Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. september 2016 MatvælaráðuneytiðGunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2016-2017

Ræða á þingi Fjórðungssambands Vestfjarða, 9. september 2016


Ágætu Fjórðungssambandsfulltrúar – það gleður okkur Framsóknarmenn alltaf að geta talað um sambandið og sambandsmenn!

Það er mér mikil ánægja að vera hér með ykkur og vil ég hér í dag ræða byggðamál á Vestfjörðum - og reyndar byggðamál á landinu öllu.

Ég hef mjög skýra sannfæringu og sýn þegar kemur að byggðamálum. Meginrökin fyrir því að við eigum að reka hér öfluga og skapandi Byggðastefnu eru þau - að það er Íslandi og íslensku samfélagi nauðsynlegt að landið allt sé í byggð. Það er einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmt – ekki bara fyrir landsbyggðina, heldur líka höfuðborgarsvæðið að það séu kraftmikil og verðmætaskapandi samfélög hringinn í kringum landið.

Það er að mínu viti mikilvægt að við segjum hlutina með þessum skýra hætti. Byggðastefna á ekki að hverfast um ölmusu eða einhverja misskilda aumingjagæsku höfuðborgarinnar. Byggðastefna er þvert á móti tækifæri fyrir íslenskt samfélag til að auka verðmætasköpun og framfarir.

Það er út frá þessum punkti sem ég vil taka umræðuna um byggðamál. Öflug landsbyggð gefur höfuðborginni þrótt. Og að sama skapi er kraftmikið höfuðborgarsvæði - landsbyggðinni mikilvægt til frekari sóknar. Hvorugt getur án hins verið!

En til þess að kapallinn gangi upp – þá þarf að vera rétt gefið. Það verður að tryggja að innviðir hvers konar á landsbyggðinni séu sem mest sambærilegir við það sem tíðkast í þéttbýlinu á höfuðborgarsvæðinu.

Sem ráðherra byggðamála þá höfum við í mínu ráðuneyti verið að velta við mörgum steinum í því augnamiði að finna leiðir til að bæta upp aðstöðumun á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Eitt af mínum fyrstu embætissverkum í vor í nýju ráðuneyti var að fela Byggðastofnun að útfæra tillögur um skattalegar ívilnanir í byggðalegum tilgangi. Slíkar aðgerðir hafa reynst vel í nágrannalöndum okkar - og þá sérstaklega í Noregi. Við erum meðal annars að horfa í lækkun á tryggingargjaldi því lengra sem dregur frá höfuðborginni, lækkun á ferðakostnaði fyrir þá sem þurfa að sækja vinnu langar leiðir og niðurfellingu á námslánum á veikum svæðum. Ég ítreka að slíkar aðgerðir væru engin ölmusa heldur réttlætismál - að rétt sé gefið.

Hér á eftir mun svo Ágúst Bjarni aðstoðarmaður forsætisráðherra kynna  hugmyndir Vestfjarðanefndarinnar svokölluðu sem hefur verið að störfum í sumar. Sú nefnd varð að hluta til að veruleika vegna samstarfs okkar við Fjórðungssambandið og er slíkt frumkvæði og samvinna við heimamenn okkur mjög mikilvægt. Nefndin hefur unnið gott starf og nú er það okkar ráðherra og ráðuneytanna að taka tillögurnar til vinnslu og hlusta á vilja heimamanna. Tillögur nefndarinnar snúa bæði að viðameiri tillögum sem snúast um innviðauppbyggingu og stærri framfaraverkefnum og svo sértækum aðgerðum sem ættu að geta komist til framkvæmda skjótt.

Það er því ekki skortur á góðum hugmyndum eða tillögum sem stendur í vegi fyrir framförum í byggðamálum. Hins vegar hafa fjármunir verið af skornum skammti til innviðauppbygginar en með lækkun skulda og vaxtagreiðslna hefur núna skapast tækifæri til þess að spíta í lófana og auka fjárveitingar í innviði og þar með talið til byggðamála.

Þegar við förum yfir sviðið þá blasir við að aðstæður eru fyrir kraftmikla sókn á landsbyggðinni og ég er sérstaklega bjartsýnn fyrir Vestfirði.  

Í fyrsta lagi þá er ástand efnahagsmála með allra besta móti - og staðan hefur tekið algerum stakkaskiptum á síðustu þremur árum. Það er nánast alveg sama hvaða hagvísar eru skoðaðir – þeir vísa allir í rétta átt.

Í annan stað þá eru flestir mikilvægustu fiskistofnarnir í sókn og aðstæður í sjávarútvegi hagfelldar.  Má sérstaklega nefna mikinn vöxt í fiskeldinu.

Í þriðja lagi þá eru mikil sóknarfæri í íslenskum landbúnaði og íslenskri matvælaframleiðslu almennt. Það er ekki deilt um gæði íslenskra landbúnaðarvara – og tækifærin samhliða útflutningi á íslenskum matvælum og innflutningi á ferðamönnum eru mikil. Í þessu samhengi er rétt að minnast á „Matvælandið Ísland“ sem er stórhuga verkefni sem er verið að hleypa af stokkunum - og hefur það að markmiði að kynna gæði og fjölbreytileika íslenskra matvæla fyrir ferðamönnum sem sækja landið okkar heim. Þannig viljum við treysta orðspor og móta ímynd landsins okkar sem upprunalands hreinna og heilnæmra matvæla.

Í fjórða lagi vil ég svo nefna þann mikla vöxt sem er í ferðaþjónustunni. Ferðaþjónustan er ólík flestum öðrum atvinnugreinum að því leyti að hún er ekki eitthvað eitt sem auðvelt er að setja í þar til gert box. Ferðaþjónustan er nefnilega allt milli himins og jarðar – maturinn, gistingin, mannlífið, náttúran, blíðviðrið og stórviðrið, norðurljósin, dýralífið, lopapeysur, tónlist  – allt sem á daga ferðamannsins getur drifið. Ferðamaðurinn sækir í þessa fjölbreytni og er hana að finna vítt og breitt um landið.

Vegna allra þessara jákvæðu þátta – betra efnahagsástands og sóknar í sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu – þá blasir við að hér eru að skapast kjöraðstæður fyrir allt hitt. Nýsköpun og atvinnuuppbyggingu á ótal sviðum.

Það er okkar allra að greina tækifærin, grípa þau og hagnýta.

Ég ætla svo hér að lokum að rekja sérstaklega af hverju ég er sérstaklega bjartsýnn fyrir hönd Vestfirðinga.  Við þurfum ekki að orðlengja neitt um þá byltingu sem verður þegar Dýrafjarðargöng komast í gagnið en þau verða boðinn út í haust og var ánægjulegt að sjá í morgun að 7 aðilar eru í forvali fyrir útboðið. Vegurinn um Dynjandisheiði verður endurbyggður því samhliða og með því munu norðanverðir og sunnanverðir Vestfirðir loksins tengjast. 

Mikill viðsnúningur hefur orðið tengdur uppbyggingu fiskeldis á sunnanverðum Vestfjörðum og innan skamms mun álíka uppbygging fara fram á norðanverðum fjörðunum líka. Maður þarf ekki að vera lengi á Patreksfirði, Tálknafirði eða Bíldudal til þess að sjá þá gjörbreyttu stöðu sem uppi er í þessum samfélögum. Við höfum svo horft á jarðýtuna plægja ljósleiðarann niður í Ísafjarðardjúpi í sumar sem vitnar um áform ríkisstjórnarinnar um ljósleiðaravæðingu landsins og svo er að verða gjörbreyting í raforkumálum Vestfirðinga.

Ég heimsótti fyrirhugað virkjunarstæði Austurgilsvirkjunar í Ísafjarðardjúpi í sumar og var fyrir tveimur vikum í Árneshreppi að ræða Hvalárvirkjun við heimamenn. Við Framsóknarþingmenn kjördæmisins höfum í langan tíma heitið fullum stuðningi við iðnaðarráðherra um að ákvarða tengipunkt í Ísafjarðardjúpi fyrir þetta nýja virkjunarsvæði og þrátt fyrir að við hefðum viljað sjá það gerast miklu fyrr sést loksins til lands í þeim efnum og verður ákvörðun þar um væntanlega tilkynnt mjög fljótlega.

Slagurinn er hins vegar ekki unninn þar heldur verður pólitíkin að leggja fram skýra stefnu um að í framhaldinu verði snúrunni komið frá tengipunktinum til byggðanna við norðanvert Djúp og það ætlum við að gera. Það verður að gerast til þess að hringtenging rafmagns myndist, til þess að raforkuöryggi Vestfirðinga stórbætist og til þess að ný atvinnutækifæri komi í dagsljósið.

Þrátt fyrir að ég hafi ekki mikið vit á knattspyrnu og hvað þá neitt í líkingu við markahrókinn, Pétur Markan sveitarstjóra og formann ykkar, þá leyfi ég mér að fullyrða- það er stórsókn að hefjast hjá Vestfirðingum!

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum