Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. september 2020 MatvælaráðuneytiðÞórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Ávarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur á ársfundi Samorku 8. september 2020

Kæru fundargestir,

Það er mér sönn ánægja að ávarpa rafrænan ársfund Samorku í dag og ég sendi góðar kveðjur til allra áhorfenda. Ég óska líka Samorku til hamingju með 25 ára afmælið.

 

Það eru fjölmörg mál í deiglunni í orkumálum og því af nógu að taka þegar kom að því að velja meginþema þessa fundar, en ég tel mjög vel til fundið hjá Samorku að tileinka dagskrána í ár orkuskiptum. Þau eru að mínu mati eitt af bæði jákvæðustu og mikilvægustu verkefnunum sem við stöndum frammi fyrir í dag á sviði orkumála.

 

Orkuskipti eru algjör forsenda í vegferð okkar að kolefnishlutlausu Íslandi. Við erum á fleygiferð, margt er búið að gera og margt spennandi er framundan á þeirri vegferð.

 

Eins og við vitum öll hefur Ísland þegar gengið í gegnum tvo áfanga orkuskipta á undanförnum áratugum, með góðum árangri. Við höfum því traustar undirstöður til að byggja á.

 

Í dag erum við komin ágætlega áleiðis með þriðja áfanga orkuskipta. Það gildir alveg sérstaklega um samgöngur á landi.

 


 

Fyrir tæpum áratug settu stjórnvöld sér það markmið að ná 10 prósenta hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi fyrir árið 2020. Á þeim tíma var hlutfallið nálægt núlli og okkur þótti árið 2020 vera dálítið langt í burtu. Núna er það runnið upp og þó að það sé kannski ekki besta ár mannkynssögunnar í ýmsu tilliti þá getum við þó glaðst yfir því að spár gefa til kynna að markmiðið um orkuskiptum í samgöngum á landi muni nást.

 

Það eitt og sér er frábær árangur, og betri en menn sáu fyrir og spár gáfu til kynna á tímabili. Fyrir ári síðan var hlutfallið í kringum 9,5 prósent og allar líkur eru á því að niðurstaða þessa árs verði mjög nálægt 10 prósentum.

 

Fyrir áratug síðan vorum við á eftir öðrum þjóðum Evrópu og hinum Norðurlöndunum en í dag erum við á meðal þeirra fremstu.

 

Einn af mælikvörðunum sem við miðum við í þessu samhengi er hlutfall vistvænna bifreiða í nýskráningum og þar höfum nú í nokkur ár vermt annað sætið á heimsvísu á eftir Norðmönnum.

 

Stjórnvöld hafa stutt við þessi markmið um framgang orkuskipta með ýmsum hætti. Til dæmis í formi skattalegra hvata og ívilnana, styrkja til innviðauppbyggingar víða um land, og almennum stuðningi við nýsköpun og rannsóknir á þessu sviði.

 


 

En svona átak er aldrei borið uppi eingöngu af opinberum aðilum. Orkufyrirtækin, sprotafyrirtæki, bílaumboð, bílaleigur og fleiri hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar og mætt nýjum þörfum og óskum viðskiptavina með eftirtektarverðum hætti. Almenningur hefur tekið vel við sér og verið opinn fyrir að taka upp nýja og umhverfisvæna tækni með kaupum á rafbílum og tengiltvinnbílum í vaxandi mæli.

 

Hin opinberu verkefni sem þegar hefur verið ýtt úr vör eru meðal annars styrkir til innviðauppbyggingar hraðhleðslunets um allt land, hleðslustöðvar fyrir gististaði og fjölbýlishús, rafvæðing hafna, rafvæðing minni báta, rafeldsneytisframleiðsla við Grundartanga, verkefni um þungaflutninga og verkefni tengd bílaleigum.

 

Einnig má nefna fleira eins og ívilnanir frá virðisaukaskatti vegna hleðslustöðva og söluskyldu fyrir endurnýjanlegt eldsneyti. Þá er Orkusjóður að undirbúa auglýsingar sem munu birtast innan skamms um frekari styrkveitingar til orkuskipta sem verða veittir á þessu ári.

 

Allt er þetta unnið skref fyrir skref í samræmi við aðgerðaráætlun stjórnvalda um orkuskipti og loftlagsmál, í góðu samráði innan starfshóps þeirra lykilráðuneyta sem koma að orkuskiptum; það er að segja atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og forsætisráðuneytis.

 


 

Þó að gleðjast megi yfir góðum árangri hingað til er enn margt óunnið. Sérstaklega þarf að taka til hendinni á sviðum þar sem við erum skemmra á veg komin, eins og í orkuskiptum á hafi og í flugsamgöngum. Ef til vill má líta á þau sem fjórða áfanga orkuskipta.

 

Um þessar mundir erum við að skyggnast inn í framtíðina í þessum efnum og fleiri orkumálum, því að ég hef fengið niðurstöðu um langtímaorkustefnu fyrir Ísland með framtíðarsýn til ársins 2050. Stefnan var unnin af þverpólitísk nefnd sem ég setti á laggirnar. Ég veit að nefndin hefur starfað með opnum hætti og haft gott samráð við haghafa og almenning. Fyrirtækin sem starfa innan vébanda Samorku hafa komið sterk inn í þá vinnu með gott og uppbyggilegt framlag sem við erum þakklát fyrir.

 

Í framtíðarsýn Orkustefnu kemur fram að Ísland sé land hreinnar og öruggrar orku og verði það um ókomna tíð. Öll orkuframleiðsla skuli nú sem hér eftir vera af endurnýjanlegum uppruna og nýtt með sjálfbærum hætti, til hagsbóta fyrir samfélag, almenning og efnahagslíf.

 

Í Orkustefnu mun koma fram að græn orka gegni lykilhlutverki til framtíðar og eru orkuskiptin eitt af fimm leiðarljósum stefnunnar. Hin eru orkuöryggi, orkunýtni, umhverfisvernd og samfélagslegur ávinningur, þar með talinn efnahagslegur ávinningur.

 


 

Markmið orkuskipta eru þau að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti og að öll starfsemi, hvort sem er á landi, í lofti eða á legi verði knúin endurnýjanlegum orkugjöfum.

 

Ef við berum saman orkuskipti okkar daga við þau fyrri, þá má segja að við stöndum nú frammi fyrir flóknari verkefnum. Við erum að horfa á fjölbreyttari starfsemi, fleiri mögulega hagkvæma orkukosti, öra og síbreytilega tækniþróun, aukna sjálfvirkni og margvíslegar hindranir. Einnig eru notendur með mismunandi þarfir.

 

Eins og birtast mun í orkustefnunni þá verður orkukerfið okkar að vera sveigjanlegt og traust. Við þurfum að styðjast við bestu mögulegu tækni og þekkingu. Við höldum okkur við tæknilegt hlutleysi, tökum ekki völdin af markaðinum þegar kemur að því að velja farveg orkuskiptanna og miðum við að allir hafi jöfn tækifæri.

 

Lykillinn að orkuskiptunum liggur í því að tryggja framboð af grænni íslenskri orku til framtíðar. Þar er mikil gerjun eins og við þekkjum; vindorkan knýr dyra og vetnisframleiðsla færist hröðum skrefum ofar á lista þeirra framtíðarorkugjafa sem þjóðir horfa til. Þar gætu legið spennandi tækifæri fyrir okkur Íslendinga í framtíðinni.

 


 

Kæru ársfundargestir.

 

Ég læt hér staðar numið og vil nota tækifærið til að hvetja aðildarfyrirtæki Samorku áfram til dáða í sameiginlegri orkuskipta-vegferð okkar í átt að kolefnislausu Íslandi.

 

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum