammir um að með þessu sé verið að tala niður krónuna eru því marklausar. Við erum einfaldlega að sýna ábyrgð og um leið að benda á vandamálið sem virðist stækka með hverjum mánuðinum sem líður. Gjaldmiðillinn er enn sem komið er vandlega lokaður í rammgerðri girðingu gjaldeyrishafta en það er ástand sem við verðum eftir megni að leitast við að vinda ofan af. Fyrirtæki gera þá kröfu að starfa í opnu og haftalausu hagkerfi. - Eðlilega! - Það er einfaldlega svo að rekstrarskilyrði íslenskra fyrirtækja verða ekki tryggð með viðunandi hætti til framtíðar með gjaldeyrishöftum. Ég efast ekki um að við séum öll sammála um það. Það blasir hins vegar við okkur vandi – og við þurfum að finna réttu leiðirnar til að sigrast á honum.

Á síðasta iðnþingi árið 2011 var krafan skýr, íslenska krónan þjónar ekki lengur hagsmunum iðnaðarins og stefnt skal að upptöku Evru með inngöngu í Evrópusambandið.   

Samfylkingin hefur - ein stjórnmálaflokka sem nú sitja á Alþingi - tekið skýra afstöðu um að stefna skuli að upptöku Evru með inngöngu í ESB.  Með öðrum orðum  þá hefur Samfylkingin – einn stjórnmálaflokka sem nú sitja á Alþingi - tekið skýra afstöðu með hagsmunum iðnaðarins.

Það er engin vöntun á ljónum sem liggja á vegi aðildarviðræðna. Ég kalla hins vegar eftir enn sterkari stuðningi frá aðildarfélögum Samtaka iðnaðarins á þeirri vegferð sem framundan er við að sannfæra íslenska kjósendur um mikilvægi þess að við göngum í Evrópusambandið og tökum upp Evru. Í þessu sambandi má minna á að þegar Svíþjóð gekk í Evrópusambandið árið 1995 var það ekki hvað síst fyrir kröfu og atbeina sænsku iðnfyrirtækjanna.

Ágætu fundargestir.

Efnahagsumhverfið, gjaldmiðlavandinn og tækifæri í iðnaði til framtíðar eru umræðuefnin á þessu þingi. Ég hef hér rakið stuttlega þann árangur sem ríkisstjórnin hefur náð – en hann er í reynd alger forsenda fyrir þeirri sókn sem framundan er. Sókn sem á að byggja á því að skjóta fleiri og fjölbreyttari stoðum undir atvinnulífið. Og ein helsta forsendan fyrir því að svo megi verða er að við tökum upp þá mynt sem stærstur hluti viðskipta okkur við útlönd er í – og mun gefa íslensku efnahagslífi festu og stöðugleika.

Já – við höfum sannarlega verk að vinna. Og mikið verður sú vinna auðveldari og líklegri til árangurs ef okkur auðnast sú gæfa að ná samstöðu í stað sundrungar um þetta stærsta hagsmunamál iðnaðarinns í dag.

Mér hafa fundist stuðningsmenn raunhæfra lausna á gjaldmiðlavandamálinu vera full hljóðlátir að undanförnu.  Ég þykist hins vegar vita að marga þeirra sé að finna hér í salnum í dag. 

Við ykkur vil ég segja þetta: Tölum fyrir raunhæfum lausnum.  – Það verk höfum við að vinna.-

Takk fyrir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum