Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. apríl 2013 MatvælaráðuneytiðSteingrímur J. Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra 2012-2013

Grein í Bændablaðiinu 19. mars - "Bændur segja allt gott"

Bændur segja allt gott

Það var ánægjulegt að vera við setningu Búnaðarþings þann 3. mars sl. undir kjörorðunum; „Bændur segja allt gott“ og heyra þáverandi formann Bændasamtakanna ljúka ræðu sinni á sömu orðum – „Bændur segja allt gott“.

Það væri óskandi að forustumenn annarra atvinnugreina sem margar hefðu nú ekki síður tilefni til að bera sig vel, eins og t.d. ferðaþjónustan og sjávarútvegurinn töluðu á jafn uppbyggilegum nótum.

Af þessu mætti e.t.v. álykta að bændur hefðu verið tiltölulega stikkfrí í hremmingum efnahagshrunsins og því sem á eftir fylgdi, en svo var nú alls ekki. Bændur og landbúnaðurinn hafa sannanlega greitt sinn toll og hann síst minni en almennt á við, auk þess að takast á við afleiðingar náttúruhamfara, hækkun aðfanga, skuldavanda og þar fram eftir götunum.

Íslenskir bændur, eins og reyndar flestir landsmenn a.m.k. framan af, sýndu því hins vegar skilning að það varð að rétta Þjóðarskútuna af og koma henni af strandstað áramótanna 2008-2009. Auðvitað kostaði það fórnir og því vekur það vægast sagt furðu þegar stjórnmálamenn – jafnvel formenn flokka – hneykslast á því nú að ríkissjóður hafi fyrstu árin eftir hrunið verið rekin með miklum halla eða blöskrast á því að þurft hafi að innheimta skatta og draga úr útgjöldum. Er hægt að komast lægra í umræðu um þjóðmál en með því að afneyta einfaldlega veruleikanum?

Nei, þeir sem á annað borð skynjuðu þá hættu sem íslenska þjóðin var í og þáverandi forsætisráðherra gerði svo ítarlega grein fyrir í sjónvarpinu 6. október 2008, vita innst inni að það hefur gengið vonum framar, – fyrst að endurheimta efnahagslegt sjálfstæði landsins og byggja að nýju upp traust á alþjóðavettvangi sem í einni svipan var rifið af þjóðinni. Loks, og ekki minnst um vert, koma rekstri ríkissjóðs nokkurn vegin í jafnvægi á aðeins fjórum árum. Við Íslendingar erum nú þriðja árið í röð að upplifa hagvöxt og minnkandi atvinnuleysi, en erum því miður í hópi örfárra Evrópu- eða OECD þjóða sem það á við um.  Þeir sem láta nú sem ekkert hafi skeð, tala um hug sér og gjaldfella sjálfa sig hvað varðar vitræna og ábyrga umræðu um þá erfiðleika sem Ísland hefur gengið í gegn um. Þeim erfiðleikum er ekki lokið, þó ágætlega miði og við megum hvergi misstíga okkur á komandi misserum. Þess vegna eru innistæðulaus loforð og gylliboð óvenju ábyrgðarlaus við núverandi aðstæður. En nóg um það – hver og einn verður að ráða sínum orðum.

Staða landbúnaðarins tryggð til næstu ára

Ég hef haft af því mikla ánægju að fá að vinna fyrir og vinna með íslenskum bændum sem ráðherra landbúnaðarmála í nokkur skipti.  Fyrst 1988 – 1991 og svo tvisvar sinnum eftir hrun, framan af ári 2009 og aftur frá áramótum 2012. Líkt og í hið fyrsta sinn var aðkoman ekki sérlega skemmtileg eftir áramótin 2009. Sannarlega hefði verið ánægjulegra að geta stutt myndarlega við íslenska bændur heldur en að þurfa að leita samkomulags um skerðingar á fullgildum samningi þeirra og ríkisvaldsins. En þannig var nú staðan og ekki þýddi að hlaupast undan merkjum.

Við landbúnaðarráðherra blasti þá, að gerðir samningar við bændur voru í uppnámi. Sú ríkisstjórn sem fór frá völdum í janúarlok ákvað við lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2009 að skerða samningsbundin framlög um 10%.

Ofaní kaupið blasti við gífurleg hækkun á áburðaverði og fráfarandi  ríkisstjórn hafði ákveðið að skerða niðurgreiðslu dreifingarkostnaðar rafmangs hjá garðyrkjubændum.

Svona var staðan vorið 2009.  Mér var fullljóst að nauðsynlegt var að draga úr útgjöldum ríkissjóðs en mér var jafnljóst að um það yrði fyrir alla muni að nást sátt við bændur.

Ég lagði áherslu á að fá bændur að borði með það fyrir augum að ná samningum þannig að friður gæti ríkt um óumflýjanlegar aðgerðir í ríkisfjármálum – og það tókst. Bændur sýndu málinu mikinn skilning og niðurstaða náðist með samkomulagi allra viðkomandi aðila.

Þann 28. ágúst síðastliðinn undirritaði ég svo, ásamt þáverandi fjármálaráðherra Oddnýju Harðardóttur, nýja búvörusamninga og nýjan búnaðarlagasamning milli ríkisvaldsins og bænda. Aftur segi ég að betur væri að fleiri kæmu að samningaborðum með jafn mikinn skilning á stöðunni og af jafn mikilli ábyrgð og bændur landsins hafa gert í báðum þessum tilvikum. Niðurstaðan er gífurlega þýðingarmikil. Starfsfriður og fyrirsjáanleiki ríkir í íslenskum landbúnaði og grundvöllur hans er eins vel tryggður og kostur er til næstu nokkurra ára litið. Alþingi hefur samþykkt allar nauðsynlegar lagabreytingar og á það einnig við um lög- og fjárheimildir til að gera upp tjón við bændur vegna náttúruhamfara. Með ofangreindu tel ég að vel hafi tekist til, við þröngar aðstæður, að verja landbúnaðinn, grundvöll búvöruframleiðslunnar og í leiðinni kjör bænda gegn um kreppuna og þannig að nú er sóknarhugur í mönnum. Sem sagt; bændur segja allt gott.

Uppbygging og sókn framundan  

Já bændur horfa nú fram og líta til nýrra tækifæra í landbúnaði sem sannarlega eru til staðar. Sem ráðherra atvinnuvega- og nýsköpunarmála hika ég ekki við að fullyrða að fjárfestingar í innviðum og bættum aðstæðum sveitanna og strjálbýlisins almennt eru meðal þeirra allra ábatasömustu sem völ er á fyrir Ísland framtíðarinnar, öflugra Íslandi. Með því stækkum við Ísland, virkjum ónýtta möguleika til verðmætasköpunar, aukum sjálfbærni og fjölbreytni.

Ég vil tæpa á nokkrum atriðum:

Kornrækt.
Sífellt fleiri bændur sjá í kornræktinni möguleika á að rækta sitt eigið fóður og/eða selja korn til annarra nota. Í nýjum búnaðarlagasamningi er stuðningur við kornrækt aukinn verulega og sérstök áhersla er á að auðvelda svínabændum kornrækt

Loðskinn. Með óbilandi þrautseigju hafa minkabændur þraukað erfiða tíma en eru nú loks heldur betur að uppskera árangur erfiðisins. Í þeirri búgrein eru notuð nær alfarið innlend aðföng og það, ásamt reynslu, þekkingu og faglegum vinnubrögðum þýðir að nú eru flutt út og seld skinn í hæsta gæðaflokki fyrir hátt í tvo milljarða króna, nær allt hreinar gjaldeyristekjur.

Hestamennska og hrossarækt. Erlendir markaðir fyrir íslenska hesta eru óðum að opnast að nýju eftir að hafa því sem næst lokast í kjölfar hrunsins. Enginn vafi er á að hrossaræktendur munu aftur ná vopnum sínum, búgreinin skila góðum arði og íslenski hesturinn (sem sumir kalla besta sendiherrann með fullri virðingu fyrir hinum) áfram skipa veglegan sess.

Fiskeldi. Aukinn þróttur er að færast að nýju í fiskeldi, bæði bleikjueldi og eldi fleiri og nýrra tegunda á landi og laxeldi í sjó. Mikilvægt er að viðhalda stöðu afurðanna sem fyrsta flokks gæðavöru og til þess höfum við kjöraðstæður. Í heimi sem kallar á sífellt meiri mat er augljóst að þessi búgrein, sem og matvælaframleiðsla almennt, á framtíðina fyrir sér.

Ferðaþjónusta, handverk, heimavinnsla. Aukinn hlutur sveitanna í þessari mestu vaxtargrein íslensk atvinnulífs skiptir sköpum og fellur vel að markmiðum um að dreifa álagi af vaxandi ferðamannafjölda um landið og þætta saman við menningu, handverk og heimavinnslu. Framkvæmdasjóður ferðamála mun á þessu ári veita hátt í 600 milljónum króna til úrbóta og uppbyggingar gegn um líklega ein 100 verkefni vítt og breytt um landið.

Lífræn ræktun. Stóraukin lífræn ræktun þarf að koma til eigi að mæta eftirspurn fyrir slíkar vörur og nýta þau sóknarfæri sem þar liggja. Í reynd erum við ekki nema rétt að byrja í þeim efnum borið saman við nálæg lönd.

Ylrækt og garðyrkja. 
Fullyrða má að greinin standi framar en nokkru sinni fyrr og mikill metnaður og möguleikar eru til að auka enn framleiðsluna, bæði fyrir vaxandi innlendan markað og til útflutnings.

Skógrækt, hlunnindanýting, orkuskipti í landbúnaði að ógleymdum okkar hefðbundnu greinum. Fjölmargt er ótalið. Verði skilningur fyrir hendi og vilji til á komandi árum að fjárfesta í framtíðarmöguleikum landbúnaðarins og strjálbýlisins almennt þarf engu að kvíða. Bættar samgöngur og fjarskipti, jöfnun orkuverðs, betra aðgengi að menntun o.s.frv., mun allt hjálpa til. Mestu skiptir að tækifærin blasa við og vandamál eru til þess að leysa þau eins og ég tel að reynsla undangenginna fjögurra ára hafi sýnt. Vandamálin má auðvitað einnig nota sem efnivið í að búa til óvini úr einhverjum öðrum, þá sem ekki hafi látið þau öll með tölu hverfa á einu bretti með töfrabrögðum, en slíkt reynist skammgóður vermir. Í raunheiminum reynast töfrabrögðin bara sjónhverfingar, kanínan var einhvers staðar áður en hún kom upp úr hattinum og allt er eins og var þegar sýningunni lýkur.

Innan fárra daga verður gengið til Alþingiskosninga og verk mín og annarra sem áður hafa starfað í stjórnmálum lögð í dóm kjósenda. Svo verða auðvitað einnig í boði óskrifuð blöð. Ómögulegt er að vita hver niðurstaðan verður. Ég legg viðskilnaðinn gagnvart landbúnaðinum sáttur í dóm, sem og verk mín að öðru leyti þar sem ég hef reynt að horfa til hagsmuna þjóðarinnar, almannahagsmuna, fremur en velta fyrir mér líklegum persónulegum vinsældum af hverju og einu. Það er betra að slíkir stjórnmálamenn séu uppi á auðveldari tímum.

Steingrímur J. Sigfússon
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra

















Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum