Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. mars 2012 MatvælaráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2000-2001, iðnaðarráðherra 2009-2012

Ræða iðnaðarráðherra á ársfundi Orkustofnunar

Orkumálastjóri, starfsmenn Orkustofnunar og aðrir góðir gestir.

Orkumál eru eitt allra stærsta mál samtímans – og í fyrirsjáanlegri framtíð á mikilvægi þeirra aðeins eftir að aukast.

Það eru vissulega kólguský við sjónarrönd – þar sem að jarðefnaeldsneyti er takmörkuð auðlind sem einn daginn mun ganga til þurrðar. En á sama tíma stöndum við á þröskuldi mikilla tækifæra – þar sem vísindasamfélagið, atvinnulíf og stjórnvöld um allan heim eru loks að taka við sér af alvöru til að finna leiðir og lausnir - hvernig við mætum áskoruninni um nýja orkugjafa - og um leið hóflegri orkunotkun.

Ógn og tækifæri - eru tvær hliðar á sama peningnum. Við á Íslandi erum í sterkari stöðu en flestar þjóðir og höfum allar forsendur til að búa svo um hnútana að yfirvofandi breytingar verði okkur til góðs.

Forsjónin hagaði því þannig til að frá náttúrunnar hendi búum við yfir miklum orkuauðlindum í formi fallvatna og jarðhita. Það að öll orka til rafmagnsframleiðslu og húshitunar skuli koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum er kjörstaða sem við erum öfunduð af um allan heim. Okkur hefur auðnast á undanförnum áratugum að byggja upp feykiöflugt raforkukerfi – jafnt virkjanir sem dreifikerfi. Raforkuauðlindin myndar eina öflugustu stoðina undir samfélag okkar - og skapar þannig forsendur til sóknar eftir betri lífskjörum.

Á þeirri vegferð er eitt mikilvægasta verkefnið að móta framtíðarsýn og um leið almenna sátt í þjóðfélaginu um hvar skuli virkja – og hvar vernda. Já, ég er að tala um rammaáætlun, sem eins og þið vitið hefur verið unnið að allt frá árinu 1999.

Fyrr í dag lagði ég fram á Alþingi þingsályktunartillögu um rammaáætlun - í samráði við umhverfisráðherra. Þingsályktunartillagan byggir að langmestu leyti á þeim drögum sem lögð voru fram í 12 vikna opið umsagnar- og samráðsferli. Vel yfir 200 umsagnir bárust og eftir að hafa farið ítarlega  yfir efni þeirra er það mat okkar að varðandi tvö svæði hafi komið fram nýjar upplýsingar sem beri að taka tillit til sökum varúðarsjónarmiða. Ef það er vafi - þá ber okkur að kanna hann til hlítar áður en endanleg ákvörðun er hoggin í stein. Af þessum sökum eru sex kostir færðir úr orkunýtingarflokki yfir í biðflokk - á meðan unnið er að nauðsynlegum rannsóknum og gagnaöflun.

Rétt er að halda því til haga að breytingarnar sem gerðar eru ganga ekki gegn niðurstöðum verkefnisstjórnar - þar sem að ekki er um það að ræða að um einstaka kosti sé tekin varanleg ákvörðun þess eðlis að færa þá í verndarflokk eða nýtingarflokk. Einungis er verið að gæta ítrustu varúðar með tilliti til þeirra nýju upplýsinga sem fram komu í samráðsferlinu.

Úr nýtingarflokki í biðflokk eru færðar þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár; Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun og Hvammsvirkjun. Og sömuleiðis þrjár virkjanir á hálendinu; Hágönguvirkjanir I og II og Skrokkölduvirkjun.

Ég legg á það ríka áherslu að biðflokkurinn er ekki geymsla fyrir umdeilda virkjunarkosti. Í lögum um rammaáætlun er kveðið skýrt á um það hvaða rök réttlæta að flokka virkjunarkost í biðflokk. Þangað má aðeins setja virkjunarkosti þar „sem er talið að afla þurfi frekari upplýsinga um svo meta megi hvort þeir eigi að falla í orkunýtingarflokk eða verndarflokk“. Ef virkjunarkostur er fullrannsakaður og fyrirliggjandi gögn metin fullnægjandi ber að flokka hann í orkunýtingu eða vernd.

Það kemur síðan í hlut nýrrar verkefnisstjórnar rammaáætlunar, sem skipuð verður í kjölfar samþykktar Alþingis, að hrinda í framkvæmd nauðsynlegri rannsóknarvinnu og lögð er áhersla á að tillaga um endanlega flokkun liggi fyrir svo fljótt sem auðið er.  Því er það mikilvægt að hefja aftur hina faglegu vinnu sem allra fyrst.

Þó að menn geti haft skiptar skoðanir um lokaútgáfu þingsályktunartillögunnar – þá verður ekki um það deilt að öll sú vinna sem liggur að baki skýrslu verkefnisstjórnar rammaáætlunar er lofsverð. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka verkefnisstjórn rammaáætlunar og öllum þeim mikla fjölda fólks sem kom að þeirri vinnu með einum eða öðrum hætti. Ég vona að ég móðgi engan þó að ég tiltaki hér sérstaklega þau Svanfríði Jónasdóttur, formann verkefnisstjórnar annars áfanga og Sveinbjörn Björnsson fyrrverandi háskólarektor. Þá vil ég sérstaklega þakka orkumálastjóra og starfsfólki Orkustofnunar fyrir þeirra framlag.

Ágætu fundargestir

Ákvarðanir um línustæði hafa á stundum orðið að ágreiningsefni hér á landi og hefur þá jafnan verið bent á að í stað hinna hefðbundnu loftlína með tilheyrandi möstrum, færi betur á því að leggja strengi í jörðu.

Jarðstrengir, sérstaklega þegar um er að ræða flutningslínur, með hárri spennu, hafa hins vegar verið margfalt dýrari en hefðbundnar loftlínur, auk þess sem umtalsvert jarðrask getur orðið við lagningu háspennustrengja í jörð. 

Á þingi nú í vor var samþykkt þingsályktunartillaga um að skipuð yrði nefnd til að móta stefnu um lagningu raflína í jörð og þau sjónarmið sem taka ber mið af við ákvarðanir um línulagnir.

Mér er það ánægjuefni að greina frá því að umrædd nefnd hefur verið skipuð og hefur þegar hafið störf af krafti og vænti ég þess að niðurstöður hennar verði kynntar fyrir 1. október eins og segir í þingsályktuninni.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð mikil áhersla á að mótuð sé orkustefnu fyrir Ísland. Í febrúar kynnti ég á þingi skýrslu um orkustefnu fyrir Ísland sem unnin var af stýrihópi. Þessi skýrsla verður grunnurinn að aðgerðaráætlun stjórnvalda sem nú er unnið að.

Í orkustefnu annarra Evrópuríkja er jafnan mest áhersla lögð á orkuöryggi, skipulag orkumarkaða og samspil orku og umhverfismála. Hér á landi er jafnframt mikilvægt að fjalla um fjórða þáttinn sem er nýting orkuauðlinda í víðu samhengi, t.d. sem grunn að fjölbreyttu atvinnulífi og hvernig arði af sameiginlegum auðlindum verði skilað til þjóðarinnar.

Veigamikill hluti nýrrar orkustefnu snýst um að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti og auka að sama skapi hlut endurnýjanlegrar orku. Við erum nánast með fullt hús stiga - hvað varðar orku til rafmagnsframleiðslu og húshitunar. En þegar kemur að orkunotkun í samgöngum, þá blasir við allt önnur og dekkri mynd. Hér erum við nánast alfarið háð innflutningi á jarðefnaeldsneyti – og olíureikningurinn hljóðar árlega upp á tæpa 50 milljarða króna í beinhörðum gjaldeyri. Hér þurfum við að gera miklu betur – og sannarlega eru tækifærin til staðar.

Í áætlun um orkuskipti í samgöngum eru sett fram metnaðarfull markmið sem skal vera náð árið 2020. Þessi markmið ríma jafnframt við stefnumörkun stjórnvalda um uppbyggingu græns hagkerfis.

Til að ná settu marki þarf margt að koma til – en það sem á endanum drífur þróunina áfram er að það sé klár ávinningur fyrir notandann að taka skrefið og fjárfesta í grænum bíl eða grænni tækni. Við þurfum að koma á grænum hvötum, t.d. í gegnum skattkerfið. Þess vegna hef ég nú lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um virðisaukaskatt þar sem kveðið er á um endurgreiðslu virðisaukaskatts að hluta eða öllu leyti af bílum sem nota umhverfisvæna orku. Hér er ríkið að ganga á undan með góðu fordæmi - og þá er nú ekki verra að góður skilningur ríki á milli fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra.

Ágætu fundargestir

Ríkisstjórnin hefur gert það opinbert að fyrir dyrum standi endurskipulagning ráðuneyta – og við það mun iðnaðarráðuneytið verða hluti af nýju atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Jafnframt mun verða til umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Í þessum breytingum verða þrír þættir hafðir að leiðarljósi:

Í fyrsta lagi mun umhverfis- og auðlindaráðuneytið hlutast til um mótun og eftir atvikum lögfestingu meginreglna umhverfisréttarins og skilgreiningu þeirra viðmiða sem gilda eiga um sjálfbæra nýtingu.

Í öðru lagi verður samstarf ráðherranna formgert með mótun nýrrar aðferðafræði og tækja, svo sem vegna mótunar nýtingarreglna sem nauðsynlegar eru til að markmið um sjálfbæra nýtingu nái fram að ganga.

Í þriðja lagi verður mælt fyrir um fastmótaðan og lögbundinn farveg sameiginlegrar vinnu ráðuneytanna við undirbúning ákvarðana um nýtingu.

Með raforkulögum sem sett voru árið 2003 var Orkustofnun fært aukið stjórnsýsluhlutverk, og þá var sett á laggirnar raforkueftirlit stofnunarinnar sem m.a felur í sér umsjón með tekjumörkum fyrir sérleyfisþátt raforkuframleiðslunnar, þ.e. flutning og dreifingu. Þau fyrirtæki sem falla undir eftirlitið hafa nokkuð gagnrýnt framkvæmd þessa eftirlits m.a. hvað varðar setningu tekjumarka.

Á síðasta ári var ákveðið að fá óháðan aðila til að taka út framkvæmd raforkueftirlitsins og hafði iðnaðarráðuneytið frumkvæði að því að fá Orkustofnun Noregs til að gera slíka úttekt.

Meginmarkmið úttektarinnar var að leggja mat á framkvæmd raforkueftirlitsins. Í skýrslunni er bæði bent á þætti sem eru til fyrirmyndar svo sem um opnun á raforkumarkaði og stofnun úrskurðarnefndar raforkumála.

Þau atriði sem bent er á að þurfi að koma í betri farveg eru meðal annars :

–        að koma á formlegri samskiptum milli Orkustofnunar og eftirlitsskyldra aðila,

–        að auka þurfi úrræði raforkueftirlits til að beita eftirlitsskylda aðila viðurlögum við alvarlegri brotum gegn ákvæðum laga.

Meginniðurstaða í skýrslunni var sú að starfsmannafjöldi Orkustofnunar sem sinnir raforkueftirliti væri ekki fullnægjandi og gerð var tillaga um að starfsmönnum verði fjölgað úr tveimur í fjóra.

Til að bregðast við þessum athugasemdum hafa verið gerðar breytingar á raforkulögum og fjármagn til eftirlits Orkustofnunar verið aukið svo að hægt sé að fjölga starfsmönnum.

Ég tel að raforkueftirlitið sé einn mikilvægasti þátturinn í starfsemi Orkustofnunar og því áríðandi að þannig sé búið um hnútana að stofnuninni sé gert kleift að sinna því mikilvæga hlutverki og vænti ég mikils af þeim breytingum sem framundan eru.

Á mánudaginn lýkur útboði á sérleyfum til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu. Nú er best að fullyrða ekkert um niðurstöður útboðsins – mey skal jú að morgni lofa. Því ber hins vegar að fagna sérstaklega að á undanförnum mánuðum og misserum hafa farið fram viðamiklar rannsóknir á Drekasvæðinu – og í þeim hafa fundist ummerki um olíu frá Júratímabilinu. Og í rannsóknunum hefur það jafnframt fengist staðfest að þar er að finnna nauðsynleg jarðlög frá miðlífsöld. Við getum því nánast sagt með vissu; Já, það er olíu að finna á Drekasvæðinu. Hvort hún er í nægjanlegu magni og vinnanleg er síðan önnur saga. Líkurnar eru að minnsta kosti meiri í dag en við lok síðasta útboðs – en við skulum spyrja að leikslokum.

Ég hóf mál mitt á því að tala um tækifæri og ógnanir í orkumálum. Frá bæjardyrum Íslands blasa við ótal tækifæri - og það er okkar að grípa þau og hagnýta. Við búum yfir ríkum orkuauðlindum, verðmætri þekkingu og dýrmætri reynslu. Um leið og ég segi að við skulum ganga til leiks af  ákveðni – þá verðum við umfram allt að gæta þess að ná sátt meðal þjóðarinnar um þau skref sem við tökum.

Virkjum af skynsemi – verndum af skynsemi!

Ég óska ykkur, starfsmönnum Orkustofnunar, til hamingju með daginn – og um leið allra heilla í störfum ykkar í framtíðinni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum