VG er hreyfiafl mannréttinda og kvenfrelsis - grein birt á mbl.is 15. júlí 2022
Svört eru segl á skipunum, sem hér leggja inn sagði hin svarta Ísodd. Þessi orð úr Tristanskvæði komu mér í huga þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi úr gildi réttindi sem konur í Bandaríkjunum hafa notið til áratuga. Réttinum til þungunarrofs. Nú er réttur þeirra til forræðis yfir eigin líkama skertur, þar sem að í u.þ.b. helmingi ríkja Bandaríkjanna munu þessi réttindi skerðast. Þessar ákvarðanir eru voðalegar og munu leiða til þjáninga kvenna og dauða einhverra. Þess er ekki langt að bíða að við munum sjá hryllilegar fréttir sem lýsa því hvernig konur verða sóttar til saka fyrir morð í ríkjum sem sett hafa forneskjulega löggjöf sem nú taka gildi. Að sama skapi sjáum við stanslausar tilraunir til þess að flytja inn transfóbísk viðhorf úr menningarstríðum Vesturlanda hingað til lands. Baráttan fyrir auknum mannréttindum er alltaf í gangi og hvert skref fram veginn leiðir til tilrauna til þess að færa aftur hjól tímans. Til tímans þegar karlar réðu yfir líkömum kvenna.
Þáttaskil í baráttu fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna
Seglin eru sannarlega svört í þessum málaflokki á heimsvísu. Þegar öflugasta ríki jarðar tekur skref áratugi aftur í tímann þá skiptir það máli. Það valdeflir afturhaldsöfl víða um heim sem vilja að ríkið eða karlar ráði yfir líkama kvenna. Á Íslandi er staðan sem betur fer önnur. Þáttaskil í baráttunni fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna urðu á síðasta kjörtímabili þegar Alþingi samþykkti frumvarp sem ég mælti fyrir sem heilbrigðisráðherra. En með lögunum er forræði kvenna yfir þeirri ákvörðun að ganga með barn tryggt. Málið var mikilvægt og fékk breiðan pólitískan stuðning þó að í ljós kæmi einnig að sömu afturhaldsöfl og skert hafa réttindi kvenna erlendis áttu sér nokkra málsvara hér einnig.
Réttindi koma aldrei af sjálfu sér. Fyrir þeim þarf að vinna fylgi og geta klárað málin. Það kom í ljós þegar ég lagði fram frumvarp til laga um þungunarrof. Þetta kom einnig í ljós þegar forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, lagði fram frumvörp um kynrænt sjálfræði, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og fleiri mál. Þessi góðu mál hafa fært Ísland framar, þau hafa útvíkkað og auðgað samfélagið, með því að auka réttindi jaðarsettra hópa. Sú barátta gegn jaðarsetningu og með réttindum er ekki fullunnin og verður það aldrei. Því með hverjum sigri þá birtast okkur ný viðfangsefni og ný verkefni. En ef við látum deigan síga er hætt við því að afturhaldsöflum vaxi ásmegin sem á endanum geti leitt til þess að réttindi sem við töldum sjálfsögð séu tekin af okkur. Sókn í þágu réttinda er besta vörnin gegn afturför. Vinstri græn hafa verið og munu áfram vera hreyfiafl í þeirri sókn eins og dæmin sanna.
Höfundur er matvælaráðherra