Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. maí 2023 MatvælaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Ávarp á ársfundi Landbúnaðarháskóla Íslands, 16. maí 2023

Ágætu gestir,

Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag á ársfundi Landbúnaðarháskólans. Skólinn hefur um langt árabil verið mikilvægur samstarfsaðili ráðuneytis míns, þó hann heyri formlega undir sama ráðuneyti og aðrir háskólar landsins.
Matvælaráðuneytið hefur síðustu ár byggt samstarfið við skólann á samningum sem ætlað er að stuðla að öflugum rannsóknum og styðja við nýsköpunar- og þróunarstarfsemi á sviði landbúnaðar og matvælaframleiðslu. Rannsóknaverkefni sem tengja má við síðasta samning eru 35 talsins, auk 16 meistara- og doktorsverkefna.

Samstarfið hefur verið farsælt og skilað af sér mikilvægum afurðum fyrir stefnumótun á málefnasviði ráðuneytisins. Dæmi um slíkt verkefni er viðamikil skýrsla um fæðuöryggi Íslands, sem var reyndar fyrsta heildarmatið á því sem unnið hefur verið. Í kjölfarið vann skólinn fyrir ráðuneytið ítarlegar tillögur og greinargerð um aðgerðir til að bæta fæðuöryggi. Þær niðurstöður hafa komið að góðum notum við útfærslu markmiða stjórnarsáttmálans á því sviði. Fleiri slík dæmi eru greining á afkomu sauðfjárbænda, vinna við leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands og stuðningur við þátttöku Landbúnaðarháskólans í Orkideuverkefninu um orkutengda nýsköpun.

Síðast en ekki síst vil ég nefna skýrsluna „Bleikir akrar“, skýrsluna um kornrækt sem kom út í mars síðastliðnum. Þar er að finna tillögur um leiðir til að styrkja og efla kornrækt í landinu ekki síst til að bæta fæðuöryggi. Skýrslunni hefur verið vel tekið og Alþingi hefur nú til meðferðar tillögu að fjármálaáætlun þar sem gert er ráð fyrir verulegum fjármunum til að hrinda verkefninu í framkvæmd. Ég ætla að endurtaka hér orð mín við kynningu skýrslunnar: Þessi skýrsla er lykilgagn til þess að við getum tekið fyrstu skrefin í átt að eflingu kornræktar í landinu og þar með styrkt fjölbreyttari matvælaframleiðslu, aukið bindingu gróðurhúsalofttegunda og eflt hringrásarhagkerfið. Það sem vakti mína athygli er að í skýrslunni er ekki tekin varnarstaða, heldur sett fram stórhuga áform um sókn til að við sem þjóð getum stuðlað að auknu fæðuöryggi.
Matvælaráðuneytið hefur reyndar þegar undirritað samning við Landbúnaðarháskólann um sérstakt verkefni til að hefja vinnu við kornkynbætur en við munum sannarlega treysta á að skólinn verði okkur til ráðgjafar við útfærslu á verkefninu í heild. Á eftir fjallar síðan einn stærsti kornbóndi landsins um landbúnað á krossgötum og ég er sannfærð um að hann lýsi nánar þeim tækifærum sem eru til staðar í kornrækt á Íslandi.
Vinna við nýjan samning við skólann er á lokastigi, en verkefnin á næstu árum eru sannarlega mörg. Auk fæðuöryggis og kornræktar sem þegar hefur verið vikið að má nefna önnur mikilvæg verkefni, svo sem loftslagsmál, sem reyndar fléttast inn í öll verkefni stjórnvalda. Þar er ekki síst þýðingarmikið að efla rannsóknir um losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaðarstarfsemi. Í hringrásarhagkerfinu þurfum við að vinna að bættri nýtingu lífrænna hráefna til ræktunar, eflingu lífrænnar framleiðslu og samspili landbúnaðar og náttúruverndar.
Landbúnaðarháskólinn þarf að vera leiðandi á þessu sviði og tryggja með skilvirkri miðlun þekkingar að landbúnaðurinn geti nýtt tækifæri sín í krafti bestu fáanlegu kunnáttu hverju sinni.
Yfirskrift fundarins hér í dag er „Framtíð íslensks landbúnaðar – tækifæri og áskoranir“. Hvort tveggja er og verður alltaf til staðar í landbúnaði, bæði hérlendis og erlendis, eins og verður fjallað um síðar á þessum fundi.

Síðustu misseri hefur landbúnaðurinn þurft að takast á við stórar áskoranir, svo sem vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og stríðsins í Úkraínu, auk þess sem náttúruöflin á Íslandi minna reglulega á sig. Í heild má segja að heimsbyggðin sé mun meðvitaðri um fæðuöryggi en áður og þar skiptir okkur miklu máli að búa að greiningu Landbúnaðarháskólans um efnið. Við getum ekki tekið ótakmörkuðu aðgengi að matvælum sem sjálfsögðum hlut. Á sama tíma er það mikil áskorun fyrir landbúnað á heimsvísu að framleiða nægilega mikinn mat fyrir vaxandi mannfjölda. Og þar komum við aftur að loftslagsmálunum; við verðum að draga úr losun um leið og við framleiðum mat handa fleira fólki, auk þess sem við verðum að nýta hann betur. Stjórnvöld, Landbúnaðarháskólinn og bændur sjálfir þurfa öll að takast á við þær áskoranir. En við eigum líka tækifæri og í ráðuneytinu hefur mikil vinna verið lögð í á móta stefnu til lengri tíma.

Mig langar því hér í lokin að fjalla um tillögur að annars vegar matvælastefnu og hins vegar landbúnaðarstefnu sem Alþingi hefur nú til umfjöllunar. Þessari stefnumótun er ætlað að verða verkfæri til að takast á við áskoranir og nýta tækifæri landbúnaðarins og matvælaframleiðslunnar í heild á komandi árum.

Matvælastefnan er grunnstef í heildarstefnumótun innan matvælaráðuneytisins. Í stefnunni er lögð áhersla á sjálfbærni matvælaframleiðslu þar sem horft er til umhverfisáhrifa og hringrásarhagkerfisins, en einnig er í stefnunni fjallað um byggðamál og jafnrétti. Þá er fjallað um fæðuöryggi, eins og ég hef áður nefnt, og matvælaöryggi þar sem horft er til þess að þau matvæli sem í boði eru séu örugg til neyslu og heilnæm. Einnig er komið inn á þarfir neytenda, neytendavitund og neytendahegðun og síðast en ekki síst er horft til framtíðar og fjallað um rannsóknir, nýsköpun og menntun innan matvælaframleiðslu. 
Landbúnaðarstefnan byggir á þremur lykilbreytum sem talið er að muni hafa mikil áhrif á þróun landbúnaðar, en þær eru landnýting, loftslagsmál og umhverfisvernd auk tækni og nýsköpunar. Í tillögunni er sett fram metnaðarfull framtíðarsýn sem snertir umgjörð landbúnaðar í heild sinni og tekur til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni þess starfsvettvangs sem framleiðsla landbúnaðarafurða er.
Meginmarkmið stefnunnar er að efla og styðja við íslenskan landbúnað þannig að Ísland verði leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarvörum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Búfjárrækt stendur fyrir um 90% af framboði kjöts, 99% af framboði mjólkurvara og 96% af framboði eggja. Hins vegar sér garðyrkja þjóðinni aðeins fyrir um 43% af framboði grænmetis og kornrækt stendur aðeins undir 1% af framboði korns til manneldis, eins og staðan er núna. Framleiðsla landbúnaðarafurða varðar samfélagið allt og stefnunni er ætlað að skapa sterkar stoðir fyrir hana til framtíðar, til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.
Það er mikilvægt að hafa í huga að í tillögu að landbúnaðarstefnu, tillögu að matvælastefnu, stefnu í landgræðslu og skógrækt og öðrum þeim stefnum sem liggja fyrir Alþingi eða hafa verið lagðar fram á öðrum vettvangi, er verið að róa í sömu átt. Markmiðið er bætt fæðuöryggi, sterkari stoðir framleiðslunnar, og aukin tækifæri fyrir íslenskan landbúnað og íslenska matvælaframleiðslu í heild, um leið og við þurfum að ná metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum.
Við eigum mikla vinnu eftir innan ráðuneytisins þegar Alþingi hefur lokið sinni umfjöllun, við að móta og útfæra aðgerðaáætlanir og tryggja fjármögnun. Það skiptir miklu máli á öllum tímum að stefnumótun sé tengd aðgerðaáætlun og Alþingi tryggi um leið fjárheimildir til framkvæmdar þeirra. Þá hefur jafnframt þýðingu að núverandi búvörusamningar renna út í árslok 2026, og markmiðin sem hér hefur verið fjallað um skipta meginmáli þegar horft er til framtíðarstuðningskerfis landbúnaðarins. Við ætlum okkur líka að eiga Landbúnaðarháskólann að við undirbúning þess en nánari umfjöllun um það krefst lengri tíma, þó sannarlega sé það hluti af umfjöllunarefninu um áskoranir og tækifæri landbúnaðarins.
Því miður get ég ekki, fremur en kollegar mínir, verið með ykkur allan fundinn vegna ríkisstjórnarfundar, en ég vona að þið eigið hér góðar umræður þau þýðingarmiklu mál sem hér eru til umfjöllunar. Takk fyrir áheyrnina og gangi ykkur vel!


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum