Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

2. mars 2017 MatvælaráðuneytiðANR Ræður og greinar Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur

Ræða á ársfundi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, 2. mars 2017

 

Forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, starfsfólk og aðrir góðir gestir. 

Það er mikill heiður að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér í dag. Það er ekki laust við að ég hafi hlakkað til þessa fundar núna í aðdraganda hans, því að ársfundur Nýsköpunarmiðstöðvar hefur orð á sér fyrir að vera ekki bara fróðleg samkoma heldur líka skemmtileg.

Það er gaman að rifja það upp, að eitt fyrsta verk mitt í embætti  fyrir rétt rúmum mánuði síðan var einmitt að heimsækja Nýsköpunarmiðstöð. Sú heimsókn var aðeins tveimur dögum eftir að ríkisstjórnin tók formlega til starfa, nánar tiltekið þrettánda janúar. – Meira að segja föstudaginn þrettánda janúar. Það fór nú allt vel, þrátt fyrir áhættusama dagsetningu, og var meira að segja mjög ánægjulegt.

Nýsköpunarmiðstöð fagnar um þessar mundir 10 ára afmæli, en hún byggir auðvitað að stórum hluta á eldri grunni, og í ættartré hennar eru ýmsir merkir forfeður og –mæður. En tilurð Nýsköpunarmiðstöðvar fyrir tíu árum markaði engu að síður tímamót.

Stofnunin gegnir lykilhlutverki, annars vegar í hagnýtum rannsóknum fyrir atvinnulífið og hins vegar í stuðningi við frumkvöðla og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Hún hefur ekki aðeins framfylgt stefnu stjórnvalda hverju sinni heldur einnig verið leiðandi í að móta umhverfið og laga það að þörfum hvers tíma. Samstarf ráðuneytisins og stofnunarinnar hefur verið farsælt og gott.

Stjórnvöld hafa fyrir sitt leyti unnið markvisst að því að styrkja umhverfi nýsköpunar og þróunarstarfs hér á landi.

Árangurinn af því er meðal annars rakinn í nýlegri skýrslu frá stjórn Samtaka sprotafyrirtækja, en í henni kemur fram að á árunum 2015 og 2016 varð jákvæð þróun í níu af tíu helstu stefnumálum Samtakanna. Stjórnvöld eiga þar ekki allan heiður, en umtalsverðan þó. - Á meðal jákvæðra breytinga sem þarna eru nefndar eru skattaafsláttur til einstaklinga vegna hlutafjárkaupa í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum; hækkun á endurgreiðslum vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar; og ný lagaumgjörð um sprotafyrirtæki sem auðveldar stofnun þeirra og lækkar kostnað.

Í sömu skýrslu er greining á tíu helstu stefnumálum Hátækni- og sprotavettvangs, og þar er niðurstaðan sú að á árinu 2016 varð jákvæð þróun í þeim öllum. Nefnd eru framfaraskref á borð við skattalega hvata fyrir erlenda sérfræðinga; stóraukin framlög í Tækniþróunarsjóð; rýmkun heimilda vegna kaupréttarsamninga; breyttar reglur um skattlagningu á umbreytanlegum skuldabréfum, sem gera miklu ákjósanlegra en áður að nota þessa leið til að fjármagna sprotafyrirtæki á fyrstu stigum þeirra; og rýmkaðar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í óskráðum fyrirtækjum.

Margar þeirra breytinga sem hér hafa verið nefndar komu til sögunnar með nýjum nýsköpunarlögum sem Alþingi samþykkti síðastliðið sumar.

Fjármögnunar- og rekstrarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja hefur því verið í mikilli þróun hér á landi og sú þróun heldur áfram. Ánægjulegt er að sjá að sífellt fleiri fagfjárfestar gefa þessum geira gaum. Stutt er síðan talsmenn flestra helstu sjóða á þessum vettvangi komu til okkar í ráðuneytið og héldu kynningu á starfsemi sinni, stöðumati og framtíðarsýn. Ljóst er að vatnaskil urðu í þessu umhverfi árið 2015 þegar á skömmum tíma komu til sögunnar sjóðir á borð við Frumtak 2, Brunn og Eyri Sprota, en með þessum þremur sjóðum komu yfir 11 milljarðar „á götuna“ ef svo má segja, nánast á einu bretti. Þátttaka lífeyrissjóða skipti þarna sköpum.

Þáttur Nýsköpunarmiðstöðvar í því að bæta umhverfi og umgjörð sprotafyrirtækjanna verður seint ofmetinn.

Hún hefur veitt frumkvöðlum framúrskarandi stuðning og þjónustu hvað varðar leiðbeiningar um gerð viðskiptaáætlana, upplýsingar um hvert sé hægt að leita með upphafsfjármögnun og þar fram eftir götunum. Þessi stuðningur er gífurlega mikilvægur.

Einnig má nefna öflugt samstarf Nýsköpunarmiðstöðvar og  norrænna systurstofnana hennar í Bandaríkjunum. Í gegnum það samstarf hafa íslensk fyrirtæki haft aðgang að frumkvöðlasetrinu Nordic Innovation House, sem er staðsett í hjarta Silicon Valley, og því gífurlega öfluga þekkingar- og tengslaneti sem þar er. Með stuðningi ráðuneytisins mun framúrskarandi íslenskum tæknisprotum nú bjóðast í annað sinn frábært tækifæri til að senda tvo starfsmenn í öflugt hraðalsverkefni í Silicon Valley í fjórar vikur í vor. Þetta er einstakt tækifæri til að sannreyna viðskiptamódelið og möguleika vörunnar á alþjóðlegum markaði, með minni áhættu, á styttri tíma og með minni tilkostnaði. Þá er einnig gleðilegt að nefna að náðst hefur samkomulag um aðgang að samskonar hraðalsverkefni í New York.

Nefna mætti fleiri aðgerðir sem unnið hefur verið að undanfarið í þágu sprota- og frumkvöðlafyrirtækja á grundvelli Aðgerðaráætlunarinnar „Frumkvæði og framfarir“, sem fyrirrennari minn kynnti í desember 2015.

En björninn er aldrei unninn og við gerum okkur fyllilega grein fyrir að halda þarf áfram að gera umhverfi rannsókna og nýsköpunar enn betra.

Í október síðastliðnum skilaði KPMG skýrslu til ráðuneytisins þar sem fjármögnunarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja var kortlagt og lagðar fram tillögur um ýmsar úrbætur á núverandi kerfi og nýjum leiðum til fjármögnunar. Þessar tillögur eru nú til athugunar og umfjöllunar í ráðuneytinu.

Það liggur ágætlega fyrir hvar aðilar í þessum geira telja að helst sé þörf á frekari aðgerðum og áherslum og við skoðum þau atriði með jákvæðum huga. Meðal þess sem okkur er ítrekað bent á er að þótt upphafsfjármögnun sé orðin nokkuð öflug er vaxtarfjármögnun ennþá ábótavant, en ýmislegt bendir til að það sé einmitt hún sem ráði úrslitum um hversu kröftugur vöxtur sprotans getur orðið. Hvort hann nái jafnvel þeirri eftirsóknarverðu stöðu að verða einhyrningur, það er að segja: að ná markaðsverðmæti upp á einn milljarð dollara eða meira. Einnig þurfi að styðja betur við sókn íslenskra sprotafyrirtækja inn á erlenda markaði, og að sama skapi auðvelda erlendum sérfræðingum enn frekar að koma til starfa á Íslandi til að miðla af dýrmætri reynslu sinni og þekkingu. Þá sé mikilvægt að bjóða upp á samkeppnishæfara umhverfi fyrir fjárfestingar í rannsóknum og þróun, en þar hafa sumar nágrannaþjóðirnar tekið fram úr okkur með myndarlegum hvötum. Þetta er ekki aðeins mikilvægt til að efla sprota og frumkvöðla heldur snertir þetta ekki síður rótgrónari fyrirtæki. Þau eru mörg hver með stór rannsóknar- og þróunarverkefni á prjónunum og við hljótum að leggja áherslu á að halda slíkum verkefnum á Íslandi, og koma í veg fyrir að þeim verði plantað annars staðar.

Þótt of snemmt sé að kveða upp úr um tilteknar aðgerðir er alveg ljóst að stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar rímar vel við þessi forgangsverkefni. Í honum er kveðið á um að áfram skuli myndarlega stutt við rannsóknir og þróun; hlutverk samkeppnissjóða verði víkkað út til rannsókna á sviði skapandi greina; og leitað verði leiða til að auka aðgengi nýsköpunar- og hugvitsfyrirtækja að vaxtarfjármagni, erlendum mörkuðum og nauðsynlegri erlendri sérfræðiþekkingu.

Góðir fundarmenn.

Ein af megináskorunum stjórnvalda næstu ár er að styðja við vöxt tækni- og hugverkagreina, það er að segja: fyrirtækja sem byggja á þekkingarverðmætum eða tækni. Í dag standa auðlindagreinar undir meginþorra útflutnings en vaxtarmöguleikar þeirra eiga sér náttúruleg takmörk, eðli málsins samkvæmt.

Áætlað hefur verið að við Íslendingar þurfum að auka verðmæti útflutnings um rúmlega 1.000 milljarða til þess að tryggja þriggja til fjögurra prósenta hagvöxt til ársins 2030. Til  þess að slík framþróun geti átt sér stað þarf störfum innan tækni- og hugverkageirans að fjölga um nokkur þúsund, auk þess sem auka þarf bæði fjárfestingu og framleiðni. Forsenda slíkra framfara er styrking tækniþróunar og nýsköpunar sem jafnframt mun nýtast öllum öðrum undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar.

Við lifum á tímum hraðra tæknibreytinga sem gjarnan eru nefndar fjórða iðnbyltingin. Tækni- og hugverkagreinar stóðu undir næstum einum fjórða af gjaldeyristekjum okkar árið 2015 samkvæmt tölum Hagstofunnar og árlegur vöxtur í upplýsingatæknigeiranum hefur verið um 20% undanfarin ár.

Mikilvægt er að styðja við alþjóðasókn nýsköpunar og sprotafyrirtækja, bæði hvað varðar markaðsfærslu og einnig hvað varðar alþjóðlega fjármögnun. Við erum  í harðri alþjóðlegri samkeppni, bæði um fólk og hugmyndir. Því hlýtur það að vera okkar framtíðarsýn að skilyrði nýsköpunar og frumkvöðla verði ekki síðri en það sem best gerist í heiminum.

Þannig getum við séð fyrir okkur framtíð þar sem íslenskt hugvit hefur byggt upp enn stórkostlegri tækifæri en við höfum þegar séð. Þar sem enn fleira ungt fólk en áður tekur skrefið og helgar sig frumkvöðlastarfi til að gera nýstárlegar hugmyndir að veruleika. Við getum séð fyrir okkur að þetta unga fólk hafi aðgang að fjölda íslenskra og alþjóðlegra fyrirtækja með öflugt tengslanet. Fyrirtækja sem byggja á hugviti og hafa byggt upp nýja verðmæta stoð í hagkerfinu sem við öll njótum góðs af. Stoð sem hefur möguleika til að vaxa án þess að ganga á takmarkaðar auðlindir, færir okkur góð og vel launuð störf, og eflir þær stoðir sem fyrir eru í hagkerfinu með þekkingu og tækniforskoti.

Við sjáum nú þegar glæsileg dæmi um þessa framtíð. Fólk um allan heim nýtur góðs af íslensku hugviti, rannsóknum, þróun og þekkingu. Heilsuvörur sem byggja á fullvinnslu sjávarafurða og líftækni. Sjálfbær virkjun jarðvarma til raforkuvinnslu og hitaveitu. Háþróaðir gervifætur. Ný tegund afþreyingar sem byggir á sýndarveruleika. Þetta eru nokkur dæmi um þann farveg sem íslenskt hugvit hefur nú þegar fundið sér. Ég vil leggja mitt af mörkum til að við höldum áfram að leysa þetta hugvit úr læðingi, því að óbeislað hugvit á sér lítil takmörk.

Ég vil að lokum nota tækfærið til að þakka Þorsteini Inga og hans fólki fyrir þeirra frábæra starf, og jafnframt ítreka hamingjuóskir til Nýsköpunarmiðstöðvar á tíu ára afmælinu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum